Sveinn Sveinsson (1875-1965) hætti búskap á Norður-Fossi og í Ásum í Skaftártungu 1942, dvaldi eftir það áfram á Norður-Fossi í skjóli Sigursveins sonar síns og Sólveigar konu hans. Hann flutti til Reykjavíkur með Jóhönnu Margréti konu sinni til Reykjavíkur 1949. Þá hóf hann að rita pistla í dagblöðin, aðallega í Tímannn en einnig nokkra pistla í Morgunblaðið og einu sinni í Vísi og einu sinni í Alþýðublaðið. Alls eru þetta rúmlega 100 pistlar, þeir kunna að vera fleiri því að leitarvélin á timarit.is virðist alls ekki ná þeim öllum. Sveinn mun hafa látið Þórð Tómasson í Skógum fá kassa 1962 með greinum eftir sig, en hann hefur enn ekki fundist í Héraðsskjalasafninu í Skógum. Áður hafði Sveinn ritað tvær greinar í bókina Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar, en hún kom út 1930, og í 2. prentun 1995.
Við innslátt pistlanna og greinanna hefur stafsetning og greinarmerkjasetning jafnan verið látin halda sér.
SIGURÐUR SIGURSVEINSSON
2024

Vestur-Skaftafellssýsla og íbúar hennar, 1930
Vetrarferðir yfir Mýrdalssand
Eins og kunnugt er, þá verður aldrei að öllu leyti unnt að gera vegabætur svo úr garði hér í
Skaftafellssýslum, að vel sé. Aðalannmarkarnir á því eru eyðisandarnir þrír: Breiðamerkursandur,
Skeiðarársandur og Mýrdalssandur, og þó helzt stórvötnin, sem um þá falla. Sérstaklega á þetta við
hina tvo fyrst nefndu sanda. Það þykir öllum, sem til þekkja, að vötnin á þeim verði aldrei brúuð, og
verði því alltaf sömu torfærur þar yfir að fara. En um hinn síðast nefnda, nefnilega Mýrdalssand, þykir
sjáanlegt, enda fengin reynsla fyrir, að nútímans samgöngubætur og farartæki koma að notum yfir
hann, þegar vötnin eru sem minnst og svo kallað Sandvatn liggur í Múlakvísl, sem stendur til að verði
brúuð óðar en líður. En slái Sandvatnið sér aftur í sinn eðlilegastan farveg, beint fram af Sandinum, þá
verður það aldrei brúað, og því ekki fært bílum, þegar það er í blóma sínum, seinni part sumars.
Eins og sjá má af þessu, þá má búast við því, að hestar verði enn þá aðalfarartækin í framtíðinni yfir
Breiðamerkursand og Skeiðarársand og með köflum yfir Mýrdalssand: á vetrardegi í snjóum og ef
Sandvatnið breytti sér aftur; færi úr Múlakvísl.
Það hefir atvikazt svo, að ég hefi e.t.v. manna oftast farið yfir Mýrdalssand, en þó afar sjaldan lent í
æfintýrum svokölluðum, og verður því fátt skemmtilegt að segja.
Einu sinni sem oftar var ég á ferð yfir Sandinn, með kunningja. Það var á Jólaföstu; var snjór nokkur,
og vorum við á austurleið úr Víkurferð (kaupstaðarferð), en höfðum sent vinnumenn okkar á undan
með klyfjahestana strax að morgni, svo að þeir hefðu bjart austur yfir. En sjálfir þóttumst við valdaðir
lausríðandi á eftir, og hirtum því ekki um að fara snemma úr Vík. En eins og oft vill verða, varð okkur
hált á því , að taka daginn seint í tvísýnu veðri í skammdeginu, og skal nú frá því greina.
Þegar við loks fórum úr Vík, mig minnir laust eftir miðjan dag, var kominn þræsingsbylur. Og þegar við
komum á móts við Höfðabrekku, sem er síðasti bær vestanvert við Sandinn, var bylurinn orðinn svo
myrkur, að okkur leizt ekki á að leggja austur yfir og réðum því af að fara upp að bænum og fá þar
gistingu um nóttina. Þegar við erum komnir upp að bænum – en þangað er töluvert hár og brattur
fjallvegur – þá léttir dálítið upp bylnum; svo að við segjum við bónda þann, er þá bjó á Höfðabrekku,
að ef hann hefði verið svona upp styttur, þegar við vorum niðri, þá hefðum við ekki komið upp. En
bóndi svarar: „Það er ekki verra fyrir ykkur að leggja á Sandinn, þegar þið eru búnir að fá ykkur áfóður
og kaffi“. Og úr því sem komið var, tókum við fyrir að þiggja það; þó helzt vegna hestanna. Því að
báðir vissum við það vel, að engan tíma máttum við missa, því óðum tók nú að styttast til
dimmunnar. Kaffið kom fljótt, og gerðum við okkur gott af því, og fórum síðan strax að hypja okkur af
stað. En þegar við komum út, var ljótt útlit með veðrið og auðséð, að fljótt myndi skella á aftur.
Vinnumaður var hjá hestum okkar og söng illa í honum um það, að við færum á Sandinn undir dimmu
og byl. Vel vissum við það líka, en þó voru báðir einlægir að leggja austur yfir, hvað sem við tæki.
Síðan lögðum við á stað, og þegar við vorum komnir niður fjallið, riðum við léttan, og gekk allt vel
austur í Hafrusey. Samt fengum við þræsingsbyl, en meðan dagsbirtunnar naut, var sæmilega ratljóst.
Var nú svo að segja að verða aldimmt og veðrið að versna jafnt og þétt. Sagði ég þá við förunaut
minn, að réttast myndi að fara ekki lengra og láta berast fyrir í Eynni; því að sjáanlegt væri að
ógerningur yrði að rata. En félagi minn var nú ekki á þeirri grein; fór á bak og setti á sprett út í
myrkrið. Nú var ekki um annað að gera en gera slíkt hið sama; en mjög var það með naumindum, að
ég fynndi hann vegna þreifandi hríðar og myrkurs, sem þá var komið. Og var hann þá strax á fyrsta
sprettinum kominn afvega. Kom okkur þá saman um, að nú myndum við freista, hvort við fynndum
ekki Eyna aftur. Því að á Mýrdalssandi langaði í rauninni hvorugan til að vera heila skammdegisnótt í
grenjandi gaddbyl. Að vísu var ekkert sæluhús þá komið í Hafursey, en þó var ólíkt þar að vera eða á
eyðisandi og bersvæði. Snerum við þá við, og fyrir mikla heppni fundum við Eyna aftur, eftir hálftíma
leit. Töldum við okkur þá borgið og vorum við hinir kátustu. Eigruðum svo vestur með Eynni og inn
með henni að vestan, því þar var helzt skjól að finna. Vissi félagi minn þar af skúta, sem mig minir, að
nefndur hafi verið Stúka. Eftir nokkuð langa leit fundum við skútann. Bundum við þá hesta okkar þar
fyrir utan á streng. En sjálfir gátum við verið rúmlega hálfir inni í skútanum. Þar var að vísu kalt að
vera, en rættist þó vel úr, því ég var með nógan mat handa okkur. Hafði ég skift nestinu með okkur
vinnumanni mínum, en félagi minn hafði látið sitt allt fara með sínum vinnumanni. Og vegna þess að
þá varðaði ekki við lög að hafa með sér „hressingu“, gekk okkur vel að halda á okkur hita. Stakk ég
síðan upp á því, að við skyldum reyna, hvort ekki gæti lifað ljós inni í skútanum, því að ég var með
kerti og eldstokka. Kveikti ég þá og lánaðist að halda ljósinu lifandi inni í skoru, sem var innst inni.
Dáðist þá félagi minn að öllum þessum myndarskap og tók að kveða við raust, því að kvæðamaður
var hann mikill. Vorum við nú hinir kátustu og hefðum varla getað reifari verið eða í rauninni
ánægðari, þótt við hefðum setið að veizlu inni í vistlegum híbýlum hjá vinum okkar, en við vorum nú
þarna. En ef við hefðum ekki verið þó þetta vel útbúnir, hefði nóttin orðið löng og köld; því að ekki
var að tala um að sofna; til þess var alltof mikið frost. Nótttin leið nú af til svona, og í birtingu fór
verðrið að skána. Fórum við þá að hugsa okkur til ferðalags og vitja um veslings hestana; var eins og
þeir yrðu fegnir að sjá okkur. Leystum við þá og teymdum fyrst af stað, meðan þeir voru að liðkast,
eftir að hafa staðið þarna alla nóttina í kuldanum, næringarlausir.
Munar nú miklu að koma í Hafursey, síðan sæluhúsið ásamt hesthúsi var byggt þar. Þarf nú ekki
lengur að binda hesta sína á streng úti í gaddi og vondu veðri, þótt maður þurfi að gista þar. En eins
og kunnugt er, þá er Hafursey að kalla á miðjum Mýrdalssandi. Kemur það eigi sjaldan fyrir, að þar sé
látið fyrir berast nætur sakir.
Einu sinni var ég á ferð yfir Mýrdalssand á vetrardegi; var það á austurleið. Út yfir Sandinn var ég
samferða Lárusi á Klaustri ásamt fleirum, sem fóru á kaupfélagsfund til Víkur. Að afloknum fundi
hafði Lárus öðrum störfum að gegna, svo hann gat ekki orðið samferða austur yfir aftur, en hinir
ferðamennirnir ætluðu og fóru syðri leiðina yfir Sandinn. Svo ég varð einn, því að efra vildi ég fara.
Þá var útsynningur og lausamjöll allt að því í hné á Sandinum. Þegar ég fór úr Vík, þótti ótryggilegt
verðurútlit og afréð Þorlákur Sverrisson, þá kaupmaður í Vík, er ég gisti hjá, mér að fara. En ég vildi
fara og fannst sem mér myndi vera óhætt; því ég gizkaði á eftir loftsútliti, að skifta myndi éljum fram
eftir deginum. Síðan lagði ég af stað og gekk allt vel; en ekki þorði ég að stanza í Hafursey, bæði
vegna þess, hvað snjórinn var þar orðinn mikill og afskalega ljótt útlitið til jökulsins (Mýrdalsjökuls).
Þegar ég kom nokkuð austur á Sandinn fyrir austan Eyna, þá skall á með svo stór kornél, að hestarnir
ærðust og snérust. Ég var með tvo hesta, annan undir „trússi“. Nú sá ég, að annaðhvort var að duga
eða drepast og keyrði hestana af stað; reið eins hart og ég komst; en af því að snjórinn var laus, þá
óðu hestarnir fram úr honum, og gat ég iðulega riðið valhopp. En þó skall hurð nærri hælum. Því að
þegar ég var kominn yfir Sandinn og nýskroppinn austur af Hrífunesheiði, þá skall á svo myrkur bylur,
að ekki sást handaskil; og gekk ég úr því og teymdi hestana og varð næstum því að þreifa mig áfram
inn að Flögu.
Þeir í Vík voru hræddir um mig. Töldu víst, að bylurinn hefði skollið á mig á Sandinum. En Lárus á
Klaustri, sem þá var í Vík, eins og áður er sagt, taldi víst, að ég myndi hafa sloppið yfir Sandinn áður.
Því hann þekkti það, að ég færi alltaf eins hart yfir Sandinn og ég þyrði að leggja á hestana, í svona
ljótu veðurútliti. Við vorum nefnilega oft búnir að vera samferða og höfðum alltaf verið samtaka í því
að slóra ekki að óþörfu á Mýrdalssandi.
Einu sinni sem oftar var Lárus á ferð yfir Sandinn, í austurleið, ásamt fleirum, og var einn af
samferðamönnunum Guðmundur heitinn Hjaltason. Var hann þá í fyrirlestrarferð. Færðin var vond.
Var Lárus þá einatt á undan, sem hans var venja; því hann er ferðamaður mikill og duglegur með
afbrigðum. Þegar fór að síga á seinni huta Sandsins, var Lárus orðinn langt á undan hinum og beið
þeirra. En þegar þeir komu, var þungt í Guðmundi Hjaltasyni, og taldi hann þetta illa meðferð á
hestunum. En Lárus var nú ekki alveg á sama máli og hafði margt til andsvara sem vanur ferðamaður.
Fyrst og fremst sýndi hann fram á, að hestar þeirra væru ekki mikið móðir; ennfremur sagði hann
honum sem dæmi af þessari ferð minni, og að vissulega hefði ég orðið til þá, ef ég hefði ekki haft það
fyrir reglu, að halda áfram eins og unnt er yfir Sandinn, meðan dagur er, en eiga ekki að óþörfu undir
myrkrinu á vetrardegi í snjó og ljótu veðurútliti. Þessari reglu sagðist Lárus líka alltaf fylgja og hafa
orðið að góðu. Guðmundur heitinn gerði sér þennan lestur að góðu og hafði beztu lyst á
kaffisopanum, þegar þeir komu til bæjar.
Síðan sæluhúsið kom í Hafursey, sem er, eins og áður er tekið fram, nálægt því að vera á miðjum
Mýrdalssandi, er eins og Sandurinn skiftist í tvennt. Er það hvorttveggja, að hann finnst vera miklu
styttri en áður, og mörgum ferðamanninum hefir þótt þar skemmtilegt að æja, hvíla sig og hestana og
fá sér hressingu, þótt ekki heiti það nú orðið brennivín. Þegar menn eru saman á þess háttar stöðum,
þá er eins og allir geti verið jafnir, bæði menntaðir menn og ómenntaðir; þar treystir hver á annars
drenglund, þó að menn rabbi saman hitt og þetta, sem annarstaðar væri e.t.v. látið ósagt. Enda munu
t.d. embættismenn og aðrir ferðamenn í ábyrgðarmiklum stöðum, sem ferðast hafa um óbyggðir, þar
sem sæluhús hafa verið reist, hafa fundið, að frjálst er þar að koma og þiggja algera hvíld frá
ábyrgðarstörfunum í opinberu húsi, þar sem allir geta verið fríir og frjálsir sem börn. Hefi ég og tekið
eftir, að þegar menntaðir menn skrifa æfisögu sína, minnast þeir ósjaldan á slíka staði með hlýjum
endurminningum. En svo bezt hafa menn skemmtun af því, að það ekki hefni sín. En það kalla ég, að
það geri, ef menn hafa ekki tíma til viðdvalar, en stanza þó; og lenda svo í staðinn í myrkri og þá
einatt í villu og hrakningum.
Þessar framanrituðu sögur eru ekki sagðar af því, að þær séu neitt merkilegri en gerist og gengur hjá
mönnum, sem oft ferðast; enda ekki nema hálfgerð handahófsdæmi af ferðum mínum yfir
Mýrdalssand. En ef það gæti orðið til þess, að einhverjir yngri menn og framtíðarmenn, sem eiga
ófarið máske margar vetrarferðir yfir Sandinn, tækju sér til fyrirmyndar þá reglu, að vera snemma
tilbúnir á morgnana og treysta ekki á kvöldin, dvelja ekki að óþörfu; og muna það, að hestunum er
líka betra að halda áfram nokkuð hratt og komast þá þeim mun fyrr í húsaskjólið – þá væri vel.
Að ríða vötn
Í þá tíð, þegar ekkert stórvatn var brúað hér á landi, og yfir sum þeirra var ferjað og hestarnir þá
sundreknir yfir vötnin, þá leyndi það sér ekki, hverjir hestar voru góðir vatnahestar og hverjir ekki.
Það gat þá oft komið sér vel að geta vitað, á hvaða hestum manni væri óhætt að ríða djúp og vond
vötn og hverjum hættulegt; ekki sízt, ef á sund færi. Því að á þessu getur verið mikill munur. Sumir
hestar bjarga varla sjálfum sér á sundi og ekki sér nema aðeins höfuðið upp úr vatninu. En aðrir synda
yfir eins og vel róinn bátur. Það er víst, að hvorttveggja hefir oft átt sér stað, að góðu vatnahestarnir
hafa bjargað mönnum yfir vötnin, þótt á sund færi, – eins og oft getur komið fyrir, þegar menn reyna
jökulvötn, – og eins hitt, að þeir hestar, sem varla bjarga sjálfum sér allslausir, geta auðvitað ekki synt
með menn, og hafa því jafnvel ósjaldan orðið orsök þess, að menn hafa drukknað og hestar líka, ef á
sund hefir farið.
Í Ásum í Skaftártungu er, eins og kunnugt er, sundvatn rétt við bæinn, Eldvatn. Áður en það vatn var
brúað 1907, varð að ferja yfir það menn og flutning, en sundreka hestana. Þar var því oft tækifæri til
að sjá, hverjir hestar væru bezt syndir og hverjir lakast. Að vísu voru flestir hestar líkir um sund, en þó
ófáir, sem tóku sig út úr; – sumir sköruðu fram úr að því, hvað þeir voru fljótir og grunnsyndir; en
sumir komust tæpast yfir Vatnið.
Í mörg ár átti pabbi sálugi (síra Sveinn heitinn Eiríksson) rauðan hest, sem kallaður var Jóns-Rauður
eða „Jut“. Hann var svo góður sundhestur, að engan sáum við honum líkan; en á honum var líka
mestur munur og á blesóttum hesti, sem kallaður var Skakki-Blesi, vegna þess að blesan var skökk; oft
var hann nærri sokkinn, en þó var hann góður að vaða, meðan hann flaut ekki. Á þeim sömu árum,
sem þessir hestar voru uppi, átti pabbi líka rauðan hest, sem synti að kalla á hliðinni. Páll bróðir minn,
sem þá var í skóla (nú kennari við Menntaskólann í Reykjavík), eignaði sér þennan hest, og var hann
því hans reiðhestur. En Gísli bróðir minn, sem þá var líka í skóla (nú sýslumaður í Vík), reið vanalega
Jóns-Rauð.
Einu sinni sem oftar, þegar þeir bræður vou að fara í skólann að hausti til, var Hólmsá ófær á
veginum. En af þvi að þeir voru tímabundnir, þá varð það að ráðum, að þeir færu inn heiðar og inn á
móts við innstu bæi í Tungunni. Það hagaði þá þannig til, að þar var áin talin fær, þótt ófær væri
suður frá; enda reyndist svo í þetta sinn, að hún var þar slarkandi, en þó svo vond, að nú reyndi á
hestamuninn. Þar var áin í mörgum álum, og þegar þeir bræður ríða yfir dýpsta álinn og Jóns-Rauður
er búinn að skila Gísla yfir heilu og höldnu, þá hafði Rauður Páls oltið; en fyrir heppni og snarræði
Páls, náði hann í taglið á Rauð, og þannig bar þá að landi. Annars var Hólmsá sjaldan farin þarna inn
frá.
Það hefir verið venja æfðustu vatnamanna, þegar þeir eru að reyna og velja vond jökulvötn, að ríða
aldrei of fljótt út í höfuðálana, heldur þræða sem allra bezt fram á brotin. Hins vegar er einatt svo,
þegar óvanir menn eru með góðum vatnamönnum, sem eru að reyna jökulvötn, að þeim hefir sýnzt
þessi og þessi állinn vera fær þar, sem hinir reyna ekki á hann. En oftast verður sú reyndin á, ef
kannað er, að það er of djúpt. Þó kemur fyrir, ef einhver spyr vatnamanninn, hvort ekki sé þarna fært,
sem hann hefir farið fram hjá, að hann segir sem svo: „Jú, en ég ætla að reyna, hvort ég finn ekki
betra annars staðar.“ Og það verður oftast, að hann finnur grynnst sem tæpast á brotunum.
Einu sinni vildi mér það til í Múlakvísl, að ég þræddi ekki nóg fram á brot í einum höfuðálnum. Sá ég
að állinn var ekki of djúpur; en þegar ég er kominn út í hann miðjan, fer hesturinn í kaf í bleytur; steig
ég þá strax af baki, og vildi það til, að ekki var dýpra en svo, að ég gat rétt staðið, og hafði ég
tauminn. En þegar hesturinn náði sér upp úr bleytunni, varð hann flatur fyrir straumnum og gat ekki
komið fótum fyrir sig. Hann flaut því flatur fram úr, en ég gat haldið í tauminn, svo að hann fór ekki á
veltu. Þannig bárumst við fram á brotið, en þar gat hesturinn fótað sig og ég komizt á bak. –
Munurinn var sá, að ef ég hefði þrætt nógu vel fram á brotið, þá hefði ég enga sandbleytu fengið né
hrakning. Ég hefi nefnilega oft orðið var vð það, sérstaklega í Múlakvísl, að eins getur verið hætta við
bleytum ofan við brotin eins og neðan við þau; en flestir hafa vit á því, að fara ekki neðan við brotin. Í
jökulvötnum er alltaf sízt hætta við sandbleytum á brotum, þótt það geti brugðizt.
Í þeim héruðum eða sveitum, þar sem búið er að brúa vötnin, eða staðhættir leyfa að brúuð verði
þau vötn, sem enn eru óbrúuð, þá verður eðlilegt, að kunnátta þessi, að ríða vötn, tapist, þegar sú
kynslóð deyr út, sem vötnunum vandist. Aftur á móti tekur við áfram maður af manni þar, sem ekki
verða brúuð öll vötn. – Þegar ég var í Ásum hjá foreldrum mínum, var það ósjaldan, að ekki var auðið
að komast milli Skaftártungu og Meðallands, nema með því móti að synda yfir tvær og stundum
fjórar kvíslar, sem voru á þeirri leið, þegar gamli vegurinn svo kallaði var farinn. Þessar kvíslar eru
megnið af Ásakvíslum, en heita þarna Skorur og Kvíalækir. Það kom oft fyrir, að þessi vötn varð að
synda landa á milli, og var sú breiðasta um 8 – 10 faðma. Kvíslar þessar eru ekki mjög straumharðar,
en þungastraumur, þegar flug er í. Og hestar, sem ekki voru því betri sundhestar, vildu verða býsna
djúpsyndir þarna, og oft flaut vatnið um mittið á manni; en á þeim grunnsyndustu, eins og t.d. Jóns-
Rauð, blotnaði maður ekki meira en þegar riðið er djúpt vatn, sem þó er ekki sund. Sem dæmi þess,
hve algengt það var, að synda yfir Skorurnar, mætti segja frá smáatviki. Einu sinni sem oftar var flug í
vötnum, og var ég þá sendur suður í Meðalland. Þegar ég kom að Skorunum, þá man ég ekki eftir, að
ég væri neitt að hugsa um, hvort sund væri eða ekki. En þegar hesturinn var kominn á sund, þá flaut
rúmlega um mitti á mér. Ég man, að hesturinn átti nokkuð erfitt í þessari breiðustu skoru. En ekki datt
mér hræðsla í hug. Var ég þó ekki syndur sjálfur og því allar bjargir bannaðar, ef hesturinn sykki. Ekki
bar heldur á því, að pabba þætti neitt athugavert við það, að senda mig einan, þótt vitanlegt væri, að
sund væri landa á milli í Skorunum. Þetta dæmi er rétt til að lýsa, hvað þetta var vanalegt í þá tíð. Nú
finnst mér, að ég geti ekki án tilfinninga sent mína pilta í svona svaðilfarir og eru þeir þó vel syndir.
Þannig venst maður á hlutina og af þeim.
Í lok þessara sundurlausu hugleiðinga, dettur mér í hug maður, sem drukknaði ásamt hestinum, sem
hann reið yfir langt sund, en annar hestur, sem hann var með undir trússi eða þverbakstösku,
bjargaði sér yfir með því, sem á honum var. Er mér kunnugt, að sá hestur var afbragðssvel syndur.
Það er full ástæða til að ætla, að hann hefði eins getað synt yfir með óhræddan vatnamann.
Spakmælið segir reyndar, „að ekki verði feigum forðað, né ófeigum í hel komið“, og kann það satt að
vera. En þó mælti spekingurinn Njáll við Gunnar á Hlíðarenda forðum, að ef hann færi utan og héldi
sætt sína, þá myndi hann gamall maður verða, en ef hann færi ekki, þá feigur.
Þetta, sem hér að framan er ritað um vötn, hesta og vatnamenn, er ekki sagt af því, að ég þykist vita
þetta betur en margur annar vanur ferðamaður, – heldur er það sökum þess, að síra Björn O.
Björnsson hefir óskað eftir, að ég léti til bókar sinnar nokkur orð um þau efni. Er mér það og að vísu
ljúft með það fyrir augum, að þyki eitthvað ofsagt hjá mér – að ekki sé nefnt allt vansagt -, þá gæti
það orðið öðrum reyndum vatnamönnum tilefni til athugasemda, og þannig yrði bókfestur fróðleikur,
sem að gagni gæti komið lítt vönum mönnum, sem í orlofi sínu reika um fjöll og firnindi, þá er vér
sveitamennirnir þjótum í bílum þvert og endilangt um byggðir og milli byggða.
