1949

Árið 1949 birtust sex pistlar eftir Svein í Tímanum í greinarsafninu Baðstofuhjal.

Í pistlum ársins 1949 fjallaði Sveinn m.a. um jarðarfararsiði, messuhald, fækkun fólks í sveitum, skólaskyldu og lengd skólaársins, útvarpið, kaffidrykkju, og gestrisni og vélvæðingu í sveitum. Umsjónarmaður greinarsafnsins nefndist Starkaður gamli.

Tíminn, laugardaginn 16. júlí 1949
Baðstofuhjal
Hingað hefir borist bréf frá Sveini Sveinssyni frá Ásum, er fjallar um jarðarfararsiði o.fl. Hugleiðingar
þessa aldna og greinda bónda eru á margan hátt athyglisverðar og ættu að geta orðið mönnum til
umhugsunar. Um þetta skulu svo ekki höfð fleiri orð, heldur Sveinn látinn taka til máls. Hann segir
svo:


„Það er ekki nema gott og blessað að breyta útaf gömlum venjum og taka nýjar í staðinn, sem betur
fara, en halda því gamla meðan ekki finnst annað betra. Þessi þróun í lífinu og lifnaðarháttum manna
er og verður alltaf sígild, kyrrstaða þýðir afturför, ef ekki beinlínis þá óbeinlínis. Það lögmál stendur
óhaggað.


Sú breyting með jarðarfarir í sambandi við bálstofuna, er einn þáttur þessarar þróunar. Ég hefi verið
við eina jarðarför með þessum nýja sið, og fannst mér munurinn mikill, sérstaklega fyrir nákomna
aðstandendur, og raunar fólkið allt, sem viðstatt er. Þegar tjaldið fellur, má segja, að það skilji á milli
lífs og dauða, og sorgarathöfnin þar með búin, hvort sem líkið er brennt eða jarðað. Með gömlu
aðferðinni er þó aðal sorgarstundin eftir, en með þessari nýju aðferð er þeirri sorgarstund með öllu
létt af aðstandendunum – og að standa yfir greftrun, hvernig sem veður er.
Svona á þetta að vera. Það eina, sem ég get fundið að þessari nýju aðferð er það, að ég hefði viljað
sleppa því að moldausa, því að það finnst mér vera aukaatriði við þessa nýju aðferð. Margir verða líka
að missa af því, bæði þeir, sem farast í sjó og á annan hátt, svo þeir aldrei finnast. Ég trúi því ekki, að
það verði reiknað þeim til skuldar.


Svo er sagt, að með þessari nýju aðferð sparist að minnsta kosti helmingur kostnaðar við jarðarfarir
hér í Reykjavík og er það vel farið. Fólk ætti líka að spara stóru kransakaupin. Fyrir þá, sem vilja
skreyta kisturnar, eru litlar fallegar rósir skemmtilegastar og þær geta fylgt kistunni, en stóru
kransarnir oft ekki, að minnsta kosti verður að bera þá sér, og er þá lítið fengið með því nema stautið.
Upp til sveita, þar sem þessi nýja aðferð getur ekki komið til greina um ófyrirsjáanlegan tíma, má
samt breyta til frá gömlum venjum og taka upp nýja siði, sem betri eru, t.d. það að hætta að halda
húskveðjur í heimahúsum, en aðeins að lesa bæn og syngja sálm, ef aðstandendur óska þess, það er
oftast svo, að fæst af fólkinu, sem fylgir þeim látna til grafar, geti verið inni vegna rúmleysis meðan
húskveðjan er haldin og heyra því ekki eitt einasta orð af því, sem presturinn segir, ef hann þarf að
vera inni vegna veðurs, og þeir nánustu þess framliðna.


Þetta þarf að breytast. Fólkið, sem fylgir við jarðarför, ætti bara að fara beint til kirkjunnar, nema
þeir, sem þurfa að vera til aðstoðar heima við vandafólkið o.s.frv. Í kirkjunni heldur presturinn svo
sína ræðu og getur hún verið betri fyrir það að skipta henni ekki í tvennt, og allt fólkið heyrt hana. Í
kirkjunni lætur presturinn syngja viðeigandi sálma, eins og venja er, en ætti að tefja sem minnst við
gröfina, hvorki með ræðum eða of miklum sálmasöng. Stundum eru leikmenn að halda ræður við
jarðarfarir, en undir flestum kringumstæðum ætti sá siður að leggjast niður. Oftast geta þeir ekkert
annað sagt en það, sem presturinn er búinn að segja, eða svipað því, og er því einungis til að tefja
tímann, sem getur verið mjög bagalegt og jafnvel hættulegt í vondum veðrum.


Þetta vita prestarnir manna bezt, og sumir þeirra hafa látið í ljós svipaða skoðun með jarðarfarir og
hér er haldið fram. Það eru einmitt prestarnir og biskup landsins, sem ættu að gangast fyrir því, að
gömlum venjum í kristnum sið sé breytt í betra horf, þar sem það á betur við og sjáanlegt er, að öllum
hlutaðeigendum er fyrir beztu.“

Niðurlagið á hugleiðingum Sveins, sem fjalla um nokkuð annað efni, munu birtast hér á morgun.
Starkaður gamli.


Tíminn, sunnudaginn 17. júlí 1949
Baðstofuhjal
Hér fer á eftir niðurlagið á bréfi Sveins Sveinssonar frá Ásum, en hann ræðir þar um tilhögun
messuhalda. Honum farast orð á þessa leið:


„Sunnudaginn 29. maí, þegar guðsþjónustan var haldin á Arnarhól í sambandi við
æskulýðshallarhátíðina, og 17. júní, þegar guðsþjónustan var haldin í Dómkirkjunni, sat ég við
útvarpið eins og ég er vanur, þegar messum er útvarpað. Ég verð að segja það, að ég kunni vel við þá
messuaðferð. Hún var einföld og skemmtileg, þó að engin athöfn færi fram fyrir altari, en í þessu
sambandi vil ég taka það fram, að það er hátíðlegt að hlusta á þá presta fyrir altari, sem tóna
reglulega vel, eins og það er raun að hlusta á þá presta fyrir altari, sem ekki geta tónað sæmilega vel.
Þótt þeir prestar, sem ekki geta tónað, læsu það fram, fer heldur ekki vel á því, ef söngfólkið svarar
með tónhljóði.


Ég býst nú við að fólki finnist það ekki þýða að vera að skrifa um svona mál, því þetta geti allt gengið
sinn vana gang hér eftir sem hingað til, messur séu orðið aukaatriði, fólkið víða hætt að sækja kirkjur,
nema við einstök tækifæri, fermingar o.s.frv. Það standi því á sama hvort prestarnir séu góðir eða
lélegir í sínu starfi, bara að það séu góðir menn. Þó er það nú svo, að það hlýtur að hafa áhrif á fólkið
og kirkjusókn þess, hvernig presturinn er í kirkjunni.


Nú er víða út um landið búið að stofna kirkjusöngkóra, sem hljóta að hafa mikil áhrif á messugerðir.
Það hlýtur því líka að hafa sín áhrif, að presturinn geti tónað vel og hafi vit á söng. Annars hygg ég, að
þetta fari nú að breytast, eins og svo margt nú á tímum, vegna meiri menntunarmöguleika fólksins og
atvinnuiðnrekstrar á fjölmargan hátt, svo annaðhvort verði: að ekki taki preststarfið nema þeir, sem
eru starfinu vaxnir, eða að prestverkin verið gerð miklu einfaldari.“


Þannig farast þá Sveini orð um þetta og skal ég ekki leggja hér orð í belg, en ekki hefði ég á móti því
að taka á móti stuttum greinum, er fjölluðu um þessi mál. Hér er vissulega athyglisvert mál á ferð og
þá ekki sízt það atriði í því sambandi, hvernig á að glæða kirkjusókn. Víða hefir dregið stórlega úr
henni og er vafalaust margt, sem því veldur. Í því eiga breyttir tímar vafalaust sinn stóra þátt, en fleira
mun koma til.


Það kunna nú einhverjir að segja, að ekki sé ástæða til þess að glæða kirkjusókn, en ég er ekki á því
máli. Ég held, að þjóðin þarfnist kannske fárra hluta fremur á þeim tímum, sem nú eru, en að heyra
boðskap kristindómsins. Stafar ekki sú upplausn, sem nú er í þjóðfélaginu, að einhverju leyti af því, að
þjóðin hefir færzt lengra en áður frá guðsótta og góðum siðum, eins og það er kallað?
Er það kannske ekki sannmæli, sem nú á betur við okkur en nokkuru sinni fyrr, að við þurfum ekki
fyrst og fremst stjórnarbót, heldur siðabót? Það er ekki nóg að setja sér fallega stjórnarskrá eða falleg
lög, ef það skortir hinn siðferðilega grundvöll til að standa á. Þá verða stjórnarskrár og lögin ekkert
annað og meira en innantóm orð. Það er siðabótin, sem mestu skiptir.


Svo lýk ég þessu spjalli í dag og bíð eftir, að aðrir taki til máls hér í baðstofunni um þessi efni.
Starkaður gamli.

Tíminn, miðvikudaginn 16. nóvember 1949
Baðstofuhjal
Sveinn frá Fossi tekur hér til máls í dag og hefir haft góð orð um að tala betur við okkur seinna. Því
þykir mér gott að taka og treysti því festlega, að það verði ýmsir fleiri, sem leggja hér orð í belg. En
bréf Sveins hljóðar svo:


Nú á tímum er mikið talað um það, sem hálfgert þjóðarböl, hvað fólkið flytjist mikið úr sveitunum til
Reykjavíkur. Auðvitað getur þessi stefna fólksins verið hættuleg fyrir þjóðarbúskapinn, bæði fyrir
Reykjavík og landbúnaðinn, en þegar á allt er litið, þá er við þessu að búast, það er nú fyrst og fremst
með ungdóminn eða unga fólkið í sveitunum. Strax þegar búið er að ferma börnin eru stúlkurnar
lánaðar vinum eða vandamönnum í Reykjavík að vetrinum til, koma svo heim eitt sumar, kannske tvö
eða þrjú í bezta lagi, og eru svo úr því í flestum tilfellum alfarnar að heiman, enda er nú svo komið í
sumum sveitum landsins, að engin heimasæta er til, og þeir piltar, sem ílendast áfram í sveitinni og
langar að búa, verða þá sumir hverjir að byrja búskapinn ógiftir, og þó það séu duglegir menn, þá
verður sú staða óskemmtileg og gjörsamlega ómöguleg, enda líka óeðlilegt að ætla sér að stofna
heimili án þess að fá sér maka.


Hver sá ungur karlmaður, sem vill stofna sér heimili á að byrja á því að tryggja sér konuefni. Við það
vex áhuginn, og ef hjónaefnin eða hjónin eru samhent, þá tvöfaldast kraftarnir, og ef heilsan er góð,
og þó efni séu lítil að byrja með, þá verða þeim allir vegir færir. Þetta, sem hér hefir verið sagt, er nú
svona.


Svo er það nú með bændastéttina sjálfa, sem nú þessi síðari ár hefir sótt svo mjög til Reykjavíkur og
geta nú færri en vilja, vegna þess, að þeir geta nú orðið ekki selt jarðir sínar eða hús á jörðum, sem
þeir eiga ekki, og geta heldur ekki fengið húsaskjól í Reykjavík svo teljandi sé. Síðan 1940, að atvinnan
hefir verið svo góð í Reykjavík, þá hefir það mikið valdið þessum straumhvörfum, jafnt fyrir það þótt
bændur í sveitunum, sem hafa haft lagleg bú, hafi haft þessi árin eins góða atvinnu eða betri en
verkamenn í Reykjavík, samanber verð á landbúnaðarvörum. Sérstaklega hafa þeir sótt eftir að ná í
fastar stöður, eins og sumir bændur hafa fengið við stórar stofnanir í Reykjavík með ótrúlega góðum
kjörum, fyrir litla vinnu. Allt þetta gengur í augun á þeim bændum, sem enn sitja eftir í sveitinni, sem í
sjálfu sér er ekki óeðlilegt.“
Starkaður gamli.


Tíminn, laugardaginn 19. nóvember 1949
Baðstofuhjal
Í dag er það Sveinn Sveinsson frá Fossi, sem talar við okkur um fólksflutninga úr sveitunum og mælir
svo:
„Ég mun hafa verið búinn að lofa þér Starkaður minn, að senda þér viðbótarlínur við það, sem áður
var komið af baðstofuspjalli okkar, um fólksflutninga úr sveitum landsins til Reykjavíkur.
Fyrst tala ég nú enn, um ungdóminn eða unga fólkið í sveitunum. Það er nú með skólalífið. Eins og
allir vita, þá er menntunin lífsnauðsyn, og hefir alltaf verið, en þó sérstaklega nú á tímum, en því er
ekki hægt að neita, að það hefir átt sinn þátt í því að losa um unga fólkið í sveitunum, alþýðuskólarnir
og jafnvel bændaskólarnir, þótt þeir séu starfræktir í sveitunum, þá hefir útkoman orðið sú, að sumt
af því unga fólki þegar það kemur aftur, unir ekki heima, jafnvel þótt það virtist áður en það fór, vera
gefið fyrir sveitarstörf og skepnuhirðingu. Viðbrigðin eru mikil, þegar það kemur aftur heim í
fámennið, eftir skemmtilegt félagslíf í skólunum, og þótt það séu haldnar dansskemmtanir stöku
sinnum í sveitunum, þá hefir það lítið að segja á móti skólalífinu, og þetta unga fólk, sem búið er að
læra og mennta sig, vill breyta til heima, þessu eða hinu, til batnaðar úti eða inni, og mætir kannske
íhaldssemi og skilningsleysi foreldra eða húsbænda. Þá er eðlilegt þar sem svona hagar til, að það
losni um það heima. Það er mín skoðun, að þar sem svona hagar til, og þessu skólafólki þykir dauft
heima fyrir, að ef það hefur aldur til, sé eina og bezta ráðið að það gæti fengið skilyrði til þess að
byrja sjálfstæðan búskap sem fyrst, og til þess er í raun og veru nýbýlaráðstöfunin.


En hvað sem segja má um þetta mál annars, þá er hálfgerð hörmung að þurfa að segja það, að engin
algerð lækning er við þessu öfugstreymi bænda og fólksins úr sveitunum til Reykjavíkur, nema
atvinnuleysi í Reykjavík, en enginn vitiborinn maður biður um það. En þrátt fyrir allt sem búið er að
gera fyrir landbúnaðinn, þá sýnir reynslan það, að þeim mun meira los er á fólkinu að komast þaðan
burtu, ekki svo að skilja, að það sé orsökin, heldur hitt, að á meðan það er eins gott að vera í
Reykjavík eins og í sveitinni, þá heldur þessi stefna fólksins áfram, og auðvitað vilja allir að fólkinu í
Reykjavík líði sem bezt.


Það er gott og blessað, að gera sem mest fyrir landbúnaðinn og sveitirnar, bæði með rafmagn,
áburðarverksmiðju, hagstæð lán, styrki o.s.frv. Allt þetta styrkir vel líðan fólksins í sveitunum, en eins
og áður er sagt þá er það engin lækning á fólksstraumnum úr sveitunum, til þess þarf að skapa aðrar
leiðir fyrir fólkið, sem hefir þessa útþrá.


Reykjavík er nú orðin mikil iðnaðarborg, að talið er, og að þeim atvinnurekstri þarf að hlynna, því það
er atvinna, sem unga fólkið sækir nú mest eftir. Ef hægt væri að auka verksmiðjuiðnað, vegna
hráefnis í landinu, þá væri það mjög nauðsynlegt og líka til útflutnings ef markaður fæst fyrir eitthvað
af þess konar innlendri framleiðslu. Allt svona lagað ætti að geta hjálpað til að forða Reykjavík frá
atvinnuleysi í framtíðinni, því búast má við að fólkið haldi áfram, hægt og sígandi, að flytja til
Reykjavíkur á öllum normal tímum. Það er því mjög nauðsynlegt að alþing og ríkisstjórn, athugi þessi
mál gaumgæfilega, því eins og allir vita er atvinnan fyrir fólkið lífsspursmál og undirstaðan að vellíðan
fólksins og hag þjóðarinnar“.


Mín skoðun er sú, að til þess að fólk uni í sveitum þurfi það að búa svo þétt, að um talsvert félagslíf
geti verið að ræða. Skilyrði þess fara meðfram eftir samgöngutækjum, því að til dæmis 30 km. eru
ekki mikil vegalengd, ef fara má í bíl eftir góðum vegi. Auk þess tel ég, að fólkið verði að þjálfa sig til
nábýlis og sambýlis, svo að um verkaskiptingu geti verið að ræða og einn gengið í annars verk í
eðlilegum orlofum eða veikindum. Um þetta má langt mál ræða, þó að við fellum nú talið í dag.
Starkaður gamli.


Tíminn, fimmtudaginn 1. desember 1949
Baðstofuhjal
Sveinn frá Fossi spjallar við okkur í dag um útvarp, skóla og kaffi:
„Það er vonandi að flest eða öll heimili á landinu bæði til sjávar og sveitar, hafi nú orðið útvarpstæki,
því þó þau heimili geti verið án þess, sem ekki hafa vanið sig á það, þá fara þau heimili of mikils á mis,
með alla þá skemmtun og fróðleik, sem útvarpið veitir, og þó það sé auðvitað nokkuð dýrt að hafa
það, þá er það nú samt svo, að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði. Andlega fæðan er líka
nauðsynleg, ef vel á að vera. Útvarpið er fjölþætt og hefir eitthvað fyrir alla menn, eftir þeim smekk
og áhuga, sem hverjum einstaklingi er meðfæddur. En í þessu sambandi var eitt með öðru, sem ég
ætlaði að spjalla um í baðstofunni, það, að ég er einn af fleirum sem þótti mikið með erindið „um
daginn og veginn“ sem Andrés Kristjánsson, blaðamaður flutti mánudaginn 21. þ.m. Sérstaklega var
það síðari hluti erindisins, um barnakennsluna, skólatímann, og heimilin í því sambandi, og ætla ég nú
að nota tækifærið og spjalla örlítið um það mál frá mínu eigin brjósti.


Það er þá fyrst að segja, að yfirleitt er barnaskólatíminn of langur, ár hvert. Flest börn verða leið á svo
löngum skólatíma, og jafnvel þó þau séu gefin fyrir bóklegt nám. Skólann má undir flestum tilfellum
ekki byrja fyrr á haustin en með október, og ekki halda lengur til á vorin en út apríl. Víða í sveitum
mun skólatíminn ekki vera svona langur, og það er bezt. Að taka börnin í skólann með september á
sumrin og sleppa þeim ekki úr skólanum fyrr en í maílok á vorin, er bandvitlaust uppeldi og gerir
börnin bæði leið og löt á skólanum, styttir sumarið of mikið frá útiveru vegna heilsunnar, og
heimilisstarfa með þau eldri hvort sem þau eru látin í sveit eða ekki.


Eftir fermingu ætti skólaskylda ekki að vera til, en það er gott og blessað að þau börn, sem eru gefin
fyrir meiri lærdóm geti farið og átt kost á framhaldsskóla, sér til lærdóms og menntunar, en með þau
börn, sem eru treg til náms og viljalaus, þýðir ekki að vera að halda þeim lengur við skólanám, fyrr en
ef þau fá þá sjálf síðar, vilja og löngun til þess. Þetta, sem hér hefir verið sagt, er mjög athugandi mál,
bæði vegna barnanna sjálfra, heimilanna, heimilisstarfanna, sem þau venjast of mikið frá, og getur
haft mikla þýðingu fyrir þjóðfélagið í framtíðinni.


Svo var það nú líka, með fáum orðum, um baðstofuspjallið hans Péturs Sigurðssonar, um blessað
kaffið okkar. Þegar maður sér eitthvað skrifað eftir þann sómamann þá er sjálfsagt að lesa það, því í
því er alltaf einhver lærdómur til að bæta mannfólkið í landinu o.s.frv. Annars erum við nú ekki að
öllu leyti á sömu skoðun með kaffið og kaffibrúkun, hann bendir á að hafa til samans helming kaffi og
helming mjólk, til sparnaðar á kaffinu, og til að drekka meiri mjólk til manneldis, en þá vil ég heldur
hafa helming soðið vatn og helming mjólk, það er fallegri og lystugri drykkur, því að blanda saman
kaffi og mjólk til helminga, lítur út sem kálfadrykkur, og er því betra að sleppa kaffinu alveg. Þetta er
mér alvara, og kannske af því að ég er kaffimaður.


Kaffið er þjóðardrykkur, og væri því hálfgert þjóðarböl ef þyrfti að taka það af fólkinu. Kaffið er hollt,
þegar það er vel búið til, gerir menn léttari í lund og geðbetri, og sízt lifa þeir lengur, sem ekki drekka
kaffi, en þeir sem drekka það, en það má gera of mikið að öllu: hvort það er kaffi, vatn, matur eða
mjólk, og efnalega virðast þeir líkt stæðir, sem brúka kaffið nokkuð mikið og þeir, sem nota það lítið
eða ekkert, því eitthvað þarf að hafa í staðinn fyrir kaffið ef við eigum ekki að hætta að gleðja hver
annan, og gæti þá ef til vill leitt til meiri notkunar á víni“.
Ég held það sé erfitt að setja kaffimömmum algildar reglur um það hvernig kaffið eigi að vera.
Starkaður gamli.

Tíminn, miðvikudaginn 28. desember 1949
Baðstofuhjal
Sveinn frá Fossi talar við okkur hér í baðstofunni í dag um gamalt og nýtt.
„Gestrisni Íslendinga hefir verið viðbrugðið, og má það til sanns vegar færa, þó þar hafi alltaf verið
mismunur á með menn og heimili, eins og í sjálfu sér er eðlilegt. En nú á síðustu árum hafa
samgöngutækin breytt þessu mjög, og menn stofnað hótel og greiðasölur víða um landið, og má
segja, að þessar stofnanir séu búnar að taka við móttöku gesta, af búendum, síðan að bílarnir komu
til sögunnar og flugvélarnar, og fólkið þar með hætt að ferðast á hestum, eins og kunnugt er.
Allt er þetta til bóta og hagnaðar fyrir fólkið, sem þarf að ferðast, bæði að losna við vötnin og að rölta
á hestum hvernig sem viðraði, oft misjafnlega útbúið til að mæta illviðri, roki og slagveðri. Líka er
þetta gott fyrir búendur, sem eru í gestsgötu, að losna við umferðina, sérstaklega að vetrinum til
vegna heyja, sem víðast er ekki of mikið af, eins og eðlilegt er, enda þótt nú sé orðið hægara með
öflun þeirri en áður var, vegna tilbúna áburðarins.


Ég, sem þessar línur skrifa, þekkti þá tíma vel, þegar ferðast var einungis á hestum eða gangandi.
Sjálfur bjó ég lengi í gestsgötu, og ferðaðist mikið, oft með marga hesta. Ég hygg, að enginn skóli í
lífinu hafi verið að vissu leyti eins góður fyrir unga menn eins og að ferðast, og kynnast fólkinu og
þeim heimilum, sem bezt voru með alla rausn og myndarskap, hvort sem gesti bar að á nótt eða degi,
og alla þá lipurð, alúð og nærgætni bæði við menn og hesta. Svona einlæg og elskuleg gestrisni hlaut
alltaf að verða til lærdóms ungum og gömlum, sem ferðuðust, og gera þá að betri mönnum en þeir
hefðu kannske annars orðið. Líka mátti læra af þeim mönnum og heimilum, sem ekki kunnu að taka
svona vel á móti gestum, og þó sérstaklega ferðahestum. Á þessu hefir alla tíð verið mikill munur,
sem í sjálfu sér er ósköp eðlilegt, því að öðrum er gefið þetta og hinum hitt. Svo hefir það alltaf verið
með mennina – og er líkast til bezt í þessu lífi.


Þegar menn voru á ferðalagi á sumrum þá var varla hægt að stoppa á bæjum nema þar, sem hægt
var að fá haga handa hestunum nálægt bænum, en til voru bændur, sem bjuggu í gesta götu og höfðu
til þess vissa bletti þar heima við og jafnvel í túnvarpanum, en hinir voru fleiri, sem ekki athuguðu
það. Þetta var með lausríðandi fólk, en lestamenn höfðu vissa áningarstaði eða haga handa þeim
hestum, sem þeir voru með, og var sá hagi vanalega nokkuð langt frá bæjum, enda voru lestamenn
með tjöld og nesti. Eftir að síminn kom í kringum landið voru mikil þægindi að honum fyrir ferðamenn
og gestgjafa.


Í þeim hreppum, sem síminn er kominn á hvert heimili, hafa búendur af því mikil þægindi og geta
ráðið ráðum sínum með eitt og annað innan hrepps og sparað margar sendiferðir á milli bæja, og ef
að þarf að sækja eða senda einhvern hlut á milli bæja þá geta menn komið sér saman um að senda
frá báðum bæjunum. Þar sem er mjólkursala geta menn pantað það, sem þarf úr búð og fengið það
sent með mjólkurbíl heim í hlað. Allt er þetta hægt í gegnum símann og því þyrfti hann að komast
sem fyrst á hvern einasta bæ í landinu, og þó fyrr hefði verið.


Eins og kunnugt er, hafa bændur verið að eignast búvélar eða vinnuvélar, hver um annan þveran
þessi síðustu ár, og er það vel farið, og vinnuvélar þurfa að koma sem fyrst á hvert sveitaheimili í
landinu, en jafnframt því er alveg eins nauðsynlegt fyrir bændur að eignast skýli yfir vélarnar að
vetrinum til. Góðum bændum hlýtur að þykja eins vænt um vélarnar sínar eins og hestana sína, enda
koma þær í þeirra stað, og þurfa eins góða umhirðu ef vel á að vera. Munið það, bændur góðir.“
Svo verður þá annað efni að bíða til morguns. Starkaður gamli.

1950

Árið 1950 birtust fimm pistlar eftir Svein, allir í Tíimanum, fjórir þeirra í greinasafninu
Baðstofuhjal, en einn sem sjálfstæð grein.
Meðal umræðuefna Sveins þetta árið voru áfengismál, sláttutími í sveitum, styrkir til bænda
á óþurrkasvæðum, þurrkun mýra í Landeyjum og Mýrdal, og niðurskurður vegna mæðiveiki.

Timinn, föstudaginn 9. júní 1950
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi, hefir orðið í dag og talar um veizlur og vín:
„Ég er nýbúinn að sitja tvær stórveizlur hér í Reykjavík, að vísu fermingarveizlur, en það þykja nú víst
ekki nein stórtíðindi nú á tímum þótt menn sitji veizlur hér í Reykjavík eða annarsstaðar á landinu, og
er ekki nema gott til þess að vita að fólkið í landinu geti veitt sér þá ánægju að halda
minningarveizlur, bæði fermingar- og afmælisveizlur, eins og nú tíðkast svo mjög. Það vakti athygli
mína í þessum fínu veizlum að ekki var dropi af víni, og af því ég þekki líka vínveizlur, þá var það nú
einmitt vínið, sem ég ætlaði að gera hér að umtalsefni í dag.


ÉG HYGG að vínið eigi hvergi verr heima og sé hvergi óþarfara, en í veizlum og skemmtisamkomum,
og skal ég nú reyna að skýra mína skoðun á því. Fyrst er það nú með veizlurnar, að í þeim eru
vanalega svo miklar allskonar trakteringar að vín á alls ekki að þurfa þar til viðbótar, og oftast vilja þá
líka einhverjir verða helzt til of kenndir, ef vín er veitt í stór veizlum, og hinir, sem drekka gætilega
verða þó ekki eins úthaldsgóðir að skemmta sér og öðrum, eins og ef vín væri ekki notað í veizlum. Þó
það hafi fjörgandi áhrif að byrja með, þá verður fjörið og glaðværðin jafnari og eftirköstin betri að
hafa ekki drukkið vínið. Ég hygg líka, að vínið hljóti að vera dýrasti liðurinn og óþarfasti í veizlum. Það
væri því mikill sparnaður að nota eða veita ekki vín í veizlum og mundi verða talið til þroska og sóma
fyrir þjóðina.


Á BÖLLUM og skemmtisamkomum er aðallega unga fólkið. Það sýnist því vera mikil fjarstæða að vín
sé haft þar um hönd, fyrir fólk, sem er í blóma lífsins og fullu fjöri, enda líka mun brúkun víns hvergi
eins tilfinnanlega hefna sín og á svoleiðis stöðum og samkomum.


ÞAÐ ÞÓTTI NOKKUÐ djarft og mjög misjafnt á það litið, enda þá óvanalegt, þegar hinn ungi skólastjóri
á Hvanneyri, Runólfur Sveinsson auglýsti í útvarpinu, að ölvuðum mönnum væri bannaður aðgangur
að skemmtisamkomum og böllum á Hvanneyri. Nú heyrir maður orðið mjög oft, þegar böll og
skemmtisamkomur eru auglýstar í útvarpinu víða um landið, að ölvuðum mönnum er bannaður þar
aðgangur, og er það vel farið, þó mikið vanti á enn, að það sé nógu almennt, en það kemur með
tímanum, að þessi fallega regla verður almenn, enda líka mikil þörf á því, þar sem stúlkur drekka nú
orðið alveg engu síður en piltar eða karlmenn. Og þó það sé vont, að eldri menn drekki svo áberandi
sé, þá er það þó tíu sinnum verra og skaðlegra að unga fólkið í blóma lífsins geri það, og ég tala nú
ekki um stúlkur.


ÉG ER EINN af þeim mönnum, sem alltaf hef haft gaman af að eiga í fórum mínum vott af víni, og gefa
einstöku vinum mínum bragð, sem maður kallar, þeim sem kunna með það að fara, og sjálfur haft
gaman af að fá bragð hjá vinum mínum, og þegar það eru menn, sem kunna reglulega vel með það að
fara, þá er það eins og hver önnur gestrisni og vinsemd, en ef maður hittir á menn, sem annað hvort
vilja sitja of lengi yfir því, og drekka þá of mikið, eða þykjast fá of lítið, þeim mönnum ætti aldrei að
gefa vín, því það hefnir sín og getur aldrei orðið nema til leiðinda.


EN EF ÞAÐ væri hægt að koma því í kring, að hætt væri að veita eða nota vín i veizlum, böllum eða
skemmtisamkomum, þá væri stórt spor stigið í rétta átt með vínnotkunina, og mér finnst þetta vera
hægt, og telst ég þó til þeirra manna, sem þykir gott að bragða vín, en mér finnst öllum
hlutaðeigendum, bæði þeim, sem halda veizlur og standa fyrir samkomum, og neytendum, vera fyrir
beztu að vínnotkun legðist algjörlega niður við svoleiðis tækifæri.“


ÁFENGISMÁLIN eru stórmál og mikið ágreiningsmál og deilumál. Slík mál á að ræða og ræða mikið. Ég
þakka Sveini fyrir sinn skerf. Starkaður gamli.

Tíminn, miðvikudaginn 12. júlí 1950
Bjargræðistími sveitanna
Það hefir vakið athygli þeirra manna, sem lesa Tímann og nokkuð hugsa um gang vinnunnar, svo sem
sláttinn, sem er aðal bjargræðistími sveitanna, að fyrir viku síðan eða meir, kom í fréttapistli frá Vík
að bóndi í Mýrdal væri þá búinn að slá og hirða alla töðu sína af fyrra slætti túnanna, og um sama
leyti eða svo, frá ferðamönnum í baðstofu Tímans, að tveir bændur á Rangárvöllum, bræður þessa
bónda í Mýrdal, væru líka albúnir að slá og hirða alla töðu sína af fyrra slætti túnanna, og háin þá
þegar farin að spretta, enda líka viðrað vel á hana síðan vætan kom, en áður í einar þrjár vikur búið
að vera þerrir og sólskin upp á hvern dag, hér sunnanlands. Sem betur fer notuðu margir bændur sér
vel þennan dýrmæta kafla veðráttunnar og slógu og hirtu mikið af túnum sínum, en því miður voru of
margir bændur, sem ekki notuðu sér það eins og skyldi, og sumir varla farnir að bera niður.
Gamli málshátturinn segir, að sjálfsskaparvítin séu verst, og það gildir enn í dag, því að ef maður getur
kennt sér sjálfum um það, þagar taðan á túnunum rignir og bliknar, og hvorutveggja verður hálf
ónýtt, taðan og háin, þá er það sálarkvöl fyrir bóndann, ef hann getur sjálfum sér um kennt, og á því
er mikill munur, eins og séra Emil Björnsson komst svo fagurlega að orði í sinni merkilegu stólræðu,
að þegar bóndinn, um leið og hann væri búinn að bjarga grænni töðunni undir þak hlöðunnar, þá
dyttu fyrstu regndroparnir á báruþak hlöðunnar, og þá gæti bóndinn haft sálarfrið, haft góða
samvizku af verkum sínum og lofað skaparann fyrir góðu tíðina, sem hann mundi ekki gera, ef hann
hefði misnotað hana.
Margur mun nú spyrja, því geta ekki allir bændur í sama plássi gert þetta líka? Ég er nú að nokkru
leyti búinn að svara því hér að framan, en skal nú skýra það betur. Fyrst er nú það, að þessir bræður
hafa allar nýtízku heyvinnuvélar, vel ræktuð tún og sléttuð, og eru því fljótari með sláttinn en þeir,
sem ekki hafa allar vélar til heyvinnu. Annað, að þeir byrja sláttinn með fullum krafti fyrr en flestir
aðrir, enda slá þeir öll tún sín tvisvar. Þriðja, að þeir eru áhugasamir með sláttinn, eins og bændur
geta bezt verið. Fjórða, að þeir hafa súgþurrkun í hlöðum og mikil tök á votheysverkun.
Margir góðir og áhugasamir bændur eiga þetta allt, sem hér hefir verið sagt um þá bræður, nema ef
vera skyldi of fáir allar heyvinnuvélar, og er þó ekki að öllu leyti þeirra sök, því margir bændur vilja
eignast þær, ef þær fengjust.
En það hefir lengi verið svo, og er enn í dag, að allt of margir bændur byrja sláttinn of seint, og með
hangandi hendi, hafa hann í hjáverkum fyrstu dagana eða vikurnar, og verða svo aftan í því, út allan
sláttinn, á móti hinum, sem byrja hann fyrr af fullum krafti. Að slá slöku við sláttinn í góðri tíð hlýtur
alltaf að hefna sín, og verður ekki bætt upp með neinu móti. Það er maður marg búinn að sjá, og þeir,
sem vinna að slætti, hvort sem það eru bændurnir sjálfir eða aðrir, sem við hana vinna, mega ekki
taka sín frí um sláttinn, heldur á öðrum henturgri tíma ársins. Að halda stórar samkomur eða
héraðsmót í sveitum landsins um sláttinn hefir oft orðið til tafar og verður ekki bætt upp á öðrum
tíma árs.
Það er ánægjulegt fyrir hjón, sem eru samtaka og búa í sveit, að geta byrjað sláttinn snemma og
stundað hann með áhuga og vera búin með hann snemma að haustinu. Undir því er það komið með
haustverkin, að þau geti byrjað nógu snemma, því að oft byrjar veturinn snemma með frosthörkum
og snjóum og – þó það viðri oft betur en svo, þá er samt vissast að búast við því verra, því það góða
skaðar ekki.
Og allir verða að muna það, hvaða vinnu sem þeir stunda, að þeim verður ekki hjálpað, sem ekki
hjálpa sér sjálfir. Sveinn Sveinsson, frá Fossi.

Tíminn, fimmtudaginn 12. október 1950
Baðstofuhjal
Um aðstoð til bænda á óþurrkasvæðinu er nú allmargt rætt. Ég birti hér í dag stuttan pistil frá Sveini
Sveinssyni frá Fossi, og er hann svo:
„Eins og kunnugt er af blöðunum, hefir ríkisstjórnin ákveðið að hálfri fimmtu miljón kr. skuli varið til
þess að leysa vandræði bænda á óþurrkasvæðunum, og hefir fénu þegar verið skipt milli
sveitarfélaga, en hreppsnefndum er falin skipting heima fyrir. Tveir þriðju hlutar af þessu fé verður
lán, en þriðjungur framlag eða styrkur, en þó er hlutfallið milli láns og framlags misjafnt eftir því
hvernig á stendur. Enginn sem fengið hefir 80% meðal heyfeng, fær hjálp.
Um þessa ráðstöfun ríkisstjórnarinnar er ekki að segja nema gott eitt. Það getur margborgað sig að
hlaupa undir baggann, þegar eitthvað kemur fyrir menn, sem er óviðráðanlegt. En sú athugasemd,
sem ég vildi gera við þessa ráðstöfun, er það, að mér finnst það vera ósanngjarnt og ekki hyggilegt að
ætla þeim bændum, ef nokkrir eru, á óþurrkasvæðinu, sem hafa yfir 80% meðalheyfengs, ekkert af
þessu mikla fé, sem fer í þessi óþurrkapláss.
Þeir fáu bændur innan um hina í rosaplássinu, sem sýnt hafa fyrirhyggju og dugnað fram yfir aðra í
plássinu, ættu að sjálfsögðu að fá sinn hluta af þessu fé, sem kalla ætti verðlaun eða viðurkenningu
fyrir dugnað og fyrirhyggju.
Þá bændur, sem eru öðrum til fyrirmyndar, má ekki draga niður, en um fram allt að sýna þeim
viðurkenningu til áframhaldandi fyrirmyndar og lærdóms fyrir hina mörgu, sem enn hafa ekki áttað
sig á hlutunum“.
… Starkaður gamli.


Tíminn, þriðjudaginn 31. október 1950
Baðstofuhjal
Þennan daginn rabbar við okkur gamall og góður kunningi, Sveinn Sveinsson frá Fossi. Ég vil taka það
fram sjálfur, að ég hygg að á Fossi í Mýrdal sé búskapur með því myndarlegasta, sem þekkist á landi
hér. En pistill Sveins er svona:
Í erindi um daginn og veginn, sem Sigurður Magnússon kennari flutti mánudaginn 16. þ.m. komst
hann inn á m.a. ræktun á jörðinni Lágafelli í Landeyjum hjá Finnboga Magnússyni bónda þar. Mín
skoðun er að það sé alveg rétt að koma inn á sem flest framfaramál þjóðarinnar, jafnframt þeim
málum, sem miður fara, þegar menn tala um daginn og veginn. En það, sem ég vildi tala um með
þessum línum er það, hvað mikill munur getur verið á mýrum til ræktunar, t.d. á Lágafelli má strax á
fyrstu árum sem skurðirnir eru teknir rækta landið í tún með ágætum árangri, og telur Bogi á Lágafelli
– svo mun hann vera kallaður í daglegu tali, það muni vera mest að þakka sandlögum, sem eru þar í
jarðveginum. Þetta er líka mjög trúlegt, eftir því hvað mýrarnar eru fljótar að breytast í vallendi.
En á Fossi í Mýrdal var tekið stórt mýrarstykki til ræktunar svona fyrir 8 – 10 árum, girt og aðalskurðir
gerðir eftir kúnstarinnar reglum og þó þéttari en fyrir er mælt, hallinn góður og frárennsli ágætt, en
þó hefur þetta land ekki getað þornað vel sérstaklega í vætutíð, og nú er helzt að sjá, að þetta allt,
sem búið er að rækta ætli bara að fara í mýri aftur, og það gerir það, komi ný lokræsi (ekki) á milli
allra hinna, og það urðum við að gera í gamla túninu, því mikið var að fara í mýri, og kýrnar hættar að
éta þá töðu. Svona mýrar er seinlegt að rækta og erfitt að vinna þær, ég hygg að mest komi til að
svona mýrar eru: fastar, seigar, leirbornar og moldarmólag neðar í jarðveginum, sem heldur vatninu
uppi og leirinn safnast í lokræsin.
Þessi munur á mýrunum til ræktunar t.d. á Lágafelli og Fossi í Mýrdal eins og ég hef nú lýst er
fróðlegur til athugunar, að það er ekki alveg sama hvaða mýrar eru teknar til ræktunar. Ég veit vel að
fagmenn í þeirri grein vita þetta, en alltaf er reynzlan ólýgnust.
Ég hygg, að það sé margt líkt með þeim frændum Boga bónda á Lágafelli og Fossbændum í Mýrdal í
búskaparháttum, hagsýnir og mjög vandvirkir með sínar jarðabætur, og þó þeir séu að mestu leyti
bara sjálfmenntaðir, þá vita þeir hvað klukkan slær með búskapinn, bera vel og snemma á túnin,
beita ekki á vorin það af þeim, sem slá á fyrst, og tvisvar eða þrisvar, og byrja sláttinn með þeim allra
fyrstu. Svona eiga póstar að vera, og sem betur fer eru margir bændur það í þessum plássum og víða
á landinu, en því miður eru hinir allt of margir enn, sem ekki athuga þetta o.fl. sem skyldi, sérstaklega
þetta með sláttinn.
Síðan einyrkjabúskapurinn byrjaði og ekki er um vinnumenn að tala, þá hafa margir bændur hagað
svo til nýjum húsabyggingum sem til heyra heyi og skepnum, að einn maður geti gegnt sama
skepnufjölda og tveir til þrír menn í fyrri daga. Þetta fyrirkomulag sparar mannahald og peninga að
vetrinum til, og skepnunum líður betur, og þá sérstaklega kúnum og gera meira gagn þegar þær geta
t.d. ráðið hvenær þær drekka, og hvenær ekki, því þær vilja hafa sínar kreddur og þarf þá
gegningarmaðurinn ekki að hökta yfir því, ef hann er að öðru leyti búinn með fjósverkin.
Menn eiga að læra hver af öðrum og alltaf eru menn að læra af reynzlunni, þó að mönnum gangi
misjafnlega að framkvæma það, sem þeir sjá og heyra og læra, en það hefir nú alltaf verið, svo með
mennina, að öðrum er gefið þetta og hinum hitt, en aðal atriðið er, að allir, sem hafa heilsu bæði
karlmenn og kvenmenn, vinni vel meðan dagur er, því nóttin kemur þá enginn getur unnið. Sú
kenning verður alltaf sígild.“
Svo bíðum við næstu manna til morguns.
Starkaður gamli.


Tíminn, laugardaginn 4. nóvember 1950
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi í Mýrdal ræðir hér um fjárskiptin:
Síðan niðurskurður hófst hér á landi, vegna mæðiveikinnar í sauðfénaði, hefir mér alltaf þótt það
mjög varasöm ráðstöfun að hafa fjárskiptin á sama hausti og niður er skorið, það hefði átt að vera
sjálfsögð regla að flytja ekki inn í það hérað nýjan fjárstofn fyrr en að ári liðnu eftir niðurskurð, því
víðast hagar svo til á landinu, bæði í afréttum, heiðum, og eldhraunum, að eftirlegu- og flökkukindur
eru að koma fram eftir öllum vetri, eða ganga úti sumstaðar, og ætti því meira að segja að fyrirskipa
leitir að vor- og haustlagi, milli fjárskipta svo að tryggt væri, að engin kind gæti verið til í plássinu af
gamla fjárstofninum, þegar nýi fjárstofninn er fluttur inn í héraðið. Afleiðing þessara mistaka hefir nú
í haust komið í ljós að Einholtum í Hraunhreppi í Mýrasýslu, að flökku eða eftirlegukind hefir komizt
saman við nýja fjárstofninn, og er það þó fyrir sig hjá mönnum, sem eru svo samviskusamir, að þeir
hika ekki við að eyða fjárstofninum ef kindur af fyrra fjárstofninum hafa komizt saman við þann nýja.
En mér finnst það hefði ekki verið nema sjálfsögð hyggindi að slá alveg varnaglann, og treysta ekki á
það, að allir menn væru jafn samviskusamir, að segja til með það ef kind slæddist af fyrra
fjárstofninum saman við þann nýja, og eiga þá á hættu að nýi fjárstofninn yrði þá tafarlaust skorinn
niður.
Það er ekki ofmælt þó að maður segi það, að það er mikil freistni fyrir menn sem í það komast, og
gæti líka heppnast að smitun hefði ekki orðið, ef kindin reyndist hraust, og þó hún hefði ekki farið
undir rannsókn n.l. ef kindinni væri eytt heima án þess að gefa það upp. Það sem hér hefir verið sagt,
er ekki meira en ýmislegt annað, sem fram kemur í mannlegum breyskleika, og þegar úr vöndu er að
ráða, þá er alltaf hyggilegra að búast við því verra, því það góða skaðar ekki.
Máltækið segir, betra er seint en aldrei. Það ætti því, með allt það sauðfé, sem enn er óeytt í þeim
héruðum landsins, sem til stendur að niðurskurður verði á eldra fjárstofninum, að leyfa alls ekki
fjárskipti sama haustið og niður er skorið, eða ekki fyrr en að ári liðnu, í þeirri von, að með því gæti
heppnast að mæðiveikin færi ekki nýja hringferð um héruð landsins.“
Starkaður gamli.

1951

Þetta ár var Sveinn stórtækur í skrifum sínum, en þá birtust 14 pistlar eftir hann, allir í
Tímanum. Allir voru þeir í greinaflokknum Baðstofuhjal undir umsjón Starkaðs gamla.
Umfjöllunarefnin eru fjölbreytt; m.a. fráfærur, veðurvit hrossa, mikilvægi fjárhunda,
jarðarfararsiðir og bálstofur, sameining prestakalla og fækkun presta, ásetning að hausti og
heyleysi, stærð barnaskóla, ástand fjárrétta, frumbýlingsárin á Leiðvelli og gagnsemi selspiks
við magapest, flutningur á timbri út yfir Sand að Fossi, greiðvikni, kartöfluræktun og uppeldi.

Tíminn, föstudaginn 26. janúar 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi á hér frásögn og hugleiðingu um fráfærur og fjárrekstur og mælist honum
svo:
„Í þá tíð er fráfærur voru stundaðar hér á landi, var aðferðin við það höfð á ýmsan hátt: Stundum
voru lömbin heft og setin heima, en ærnar þá reknar það langt frá, að jarmið gæti ekki heyrzt á milli,
og þegar tími var kominn til að koma með ærnar heim til að mjólka þær, voru lömbin rekin í hús og
byrgð yfir nóttina. Oftast voru þá ærnar byrgðar líka annars staðar, frameftir nóttinni og farið svo
með þær á haga svona kl. 5 að morgni og komið með þær heim um kl. 8 – 9, til að mjólka þær. Svo
var farið aftur með þær á haga og setið yfir þeim fram undir kvöldið, en strax þegar ærnar voru farnar
voru lömbin heft aftur og látin út og þeirra gætt um daginn. Þetta gekk svona til í nokkra daga, þar til
lömbin voru rekin á fjall, sem kallað var. Þá var líka hætt að byrgja ærnar og sitja þær, en svo smalað
tvisvar á dag til að mjólka þær í bæði mál.
Hin aðferðin við fráfærur var sú, að lömbin voru bara látin út úr réttinni, og þá líka ef voru ær, sem
ekki átti að færa frá og geldar kindur ef til voru. Þegar búið var að þessu öllu og ekki var orðið eftir í
réttinni nema ærnar, sem fært var frá og allir voru tilbúnir, sem áttu að reka, var farið af stað með
lambahópinn og þær kindur, sem áttu að fara með. Höfðu þær forustuna fyrir lömbunum og var
vanalega hægra að reka lömbin þegar fullorðið fé var rekið með. Svo var hópurinn rekinn, með smá
hvíldum, á fjall – til heiða eða afrétta. Þegar komið var með reksturinn það langt í burtu, að sýnt var,
að lömbin mundu ekki sleppa og snúa til baka, þá var ánum hleypt út úr réttinni og ekki byrgðar eða
setnar að ráði, heldur bara smalað kvölds og morgna til að mjólka þær. Þessi aðferð við fráfærur tók
mikið fyrr af og var betri meðferð á ánum, og enda líka á lömbunum, sérstaklega í rigningatíð.
En oft vildi það ganga í brösum að koma lömbunum frá réttinni og mömmum sínum, og þar sem svo
hagaði til, að bratti væri á aðra hönd að byrja með, vildu lömbin sækja á brattann og ef eitt lamb náði
því, þá gat það orðið til þess, að fleiri slyppu og sneru til baka, og allt kæmist þá í uppnám og
vandræði. Það þurfti bæði lag og snarræði til þess að ekki færi svona, og að vera á liðlegum hestum.
Skal ég nú skýra það með einu dæmi.
Þegar ég bjó í Ásum, færði ég frá 100 – 150 ám. Í Skaftártungunni var það sjálfsagt. Þar gerðu ær
meira gagn en annars staðar í sýslunni og þó víðar væri leitað. Venjulegast brúkaði ég síðar nefndu
aðferðina með fráfærur, og kem ég nú með dæmið:
Ég átti lengi bleika hryssu, sem var viljug og liðug eins og hjól, ég passaði því að vera þar við
lambahópinn, sem mest var hættan að þau slyppu, því þar hagaði svo til að bratti var dálítill á aðra
hönd að byrja með, og reið ég þá alltaf bleiku hryssunni. Þetta heppnaðist allt prýðilega í mörg ár, en
svo var það nú einu sinni, að ungur vinnumaður, sem var búinn að vera hjá mér í mörg ár, keypti sér
hest, vitlausan í óleti, og í þetta skipti reið hann þessum hesti sínum. Ég held svona af hálfgerðu
monti, setti hann sig á þann stað, sem ég var vanur að vera, við lambareksturinn. Mér leizt nú strax
illa á þetta, því ég vissi að drengurinn var stirður í snúningum, en gat nú ekki verið að reka hann á
annan stað, og hann þá svona vel ríðandi. En hvernig fór?
Það skal ég nú segja ykkur: Þegar við erum búin að reka lömbin svona í 5 – 10 mínútur, fara þau í
kringum piltinn eins og staur, og þegar hann ætlar að ríða fyrir þau þá stekkur klárinn beina leið út í
veðrið, og lömbin þarna út í allar áttir og til baka. Var nú að byrja með við ekkert ráðið. Skipaði ég nú
fyrir að láta lömbin fara eins og þau vildu, því að það þýddi ekkert annað í bili, nema að varna þeim
heim. Svo þegar þau voru búin að hlaupa af sér mesta sprettinn og farin að spekjast, þá fórum við að
reyna að lunka þau áfram og koma þeim saman aftur. Þetta heppnaðist með tímanum. Fór ég nú á
minn vana stað, en lét vinnumanninn fara á þann stað, sem minnst reyndi á, fór nú allt vel úr þessu.
Ég veit vel, að þetta dæmi skilja allir, blátt áfram. En ef það er athugað á breiðari grundvelli, þá eru
svona dæmi alls staðar í lífinu, í hvaða stétt og stöðu sem maðurinn er, hvort það er fyrir einstakling
eða félög, að ef vandasömustu sætin eru illa skipuð, þá fer allt út í veður og vind eins og lömbin í
dæminu. Og má þá vanalega þakka fyrir, ef hægt er að laga þau mistök með löngum tíma og betri
mönnum, eins og dæmið líka sýnir.
Áður en dilkasalan kom til sögunnar, voru fráfærur lífsnauðsyn fyrir fólkið í landinu en gott er að
þetta hefur breytzt í betra horf, því nú væri ekki fólk til þess í sveitunum að mjólka ær.“
Hér er þá fráfæruþætti Sveins lokið og þar með erindi hans í þetta sinn.
Starkaður gamli.


Tíminn, laugardaginn 3. febrúar 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi ræðir hér um skepnurnar sínar, veðurskyn þeirra og fleira:
„Það er alkunna á meðal manna, sem hafa alizt upp með skepnum og haft það lífstarf að búa með
þeim, að flestum dýrum, bæði tömdum og ótömdum, er meðskapað að finna á sér veðurbreytingar.
Svo eru hestar, ég tala nú ekki um útigönguhross, fara að hama sig undir óveður, kulda og illviðri. Þau
fara að draga sig saman og hama sig undan þeirri átt, sem hann er að gróa upp í. Stundum finna þau
þetta svo fljótt á sér, að það getur munað allt að dægri áður en óveðrið skellur á og fara þau þá aftur
á haga annað veifið, og svo aftur að hama sig, eða sitt á hvað, þangað til óveðrið skellur á. En svo
finna þau líka alveg eins á sér verðurbreytingar til batnaðar, því oft áður en slagviðri eða hríðin
minnkar og ekki er sjáanlegt að nein breyting sé í aðsigi, þá kannske allt í einu eru þau búin að dreifa
sér á haga, og þá er það segin saga, að hann er að snúa sér og batna veður. Sama sagan er með
sauðféð, og kem ég að því síðar.
Einu sinni var það í Ásum í Skaftártungum að áliðnu hausti, að rauð hryssa, sem pabbi átti og ég síðar,
var komin inn í hesthús snemma á degi í góðu veðri, lengst innan úr högum frá öðrum hrossum, því
jörð var auð og ekki farið að gefa, nema kúm. Fyrst hélt maður nú að eitthvað væri að hryssunni,
enda var hún aumingjaleg, en svo var ekki. Þó vildi hún ekki fara út. Var hún því látin eiga sig og
gefinn heybiti, en morguninn efitr var komið norðan bál og hélzt það kólgukast í hálfan mánuð, og
eitthvað snjóaði líka. Þetta var þá það, sem Rauðka gamla fanna á sér.
Þegar ég bjó í Ásum í Skaftártungum flutti ég gamla bæinn neðan af Eldvatnsbakkanum og byggði
nýtt timburhús á þeim fallegasta stað, sem til er í Ásum og þó víðar sé leitað. Hvergi á byggðu bóli hef
ég við fjalllendi komið, sem sést eins vel til veðurs í allar áttir, og aldrei var þar aðfenni í byljum. Út
um gluggana gat maður séð að öllum beitarhúsum, sem voru þó sitt í hvorri áttinni og langt í burtu
frá bænum, því svo hagaði þar til með haga, að þeirra var langtum betri not með því móti. Það var
merkilegt á stundum í byljum og hríðarveðrum, þegar féð fór að fara út áður en nokkkuð fór að batna
veðrið. Það var segin saga, að þá var það rétt á eftir að hann sneri sér og batnaði veðrið, og þó var
það merkilegast við þetta, að nákvæmlega fór féð út á sömu mínútu í öllum húsunum, þó svona væri
langt á milli þeirra, og ekki sæist frá einu húsinu til annars. Það sauðfé, sem alltaf er haft við opið hús,
liggur alltaf inni í vondum veðrum, en öðruvísi er með það fé, sem alltaf er byrgt. Ef svo vill til, að það
sé við opið hús, þá skal það alltaf liggja úti, hvað vont sem veðrið er. Annars er það oftast svo, að þar
sem sauðfé er við opið hús, að sömu fáar kindur liggja úti fyrir dyrum í góðu veðri en inni fyrir dyrum í
vondum veðrum, og líkast til eru það þær kindur helzt, sem finna á sér veðurbreytinguna, sem að
framan getur, líkt og forustusauðir, sem voru víða þekktir fyrir tilfinningagáfur.
Í Ásum er bæði gagn og gaman að eiga sauðfé, þar þurfti aldrei reka kvíær frá kvíum. Þær máttu ráða
þvi í hvaða átt þær fóru, og síðla sumars lágu þær oft lengi á bólinu við færigrindurnar, og merkilegt
var að sjá það, þegar þær stóðu upp og rásuðu burtu í hagann, að alltaf fylgdu þær áttinni, t.d. væri
hann á austan, þá fóru þær austan megin, en ef þær breyttu út af þvi og fóru vestur úr eða norður, þá
brást það ekki, að á næsta dægri fór hann í þá átt, og undir norðanátt vildu þær sækja til heiða. Það
bar mest á þessu áður en hann var kominn í þá átt. Svona var þetta næm tilfinning, sem maður gat
mikið treyst á.
Við fáa atvinnu kemur meiri mannamunur fram hjá ungum mönnum en við sauðfjárhirðingu. Sumir
menn, sem hafa þó verið við fjárhirðingu, hafa hvorki getað né viljað, vanið fjárhundinn sinn, láta
hann vaða á undan sér, þar sem féð átti að vera kyrrt og rólegt, og ef þeir voru í kindaleit, þá látið
hundinn fara það langt á undan sér, að maðurinn kannske sá aldrei þær kindur, sem styggðust við
hundinn eitthvað út í buskann, kannske út í sköruð vötn og drápu sig. Svona fjármennska var
hörmuleg, en sem betur fór voru þeir fleiri, sem höguðu sér eins og menn, létu hundinn sinn skilja
það, hvenær hann átti að vera á eftir þeim, og hvenær hann mátti vera á undan þeim o.s.frv.
Fátt var eins nauðsynlegt við sauðfjárhirðingu eins og að hafa góða og vel vanda hunda, og fátt var
eins skaðlegt við fjárhirðinguna eins og að hafa illa vanda hunda. Þeir fóru oft illa með féð, og gátu
verið beinlínis hættulegir fénu fyrir óvana“.
Í svona frásögnum opnast innsýn í þann heim, sem opinn stendur þeim, sem lifa með húsdýrunum,
hirða þau og gæta þeirra. Þar er margt merkilegt athugunarefni glöggum huga.
Starkaður gamli.


Tíminn, föstudaginn 30. mars 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar hér um jarðarfararsiði í dag:
„Í baðstofu Tímans skrifaði ég grein 16. júlí 1949, er fjallaði um jarðarfararsiði, bálstofuna o.fl. En þar
sem ég hef ekki orðið var við að fleiri hafi tekið til máls í baðstofunni um þetta efni, og þetta þó langt
um liðið, og málið athyglisvert á margan hátt, þá langar mig til að taka enn til máls um sama efni.
Það er ekki nema gott og blessað að breyta útaf gömlum venjum og taka nýjar í staðinn, sem betur
fara, en halda því gamla meðan ekki finnst annað betra. Þessi þróun í lífinu og lifnaðarháttum manna
er og verður alltaf sígild. Kyrrstaða þýðir afturför, ef ekki beinlínis, þá óbeinlínis. Það lögmál stendur
óhaggað.
Sú breyting með jarðarfarir í sambandi við bálstofuna, er einn þáttur þessarar þróunar. Ég hef verið
við nokkrar jarðarfarir með þessum nýja sið, og hefir mér fundizt munurinn mikill, sérstaklega fyrir
nákomna aðstandendur og raunar fólkið allt, sem viðstatt er, því þegar tjaldið fellur, má segja, að það
skilji á milli lífs og dauða, og sorgarathöfnin þar með búin, hvort sem líkið er brennt eða jarðað. En
með gömlu aðferðinni er þá aðalsorgarstundin eftir, en með þessari nýju aðferð er þeirri sorgarstund
með öllu létt af aðstandendunum, ef þeir vilja, – svo og að standa yfir greftrun, hvernig sem veður er.

Svo er líka sagt, að með þessari nýju aðferð sparist að minnsta kosti helmingur kostnaðar við
jarðarfarir hér í Reykjavík og er það vel farið. Fólk ætti líka að spara sér stóru kransakaupin. Fyrir þá,
sem vilja skreyta kisturnar, eru litlar, fallegar rósir skemmtilegastar og þær geta líka fylgt kistunni, en
stóru kransarnir oft ekki, að minnsta kosti verður að bera þá sér, og er þá lítið fengið með því nema
stautið.
En eitt er það í sambandi við bálstofuna, sem ég kann ekki við, og vil sérstaklega taka fram, og það er
það, þegar líkin eru brennd, að leifarnar – eða askan, – er látin í stampa, sem til þess eru gerðir, en ég
vil láta öskuna í þar til gerðar öskjur. Stampar eru algengir undir allskonar dót og matvæli, en öskjur
einungis undir það, sem mest er við haft, og svo ætti þetta að vera, en efnið mætti auðvitað vera
sama í öskjunum og stömpunum. Í lokið ætti að grópa gagnsæja plötu eða óbrothætt gler, eða efni,
sem geymt gæti nafn þess framliðna. Þetta, sem hér hefir verið tekið fram, er ekki af sérvizku, heldur
beinlínis af tilfinningu fyrir því, sem betur má fara, er fallegra og mikið skemmtilegra.
Upp til sveita, þar sem þessi nýja aðferð getur ekki komið til greina um ófyrirsjáanlegan tíma, má
samt á ýmsan hátt breyta til frá gömlum venjum og taka upp nýja siði, sem betri eru, t.d. það, að
hætta að halda húskveðjur í heimahúsum, en aðeins að lesa bæn og syngja sálm, ef aðstandendur
óska þess. Það er oftast svo, að fæst af fólkinu, sem fylgir þeim látna til grafar, geti verið inni vegna
rúmleysis meðan húskveðjan er haldin og heyra því ekki eitt einasta orð af því, sem presturinn segir,
ef hann þarf að vera inni vegna veðurs, og þeir nánustu þess framliðna.
Þetta þarf að breytast. Fólkið, sem fylgir við jarðarför, ætti bara að fara beint til kirkjunnar, nema
þeir, sem þurfa að vera til aðstoðar heima við, vandafólkið o.s.frv. Í kirkjunni heldur presturinn svo
sína ræðu og getur hún verið betri fyrir það, að skipta henni ekki í tvennt, og allt fólkið heyrt hana. Í
kirkjunni lætur prestur syngja viðeigandi sálma eins og venja er, en svo ætti að tefja sem minnst við
gröfina, hvorki með ræðum eða of miklum sálmasöng.
Stundum eru leikmenn að halda ræður við jarðarfarir, en undir flestum kringumstæðum ætti sá siður
að leggjast niður. Oftast geta þeir ekkert sagt annað en það, sem presturinn er búinn að segja, eða
svipað því, og er því einungis til að tefja tímann, sem getur verið mjög bagalegt, og jafnvel hættulegt í
vondum veðrum, og eins að standa berhöfðaðir við greftrun í kólgu.
Þetta vita prestarnir manna bezt, og sumir þeirra hafa látið í ljós svipaða skoðun og hér er haldið
fram. Það eru einmitt prestarnir og biskup landsins, sem ættu að gangast fyrir því, að gömlum venjum
í kristnum sið sé breytt í betra horf, þar sem það á betur við og sjáanlegt er, að öllum
hlutaðeigendum er fyrir beztu“.
Það er alltaf gott að stilla ræðum í hóf eins og öðru, en ómögulega get ég fellt mig við það, að hafa
um, þó að óvigðir menn mæli nokkur kveðjuorð við útför. Mér hefir virzt, að það færi stundum mjög
vel og hjálpaði til að gera athöfnina áhrifameiri.
Starkaður gamli.


Timinn, 1. maí 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi ræðir hér um fjölda presta og starfshætti og prestssetur:
„Þegar maður talar og skrifar um samsteypu prestakalla, og fækkun presta, þá er eðlilegt svona í
fljótu bragði, að prestarnir felli sig ekki við þau orð, að fækka prestum, enda hafa líka sumir prestar
skrifað á móti því, og að nóg flyttist af fólkinu úr sveitunum, þó að prestarnir fengju að vera þar sem
flestir, og fljótt á litið er það hárréttt. En þegar maður lítur á allar aðstæður, þá kemur í ljós, að svo
vel menntaðir menn, sem prestarnir eru og kostaðir af ríkinu, hafa flestir langt of lítið að starfa við sitt
embætti. Það er hvort tveggja: að það er vont fyrir unga menn, og á bezta skeiði, hrausta og vel
menntaða, að hafa ekki nóg að starfa, og eins fyrir ríkið sem kostar þá.
Þegar maður ber saman embættismenn í sveitunum, presta og lækna, þá kemur í ljós að í sumum
sýslum eru 4 – 6 prestar á móti einum lækni. Það segir sig sjálft, að þessi munur er óþarflega mikill,
auðvitað eru sums staðar læknar of fáir, en við því er ekki gott að gera, að sagt er, og liggja til þess
skiljanlegar ástæður, svo sem fámenni og stjálbýli í sumum héruðum landsins, svo læknar geta haft
það miklu betra og skemmtilegra í Reykjavík o.s.frv.
Sumir halda því fram að prestarnir séu of fáir í Reykjavík, og að þeir þyrftu að vera helmingi fleiri, ég
er nú ekki svo kunnugur því, að ég geti um það dæmt, en samt gæti ég trúað því, að þeir sumir hefðu
allt of mikið að gera, svo sem sumir læknar hér í Reykjavík, svo að heilsu þeirra og kröftum sé
ofboðið. Þetta ætti ekki að þurfa að vera með prestana hér í Reykjavík, það ætti að vera hægt að
samræma það, að hafa fleiri presta í Reykjavík, og færri sums staðar í sveitunum, þar sem þeir hafa
allt of lítið að gera, eins og maður er marg oft búinn að skrifa um. Ég get ekki séð, að það væri neitt
verra fyrir ríkið að byggja fleiri kirkjur hér í Reykjavík, svona laglegar að vexti og gerð, en rándýr
prestseturshús hingað og þangað út um landið, sem sum standa hálf tóm mikið af árinu. Og ekki nóg
með það, heldur hafa líka komið fram tillögur með að byggja fénaðarhús eða skepnuhús og allt sem
þeim tilheyrir, hlöður, áburðargeymslur og meira að segja að rækta jörðina líka með jarðabótum
o.s.frv. Svo eftir allan þennan kostnað getur þetta og þetta prestssetrið farið í eyði að hálfu eða öllu
leyti eins og dæmin sýna hvert af öðru. En hvað eiga nú prestar að gera við þetta allt saman? nema
að ríkið kaupi þá líka handa þeim allan bústofn, því það gefur að skilja, að ungir og fátækir prestar
geta það ekki af eigin ramleik, og sumir kannske það hyggnir að þeir vildu ekki leggja peninga af
launum sínum í það lotterí, að þarflausu.
Eins og ég hefi áður tekið fram um þetta mál í Tímanum, þá eru þeir tímar núna og framundan, að
það er allt annað nú fyrir embættismenn í sveitum landsins að reka búskap en áður var, þegar fólkið
bauðst í vistirnar fyrir lítið meira kaup en fæðið, og þó að prestar sumir, sem eru búmenn og áttu
bústofninn fyrir dýrtíðina, reki búskapinn vel, þá er það ekki sambærilegt við þá presta, sem byrja nú
og í næstu framtíð búskap með tvær hendur tómar.
Það er allt annað þó ríkið styrki bændaefni til að búa í sveit, það er þeirra lífsstarf, en embættismenn,
hvort sem það eru prestar eða læknar sem búa í sveitunum, hafa sín laun frá ríkinu til að framkvæma
sitt lífsstarf, og eiga sjálfir að ráða því hvernig þeir verja þeim peningum, sér og sínum til
lífsframdráttar, hvort sem þeir vilja búa, eða kaupa allt sem þeir þurfa að lifa af, hjá nábúum sínum
o.s.frv.
Alþingismenn munu vera nokkuð hikandi í þessu máli, þó þeir viti manna bezt hvað réttast væri að
gera í því efni, og ég get vel sett mig í það, því það er hvort tveggja, að þeir hafa mörg stærri mál og
vandasamari fram úr að ráða á þessum alvarlegu tímum. Og svo annað að prestastéttin og fjöldi af
fólkinu í landinu vill ekki hreyfa við þessu máli, heldur bara að láta það vera eins og það hefur lengið
verið, jafnt fyrir það, þó staðhættir hafi gjörbreytzt víðast á landinu með vegi, brýr og farartæki, síma
og útvarp. Það getur því verið pólitískt spursmál fyrir alþingismenn að ráða fram úr þessu máli, en þó
verða þeir nú samt að taka af skarið eins og þeir eru menn til.“
Svo býð ég ykkur öllum gleðilegan maímánuð.
Starkaður gamli.

Tíminn, föstudaginn 11. maí 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi rabbar hér um sauðfjáreign og heyásetning:
„Mánudaginn 23. apríl talaði alþm. Gísli Guðmundsson um daginn og veginn, og talaði hann um
sauðfjáreign landsmanna á síðari öldum, harðindi og góðæri, fjárkláðann og fleiri pestir, svo sem
móðuharðindin. Vegna alls þessa var fjáreignin mjög misjöfn að tölu, og var erindið mjög fróðlegt,
sem vænta mátti.
Þegar ég var að alast upp í Skaptafellssýslum, töluðu eldri menn mikið um sýkingarpestina og svo var
líka í minni tíð. Lömb og veturgamalt fé hrundi oft niður frá því snemma á haustin og fram eftir vetri,
og var oft af því mikið tjón. Stundum var líka skita og ormar, svo ekkert varð ráðið við, þar til
ormameðalið og bólusetningarmeðalið kom til sögunnar og er það ómetanlegt fyrir sauðfjáreigendur,
og verður um alla framtíð.
Gísli Guðmundsson talaði líka um hvaða þýðingu sauðfjáreignin hefði haft fyrir líf þjóðarinnar og það
gerði líka Bjarni Ásgeirsson í útvarpserindi hér um árið. Lýstu þeir með fögrum orðum, hvað
sauðkindin hefir fætt og klætt fólkið í landinu. Og enn í dag er það svo, að engar afurðir bænda eru
eins dýrar og í háu verði eins og afurðir sauðkindarinnar, og þegar fráfærurnar tíðkuðust, þá var
sauðamjólkin aðal bætiefni fólksins í sveitunum, sumar og vetur – með skyri, osti o.s.frv., fyrir utan
alla þá skemmtun og ánægju, sem fólk hefir haft af að fást við sauðfé, vetur, sumar, vor og haust, og
börnin sem ólust upp við sauðfé, hlökkuðu ekki til neins eins mikið og smalamennsku, haust og vor,
og margur fjármaðurinn hefir lifað einar af sínum mestu ánægjustundum við fjárhirðingu.
Það er því sorglegt til þess að vita, að alltaf skuli sauðkindin hafa lifað í hættu fyrir fóðurskort,
hvenær sem hefir ábjátað með tíðarfar, vetur og vor, og allt fyrir skakkt búskaparlag, samanber það,
að alltaf hefir einn og einn bóndi komizt af með hey á hverju sem hefir gengið með tíðarfarið, og þó
með líkar aðstæður og fjöldinn, bæði með slægjur og fólk o.fl. Auðvitað er þetta víða að lagast bæði
fyrir breytingu á hugsunarhætti fólksins, vélamenningu og ræktunarskilyrðum með tilbúinn áburð,
fóðurbæti o.s.frv. En betur má ef duga skal. Það þarf að verða almennt á landi hér, að allir, sem eiga
lifandi skepnur eða fénað, setji hann ekki á vogun. Að vísu segir máltækið, að vogun vinnur og vogun
tapar, enda hafa líka margir bændur um dagana notað sér það, stundum grætt á því, en oftar tapað á
því og það aleigu sinni, og liðið við það sálarraunir og haft fyrir það amstur og áhyggjur og fjárhagsleg
tjón, sem seint eða aldrei hefir verið hægt að bæta upp. Í grasleysisárum eða á rosasumrum hafa oft
verið erfiðleikar að afla heyja og þá að haustinu verið lítil hey og léleg, og annað hvort orðið að
stórfækka fénaði eða setja hann á vogun, en hvorugur kosturinn er góður, en ef að sá kosturinn er
tekinn, að setja á vogun, og ef þá yrði snjóavetur og hart vor, þá sjá menn í hendi sér úrslitin – með
öllum þeim kostnaði, afurðatapi meira og minna og ef til vill að fella allan stofninn. Betra hefði verið
að taka fyrri kostinn: að fækka fénu það mikið að haustinu, að því væri óhætt, sem á er sett, þó vetur
og vor yrði hart og fá af því góðar og tryggar afurðir.
Dæmi: Bóndi telur sig þurfa að setja á vetur 200 ær, og væri góður með það í meðal vetri og góðu
vori, en hefði ekki fóður nema fyrir 100 ær í vondum vetri og hörðu vori. Auðvitað græddi hann á því
að setja á 200 ær, ef veturinn yrði mildur og vorið gott, en ef veturinn og vorið yrði vont, þá hlyti sá
bóndi að fara illa út úr því, með ærnum kostnaði, afurðatapi, og ef til vill fjármissi. Þá kæmi í ljós, að
sá bóndi, sem ætti framgengngar 100 ær vel fóðraðar og afurðaríkar, væri orðinn mikið stöndugri að
vorinu, en sá bóndi, sem að haustinu átti 200 ær. Sama gildir, hvort bóndinn er ríkur eða fátækur.
Allur óvarlegur ásetningur á vogun vegna fóðurskorts í harðindum hefnir sín og gerir hann bláfátækan
áður en hann veit af. Fyrir utan alla þá raun, sem því fylgir að lenda í fóðurskorti fyrir fénað sinn í
harðindum. En sá bóndi, hvort sem hann er ríkur eða fátækur, sem ekki setur á fleira fé en það, að
hann geti gefið því mest allan veturinn og vorið fram yfir fardaga, ef því er að skipta, stendur traustari
fótum efnalega, en hinn bóndinn, þó að hann hafi til jafnaðar færri fénað og græði minna á góðu
vetrunum.
Í dag las ég í Tímanum, að bóndi á Norðurlandi, sem seldi sauðfé sitt sökum brottflutnings, fékk fimm
hundruð krónur fyrir kindurnar upp til hópa, ær og gemlinga, nú um sumarmálin. Já, það er dýrt að
kaupa sauðfé núna, og dýrt að missa það. Fyrir eina kind fæst nú á dögum verð, eins og fyrir tvær
snemmbærur til samans, ekki fyrir svo ýkjamörgum árum, og þó að dýrtíðin, og hækkunin sé mikil á
öllu dauðu og lifandi, þá held ég að sauðkindin skari þar fram úr öllu í samanburði við það, sem áður
var með verðlag. Það er því mikið í húfi að sauðféð falli ekki fyrir fóðurskorti, enda eru ráðamenn
þjóðarinnar farnir að hafa af því miklu meiri afskipti en áður var, og er það vel farið. Mér finnst að
þeir ráðherrar, sem sitja nú í ríkisstjórn landsins, hafi með sér góða samvinnu að styrkja hvern annan.
Hermann Jónasson hefir nú landbúnaðarmálin í sínum verkahring. Mér finnst, að bændur landsins,
hvaða stjórnmálaflokki sem þeir tilheyra, geti einmitt borið traust til hans, að ráða fram úr þessu
vandamáli, sem hér hefir verið gert að umtalsefni og komið hey-á-setningarmálinu á traustan
grundvöll.
Það skal enn játað, eins og fyrr er tekið fram, að alltaf eru bændur til, sem aldrei bila með hey, hvað
hörð sem tíðin er. Bændur landsins eiga að vera sómi þjóðarinnar, en það eru þeir ekki, nema þeir
séu traustir landbúnaðarmenn, en það geta þeir ekki kallazt, nema þeir hafi allan sinn fénað eða
skepnur vel tryggðar með fóður í harðindum“.
Í þessu sambandi vil ég spyrja menn, hvort þeir muni yfirleitt eftir mörgum bændum, sem illa hafa
bjargazt og þurft hjálpar með, hafi þeir aldrei komizt í heyþrot. Það svipast hver um hjá sér.
Starkaður gamli.


Tíminn, þriðjudaginn 21. maí 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi tekur til máls:
„Þeir, sem láta sig nokkuð skipta almenn mál þjóðarinnar, svo sem skóla- og uppeldismál, hafa
sjálfsagt að öllu forfallalausu fylgzt með og hlustað á skólaþætti útvarpsins, er Helgi Þorláksson
kennari sá um. Ég er einn af þeim hlustendum útvarpsins, sem þótti þessir þættir sýna lofsverðan
áhuga á skólamálum hér í Reykjavík, enda mun kennarastéttin að mestu leyti vera skipuð vel
menntuðum mönnum og áhugasömum um skólamál. Og þó þessir skólaþættir geri ekki neina
breytingu á skólalöggjöfinni að þessu sinni, þá vekja þeir samt áhuga fólksins með ýmsar breytingar á
barnaskólalöggjöfinni, sem til bóta má verða, svo sem að hafa skólatímann styttri ár hvert, – svipað og
með alþýðuskólana, að þeir byrji ekki fyr á haustinu en með október, og standi ekki lengur yfir að
vorinu en til aprílloka. Við, sem erum vanir barnauppeldi, höfum vel vit á þessari hlið málsins, þó að
við, sem ekki erum lærðir kennarar, höfum ekki þekkingu á ýmsum öðrum greinum lærdómsins á við
lærða kennara.
Annars voru þessir skólaþættir að mér fannst bæði skemmtilegir og fróðlegir um kennsluaðferð
skólanna í sumum greinum að minnsta kosti. Án þess að ég ætli mér að fara út í það hér, að ræða um
það, sem lesið var og rætt um í þessum skólaþáttum, þá er það þó eitt atriði, sem ég ætla að taka
fram í sambandi við síðasta þáttinn, og bréf, sem lesið var upp, frá konu á Austurlandi. Þar segir
eitthvað á þessa leið: Börnin, sem koma í sveitina á vorin til að vera þar yfir sumarið, sækja þangað
meira seinna árið en það fyrra. Þessi fullyrðing hljóðar allt öðru vísi en mín reynsla er af þessum
málum, sem nú skal greina: Börn, sem ekki hafa farið í sveit áður, en eiga nú að fara það, hlakka
vanalega mikið til þess, en þegar þau eru svo komin þangað, sem þau eiga að vera yfir sumarið – eða
á það heimili, þá er það oftast svo að þeim leiðist, og það mikið stundum, og flest af þeim sækja ekki
eftir að fara í sveit aftur þótt þau verði að hafa það, og þau börn, sem svona eru, eru verri seinna árið
en það fyrra. Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlilegt og kemur til af því tvennu, að þeim þykir skemmtilegra
götulífið með leikfélögum sínum, og svo með sum þeirra að þau eru löt að vinna sveitaverkin, þykir
eins og áður er sagt, skemmtilegra að leika sér við leiksystkini sín heima hjá sér. Þetta er mín reynsla
að undanskyldu einu og einu barni. Auðvitað eru þau verst af leiðindum fyrst á vorin, en lagast þegar
kemur fram á sumarið, – fara þá að telja dagana til haustsins, að komast heim aftur, sem von er. Ég
hef alltaf getað vorkennt þeim börnum, sem leiðist og langar heim til sín – það er svo eðlilegt. Allt
fyrir það þurfa sem flest börn í Reykjavík og sumum kaupstöðum að komast í sveitina að sumarlagi,
því bæði er það að undir flestum kringumstæðum hafa þau gott af því, og svo eru flest heimili í
sveitunum, sem þurfa að fá stálpuð börn yfir sumarið til hjálpar við heimilisstörf, sérstaklega getur
það verið gott, þar sem vélar eru komnar í staðinn fyrir orf og hrífur, því svoleiðis heimilis þurfa síður
fullorðið kaupafólk, enda líka of dýrt eins og sakir standa.
Svo ég víki aftur aðeins að skólamálunum, þá er ég einn af þeim mönnum, sem hygg að betra væri að
skólarnir væru fleiri og smærri hér í Reykjavík, þó að það kostaði fleiri kennara, ég á við barnaskólana.
Þetta vita barnakennararnir líka manna bezt og hafa sumir þeirra látið það í ljósi, en við þessu er
kannske ekki svo gott að gera, barnaskólarnir hér í Reykjavík eru svo stórir og við það verður auðvitað
að sitja, en framvegis ætti þetta mál að verða til athugunar við nýjar skólabyggingar. Ef maður hugsar
um árangurinn af skólastarfinu, að börnin læri vel það sem þeim er kennt, þá gefur að skilja að
kennari, hversu góður sem hann er, ef hann hefir of mörg börn til að kenna, getur ekki kennt eins vel
og jafn góður kennari, sem hefir ekki of mörg börn undir sinni hendi til kennslu. Ég er nú líklega
kominn of langt út í þessar sakir, því auðvitað þekkja góðir og æfðir kennarar þessar hliðar málsins
langtum betur en ég, en allt er þetta þá til athugunar fyrir þá góðu kennara, sem hafa áhuga fyrir
þessum skólamálum, og vita hvað það hefir að þýða fyrir framtíð þjóðarinnar“.
Starkaður gamli.

Tíminn, föstudaginn 13. júlí 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir sent pistil þann, er hér fer á eftir:
„Þegr ég las smá fréttagrein í Tímanum 5. þ.m. um endurbyggingu á Víðidalstungurétt, sem þá var
verið að byrja á, og flytja á heppilegri stað, og steinsteypa á varanlegan hátt, þá rifjaðist það upp fyrir
mér, sem ég hef þó oft hugsað um áður, hvað sumar fjárréttir eru í lélegu standi, og á óheppilegum
stöðum. Í góðum fjárplássum er það vansi mikill fyrir fjáreigendur og hlutaðeigandi hreppa, að hafa
almenningssauðfjárréttina í óstandi.
Þegar maður kemur í almenningsrétt á haustdegi, þá setur það svip sinn á fjáreign bænda,
myndarskap þeirra og samtök, hvernig réttin er úr garði gerð, og öll aðstaða henni fylgjandi: Svo sem
dilkar, til að draga í féð, hvort þeir eru nógu stórir, og nógu margir fyrir búendur, sem hlut eiga að
máli, og svo ekki sízt, hvort fjárgirðing er við réttina, ef féð kemst ekki í hana í einu o.s.frv.

Eins og áður er sagt, er þetta áberandi, þar sem er margt sauðfé, og gott fjárpláss, s.s. góð heiðalönd
og afréttir. Þá er að nefna þann mikla mun, sem er á því að eiga við féð, þar sem aðstaðan er góð og
trygg, heldur en þar sem allt er í óstandi; féð fer yfir veggina á milli dilkanna, ef veggirnir eru of lágir,
eða byggingarefnið er svo vont að veggirnir smá hrynja, og verða þá að því mikil óþægindi, eins og
gefur að skilja.
Þar sem almenningsréttir eru í óstandi, og standa kannske á óheppilegum stöðum fyrir hreppsbúa, þá
þarf ekkert annað en samtök bændanna og þegnskylduvinnu þeirra, til þess að hrinda þessum
málum í framkvæmd. Ég hygg, að bezt sé að steypa réttirnar, þótt það verði kannske dýrara í bili, þá
verður það lang varanlegast, og kemur til með að borga sig bezt, þegar fram í sækir, enda líka óvíða
gott byggingarefni til nema steypan.
Eins og menn vita, hefir sauðféð alltaf verið dýrmæt eign fyrir líf þjóðarinnar og svo er enn í dag.
Verðlag þess er nú svo hátt, að undrun sætir. Það er því bæði gagn og gaman fyrir bændur að hafa
alla aðstöðu við fjárhirðinguna sem bezta og sómasamlegasta.“
Starkaður.


Tíminn, föstudaginn 20. júlí 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir óskað eftir að gera eftirfarandi athugasemd við grein Björns L.
Jónssonar veðurfræðings, sem Tíminn birti 14. þ.m. um þjóðardrykk Íslendinga.
„Ég ætla mér ekki þá dul, að reyna að hrekja það, sem Björn segir um þau eiturefni, sem í kaffinu séu.
Þvert á móti ætla ég að láta það allt satt vera. En reynslan sýnir allt annað en að þessi eiturefni séu
svo óholl líkama mannsins, sem þessi gáfaði maður vill vera láta. Það, sem ég þekki til, þá hafa menn,
sem ekki hafa drukkið kaffi, annað hvort aldrei drukkið það, eða hætt að drekka það á ýmsum aldri,
hvorki verið hraustari né langlífari en þeir menn, sem alltaf hafa drukkið kaffi allan sinn aldur, nema
ef þeir hafa legið veikir og hvorki getað neytt matar eða kaffis, eins og gefur að skilja með veika
menn.
Það er vonlítið verk, að ætla sér að láta menn trúa þvi, að þreyttum og syfjuðum manni sé það eins
og svipuhögg á þreyttan hest, að fá sér kaffisopa líkamanum til hressingar. Þegar menn eru orðnir
þreyttir við vinnu, en þurfa þó að vinna lengur, þá gefur það að skilja að líkaminn slitnar meir á því að
vinna áfram þreyttur en endurnýjaður.
Meðan ekki er hægt að sýna það og sanna, að fólk, sem ekki drekkur kaffi sé hraustara og lifi lengur
en það fólk, sem drekkur kaffi, heldur jafnvel þvert á móti, þá er vafasamt að það sé rétt að vera að
prédika um ýms eiturefni í þeirri vöru, sem reynslan hefir sýnt, að fólkið hefir gott en ekki illt af að
neyta. Það getur jafnvel orðið til þess að gera fólk að óþörfu ímyndunarveikt.
Fyrir allmörgum árum tók ráðdeildarfólk í nokkrum hrepp upp á því að hætta að drekka kaffi, bæði til
sparnaðar og hollustu, en það liðu ekki mörg ár, þar til að flest af því fólki breytti um aftur og fór að
drekka kaffi í hófi, því að soðið vatn, sem það hafði notað í stað kaffis reyndist leiðigjarnt. En kaffið
má spara með tei, sérstaklega er te hollt með kvöldmat eins og kunnugt er. Þegar menn eru þreyttir á
ferðalagi að kvöldi dagsins er ágætt að fá sér góðan kaffisopa áður en gengið er til hvílu. Það
endurnýjar líkamann og menn sofa betur og þó ekki eins fast.

Kaffið hefir góð áhrif á sálarkrafta mannsins, gerir þá glaða og léttlyndari. Margur maðurinn hefir átt
glaðar og ánægjulegar stundir við kaffidrykkju, bæði heima og heimanað. Og þó menn t.d. rífist á
fundum útaf pólitík eða öðru, þá eru þeir orðnir allt í einu mestu mátar við kaffiborðið.
Börn, sem eru orðin stálpuð og ekki fá að smakka kaffi, eru sízt lystugri en hin, sem fá kaffisopa svona
í viðlögum, og ef þau börn, sem ekki fá kaffi, geta náð sér í kaffisopa, eru þau í ekkert eins sólgin, ef
þau eru ólystug á mat. En ég get vel gengizt inn á það, að það væri mikil sparnaðarráðstöfun fyrir
gjaldeyrir þjóðarinnar, ef allt fólkið í landinu hætti að kaupa kaffið, en ég hygg að ekkert væri hægt að
fá innlent í staðinn, sem fólkið yrði ánægt með, nema að búa til áfengt öl í landinu sjálfu“.
Það má segja um skoðanir þeirra Sveins og Björns, að sínum augum lítur hver á silfrið, og verður svo
ekki rætt meira um þetta mál né önnur í baðstofunni í dag.
Starkaður.


Tíminn, miðvikudaginn 1. ágúst 1951
Baðstofuhjal
Hér er kominn Sveinn Sveinsson frá Fossi og ætlar að tala um kaffið og síðan um önnur mál í tilefni af
því. Gef ég honum orðið:
„Um síðari grein Björns L. Jónssonar veðurfræðings í baðstofunni föstudaginn 27. júlí s.l. í tilefni af
grein minni í baðstofunni 20. s.m. um kaffið, vil ég aðeins taka fram eitt atriði til skýringar. Björn telur
menn viðurkenna óhollustu kaffisins með því að meina ungbörnum og jafnvel stálpuðum börnum að
neyta þessa drykkjar. En er ekki margt fleira, sem við meinum börnunum að neyta meðan þau eru
ung en kaffið, svo sem hangikjöt, og er það þá þjóðarréttur ekki síður en kaffið, og margt fleira af
sterkum mat o.s.frv. Að öðru leyti er þessi síðari grein Björns í sama anda og fyrri grein hans, og læt
ég svo lokið máli mínu um kaffið – að þessu sinni.
Af því að við Björn veðurfræðingur höfum nú verið að skrifa um heilsufræðandi mál, þá er ekki úr
vegi að spjalla hér dálítið meira um heilsufræðandi atriði, sem ég kem að síðar í þessum línum. Þegar
ég var hjá foreldrum mínum í Ásum í Skaftártungu, þá var Eldvatnið, eða Ásavatn, óbrúað og ófært
öllum nema á ferju, en þá lá þjóðleiðin yfir Kúðafljót syðra, um Álftaver og Meðalland, þar til að
brúað var efra um Skaftártunguna. En alltaf var mikil umferð milli Meðallands og Skaftártungunnar,
um Ása, Tungumenn í trjáflutningum, en Meðallendingar í fjárrekstrum og fjárleitum. Það var því oft
mikið að gera við ferjuna, og verstu flutningar á litlum bát, stór tré og lifandi fénaður, enda ekki
hættulaust, þegar flug var í vatninu eða ísskrið, því að stutt var á milli iðukastanna, þar sem hættan
var mest. Í mörg ár var ég við ferjuna í ábætir við venjuleg heimilisstörf. Það skapaðist því mikill
kunningsskapur milli Ásaheimilisins og Meðallendinga, sem ég naut síðar eins og sagt verður hér frá.
Laust eftir aldamótin byrjuðum við hjónin búskap við ótrúlega mikla fátækt, eins og þá gerðist með
frumbýlinga, sem ekki gátu sezt á óðul feðra sinna. Þá var hvergi jörð að fá í Skaftafellssýslu, og
fengum við þá húsaskjól á Leiðvelli í Meðallandi hjá Erasmusi Árnasyni, er bjó þar þá með foreldrum
sínum, en slægjur urðum við að fá annars staðar, því að ekki voru þær afgangs á Leiðvelli. Þá bjuggu á
Strönd í sama hreppi systkinin frá Fellum, Ingimundur og Þóra, alþekkt fyrir dugnað, áhuga og
mannkosti. Hjá þeim gat ég fengið slægjur, og lágum við hjónin þar við um sláttinn, en frá Strönd –
eða úr Strandarmýri er á þriðja klukkutíma lestagangur hvora leið að Leiðvelli. Það var því langt að
flytja heyið og allt á klökkum, eins og þá gerðist og ómögulegt fyrir einyrkjann nema með hjálp
annarra. Það stóð heldur ekki á því hjá Meðallendingum að ljá mér hesta til að flytja heyið. Það var nú

svo sem sjálfsagt, en það þurfti helzta að vera um helgar, því að sjálfir þurftu þeir að brúka hesta sína
virku dagana, eins og gefur að skilja.
Þá bjó í Sandaseli Hjörleifur Jónsson og Ragnhildur kona hans. Þeim hjónum var nautn í að gera
öðrum greiða. Slægjurnar á Strönd og Sandaseli liggja saman. Hjörleifur kom til mín um hverja helgi til
að flytja með mér heyið. Hann var dásamlegur maður að hjálpsemi. Ég var líka heppinn með fleira en
góða menn, því að alltaf var eindreginn þurrkur, svo að heyið hraktist aldrei, og ekki var annað en
duga, enda heyjaði ég mjög vel miðað vð umræddar ástæður.
Og nú er ég kominn að aðalefninu með þessum línum. Ég var í mörg ár búinn að vera eitthvað lélegur
í maganum, en nú var ég að hríðversna, enda fæðið ekki vel hentugt, og mikið erfiði. Á nóttinni gat ég
ekki nema smáblundað fyrir sviðaverk fyrir brjósti og aftur í bak, og brjóstsviða. Það lá því við að ég
væri alveg að gefast upp. Þá skeður það, sem nú skal greina: Dag einn, sem oftar, er ég að slá utast úti
í mýri. Sé ég þá einhverja hreyfingu í grasinu mitt á milli mín og Sandasels. Þegar þessi hreyfing kemur
nær, sé ég þá, að þetta eru lítil börn, sem bera eitthvað á milli sín, og þegar þau eru komin til mín
með þessa byrði sína, er það selkjöt með spikinu á, sem hjónin í Sandaseil sendu mér að gjöf.
Hjörleifur hafði veitt kópa og bjóst við, að ég hefði gaman af að smakka selkjöt. Fer ég svo heim með
þessa óvæntu gjöf, sem þessi litlu, elskulegu börn færðu mér frá sínum elskulegu foreldrum.
Þegar ég er nýkominn heim, segir Ingimundur mér, að þeir á Söndum, eða í Sandaseli, séu búnir að
veifa, en það þýðir, að þeir ætla í Kúðaós í selveiði. Fara þá flestir þangað í einu kasti úr Meðallandi,
sem hlut eiga að máli. Ingimundur spyr mig hvort ég vilji ekki fara líka og auðvitað vildi ég það, því að
þetta hafði ég aldrei farið. Þustu svo allir að Söndum með Hjörleif í fararbroddi yfir Kúðafljót. Þegar
þangað er komið, taka Sandabræður, ásamt Hjörleifi, forustuna við veiðiskapinn. Veiðin gekk vel
sögðu þeir, sem vit höfðu á. Ég fékk heilan veturgamlan sel í minn hlut og þó eitthvað meira. Auðvitað
var það gjöf, eins og venja var með viðvaninga.
Þegar við komum heim um nóttina með þessa góðu veiði, en hraktir og blautir, beið mín á borðinu
fullur diskur af selkjöti og selspikið með. Borðaði ég þá með beztu lyst, bæði kjöt og spik til samans,
svaf svo vært til fótaferðar, og fann ekkert til úr því, enda lifði ég á selkjöti og spiki með, fyrst nýju og
svo söltuðu hvern einasta daga út sláttinn og albatnaði.
Ekki var þá að tala um að hafa kartöflur eða grænmeti um sumartímann eins og nú er og þykir
sjálfsagt, enda finnst manni, þótt maður hafi kjöt og fisk, að maður sé hálf matarlaus, ef ekki er til
kálmeti.
Þetta, sem hér hefir verið sagt, sýnir það, hvað það er mjög áríðandi fyrir menn, sem verða veikir í
maga og illt af mat, að þreifa sig áfram með fæðuna og lifa einungis á því, sem þeir finna sjálfir, að
þeim verður bezt af, og gera það áður en þeir fara í matarkúr, sem gerir suma menn horaða og að
vesalingum. Ef menn geta ekki sjálfir fundið þá fæðu, sem þeir læknast af í byrjun sjúkdómsins, þá er
að fara til læknis og hlíta hans ráðum.“
Sveinn hefir lokið máli sínu og læt ég umræðunum lokið að þessu sinni.
Starkaður.

Tíminn, laugardaginn 8. september 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir sent okkur eftirfarandi pistil:
„Árið 1923 stóð ég upp fyrir presti, frá Ásum í Skaftártungu og flutti þá um vorið að Fossi í Mýrdal.
Um sumarmál það sama vor fór ég suður í Meðalland og var þar í vikutíma við að afla mér og flytja
saman á einn stað timbur, sem ég átti í Meðallandi, bæði úr ströndum og rekavið af fjöru, sem fylgdi
Ásum. Til þessa hafði ég bæði menn og hesta í Meðallandi. Þegar timbrið, sem taldist til að væru
fjörutíu hestburðir, var allt komið á einn stað, fór ég um Meðallandið til að fá menn og hesta að flytja
þetta allt í einni ferð útyfir Kúðafljót. Það var mikill floti.
Svo þegar við komum út í Álftaver, heim að Norður-Hjáleigu, voru þeir feðgar Gísli Magnússon,
hreppstjóri, og Jón sonur hans – nú alþingismaður V.-Skaftfellinga, að saga stórtré, fékk ég leyfi hjá
þeim að taka þar timbrið af vögnunum og klökkunum, svo að Meðallendingar gætu farið samdægurs
aftur til baka, með hestana og fartækin, austur yfir Kúðafljót og heim til sín, eftir drengilega og
ógleymanlega hjálp – fyrir ekkert verð.
Nú, þegar þetta var búið, hættu þeir feðgar að saga og leiddu mig til stofu, tókum við þá saman ráð
okkar, og talaðist til að bezt væri að koma öllu timbrinu útyfir Sand, að Vík, næsta dag, og að ég færi
þá um kvöldið um alla bæi í Álftaveri að fá menn og hesta út að Vík daginn eftir. Þetta gekk allt að
óskum, mér var tekið eins og það kæmi engill af himnum, fékk menn og hesta eins og ég þurfti, Hildur
Jónsdóttir, ljósmóðir á Þykkvabæjarklaustri, sagði þá við mig: „Eitthvað er eftir af þér enn Sveinn
minn“.
Ég var nefnilega sumarið áður búinn að liggja misseri út af inflúensu. Þeir feðgar Gísli og Jón og
Brynjólfur Oddsson, nábúi þeirra, aðstoðuðu mig með þetta á allan hátt. Að morgni næsta dags voru
menn og hestar komnir um fótaferð, og var þá tekið til óspilltra málanna að binda á vagna og
reiðinga, og komast af stað, og þó var tekið að dimma, þegar við komum til Víkur. Reið ég þá á undan
flotanum að Vík, til að útvega hey og hesthús handa hestunum um nóttina. En timbrið fékk ég geymt í
Sláturfélagsréttinni þar til síðar um vorið, að hafizt var handa um byggingu á Fossi.
Einn vinur minn í Vík, sagði við mig morguninn eftir, þegar hann sá allt þetta timbur: „Það var skaði,
að þú gazt ekki komið í björtu í gærkvöldi, því að það hefði verið áberandi að sjá þessa miklu
timburlest fara í gegnum þorpið.“ Daginn eftir var svo farið austur yfir Sandinn með hesta og öll
farartæki. Þegar kom austur á Sandinn, fór ég efri leiðina á mínum tveimur reiðhestum, en
Álftveringar syðri leiðina, með allan flotann heim til sín, eftir drengilega og ógleymanlega hjálp – fyrir
lítið verð og ekkert verð.
Sama vor, þegar sá stóri dagur kom, að við urðum að flytja frá Ásum, var glaða sólskin. Skaftártungubændur,
allir með tölu, komu þá með hesta sína til hjálpar við flutninginn. Það var mikill floti; allur
farangur, kýr og flutningur; tíu börn sitt á hverju árinu, það elzta þá ekki heima og það yngsta, eða
tólfta, þá ekki komið í heiminn. Þá voru heldur ekki bílar komnir til sögunnar.
Þegar við vorum komin að Vík, var okkur boðið að vera þar með börnin, en það gátum við ekki þegið,
því bezt var og enda sjálfsagt að komast alla leið um kvöldið. Glatt var á hjalla, þegar þetta var allt
búið, slysalaust. Var þá fjölmennt þar um nóttina, því auðvitað gisti allur flotinn þar, var maturinn
framreiddur á skalla, sem kallað er, og aðallega sofið í flatsængum. Þennan dag, þegar við vorum
komin áleiðis á Sandinn, sagði einn bóndinn við mig: „Við Tungubændur hefðum nú heldur viljað
flytja annan ónefndan mann úr Skaftártungunni en þig Sveinn minn með allan hópinn þinn.“

Næsta dag fóru svo Skaftártungumenn til baka heim til sín, eftir drengilega og ógleymanlega hjálp,
eins og gefur að skilja fyrir ekkert endurgjald. Þessar endurminningar, sem hér hafa verið skráðar,
vekur hjá manni metnað og aðdáun að hafa orðið aðnjótandi svo mikillar vináttu góðra manna, i þeim
kringumstæðum, sem fjölskyldan var þá stödd í.“
Fleira verður ekki rætt í dag.
Starkaður.


Tíminn, miðvikudaginn 19. september 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi ræðir hér um skoðanamun manna og mannkosti í lífsbaráttunni:
„Fátt mun mönnum yfirleitt vera erfiðara í breytni sinni við aðra menn en það að koma fram við þá í
öllum viðskiptum og hegðun, eins og vér vildum að þeir kæmu fram við oss. „Það, sem þú vilt að aðrir
gjöri þér, það skalt þú og þeim gjöra.“
Góðir menn, sem hafa aðstöðu til þess í lífinu að breyta eftir þessari kenningu meistarans, og gera
það eins og breyzkum manni er yfirleitt mögulegt, verða oft fyrir vonbrigðum og vanþakklæti.
En greiðviknir menn mega alltaf búast við því hjá einum og einum manni, og mega því ekki fyrir það,
taka lífsstefnubreytingu til hins verra. Því að þótt sumir menn launi drenglyndi með ódrenglyndi, þá
er sem betur fer fjöldinn, sem launar gott með góðu, og oftast er það svo í lífinu, að menn hitta
sjálfan sig fyrir, sem kallað er, á hvora lund sem þeir hafa breytt gagnvart náunga sínum. Þetta er
staðreynd, sem betur fer, því annars stæði á sama hvort menn lifðu vel eða illa.
Annars eru sumir menn gagnstæðrar skoðunar í þessu máli, gefa ekkert fyrir vinskap annarra manna,
og telja að það þýði ekkert annað en lifa eftir þvi, sem þeir ímynda sér að þeir hagnist mest á, jafnvel
þótt það sé að einhverju leyti á kostnað náungans eða velgerðarmanns.
Dæmi: Bóndi, sem bjó á stórri jörð, tekur annan mann inn á jörðina, vegna þess að maðurinn þráði að
komast á þessa jörð, og fara að búa, enda kominn á þann aldur að fara að skapa sér framtíðarlífsstarf.
Bóndinn skildi þetta vel, og tók því manninn inn á jörðina og lánaði honum hús og húsaskjól. Fyrstu
árin bjuggu þeir svo báðir á jörðinni hvor á mót öðrum. Hagbeitina höfðu þeir í félagi óskipta, en
slægjum skiptu þeir á milli sín. En ekki liðu mörg ár þar til að nýi bóndinn sá sér hag í því að verða
helzt til ágengur gagnvart velgerðarmanni sínum. Sló í leyfisleysi það af slægjum hans, sem honum
sýndist í það og það skiptið, og margt fleira. Stórmóðgandi, sem ekki þýðir að nefna.
Einu sinni hagaði svo til, að fyrrnefndi bóndinn hafði ráð á atvinnu og býður síðarnefndum bónda að
vera með sér, því hann þurfti líka peninga, en eftir eitt eða tvö ár fékk síðarnefndi bóndinn ráð á
þessari atvinnu, vegna atvika, sem ekki verða nefnd hér, en þá útilokaði hann fyrrnefnda bóndann frá
þessari atvinnu með sér.
Annað dæmi af öðrum mönnum: Tveir menn, eða nábúar, vinna saman innan sama sveitarfélags.
Annar nábúinn vill fá hækkað kaup sitt, og hinn nábúinn, sem hafði aðstöðu til að mæla með því –
eða móti því, en þar sem honum fannst kauphækkunarkarfan vera á rökum byggð og þvi eðlileg,
mælti hann eindregið með því. Fékk því kaup sitt hækkað eins og hann fór fram á.
33
Nú hagaði svo til eftir tvö ár, að hinn nábúinn vildi líka fá hækkað kaup sitt, og hafði nú fyrrnefndur
nábúi aðstöðu til að hafa áhrif á það mál. Hann vildi eigi aðstoða til að hafa kröfuna fram, þótt hún
væri í alla staði eðlileg.
Þessi tvö dæmi læt ég nægja til skýringar á þessu máli, sem ég hef gert hér að umræðuefni í
baðstofunni í dag, um skoðanamun manna og mannkosti í lífsbaráttunni.“
Fleira verður ekki rætt í baðstofunni í dag.
Starkaður.


Tíminn, laugardaginn 29. september 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar hér um skipun prestakalla í landinu:
„Nú er eins og kunnugt er, nýkomið í blöðum og útvarpi frásögn um nefndarstörf og tillögur á skipun
prestakalla í landinu. Þar segir m.a.: Í hinum nýju tillögum, sem nefndin er nú að ganga frá, mun gert
ráð fyrir 114 þjóðkirkjuprestum í landinu, eða einum færra en nú er. Verða tillögurnar senn sendar
kirkjuráði og öllum próföstum landsins til umsagnar.
Um þetta er nú ekkert að segja á þessu stigi málsins. En svo segir: Í þessum tillögum er meðal annars
gert ráð fyrir því, að prestar í tíu afskekktum prestaköllum taki jafnframt að sér barnakennslu í
sóknum sínum, og hljóti yfirleitt eitthvað lítilsháttar hærri laun en aðrir prestar.
Um þessa tillögu vildi ég mega segja nokkur orð. Í þeim prestaköllum, sem hér um ræðir, þykist ég
vita, að þau séu ein af þeim prestaköllum, þar sem prestar hafa allt of lítið að starfa við sjálft
embættið, og að því leyti er það tilvalið að láta þá líka hafa barnakennsluna í sóknum sínum. En eins
og gefur að skilja, verða þessir prestar mikið bundnir við barnakennsluna að vetrinum til. Það liggur
því í augum uppi, að þeir verða að fá mikið hærra kaup en aðrir prestar, svo það sé einhver von með
að prestar sæki um þessi prestaköll, sem eru á afskekktum stöðum.
Og þar sem ég þykist vita, að meiningin sé með þessum tillögum, að prestar sæki frekar um þessi
afskekktu prestakölll, ef þeir hafa barnakennsluna líka, en það gefur að skilja, að það verkar ekki,
nema þeir fái verulega hækkað kaup. Með því gæti það verið mikið glæsilegra fyrir þá presta, en að
basla með áhættubúskap. Enda finnst mér ekkert athugavert við það, þótt þeim væri ætlað allt að því
kennarakaupið til viðbótar (ef) þeir starfa við hvorttveggja embættið.
Svo er aftur annað mál, hvað þessi ráðstöfun væri heppileg gagnvart barnakennslunni. Auðvitað yrði
það misjafnt eftir því, hvað hver prestur væri upplagður til að kenna börnum, og gefinn fyrir það
starf. En það mun líka vera misjafnt með sjálfa barnakennarana, því að öðrum er gefið þetta og
hinum hitt, þó að menn séu líkir að menntun.
Og svo er það með allar stöður og störf mannanna í lífsbaráttunni, að margur maðurinn lendir á
skakkri hillu, sem kallað er, og yfirleitt er það skaði, þegar velgefnir menn hafa ekki getað náð í þá
stöðu eða störf, sem þeir eru náttúraðir fyrir, þótt þeir geti verið alls staðar góðir og nýtir menn í
öðrum störfum. Þó er verst, þegar menn – og ég tala nú ekki um menntaða menn, taka að sér stöður
eða störf, sem þeir eru alls ekki færir um að gegna. Og þó sérstaklega þau störf, sem ekki er hægt að
njóta hjálpar annara betri manna, heldur verða beinlínis að vinna verkið sjálfir. Engin staða held ég að
sé eins ber fyrir þeim sannleika eins og prestsstaðan.

En svo ég víki nú aftur að aðal efni þessara lína, nefnilega prestakallaskipuninni: Þá er það skoðun
mín, að þó nefndin, sem fjallar um þessi mál, sé skipuð góðum og greindum mönnum, þá verði það
erfitt verk fyrir þá að koma þessum málum svo fyrir, að prestar sæki um þau prestaköll, sem nú eru
lengi búin að vera prestslaus og ekki mátt sameina“.
Sveinn hefir þá lokið máli sínu og verður ekki fleira tekið fyrir í dag.
Starkaður.


Tíminn, laugardaginn 27. október 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar hér um kartöflur og rófur:
„Ekkert af því, sem bændur landsins framleiða til sölu, er eins áhættusamt og kartöfluræktun. Í
samanburði við kjöt og mjólk er kartöfluverðið ekki sambærilegt og hefir aldrei verið síðan dýrtíðin
kom, og þó sérstaklega þessi síðustu ár.
Fátt er eins viðkvæmt fyrir tíðarfarinu eins og kartöflur, s.s. næturfrosti á sumrinu, rok á óhentugum
tíma, myglan eða sýkin síðla sumars, eða að haustinu. Allt er þetta óviðráðanlegt, hvar sem það slær
sér að í það og það skiptið – hvort heldur það er frost, rok eða sýki, og þó að það sé hægt að
einhverju leyti að halda því síðast nefnda í skefjum með því að sprauta þar til heyrandi meðali á kálið,
þá geri ég ekki mikið úr því fyrir almenning, þó að kunnáttumenn geti það á réttum tíma.
En þrátt fyrir þetta allt, er auðvitað sjálfsagt fyrir bændur að rækta kartöflur fyrir sín eigin heimili, svo
mikið, að það nái saman þegar vel gengur, og þó að það misheppnist sum árin vegna óviðráðanlegra
ástæðna eins og fyrr greinir, þá verða bændur samt að eiga það á hættu undir öllum
kringumstæðum, því að það er lífsnauðsyn fyrir heimilin, þó að tapist sum árin allur
áburðarkostnaður og vinnan, þegar illa fer.
En þó að bændur hafi stundum haft nokkuð fyrir að selja kartöflur, þá er áhættan of mikil í
samanburði við kostnað og verðlag, því að þegar búið er að draga frá verðinu vinnu, flutningskostnað
og áburðarkostnað, þá hygg ég að nettóverðið sé nú ekki orðið hátt á móti mjókurverði og kjötverði,
að frádregnum öllum kostnaði. Eins og verðlagið er nú hátt á kjöti og mjólk, og margt bendir til þess
að svo verði í framtíðinni, þá hygg ég að það sé mikið hyggilegra og tryggara fyrir bændur að leggja
vinnu og áburð í að rækta töðu handa kúm eða ám, heldur en í kartöflusölu.
En það er þjóðarnauðsyn að hvert einasta heimili á landinu rækti meira og minna kartöflur handa
sínu heimili. Hér í Reykjavík er gert ákaflega mikið að því og útlit er fyrir að það aukist mjög, og svo
mun víða vera í sjávarplássum og kaupstöðum. Það er því mjög nauðsynlegt að fólkið, sem býr á
þessum stöðum, geti haft nóg land til að rækta sér nægilegan kálmat handa sínum heimilum, enda
munu bæjarstjórnir og hreppsnefndir, sem hlut eiga að þessum málum, vera annt um að greiða fyrir
fólki með lönd til kartöfluræktar, og eins og allir vita þá væri þessi aukavinna fólksins á sumrin mjög
holl og heilsusamleg fyrir fólk, sem er mikið innibyrgt vegna atvinnu sinnar.
Auðvitað þyrfti ríkið eða bæjarstjórnir eða hvorttveggja að sjá fólkinu fyrir útsæði að því leyti sem
með þyrfti, og ætti það að gerast á ríkisbúum, þar sem vel hagar til með jarðveg úti á landinu, því að
þegar illa fer vegna tíðarfars eða annars, þá er ólíkt fyrir ríkið eða annan félagsskap að standast það
tap en einstaklinga. Þessi stefna, sem hér er bent á, mun líka vera byrjuð með úrvalsútsæði á
kartöflum við ríkisbúið í Gunnarsholti og kannske víðar og er það vel farið. Auðvitað á þessi rekstur að
heyra undir grænmetisverzlun ríkisins með mat á kartöflum, útborgun, og geymslu í jarðhúsum.
Hér að framan hef ég aðens talað um kartöflur, enda eru þær langmest notaðar til fæðu af öllu
kálmeti, sem fólk neytir hér á landi. En eins og kunnugt er, þá eru margar tegundir grænmetis, sem
framleiddar eru fólki til fæðis og sælgætis en langmest eru það gróðurhúsin, sem framleiða þær
grænmetistegundir, sem ekki þola geymslu yfir veturinn, en fólk, sérstaklega í Reykjavík og í
sjávarplássum, lifir mikið á árið um kring, en í sveitunum eru rófur mest ræktaðar næst kartöflum.
Þær hafa það framyfir kartöflur, að þær þola að gadda og eru sízt verri þó að þær hafi gaddað og
þiðnað en í sumum plássum hefir ekki verið hægt að rækta þær útaf sýki eða kálflugu, en misjafnt
hefir það þó reynzt efir frætegundum. Bezt hefir reynzt svo kallaður rússinn, en þær eru smærri af því
fræi en jafn beztar. Rófur eru sælgæti með slátri og súpukjöti, og eru taldar bætiefnaríkar. Ég hygg að
fólkið geri of lítið af því að borða rófur, og þó eru þær ekki dýrar á móti öðrum matarkaupum“.
Baðstofuspjallinu er lokið í dag.
Starkaður.


Tíminn, laugardaginn 10. nóvember 1951
Baðstofuhjal
Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar um uppeldi barna:
„Húsbóndastaðan er vandasöm staða svo að vel fari, ekki einungis sem bóndi og húsfreyja á sínu
heimili, heldur og hver sú staða, sem einn maður er settur yfir, hvort heldur það er á sjó eða landi. Þá
kemur alltaf það sama í ljós, ef yfirmaðurinn hefir ekki þá eiginleika eða hæfileika að undirmenn hans
geti borið virðingu fyrir honum, virt hann og treyst honum. Vilja þá oft verða þegjandi samtök
undirmanna hans að fara sínu fram, þegar svo ber undir, og þeim þykir máli skipta, án þess að þeim
finnist taka því að spyrja hann ráða, eða þá jafnvel að hlýta ekki hans ráðum.
Fyrir heimilishúsbændur, sem komnir eru það til ára, að þeir eru búnir að búa lengi, og orðin reynd í
búskapnum og vel efnum búin, þá hefir það þá þýðingu að vinnufólkið tekur meira tillit til þeirra, en
frumbýlishjóna sem húsbænda. Það er því meiri vandi fyrir frumbýlishjón að halda vinnufólk, svo að
vel fari, en reynd og efnuð hjón. En svo þegar hjón eða húsbændur eru orðin það gömul að þau geta
ekki gengið sjálf til allrar vinnu, þá snýst það við aftur, þannig, að þau hafa ekki eins mikið vald yfir
vinnufólkinu sem áður. Þá fer vinnufólkið frekar sínu fram og tekur minna tillit til þeirra húsbænda,
sem það telur orðið of gamalt til að stjórna – ef á milli ber.
Fyrir frumbýlinga eða ung hjón, sem eru að byrja búskap gefst oft ekki vel að taka eldra fólk fyrir
vinnufólk, sérstaklega ef það eru hjón, sem sjálf hafa hætt að búa. Bezt er fyrir ung hjón eða
frumbýlinga, að hafa til vinnu stálpaða unglinga, gera vel við þá með fæði og klæðnað, láta þá hafa
nægan svefn, frístundir eins og mögulegt er. Í þeim anda að þau vinni vel, þegar þau eru við vinnuna.
Það er gaman að vinna með unglingum sem hafa hug á vinnunni, og þá er líka gaman að geta látið
eftir þeim unglingum óskir þeirra og bænir.
Húsbændur, sem hafa börn eða unglinga undir höndum, hvort heldur það eru þeirra eigin börn eða
annarra, bera ábyrð á því, – bæði fyrir guði og mönnum, – að fara vel með þau eftir því, sem mögulegt
er, bæði til orða og verka.

Ég veit vel að börn eða unglingar eru mjög misjöfn að upplagi og lundarfari og á ekki saman nema
nafnið með uppeldi þeirra, en yfirleitt mun það bezt reynast, að nota sem minnsta harðstjórn við
þau. Ég tala nú ekki um barsmíðar, öll högg við unglinga hefna sín, og eru þeim ógleymanleg og stælir
upp í þeim hatur og þrjósku. En oft er það erfitt að sitja á sér við óþæga krakka, en þó er það bezt.
En þeir foreldrar og húsbændur, sem hafa lag og lipurð til þess að ala svo upp börn og unglinga, að
þau elski þá og virði, en þurfa ekki að hafa ótta af þeim, þá mun það uppeldi verða blessunarríkt fyrir
framtíð barnanna, og ánægulegt fyrir foreldra og húsbændur, sem hefir heppnazt það vandaverk, og
hamingja fyrir þjóðfélagið í heild“.
Fleira verður ekki rætt í dag.
Starkaður.

1952

Enn er Sveinn iðinn við kolann, þetta ár birtust eftir hann 13 pistlar í Tímanum. 10 þeirra voru
í greinaflokknum Baðstofuhjal, einn var sjálfstæð athugasemd, og síðan voru tvær greinar í
greinaflokknum Orðið er frjálst.


Sem fyrr eru umfjöllunarefnin margvísleg, t.d. Skálholt, prestakallaskipanin, dýrtíðin, þægindi
nútímans, útvarpið, síminn, bænadagur, barnadagur, mæðradagur, framtíð Meðallandsins,
minningar frá æskuárum í Öræfum og Suðursveit, stóru nautin í Sandfelli, kvíar í Ásum,
sullaveiki, sambúð hjóna, hjákonur, prestskosningar, orðuveitingar, Kötlugos og byggðin á
sandinum í Vík, og í Álftaveri.

Tíminn, fimmtudaginn 3. janúar 1952
Baðstofuhjal

Sveinn Sveinsson frá Fossi sendir hér eftirfarandi hugvekju um Skálholt og prestakallamálið:
„Einn af vinsælustu þáttum útvarpsins mun vera þátturinn um daginn og veginn. Oftast hafa þau
erindi verið ágæt og vel flutt, og hljóðað um nauðsynjamál þjóðarinnar á marga vegu. Jón Eyþórsson
veðurfræðingur var einn aðalupphafsmaður þessa vinsæla þáttar. Það þótti því góð og skemmtileg
tilbreyting, þegar Jón kom sjálfur fram eftir mörg ár, með þennan þátt um daginn og veginn. Enda er
Jón Eyþórsson einn meðal þeirra vinsælustu manna, sem komið hafa fram í útvarpinu.
Eitt af því, sem Jón Eyþórsson talaði um í síðari eða öðrum þætti sínum, var m.a. um Skálholt. Benti
hann á, að sú rétta viðreisn Skálholtsstaðar væri sú, að biskup landsins sæti þar. Þeir menn, sem
koma til með að ráða þessum málum, ættu að ákveða það fyrir fram áður en hafizt væri handa með
viðreisn staðarins, svo að engin mistök yrðu á því að gera staðinn sem veglegastan með það fyrir
augum, að biskup landsins settist þar.
Frá mínum bæjardyrum séð vil ég segja þetta: Bóndi, sem situr jörð sína vel, vex í áliti, og jörðin líka
vegna þess, að hún er vel setin. Svo er líka með höfðingjasetrin. Bessastaðir hafa vaxið í áliti sem
höfðingjasetur við það, að forseti Íslands situr þar með rausn og prýði, og forsetinn hefir að sama
skapi vaxið í áliti við það að sitja þar, sem þjóðhöfðingi landsins. Og sama mundi verða með Skálholt,
ef biskup landins sæti þar, sem kirkjuhöfðingi þjóðarinnar.
Í Reykjavík eru svo margir hámenntaðir embættismenn, sem verða að sitja þar vegna stöðu sinnar.
Það getur því ekki borið meira á þessum æðstu embættismönnum landsins, forseta og biskupi, en
öðrum embættismönnum, ef þeir sitja í Reykjavík. Það er því þjóðarmetnaður, að þeir sitji á
höfðingjasetrum úti á landsbyggðinni, en hafi þó aðstöðu með skrifstofu í Reykjavík.
Það er trúlegt, að það séu ekki mikið skiptar skoðanir manna um það, að það beri að byggja upp
Skálholtsstað, svo sögulega frægur sem sá staður er, en menn getur greint á um það á hvern hátt það
ætti að vera, en þó munu menn vera nokkuð sammála um það, að það beri að gera það svo, að
þjóðinni verði sómi að. Enda ætti ríkinu ekki að vera það ofvaxið frekar en að byggja dýrar villur út um
landið yfir presta, þar sem þeir þurfa ekki að vera, og væri mikið nær að sameina við annað
prestakall, eins og nú hagar orðið til sums staðar á landinu.
Frumvarp það, sem nú er í þinginu um prestakallaskipunina í landinu, er að því leyti undarlegt, að það
tekur ekkert tillit til þeirrar staðreyndar, að mörg prestaköll eru í mörg ár búin að vera prestlaus, og
fátt bendir til þess, að það breytist til batnaðar. Prestsetrin eru því meira og minna í eyði, og bændur,
sem hafa þau undir höndum, þora ekkert að gera þeim verulega til bóta eða framfara vegna þess, að
þeir geta alltaf átt von á því að verða reknir frá þeim fyrirvaralítið, ef einhverjum prestinum kynni að
detta í hug að sækja um prestakallið og taka jörðina til búskapar, þótt það endaði kannske með því,
að hann yrði þar ekki prestur eða héldist ekki við á jörðinni nema í örfá ár, og sama sagan endurtæki
sig þá aftur með jörðina. Með þessu áðurnefnda frumvarpi um prestakallaskipunina, sem enn er í
þinginu, hefði þingið átt að ganga hreint að verki, þannig, að hlynna vel að þeim prestsetrum og
prestum, þar sem þeirra er þörf, byggja bændum eða bændaefnum með erfðaábúð eða lífstíðarábúð,
eða selja þeim þau prestsetur, sem hafa verið og eru í eyði, og líka þau prestsetur, þar sem
prestakallið yrði sameinað við annað prestakall.
Satt að segja er ég hissa á því að alþingismenn, sem sjálfir eru miklir athafnamenn og greindir vel,
skuli vinna að þvi í þinginu, að hálaunaðir embættismenn ríkisins, svo sem sumir prestar á landinu,
hafi alltof lítið að starfa við sitt embætti. Nú eru aðrir tímar en 1907, þegar prestakallaskipuninni var
breytt mjög svo verulega í samanburði við þetta nýja frumvarp. Þó voru þá vegleysur og óbrúuð flest
vötn um allt landið. Nú er hins vegar næstum hver spræna brúuð og lagðir vegir á milli hreppa svo að
segja alls staðar á landinu. Sími er á milli hreppa og víða í sumum sveitum á hverjum bæ. Útvarp svo
að segja á hverjum bæ o.s.frv. Ég spyr: Hefir ríkið efni á að notfæra sér ekki alla þessa tækni með sína
embættismenn? Bændur, sjómenn og iðnaðarmenn þakka fyrir að geta notað sér tæknina til
sparnaðar á vinnuafli og til fjárhagslegs hagnaðar. Alþingismönnum og ríkisstjórninni ber líka skylda til
þess með þjóðarbúið“.
Hér lýkur hugvekju Sveins.
Starkaður.


Tíminn, þriðjudaginn 15. janúar 1952
Athugasemd
Í tilefni af grein, sem séra Jakob Jónsson skrifar í Tímann um prestakallamálið 9. þ.m., vildi ég mega
biðja Tímann fyrir stuttar athugasemdir. Í þeim orðum, sem séra Jakob víkur að mér í grein sinni er
tvennt, sem ég vildi gera athugasemd við.

  1. Að hann segir, að ég láti frá mér fara hverja vitleysuna á fætur annari í Tímanum. Við því vil ég
    segja þetta: Það hefir alltaf þótt léleg vörn, þegar tveir deila eða eru ekki sammála um málefnið,
    hvort sem það er í ræðu eða riti, þegar annarhvor aðilinn slær því bara fram röksemdarlaust, að það,
    sem hinn aðilinn sagði eða skrifaði, væri bara tóm vileysa. Það gæti ég lika alveg eins sagt um það,
    sem séra Jakob hefir skrifað í Tímann, en mér dettur ekki í hug að segja svo, þó að við séum ekki
    sammála um málefnið.
    Það gefur líka að skilja, að þótt ritstjóri Tímans sé frjálslyndur og hans samverkamenn með að taka
    greinar í Tímann frá gömlum mönnum sem ungum, þá dytti þeim ekki í hug að taka hverja greinina á
    fætur annari frá sama manni, sem skrifaði ekki nema tóma vitleysu.
  2. Það er fjarstæða, að ég hafi haldið því fram að prestar gerðu helzt ekki neitt. Það, sem ég hef
    haldið fram í því máli er m.a. það, að ég er einn af þeim mönnum, sem vilja að vinnan sé sem jöfnust
    hjá þeim mönnum, sem hafa sama kauptaxta, og prestarnir ættu ekki að vera nein undanþága með
    það frekar en aðrir menn, enda veit maður það, að mjög margir af prestum landsins eru það
    myndarlegir og duglegir menn, að þeim er engin þægð í því að vera iðjulausir að einhverju leyti vegna
    þess, að prestakallaskipunin er ekki í því lagi, sem hún gæti verið.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    Tíminn, þriðjudaginn 12. febrúar 1952
    Baðstofuhjal
    Hér er kominn Sveinn Sveinsson frá Fossi og ætlar að spjalla um lífið nú og fyrr:
    „Hafa menn yfirleitt athugað það í alvöru, hvað mikill munur er á því að lifa hér á landi nú en áður
    var, þegar lambið kostaði 2 – 3 krónur, sauðurinn 8 – 12 krónur, ærin 5 – 7 krónur, hesturinn 40 – 60
    krónur, kýrin 50 – 80 krónur, ullarpundið 40 – 60 aura o.s.frv. Allt var þá að vísu ódýrt á móti því, sem
    nú er, en peninga sáu bændur helzt ekki í þá daga, utan einn og einn stórbóndi. Þótt nú sé mikil
    40
    dýrtíð, þá er samt svo, að allir, sem hafa heilsu og aldur til að vinna, hvort sem það er til sjós eða
    lands, hafa mikla peninga í umferð. Þeir eru að vísu fljótir að fara en líka fljótir að koma.
    Eða þægindin nú utan húss og innan á móti því, sem áður var, þegar ekki var til nein eldavél eða
    olíuvél, en víðast útieldhús með hlóðum, og kafið eða reykurinn, sem fylgdi eldhúsunum, gerði flestar
    eldhúskonur hálfblindar og brjóstveikar, en kuldinn orsakaði kuldabólgu á höndum og fótum. Þá var
    heldur ekkert þakjárn til, flest hús láku eins og hrip í stórrigningum. Enginn gaddavír, svo að allur
    fénaður gat vaðið yfir túnin víðast hvar. Þá varð að brenna meira og minna af húsdýraáburðinum, og
    þá var ekki að tala um útlendan áburð. Slá varð allt með orfum og raka með hrífum, mest á óræktaðri
    og víða þýfðri jörð, og flytja allt hey á klökkum. Víðast er þetta nú breytt til hins betra eins og sagt
    verður hér nánar.
    Nú þurfa konur ekki að verða hálfblindar eða brjóstveikar út af eldhúsreyk, og fá ekki kuldabólgu
    vegna kulda og vosbúðar, því að nú er víst alls staðar annað hvort eldavélar, olíuvélar og ofnar eða
    rafmagn með öllum sínum þægindum. Og nú geta menn byggt hús sín úr varanlegu efni, og þurfa nú
    ekki að basla við hriplega kofa, hvorki yfir sig eða skepnur sínar. Nú geta menn girt tún sín fjárheld á
    fljótvirkan hátt með varanlegu efni. Og nú geta menn borið vel á túnin sín og slegið þau tvisvar og
    fengið mikla eftirtekju.
    Síðan að menn fengu vélar til að rækta jörðina með, hafa nú margir bændur orðið stór tún vel
    ræktuð og vinna nú allan heyskap með vélum, og aðrir, sem styttra eru komnir, færast nær og nær
    því marki að geta unnið allt með vélum og þá líka hestum og færast alltaf nær því að hætta að slá
    með orfum og raka með hrífum og flytja heyið á klökkum.
    Nú þarf varla að væta fót, hvorki á mönnum né hestum eða reka sauðfé yfir vötn. Víðast hvar á
    landinu er nú allt flutt á bílum eða í lofti, sem ekki er flutt á sjó, bæði menn og þungavara og allur
    fénaður. Nú gerir sauðféð og allar skepnur manna hundraðfalt og meira miðað við það, sem áður var.
    Nú hleypur ríkissjóður undir baggann, hvað sem fyrir kemur bæði til sjós og lands, við framleiðsluna
    og atvinnuvegina, sem ekki þekktist fyrir fáum áratugum.
    Þá má ekki gleyma útvarpinu og símanum. Útvarpið, þetta dásamlega menningartæki, sem gerbreytir
    heimilinum, næst rafmagninu. Hvers virði er ekki öll sú skemmtun og fróðleikur, sem það flytur inn á
    heimilin með mörgu móti á fjölbreyttan hátt, meira að segja getur fólkið í landinu hlustað á messur í
    útvarpinu heima í stofunni sinni, – það sem vill heyra messu. Það er dásamlegt að sitja við útvarp sitt
    heima í hlýjunni og hlusta á vel flutta guðsþjónustu af góðum presti og fallegum söng, sem ekki
    bregzt við messur hér í Reykjavík. En ef það vill til að prestinum tækist ekki að ná tökum á
    hlustendum, þá er alltaf hægt að skrúfa fyrir útvarpið, sem ekki er hægt í kirkjunum, þó að prestinum
    takist ekki að ná tökum á áheyrendum sínum þar. Já, það er dásamlegt, ég endurtek það, fyrir fólkið,
    sem hefir hug á að hlusta á guðsþjónustur, að þurfa ekki að hreyfa sig út í misjafnt veður og vonda
    vegi, kannske langar leiðir, á móti því að vera heima í baðstofunni sinni, eins og áður er tekið fram.
    Svo er það síminn. Hver myndi vilja sleppa símanum, sem einu sinni hefir náð í hann inn á heimili
    sitt? Það væru víst fáir, svo mikið er varið í að hafa símann á margan hátt. Það má erindsreka með
    flest sín viðskipti við verzlanir sínar, panta í gegnum símann það, sem maður þarf og fá það svo sent
    með verzlunarbílunum heim í hlað. Fólkið getur talað saman, án þess að fara bæja á milli, um öll þau
    málefni, sem báða varðar, og ef eitthvað þarf að senda á aðra bæi, þá er hægt, ef þeim sýnist svo, að
    mætast á miðri leið og stytta leiðina með því til helminga. Eða ef þarf að tala við lækni á milli sveita,
    þá getur þetta allt gengið helmingi fljótar í símanum. Má þá oft fá lækninn á móti sér eða heim til sín
    og þegar læknirinn er búinn að sjá sjúklinginn, þá getur hann fylgzt með heilsu hans í gegnum símann,
    svo lengi sem með þarf.
    41
    Já, það er munur að lifa nú á tímum en áður var, bæði fyrir lærða og ólærða. Það er eðlilegt að við,
    þessir eldri menn, veitum því athygli, hvað fólkið í landinu í byggð og bæ á góða daga, en það er líka
    eðlilegt að ungdómurinn athugi þetta ekki eins, þar sem það þekkti ekki sultinn í fyrri daga“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu og þökkum við honum fyrir þessa fróðlegu og athyglisverðu hugvekju
    hans.
    Starkaður.
    Tíminn, fimmtudaginn 22. maí 1952
    Baðstofuhjal
    Nokkuð er langt síðan Sveinn Sveinsson hefir gist baðstofuna, en nú hefir hann sent mér bréf, sem
    hann skrifaði síðastliðinn sunnudag, og fjallar hann þar um bænadaginn og mæðradaginn, en eins og
    kunnugt er, var almennur bænadagur um allt land þann dag. Þá var einnig fjársöfnunardagur
    mæðradagsins. Sveinn tekur nú til máls:
    „Í dag er 5. sunnudagur eftir páska og er ákveðið að hann skuli vera sérstakur bænadagur fyrir
    fósturjörðina til vakningar trúarlífi landsmanna og hvatningar kristilegu þjóðlífi.
    Þetta er vel hugsað og ekki nema gott og blessað. En til þess, að þessi allsherjarbænadagur sé
    áhrifaríkur og nái að sem mestu leyti tilgangi sínum, þá ætti að halda hann sem allsherjarlandsfund
    fyrir þjóðina í heild, þannig að biskupinn yfir Íslandi prédikaði í dómkirkjunni og einhver færasti
    raddprestur landsins þjónaði fyrir altari. Og auðvitað ætti að útvarpa þessari hátíðarmessu um allt
    landið (því skal skotið hér inn í, að einmitt þessi háttur var á hafður).
    En það á að gefa öllum öðrum prestum landsins frí frá störfum þennan dag, og þeir eiga eins og aðrir
    landsmenn að hlusta á þessa allsherjarguðsþjónustu biskupsins yfir Íslandi.
    Á annan hátt finnst mér þessi sunnudagur ekkert breyta til við aðra venjulega sunnudaga, þótt
    prestar séu að hendast milli kirkna og kasta á messu með bænagjörð, sumir kannske meir til
    málamynda en í alvöru, eins og gerist og gengur hjá þeim blessuðum, eins og öðrum breizkum og
    syndugum mönnum.
    Líka er í dag mæðradagurinn. Hingað kom í morgun piltur á að gizka tíu ára eða þar í kring. Duglegur
    var hann og myndarlegur á að sjá, hann var að selja merki mæðradagsins, en ekki var gaman að rétta
    honum peninga, því að ekki þakkaði hann fyrir þá.
    En á sumardaginn fyrsta, barnadaginn, kom hingað lítil stúlka á að gizka 6 – 7 ára eða þar í kring,
    falleg og elskuleg. Hún var að selja barnabók, og henni var gaman að rétta peninga, því að hún
    þakkaði með mikilli kurteisi og yndisleik.
    Annars er það ósköp eðlilegt, að börn séu misjöfn að kurteisi og gæðum, eins og annað fólk. Það
    kemur fljótt í ljós, þó að foreldrar reyni með öllu móti að venja börn sín vel. En það hefir mikið að
    segja, þegar börn eru látin safna peningum, að þau séu kurteis, prúðbúin og falleg. Allt þetta gerir
    mann örlátari, – kemur manni í betra skap og gerir mann að betri manni.
    Það góða fólk, sem stendur fyrir öllum þessum líknarstofnunum, þarf vel að vera á verði og fylgjast
    vel með því, að þessir smáu englar þeirra, sem safna peningum, komi á hvert einasta heimili í
    Reykjavík og öðrum bæjum, þar sem söfnun er hafin, svo að öllum gefist kostur á að vera með sem
    vilja.“
    42
    Sveinn hefir lokið máli sínu og taka ekki fleiri til máls í dag.
    Starkaður.
    Tíminn, laugardaginn 21. júní 1952
    Orðið er frjálst: Framtíð Meðallandsins
    Á síðastliðnu ári var talsvert skrifað í Tímann um hina fyrirhuguðu sandgræðslu í Meðallandi. Áður er
    komin þar stór sandgræðslugirðing um Leiðvallarmela og Leiðvöll, sem nú er í eyði vegna sandfoks.
    Líka hefir verið skrifað um fyrirhleðslur við Kúðafljót. Af því ég er einn af kunnugum um staðhætti þar
    eystra, þá langar mig að leggja þar nokkur orð í belg.
    Þegar sá tími kemur, að sauðfé má hafa í sandgræðslunni á Leiðvelli til sumarbeitar, þá verður þar
    Gósenland til upprekstrar, með þann hluta Ásahrauns til viðbótar, sem ekki getur notast á annan hátt
    vegna vatna eins og kunnugt er. Leiðvöllinn ætti ekki að byggja upp aftur til ábúðar, því að áratugir
    munu líða þar til að vallendi er gróið þar svo upp, að sauðfé megi hafa þar að vetrarlagi eða of
    snemma að vorinu, en ekkert er eins eyðileggjandi fyrir melajarðir, þar sem vex blaðka og melgras,
    eins og vetrarbeit sauðfjár. Það krafsar eða rótar upp sandinum til að ná í ræturnar og grænu nálina,
    þegar fer að vora, en hvergi er fyrr til að gróa en niðri í sandinum. Ekkert mun hafa eyðilagt
    Meðallandið fyrir sandfoki eins og sauðabeitin yfir veturinn, þegar sauðir voru látnir ganga úti á
    melunum. Þar næst kom meltakan, sem brúkað var í reiðingana og þótti svo ágætt í ferðalögum,
    sérstaklega í rigningatíð, þá þóttu ekki síður góðar fínu tágirnar, sem brúkað var í saumgarn í útbúnað
    reiðinganna, og í þvögur svokallaðar, er notaðar voru til að þvo með mjólkurtréílát, og þóttu
    ómissandi í þá tíð. Nú er allt þetta breytt til hins betra með nýjum tækjum o.s.frv. Ég hygg, að þegar
    hin nýja, stóra sandgræðslugirðing, sem nú er fyrirhuguð fyrir Meðallandið, er komin í kring, og þegar
    sá tími er kominn að það land megi fara að nytja, þá mun þar geta komið til sögunnar dálítil
    nýbýlabyggð. Þar er landslagið öðru vísi en á Leiðvallalandi, þar mun gróðurinn verða að langmestu
    leyti stör og melgras, og þar næst vallendi, sem fljótt mun þá verða hægt að rækta í töðu. Þá mun
    Meðallandið verða tiltölulega samfelld byggð, og þá mun mega þurrka það upp og græða.
    En Meðallandið hefir alltaf tilfinnanlega vantað upprekstrarland og svo er enn. Að vísu hafa sumir
    Meðallendingar rekið fé sitt til heiða í nafni eins og eins bónda þar, oftast þó í óþökk hlutaðeigandi
    hrepps. Nú reka nokkrir þeirra fé sitt til Síðuheiðar. Er það hentugt að því leyti, að þeir slátra
    lömbunum sínum við sláturhúsið á Klaustri, og þurfa þá ekki að reka þau fyrst heim.
    Í framtíðinni ættu nokkrir bændur í Meðallandi að geta fengið upprekstur í Leiðvallarland, eins og
    áður segir. Leiðvöllur er nokkuð langt frá öðrum bæjum, þó eru Botnar í Meðallandi enn lengra frá
    mannabyggðum, en liggja þó nokkurn veginn að Leiðvallarsandgræðslunni. Nú er þar
    einyrkjabúskapur sem víðar. Þar er mikil hagaganga, eins og var á Leiðvelli í fyrri daga, en nú er það
    orðið of ótryggt að búa upp á þann máta. Það var alltaf áhætta, en nú, þegar lambið gerir orðið 200-
    300 krónur þá má ekki eiga sér stað að setja á vogun, enda eru menn að sjá það betur og betur, líka
    frá mannúðarsjónarmiði. Ég hygg að ekki líði nú mörg ár, þangað til að bændur mjög almennt á landi
    hér, taki upp það búskaparlag, að setja þannig á, að þeir séu tryggir með fóður handa öllum sínum
    fénaði í harðindum. Ræktun landsins og hin nýja vinnutækni á að geta fullkomnað þann hugsunarhátt
    í flestum sveitum landsins.
    Eins og áður segir, vour þesar tvær jarðir, Leiðvöllurinn og Botnarnir, góðar til hagagöngu fyrir sauðfé,
    og það svo, að hvergi var tryggara með haga í vondum vetrum í allri Skaftafellssýslu en á þessum
    jörðum, en slægjulitlar voru þær, nema að sækja þær suður í Meðallandið, sem var langt og erfitt. Ef
    43
    Botnarnir skyldu fara í eyði við næstu mannaskipti, þá ætti að vera gott fyrir einhverja af búendum í
    Meðallandi, að fá þá til upprekstrar, ásamt Leiðvellinum.
    Mín skoðun er sú, að jafnóðum og þessar útkjálkajarðir losna úr ábúð, þá eigi ekki að byggja þær
    aftur, vegna þess, að það borgar sig ekki fyrir hlutaðeigandi hreppa út af sumarhögum. T.d. í
    Skaftártungu, þar sem eru þó góð heiðalönd og stór afréttur, var það svo, að þegar nyrztu jarðirnar
    þar fóru í eyði, þá var það stór hagnaður fyrir hreppinn, þótt fátækur sé vegna þess, að fénaðurinn
    fékk þar nú friðland í sumarhögunum. Svo er það nú líka, að síðan að vinnufólkið er ekki orðið til, þá
    heitir það nú varla orðið forsvaranlegt, að ein hjón, kannske með ungbörn, séu ein langt frá
    mannabyggðum í stórsnjóum og grenjandi ótíð, ef eitthvað kemur fyrir, svo sem veikindi eða
    dauðsfall, og þarf að leita manna til hjálpar.
    Hvar, sem svona hagar til í sveitum landsins, eins og hér hefir verið bent á, ættu ráðandi menn að
    athuga þessi mál gaumgæfilega, því að þótt það hafi áður fyrr verið allgott að búa á þessum afskekktu
    fjárjörðum, þá er flest, sem mælir á móti því nú á tímum, eins og að framan getur. Að vísu hafa nú
    heyrzt einstaka raddir um það að byggja beri upp aftur dalajarðir, ef fólki fjölgaði aftur í sveitunum.
    En með þeim ræktunarskilyrðum, sem nú eru framundan, ætti fókið að geta verið nær hvert öðru en
    áður var. Það ætti því ekki að þurfa að grípa til þess örþrifaráðs að byggja upp aftur útkjálkajarðirnar,
    núna fyrsta kastið.
    En svo ég snúi mér nú aftur beint að Meðallandinu, þá er það tillagan um að hlaða þurfi varnargarð
    fyrir Kúðafljót, frá Leiðvelli að Sandhólma til varnar þess, að það flæði ekki austur á Meðallandið, sem
    það hefir oft gert, sérstaklega í vetrarharðindum og verið stór bagi að, og tjón fyrir þá, sem næstir því
    búa. Við það duga hins vegar engin vettlingatök, því Kúðafljót er stórvatn, ekki síður en Markarfljót.
    Það þarf því öflugan garð og viðhald, ef fljótið brýtur hann eins og oft getur komið fyrir við þessi
    stórvötn. Með þeim stórvirku verkfærum, sem nú eru að koma til sögunnar, ætti þetta þó að vera
    mjög vel vinnandi verk.
    Eins og gefur að skilja, þarf þetta að athugast af þar til kvöddum mönnum, og gera áætlun um
    kostnað, ef til kæmi, og auðvitað verður það í verkahring forráðamanna Vestur-Skaftellinga að koma
    þessu á framfæri við Alþingi og ríkisstjórn o.s.frv.
    Tíminn, þriðjudaginn 29. júlí 1952
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir sent nokkra þætti, er hann nefnir: Frá æskuárum mínum. Fara þeir
    hér á eftir:
    „Þegar foreldrar mínir, séra Sveinn Eiríksson frá Hlíð í Skaftártungu og kona hans Guðríður Pálsdóttir
    prófasts frá Hörgsdal á Síðu, fluttu frá Kálfafelli í Fljótshverfi að Sandfelli í Öræfum 1879, var ég
    fjögurra ára gamall. Sandfellið var þá mikil fleytingsjörð, slægjur miklar, en blautar, túnið frekar lítið
    eins og þá gerðist, en hagaganga góð, oftast snjólett og furðu seigt með kjarna. Í Sandfelli bjuggu
    foreldrar mínir nokkuð stóru búi, bæði með sauðfé, hross, kýr og naut, stundum allt að tíu.
    Sérstaklega voru það tvö naut, sem urðu fræg fyrir stærð, aldur og ferðalög, því að þau voru oft rekin
    á vorin alla leið út í Ásakvíslar til sumargöngu, og svo aftur austur að Sandfelli á haustin. Þetta er allt
    að þriggja daga ferð lestagang.
    Eitt haustið drógst það eitthvað fram yfir venjulegan tíma að reka þau austur. Lögðu þau þá sjálf af
    stað og komu að kvöldi dags að Rauðabergi í Fljótshverfi, lögðust þar við túngarðinn, en um
    44
    morguninn voru þau horfin og lögð á Skeiðarársand, og næsta morgun þar á eftir voru þau komin að
    Sandfelli. Loksins þegar pabbi tímdi að farga þeim, var annað 11 vetra, en hitt 9 vetra. Kjötþunginn
    var 11 hundruð pund af þeim eldri, og 9 hundruð pund af þeim yngri, en mörinn kúfað mjólkurtrog úr
    þeim eldri, en var aðeins minna úr þeim yngri. Eins og gefur að skilja voru þau bæði vönuð, svo sem
    hestar og sauðir. Þau voru stórhyrnd og lét pabbi spónameistara smíða úr hornunum spæni, sem
    voru gerðir af mikilli list, því að hornin voru óvenjulega góð til þess. Spænir voru brúkaðir í stað
    skeiða, eins og margir vita.
    Alltaf voru þessi naut sér í húsi og beitt, þegar jörð var auð. Þau voru vitur eins og hestar eða
    forustusauðir. Því hef ég verið svo langorður um þessi merkilegu naut, að þau voru fræg fyrir
    ferðalög, aldur, vöxt og vit.
    Árið 1888 fluttu foreldrar mínir frá Sandfelli að Kálfafellsstað í Suðursveit. Kom þá mikill snjóavetur
    og varaði pabbi sig ekki á því, að nú var hann kominn á rýra jörð og frá þeim tíma mátti segja, að hann
    væri alltaf frekar fátækur. Pabbi var öðlingur oft um efni fram, eins og títt er um góða menn. Mamma
    var ráðdeildarsöm og þurfti oft að spara helzt til mikið, eins og þá tíðkaðist víða. Hún var aldrei
    óvinnandi í höndunum, mikil spunakona á rokkinn sinn, gáfuð og bókhneigð og trúði á guð af öllu
    hjarta. Pabbi hefði átt að verða læknir. Hann var oft hjá sjúkum mönnum og stundum læknum til
    aðstoðar, þegar svo bar undir. Þegar hann var í Öræfum, hjálpaði hann sængurkonu, sem ekki gat
    fætt, og ekki var hægt að ná í lækni. Smíðaði hann þá tangir sjálfur og náði barninu með þeim. Hann
    var smiður góður. Svo léttur var hann, að hann stökk yfir hesta með reiðtygjum jöfnum fótum. Það
    gerði líka Björn bróðir hans í Svínadal, en þó gerði Eiríkur faðir þeirra í Hlíð það allra bezt, því að hann
    stökk jöfnum fótum yfir hest, með söðli með háu sveifunum í síðfrakka úr vaðmáli, rennblautum í
    stórrigningu.
    Þegar pabbi var um fimmtugt, gerðist það í veizlu, er fólk sat að borðum, að hann vildi standa upp og
    hreyfa sig áður en upp var staðið. Ætlaði fólkið þá þeim megin við borðið að hliðra til, svo að hann
    kæmist, en hann afsagði það og bjó sig til að hoppa yfir borðið alsett af leirtaui, en þegar
    frammistöðukonan sá það, hrópaði hún upp, hvort karlinn ætlaði að setja um allt leirtauið, en áður
    en hún vissi af, var hann kominn yfir borðið, í gegnum sig sem kallað er. Í klofháum leðurstígvélum og
    kom hvorki við könnur, diska eða bolla. Var borðið þó breitt og hátt. Vatnamaður var hann svo, að
    það kom fyrir að hann fór yfir Skeiðará og Jökulsá á Breiðamerkursandi, þegar aðrir fóru það ekki.
    Samt varð það hans hlutskipti að drukkna í Kúðafljóti 1907.
    Árið 1892 fluttu foreldrar mínir frá Kálfafellsstað að Ásum í Skaftártungu. Þá hljóp Skeiðará, svo að
    mamma og börnin urðu að dvelja í Öræfum það sumar. En þá varð ég eftir á Reynivöllum í Suðursveit
    hjá þeim hjónum Eyjólfi Runólfssyni og Ingunni Gísladóttur. Ég var þá búinn að liggja rúmfastur hátt í
    ár og því ekki ferðafær. Var ég þar eitt ár og á því ári fékk ég heilsuna aftur. Það heimili var þá eitt
    með myndarlegustu heimilum í sýslunni og gestrisni mikil. Börnin öll að verða uppkomin, 3 synir og 5
    dætur, hver annarri myndarlegri. Ingunn móðir þeirra var ein af þessum mestu gæðakonum, sem
    maður þekkir, og lét ég heita eftir henni, og nafnið gefizt prýðilega. Eyjólfur var hómópati og var þá
    oft leitað til hans. Líka var hann hreppsstjóri allt að 50 ár. Hann var vitur maður og glöggur og vel að
    sér um marga hluti. En hann var einn af þeim meiriháttar bændum, sem þótti sér metnaður í að hafa
    „hjákonur“, og svo var líka í þá tíð með suma meiriháttar embættismenn í sveitum landsins. Á þessu
    virðist nú vera orðin breyting með bændum, hvort sem maður ætti nú að kalla það afturför eða
    framför. Líka getur það gert nokkuð til, að nú er varla orðin nokkur vinnukona og búskapur í þeim
    anda, sem hann var, að hverfa úr sögunni. Sama sagan er og með flesta embættismenn sveitanna, að
    nú eru þeir ekki orðnir eins miklir stórkarlar og þeir voru áður fyrr vegna breytingar á tíðaranda
    fólksins og meiri menntun alþýðunnar, sem gerir mannamuninn minni en áður var.
    45
    Áður en ég skil við Suðursveitina, ætla ég að geta þess, að þegar foreldrar mínir komu að
    Kálfafellsstað, voru þar fyrir séra Jóhann, sem þá var að hætta prestsskap vegna aldurs og heilsu og
    kona hans Ragnheiður, systir Benedikts Sveinssonar sýslumanns og Þorbjargar, sem þjóðkunn var og
    þó sérstaklega í Reykjavík. Börn þeirra séra Jóhanns og Ragnheiðar voru, sem ég þekkti, Egill, Ólafía,
    sem þekkt var fyrir líknarstarfsemi, og Kristín, sem var alltaf með foreldrum sínum, þar til hún giftist.
    Þá var faðir hennar dáinn, en móðir hennar fylgdi henni til dauðadags og önduðust þær samtímis á
    þann hátt, að Kristín fæddi son og lá á sæng, en móðir hennar í öðru rúmi. Hittist þá svo á, þegar
    móðir Kristínar var að gefa upp andann, að þær voru einar inni. Fór Kristín þá fram úr að hjúkra
    henni, en þoldi það ekki og andaðist litlu síðar. Hefir það verið sorg mikil fyrir bóndann. Þau voru þá
    flutt til Vopnafjarðar. Hann mun svo hafa flutzt með son sinn til Ameríku. Hann var snikkari að
    menntun. Ég man það, að þegar við Kristín vorum saman á Kálfafellsstað, ég þá um fermingu, að hún
    var talin einn allra bezti kvenkostur, sem til var þar um slóðir“.
    Hér lýkur þættum Sveins í dag, en þeim verur haldið áfram á morgun.
    Starkaður.
    Tíminn, 30. júlí 1952
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi heldur hér áfram endurminningum sínum:
    „Ári síðar en foreldrar mínir fluttu að Ásum, fór ég til þeirra frá Reynivöllum að Ásum, það var 1893.
    Þá bjó þar líka Sveinn Ólafsson og kona hans, Vilborg Einarsdóttir frá Strönd í Meðallandi, enda var
    hann líka úr Meðallandinu. Þeirra synir eru Einar Ólafur og Gústaf A., nú þjóðkunnir menn fyrir
    lærdóm o.fl. Sveinn Ólafsson, faðir þeirra, var völundur að hagleik og spekingur að viti. Vilborg kona
    hans var elskuleg kona og myndarleg, sem systur hennar. Þóttu þær Strandarsystur vera með
    myndarlegustu heimasætum þar eystra í þá tíð. Vilborg er enn lifandi hér í Reykjavík.
    Þetta fyrsta sumar, sem ég var í Ásum, sat ég yfir kvíánum allt sumarið frá þvi fyrir fráfærur til hausts,
    því að þær voru frá mönnum sitt úr hverri áttinni, og hefðu því tapazt úr kvíum strax fyrstu dagana og
    hefði það verið óbætanlegt tjón fyrir foreldra mína eins og þá stóð á með þeirra efnahag, enda var í
    þá daga ekki hægt að búa í sveit upp á annað en færa frá ám.
    Í Skaftártungunni gerðu kvíar meira gagn en í flestum sveitum annars staðar á landinu. Ég var því
    talinn það sumar þarfasti maðurinn á heimilinu, þótt ég gæti ekki gengið að slætti, enda hafði sama
    sagan endurtekið sig fleiri sumur, ef ærnar hefðu ekki verið vandar fyrsta sumarið. Flestum
    unglingum leiddist að sitja yfir ám, þó að ekki væri nema um tíma eftir fráfærurnar, eins og víðast var
    venja. Það vildi hins vegar þannig til með mig, að frá því að ég var krakki, hef ég helzt viljað vera við
    sauðfé vetur, sumar, vor og haust. Meðan þau Sveinn og Vilborg bjuggu í Ásum hirti ég líka kindur
    þeirra að sumarlagi. Ég var því í miklu uppáhaldi hjá þeim hjónum. Síðar hvöttu þau mig til að fara á
    búnaðarskóla, en mig vantaði flest til þess: undirbúningsmenntun, áhuga og peninga, og mátti helzt
    ekki fara að heiman, eins og þá stóð á, og seinna kom í ljós.
    Þótt Ásar væru í Skaftártungu, var það samt mikið gölluð jörð, þar til 1897, er Skaftáreldavatnið, sem
    rennur við túnið í gegnum Ásalandið, var brúað. Við það batnaði jörðin til helminga að minnsta kosti.
    En þá var búskapartíð foreldra minna lokið. Svona með sjálfum mér er ég viss um, að fjárhagslega
    hefði foreldrum mínum verið bezt að búa allan sinn búskap í Sandfelli. Nú er Sandfellið mikið gengið
    af sér vegna ágangsvatna.
    46
    Áður en ég hætti að tala um foreldra mína í þessum pistli, varð ég aðeins að geta þess, að þegar þau
    fluttu að Sandfelli, þá bjuggu þar fyrir Runólfur Þórhallsson og Róshildur Bjarnadóttir kona hans, bæði
    ættuð af Útsíðunni í Kirkjubæjarhreppi. Urðu þau vel þekkt þar eystra og bjuggu þau í húsmennsku
    nokkur ár í Sandfelli hjá foreldrum mínum. Þau voru sér í baðstofu á sömu stéttinni. Þeir höfðu
    samvinnu við sláttinn og skiptu heyjum í garði. Þá var það einu sinni, er Runólfur fór á milli með
    heylest, að þegar hann var að taka ofan af lestinni, fékk hann mjög vont hóstakast og lá við köfnun. Í
    andarslitrunum fór hann með hendina upp í sig og náði þar í sull, sem stóð fastur í kverkunum, og dró
    hann upp úr sér og með því bjargaðist hann frá köfnun. Ég get þessa hér til að sýna, hvað sullaveikin
    var þá á háu stigi og hættulegu fyrir mannfólkið í landinu.
    Þau hjónin áttu fjögur börn, 1 son og 3 dætur, Bjarna, Þuríði, Rannveigu og Þuríði, sem enn er á lífi
    hér í Reykjavík. Þær systur þóttu fallegastar stúlkur í Öræfum um það skeið. Meðan við vorum saman
    í Sandfelli svaf ég hjá Bjarna í þeirra baðstofu. Ég var vanur að vakna á undan öðrum (það hefir alltaf
    fylgt mér) og lét þá Róshildur standa mjólkurbolla með brauðsneið á borði, sem ég átti að renna í
    meðan aðrir sváfu. Þessu líkt var allt viðmót þeirra elskulegu hjóna við okkur börnin. Að gamni mínu
    og í þakklætisskyni lét ég heita eftir þeim hjónum og hafa þau nöfn heppnazt vel.
    Áður en foreldrar mínir fluttu að austan út í Skaftártungu, heyrði ég talað um, að bændur í
    Skaftártungu væru ríkir eða ríkisrobbar, eins og það var á stundum kallað. Og það var í rauninni rétt,
    því að flestir bændur þar – af svo fáum – áttu margan og fallegan sauðfénað, fullorðna sauði, sem
    slöguðu hátt upp í ærtöluna. Ærnar voru miklu feitari meðan fært var frá. Það kom til af því, að þá
    voru þær þurrkaðar upp, sem kallað var, þegar komið var fram yfir höfuðdag, þannig að þá var byrjað
    á að mjólka þær einu sinni á dag í staðinn fyrir tvisvar áður. Svo þegar kom lengra fram á haustið, þá
    annan hvern dag og síðar þriðja hvern dag og svo einu sinni í viku, og úr því var hætt að mjólka þær.
    Héldu þær svo áfram að fitna allt fram á jólaföstu, ef tíðin var góð. Síðan hætt var að færa frá eru
    lömbin tekin undan ánum á haustin, án þess að þær séu mjólkaðar á eftir. Mjólkin safnast því fyrir í
    júgrinu og líða ærnar við það fram eftir haustinu. En þau lömb, sem sett eru á, ganga undir ánum
    fram á vetur. Síðan þessi háttur var tekinn upp hafa ærnar verið rýrari og þurft meira fóður en áður.
    Líka hættir sumum nú við að hafa ærnar of gamlar. Það ætti að vera föst regla á haustin, þegar
    bændur eru að velja ær til förgunar, að farga þeim ám, sem sér á ullinni. Þær ær, sem eru sneggri á
    haustin en þær eiga að sér eru þá annað hvort of gamlar eða það er eitthvað að þeim, og kemur það
    fram á þeim á vorin, annað hvort verða þær of rýrar eða hreinlega drepast. Þegar á þetta er litið, sem
    hér hefir verið tekið fram og svo hitt, að sauðaeign bænda er að mestu úr sögunni og fjárhirðing höfð
    í hjáverkum á móti því, sem áður var, þegar það var aðalvinnan að hirða sauðféð árið um kring, og
    öllu þessu til viðbótar sést nú varla orðið vinnufólk á sveitarheimilum víða á landinu, – að þessu öllu
    athuguðu, þá er eðlilegt að mönnum finnist að stórbúskapurinn til sveitanna sé úr sögunni í þeim
    anda, sem hann áður var. Þótt menn sjái eftir sumu því, sem breytzt hefir, svo sem sauðaeigninni,
    sem prýddi svo mjög fjárhópana og gerði sauðfjáreignina og fjármennskuna svo virðulega og
    skemmtilega, þá ber samt að fagna því, sem breytzt hefir til batnaðar nú á síðari árum, eins og maður
    hefir áður tekið fram hér í Tímanum, og þrátt fyrir allt var gott fyrir búendur að geta losnað við
    fráfærurnar.
    Ég vona, að sumir af lesendum Tímans hafi gaman af að lesa það, sem hér hefir verið sagt frá í þessari
    grein, og þá er tilganginum náð“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu og munu margir baðstofugestir honum þakklátir fyrir fróðleik hans og
    leiðbeiningar.
    Starkaður.
    47
    Tíminn, fimmtudaginn 7. ágúst 1952
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir sent mér pistil þann, sem hér fer á eftir:
    „Í baðstofu Tímans 29. f.m. birtist grein eftir mig, þar sem ég ræddi m.a. um stóru nautin í Sandfelli.
    Menn hafa síðan verið að spyrja mig hvað hafi verið gert við kjötið af þeim, víst vegna þess, hvað þau
    voru gömul, 11 og 9 vetra. Vegna þeirra, sem ekki hafa getað talað við mig, en lesið greinina, vil ég
    gefa rétta skýringu og hún er sú, að kjötið var lagt í heimilið og var það mikið búsílag, ganglimir
    reyktir, og hitt allt saltað í tunnur eða ámur, sem stærri voru eða enn öðru nafni eikartunnur.
    Ég man vel eftir, hvað kjötið var ljúffengt, eins og af ungviði. Þetta þykir nú kannske ótrúlegt, en er þó
    satt. Ég hef líka orðið var við, að kjötþunginn þykir ótrúlegur, en þeir, sem hefðu séð nautin, myndu
    ekki efa sannleikann í því efni. Sérstaklega var það eldra nautið, sem var vel vaxið, lappalágt og þrekið
    á skrokkinn, eins og nútíma fræðimenn vilja hafa kjötskrokka til frálags.
    Ég man það, að þennan vetur átti heimilisfólkið og við krakkarnir betri ævi en fyrr og síðar. Þá var enn
    í mínu ungdæmi sá ósiður og hjátrú við líði að fleygja hrossakjötinu fyrir hunda og hrafna og hafa
    fólkið svangt og unglingana hálf uppkreista í staðinn fyrir að nota svo góða vöru til manneldis. Síðar
    fór þetta að smálagast almennt, mest fyrir áhugasama unga menntamenn, sem fluttust í sveitirnar,
    svo sem prestar og læknar, sem komu vitinu fyrir fólkið með þvi að neyta þess sjálfir og þeirra heimili.
    Eiga þeir embættismenn, bæði þeir, sem fallnir eru, og þeir, sem lifandi eru enn, miklar þakkir skildar
    fyrir það þarfa verk, sem svo mjög hefir bætt líðan fólksins í landinu.
    Þann 29. júlí s.l. birtir Tíminn grein eftir Jónas Kristjánsson lækni, sem nefnist „Soðin fæða eða
    ósoðin“. – Maður les alltaf með áhuga greinar eftir þennan merka heilsufræðing, og víst er, að hans
    ráð lækna margan sjúklinginn, er ekki hefir getað læknazt á annan hátt. En hvort menn, sem lifa eftir
    kenningum hans, fá ekki sjúkdóma, það er kannske ekki fullsannað ennþá.
    En til þess að fá nokkurn veginn fulla vissu um það, dettur mér í hug, svona af minni fáfræði í þessum
    efnum, hovrt ekki ætti að stofna uppeldisstofnun, sem ríkið kostaði og ala þar upp börn frá fæðingu
    til fullorðinsára einhverja ákveðna tölu, sem skipt væri í tvo flokka. Annar flokkurinn ætti að lifa
    algjörlega eftir kenningu Jónasar og hinn flokkurinn eftir venjulegum uppeldisreglum. Með þessu
    fyrirkomulagi ætti að koma í ljós hvort sá flokkur, sem er látinn lifa eftir reglum Jónasar, fær ekki
    neina sjúkdóma, þótt hinn flokkurinn fái þá. Í hvorum flokki ætti að hafa bæði stúlkur og pilta. Þetta
    væri mikið framtíðarspursmál fyrir þjóðina.“
    Pistli Sveins er lokið.
    Starkaður.
    Tíminn, þriðjudaginn 2. september 1952
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir sent mér nýjan þátt um nautin í Sandfelli o.fl.
    „Mér finnst ég þurfa að segja enn nokkur orð um stóru nautin í Sandfelli. Menn hafa líka spurt að því
    hvort þau hafi ekki verið mannýg, en það voru þau ekki, en fóru sínu fram og hafði sá eldri forustuna
    fyrir því, og ætla ég að nefna hér tvö dæmi.
    48
    Einu sinni var það, að kýr stóð þvert yfir götu, sem nautin voru að fara. Fór þá sá stóri með hornin
    undir kviðinn á henni og tók hana upp og lagði hana frá sér til hliðar ómeidda og hélt svo sína leið. Í
    annað skiptið var það, að nautin voru að éta úr viðarkesti, sem geymdur var heima á hlaði til
    eldiviðar. Komu þar þá að þeim vinnukona og önnur kona, sem var þar gestur og hafði hún sig meira í
    frammi til að reka þau burtu úr viðarkestinum, en sá stóri var nú ekki tilbúinn að fara úr
    viðarkestinum. Tók hann þá konuna upp með hornunum og lagði hana frá sér til hliðar ómeidda eins
    og kúna, og fór svo sínu fram í viðarkestinum, enda töldu konurnar sig sleppa vel við svo búið.
    Líka hafa menn spurt mig, hvernig nautin hafi verið lit. Eldra nautið var fallega rautt. Húðirnar af
    þeim voru miklir feldir og brúkað í skæðaskinn.
    Læt ég svo útrætt um nautin.
    Í Tímanum stendur: Farið vel með féð í göngunum og réttunum. Þetta er vel mælt og á vel við, að
    blöðin áminni lesendur sína um góða mannúð og meðferð á skepnum sínum, börnum og
    gamalmennum. Það er aumt að sjá, hvað sumir menn eru sljóvir fyrir þessu, t.d. með hunda sína, –
    láta þá vaða í fénu og gana á undan sér, þar sem þeir eru á ferð innan um sauðfé, og við
    smalamennsku og fjárrekstra, nenna ekki að snúa sér til hliðar, hvort sem þeir eru ríðandi eða
    gangandi, heldur láta hundinn hafa það, hvort sem þeir bíta féð eða ekki.
    Þá segir Tíminn frá miklu tjóni víða um landið, m.a. að kartöflugras hafi gerfallið og olli því ein
    frostnótt. Fátt er eins viðkvæmt fyrir frosti eins og kartöflugrasið og kartaflan og þó fátt eins
    nauðsynlegt til manneldis. Það er lífsnauðsyn fyrir búendur í byggð og bæ að rækta kartöflur fyrir sín
    heimili. En það er mjög varasamt fyrir bændur að rækta þær í stórum stíl til sölu.
    Það þekkist ekki nokkur matvara, fyrir utan mjólk, eins nauðsynleg og ódýr eins og kartöflur og nýr
    fiskur til samans, það er mér vel kunnugt. En kjötið er búið að spenna of hátt – það hefnir sín“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu og verður ekki fleira rætt að sinni.
    Starkaður.
    Tíminn, sunnudaginn 5. október 1952
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi ræðir hér við okkur um hjúskaparmál og sambúð hjóna. Honum mælist
    svo:
    „Ég ætla ekki að skipta mér af einkamálum manna, karla eða kvenna, með því að nefna nöfn þeirra,
    eins eða annars, sem mér kemur auðvitað ekki nokkurn skapaðan hlut við. En það spillir engu, þótt ég
    enn einu sinni segi mína persónulega skoðun á þeim málum, svona yfirleitt.
    Þeir menn eða bændur, sem búa konulausir, vantar þá aðal aðstoð, sem dýrmætust er í lífinu, og
    mestur styrkur er að og ánægja, í hvaða stétt eða stöðu sem maðurinn er. Auðvitað er alveg það
    sama, að segja með konur, sem verða að búa karlmannslausar. Ef makann vantar, þá verður það ekki
    bætt upp nema með öðrum maka, sú saga er sönn. Ég þekki ekkjur bráðmyndarlegar, sem búa með
    ungum börnum sínum vegna þess, að þær hafa misst maka sinn. Konur standa miklu verr að vígi að
    ná sér aftur í maka en karlmenn, bæði siðvenjur o.fl. Þeir menn – hvort sem þeir eru ungir eða
    miðaldra -, sem byrja búskap án þess að fá sér konu, fara mikils á mis, og geta aldrei orðið meira en
    hálfir menn, ef þá vantar maka sinn.
    49
    Sumir menn búa með systrum sínum eða mæðrum og getur það farið vel hvað búskapinn áhrærir, en
    framtíð er það engin fyrir þjóðfélagið, því, ef fjöldinn hefði það svoleiðis, þá mundi fólkinu fljótt
    fækka í landinu, enda heimilin ekki í hálfu gildi, ef barnauppeldið vantar. Menn geta auðvitað tekið
    börn til fósturs, og það er gott og blessað svo langt sem það nær, en fullnægjandi er það ekki.
    Menn tala um að sum hjónabönd séu ekki svo beisin, að það sé eftir þeim sækjandi – og það er að
    vísu rétt, en það er mesti misskilningur að setja það fyrir sig, því það er lítill hluti á móti því, sem vel
    fer. Fjöldinn af hjónafólki býr við gott samkomulag, og eignast falleg og myndarleg börn og elur þau
    upp með snilld og prýði, svo að þau eiga sannarlega skilið að erfa landið, eins og það er kallað. Þau
    hjón, sem ekki eiga skap saman eða eru ótrú hvert öðru í ástamálum, geta þá skilið, ef þeim sýnist
    svo, ef þau eru ekki búin að eignast börn saman, en ef þau eiga börn saman, þá er undir flestum
    kringumstæðum ófyrirgefanlegt fyrir þau að leysa upp heimilið, og sundra fjölskyldunni á unga aldri,
    sem hlýtur að hafa varanlegt tjón fyrir börnin í framtíðinni.
    En alltaf má búast við því að hjón séu ekki alltaf sammála um eitt og annað, en þá er um að gera, að
    þau geti jafnað sig á því, svona hljóðalítið, sérstaklega ef börn þeirra heyra til, og slakað til hvert fyrir
    öðru eftir atvikum. Þó að kona, sem hefir orðið manni sínum ótrú í ástamálum, en á þó ekki börn
    nema með sínum eigin manni, ef hún er myndarleg og góð húsmóðir bæði við börnin og
    heimilisstörfin, þá er víst að það borgar sig ekki fyrir bóndann að skilja við hana og sundra með því
    fjölskyldunni. Hið sama gildir með bóndann. Ef hann er ótrúr konu sinni í ástamálum – en er þó góður
    og myndarlegur heimilisfaðir, bæði við konu sína og börnin þeirra, þá borgar sig alls ekki fyrir konuna
    að skilja við bónda sinn fyrir þær sakir, og sundra með því fjölskyldunni. En ef bæði hjónin væru
    eitthvað sek í þessum ástamálum, þá ættu þau að geta jafnað það á milli sín, þegjandi og hljóðalaust.
    Aðalatriðið er, ef hjónum ber á milli, að þau segi ekki í reiði sinni hvort til annars, orð, sem eru
    særandi og ógleymanleg, og að þau beri virðingu fyrir hvort öðru eftir verðleikum. Það er um að gera
    fyrir hjón eða foreldra, sem eiga börn saman óuppkomin, að sundra ekki heimilinu, þótt eitthvað beri
    á milli – því það getur verið óbætanlegt tjórn fyrir börnin og framtíð þeirra.“
    Starkaður gamli.
    Tíminn, þriðjudaginn 21. október 1952
    Baðstofuhjal
    Svo er hér á ferð Sveinn Sveinsson frá Fossi og ætlar að minnast á prestskosningar:
    „Það held ég, að það sé mikill misskilningur hjá löggjafarvaldinu að láta fólkið sjálft kjósa presta sína,
    vegna þess að því fylgja margir ókostir, svo sem stór kostnaður, fyrirhöfn og óánægja allra þeirra, sem
    undir verða og ef til vill óvinátta. Að vísu veit maður vel, að flest af fólkinu vill kjósa presta sína sjálft,
    en samt er það nú svo, að prestskosningar vekja miklu meiri óánægju og æsingu á meðal fólksins en
    aðrar embættismannaveitingar, s.s. lækna og sýslumanna. Fólkið gerir sig yfirleitt ánægt með þá
    embættismenn, sem veitingarvaldið lætur það hafa og þótt pólitíkin komist eitthvað þar inn í, þá held
    ég, að þessar prestskosningar fari heldur ekki varhluta af því. Og víst er það, að fólkið er sízt
    ánægðara með presta sína þegar allt kemur til alls, en með aðra sína embættismenn, sem
    veitingarvaldið veitir. Ég þykist vita, að sjálft veitingarvaldið á hverjum tíma sækist ekki eftir því að
    ráða prestana til fólksins, því að þegar fleiri sækja en einn, þá verða alltaf einhverjir óánægðir, en
    eftir þeirri reynslu, sem menn hafa fengið með lækna sína og sýslumenn, þá er ekki ástæða til að
    óttast, að það yrði öðru vísi með prestana, þótt þeir væru skipaðir af veitingarvaldinu án kosninga,
    enda fá prestar þjóðkirkjunnar kaup sitt úr ríkissjóði að mestu leyti eins og kunnugt er.
    50
    Sumir alþingismenn vilja ekki taka þetta vald af fólkinu og það væri ekki nema gott og blessað, ef það
    hefði nokkuð gott í för með sér fyrir fólkið. En reynslan hefir sýnt, allt annað en að svo sé. Og bezt
    væri fyrir prestana sjálfa að vera lausir við þann mikla kostnað, sem þeir hljóta að hafa af þessum
    kosningum, sem hlut eiga að máli í það og það skipti, með öllum þeim óþægindum, sem því fylgir að
    krjúpa fyrir fólkinu oft upp á lítinn árangur eins og gerist og gengur við kosningar, enda ætti það ekki
    að vera í verkahring prestanna, að æsa fólkið upp hvað á móti öðru, eins og vill alltaf verða við
    kosningabaráttu.
    Mér finnst nóg að láta fólkið kjósa alþingismenn, forsetann og ýmsar smærri kosningar innan hreppa
    sinna, bæja og héraða. Og svo þegar þjóðin er látin greiða atkvæði um ýms ný og mikilvæg mál, sem
    alla þjóðina varðar á hverjum tíma. Þótt prestskosningunum sé sleppt með öllu, eins og með aðra
    embættismenn ríkisins s.s. sýslumenn, lækna, skólastjóra o.s.frv.“
    Vera má að fleiri hugsi sér að segja eitthvað um prestskosningar og er þá ekki annað en taka því
    þegar til kemur.
    Starkaður gamli.
    Tíminn, fimmtudaginn 30. október 1952
    Baðstofuhjal
    Menn uppskera ekki eftir verðleikum hér í heimi. Það er löngu viðurkennt og um það fjallar fyrri hluti
    af pistli Sveins frá Fossi hér á eftir. Hann segir svo:
    „Þegar menn eru heiðraðir, lífs eða liðnir, fyrir afrek sín í þágu þjóðfélagsins, þá mun það oft vera svo
    að mætustu menn þjóðanna, ná ekki viðurkenningu hjá meirihluta sinnar samtíðar manna, og kemur
    þá margt til greina svo sem: Pólitík, metingur og metnaður. En sagan geymir þessa menn og þeir
    gleymast ekki, því eftir mörg ár, tugi ára eða aldir, þá er þeirra minnzt, og verka þeirra með viðhöfn
    og virðingu, og þakklæti fyrir unnin störf í þágu þjóðar sinnar á þeim tíma, sem þeir voru uppi.
    Í dag eigum við Íslendingar nokkra menn, en þó fáa, sem von er, með svo fámenna þjóð, sem
    samtíðarmenn koma sér ekki saman um að heiðra sem verðugt væri, en þegar ár líða og aldir, þá
    munu Íslendingar heiðra þessa menn sem beztu syni þjóðarinnar – fyrir sjálfstæðisbaráttu þeirra og
    heiðarleika í fjármálum, að hugsa meira um þjóðarhag en sinn eigin hag, hugsjónir landinu til
    framfara og þjóðinni til blessunar. Kjark, hyggindi og dugnað, þegar Reykjavík og þjóðinni í heild lá
    mest á góðri og öruggri forustu. Þegar Hitler vildi fá að byggja hér flugvöll, fyrir síðari
    heimsstyrjöldina, og margar þjóðir heims þorðu ekki annað en að sitja og standa eins og honum
    þóknaðist, sem von var eins og þá var allt í pottinn búið. Það þurfti því mikinn kjark til að senda
    honum neikvætt svar, fyrir þann mann, sem sat þá í forsæti okkar litlu þjóðar, og bar aðal ábyrgðina á
    svarinu. En mikil blessun fylgdi þessu svari fyrir Reykjavík og þjóðina í heild, fólkinu í Reykjavík og
    landinu öllu, að lifa við þá sælu, sem Bretinn færði okkur, á móti þeim hörmungum, sem yfir
    Reykjavík og landið hefði dunið, hefðu Þjóðverjar verið búnir að fá hér aðstöðu á undan
    bandamönnum.
    Af síðari heimsstyrjöldinni hafa þjóðirnar lært miklu meira en af þeirri fyrri, eins og kunnugt er, og
    þykir nú jafn sjálfsagt að hafa samtök til varnar eins og þá þótti það óþarft, sbr. hlutleysisstefnuna,
    sem þá var uppi meðal sumra þjóða.
    51
    Sannleikurinn er, að það liggur í hlutarins eðli, að mestu og beztu menn þjóðanna geta ekki fengið
    sína réttu viðurkenningu fyrr en eftir sína daga. Svo var með Jón Sigurðsson og fleiri mætustu menn
    þjóðarinnar eins og kunnugt er.
    Með þessu spjalli mínu ætla ég ekki að nefna nöfn þeirra manna, sem ég á við með þessum línum,
    því það munu eftirkomendur okkar gera á sínum tíma. En þeir menn, sem hafa barizt hiklaust fyrir
    sjálfstæði landsins og skrifað mest og bezt um hugsjónir landsins til framfara og þjóðinni til blessunar,
    og staðið traustir í forustu fyrir þjóðina, þegar mest lá á, eru okkar mestu menn og mætustu synir
    þjóðarinnar í dag.
    Svo ætla ég líka að spjalla hér um titlana og orðuregnið, sem dynur á sumum mönnum. Mig minnir,
    að það hafi verið 14 í lest, sem fengu orður – eða hvað það nú heitir – hjá forseta Íslands ekki alls fyrir
    löngu. Það má mikið vera, ef þeir menn, sem ráða þessum málum, setja sig ekki í ógöngur með því að
    láta svona marga menn fá svona vegtyllur, og þótt sumir af þeim eigi það gjarnan skilið fyrir mörg sín
    störf í þágu þjóðfélagsins, þá er samt svo, að þessi heiður verður svo lítils virði, þegar „Pétur og Páll“
    fá þetta líka fyrir ekki neitt.
    Í sambandi við þetta mál tala menn um „náðunarmálið“, og hvað forsetinn geri í því máli. Eftir
    lögunum hlýtur dómurinn að vera réttur á þá seku. En fyrst að heppnin var nú með, að ekki fór verr
    en fór, þá vil ég gefa þessum ungu mönnum upp sakir, það er mannbætandi tilraun.“
    Hér við bæti ég því, að engin stjórnarathöfn forseta er lögleg, nema ráðherra undirskrifi hana með
    honum, því að ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum, samkvæmt stjórnarskránni.
    Náðunarvaldið er því raunverulega í höndum dómsmálaráðherra fremur en forseta. Um orður segi ég
    ekkert að svo komnu, en alltaf mun okkur þó væntanlega þykja ástæða til að meta það, sem vel er
    gert og sýna góðum mönnum sæmdarvott.
    Starkaður gamli.
    Tíminn, föstudaginn 28. nóvember 1952
    Orðið er frjálst – Þegar Kötlugos kemur.
    Kötlugosið og fleira í sambandi við það.
    Kjartan Leifur Markússon bóndi í Suður-Hvammi í Mýrdal, skrifar í Morgunblaðið 31. okt. þ.á. fróðlega
    grein um Kötlugosin. Kjartan Leifur er fæddur og uppalinn í Hjörleifshöfða á Mýrdalssandi eins og
    mönnum þar eystra er kunnugt, Markús faðir hans var þjóðkunnur, fróður um margt og skrifaði um
    Kötlugos og fleiri eldgos. Kjartan Leifur er búfræðingur að menntun, mjög vel greindur og drengur
    hinn bezti, en heilsan ekki sterk og hefir það dregið úr framkvæmdum hvað búskapinn áhrærir, eins
    og verða vill ef heilsan brestur.
    Kjartan Leifur er manna fróðastur um Kötlu, Sandvatnið og Múlakvísl, enda uppalinn í Hjörleifshöfða
    beint fyrir gininu á þessum hamhleypum. Hann telur, að Katla hafi á þremur síðastliðnum öldum
    gosið tvisvar á hverri öld. Á 17. öld árið 1625 og aftur 1660, á 18. öld 1721 og aftur 1755, og á 19. öld
    1823 og 1860. Tíminn sem liðið hefir á milli gosa á hverri öld er því svo að segja jafnlangur 34, 35 og
    37 ár. Þetta er eftirtektarvert, þótt það geti brugðist af eða á. En svo virðist, sem helmingi lengri tími
    eða í kringum það hafi liðið á milli síðari gosanna og fyrra gos næstu aldar.
    52
    En Katla gerir ekki boð á undan sér frekar en önnur eldfjöll, en ef hún heldur þessum vana sínum, sem
    Kjartan Leifur talar um, þá getur hún gosið hvenær sem er úr þessu, og hann talar líka um, eins og
    maður hefir áður heyrt, að ef Sandvatnið eða jökulvötn úr jöklinum eru þurr að sumarlagi, þá geti
    verið hætt við gosi úr Kötlu. En mig minnir, að hann tali ekki um sjálfan jökulinn. En það mun vera
    glöggt merki að þegar jökullinn er orðinn það hár þar sem Katla er undir, að hann er nær því jafnhár
    jökulhnjúkunum, sem eru sinn hvoru megin við Kötlu, að þá megi fara að búast við gosi. Og alltaf
    munu jarðskjálftar geta gefið aðvörun, samt gætu þeir komið annars staðar frá líka.
    En hvað sem menn bollaleggja um þessi eldgos aftur og fram, þá verður alltaf sama sagan að enginn
    veit fyrr en þetta dynur yfir, og ekkert er hægt að gera nema flýja, ef nokkur tími er til þess, á betri
    stað ef til er fyrir þá sem eru í hættu fyrir hlaupinu, ef menn eru á ferð á Mýrdalssandi, því ekki geta
    menn hætt að ferðast, þó menn séu farnir að spá gosi, enda getur það dregist um óákveðinn tíma.
    Svo var það líka með Skeiðarársand, þótt menn þar eystra byggjust við Skeiðarárhlaupi þá og þegar,
    þá gat það líka dregist svo og svo lengi. Það datt því engum í hug annað en fara allra sinna ferða, enda
    komust menn líka stundum nauðuglega undan hlaupunum. Nú eru menn að hætta að fara yfir
    Skeiðarársand ens og kunnugt er og er það vel farið.
    En það er nú öðru máli að gegna með Mýrdalssand, yfir hann þarf að fara svo að segja daglega, að
    vísu einungis á bílum og getur það munað miklu ef svo ber undir að tími er til að forða sér, en ef
    mugga er, þoka og úrkoma svo að ekki sést til jökulsins þá getur hlaupið verið komið áður en nokkur
    veit og allar bjargir bannaðar. En þótt svona geti farið, þá verða menn samt að lifa í þeirri von og trú,
    að betur takist til ef heppnin er með. En svo er allt öðru máli að gegna með byggðirnar austan sands
    og vestan sem eru í hættu fyrir Kötluhlaupum, svo sem kauptúnið í Vík, Álftaverið, og vestustu bæina
    í Meðallandi, ef til vill.
    Ef hlaupin fara af fullum krafti yfir þessa staði þá er allt í hættu, sérstaklega ef það er um næturtíma, –
    þá fólkið líka.
    Fyrst ætla ég að tala um Víkurkauptúnið. Ef það ferst í Kötluhlaupi, þá munu menn segja, já – það var
    alltaf vitlaust að byggja þarna niður á sandinum og maður getur strax í dag sagt, já, – það var vitlaust,
    53
    og þó sérstaklega eftir Kötluhlaupið 1918. Fyrir það hlaup var eins og menn myndu ekki eftir Kötlu, og
    því meiri vorkunn, þótt þá væri byggð niður á sandinum enda allar vörur voru þá fluttar frá sjó.
    En hvað þýðir að vera að skrifa og bollaleggja um þetta nema að gera eitthvað raunhæft, svo sem að
    flytja byggðina á öruggan stað. Til er land alveg öruggt við kauptúnið, allt plássið vestan við Víkurá
    ofan við þorpið uppundir brekkur inn að þrengslum. Þar má þurrka upp alla mýrina og skipuleggja þar
    byggðina, og semja við jarðeigendur um kaup eða erfðaabúð á landinu. Undir flestum
    kringumstæðum tel ég víst að landið fáist. Kálgarðar ættu þó alltaf að geta verið niður á sandi hvernig
    sem færi. En þetta yrði mikið átak og dýrt. – En hvað skal segja? Því dýrara spaug gæti það orðið.
    Auðvitað þyrfti ríkið að hlaupa hér rækilega undir baggann, svo um munaði, og á því mundi ekki
    standa því þetta er bæði nauðsynjamál og glæsilegt framtíðarmál, enda þá ekki byggt á sandi, heldur
    á góðu og tryggu landi.
    Nokkrir af Vikurbúendum hafa byggt hús sín uppi á þessu landi og er það vel, en eins og áður segir þá
    þarf öll byggð að færast á trygga og góða staði, sem eru þarna við hendina.
    Það má búast við að menn verði tregir til að leggja í þetta og sérstaklega þeir, sem eru búnir að
    byggja sér vönduð steinhús, og auðvitað eru búendur sjálfráðir hvað þeir vilja eiga í hættu með sínar
    fjölskyldur og verðmæti, það getur slampazt af, en líka farið illa, og það er of seint að byrgja brunninn
    þegar barnið er dottið ofan í hann, eins og máltækið segir.
    Ég hygg að áhugamenn í Víkurþorpi ættu að halda fundi með sér og Víkurbændum og ræða þetta mál
    í fullri alvöru. Betra er seint en aldrei.
    Svo ætla ég nú að bregða mér austur yfir Mýrdalssandinn með þessum línum – stundum brá ég mér
    yfir hann á hestum. Og tala þar um staðhætti frá mínu sjónarmiði. Eins og kunnugt er hafa flest
    Kötluhlaup farið fram af Mýrdalssandi og tekið þar af alla byggð á fyrri tímum, nema alltaf hefir
    Álftaverið staðið eftir, þó í sífeldri hættu. Fólkið þar hefir frá því fyrsta vanist þessari hættu, fengið við
    það kjark og trúarstyrk og það er gott og blessað, út af fyrir sig. En oftraust á sér líka stað, og þeim
    verður ekki hjálpað sem ekki vilja hjálpa sér sjálfir, og ég hygg að Álftaverið hafi fengið fulla
    vísbendingu í síðasta Kötlugosi og hvað yfir því vofir og hvað þeir eigi að gera sem þar búa. Mér finnst
    líka að það sé ekki neitt meira fyrir þá að flytja búferlum í aðra hreppa eða önnur héruð en mig og
    aðra menn sem hafa orðð að gera það nauðugir eða viljugir. Í Álftaverinu er gott og duglegt fólk og
    myndi allstaðar bjarga sér ef það fengi góða aðstöðu til þess.
    Þar munu nú vera tólf búendur. Þar er lítið um nýjar byggingar þótt íbúðir séu þar sumsstaðar góðar,
    og til ný hús, en annarsstaðar þarf að fara að endurnýja byggingar eins og gerist og gengur. Þar eru
    upp og niður nokkuð góðar jarðir og sumsstaðar nýrækt, það má því búast við að menn þar séu tregir
    að yfirgefa plássið, og það lái ég ekki, þótt ég segi mína skoðun á málinu eins og hún liggur fyrir. Ef
    Álftveringar vildu halda saman félagsskap – því þeir eru félagslyndir, þá væru til góð pláss í
    Árnessýslu, eða þá sérstaklega í Rangárvallasýslu, svo sem allur Hvolsvöllur, sem er svo til valinn til
    ræktunar. Þar væri gaman fyrir svo duglegt fólk að byggja nýbýlaþorp, og þá þyrfti ríkið að koma til
    skjalanna með verulegan styrk. Enda þyrfti ríkið líka að hlaupa undir baggann með fólkinu, þar sem
    það mundi ekki geta selt sín verðmæti svo sem jarðir o.fl. Líka eru til staðir í sjálfri V.-Skaftafellssýslu
    á góðum stöðum, sem bíða eftir ræktun og meiri búskap, svo sem prestssetrin Ásar í Skaftártungu og
    Prestbakkinn á Síðu, og fleiri staðir vegna fólksfæðar, og í þessum uppsveitum er beitilandið bæði í
    heimahögum og afréttum með því bezta á landinu, og ekki nærri full notað. Bæði prestssetrin EystriÁsar
    og Prestbakkinn hafa undan farin ár verið í eyði. Nú er sóknarpresturinn séra Valgeir Helgason,
    að ljúka byggingu á vönduðu íbúðarhúsi í Ásum. Séra Valgeir er duglegur maður en það er ekki hægt
    að ætlast til að einyrkja embættismaður geti nytjað þá jörð til hlýtar.
    54
    Nú mun Prestbakkinn vera byggður bónda, en þótt sá bóndi hafi verið einn með beztu bændum
    héraðsins, þá er hann nú orðinn það við aldur, að það er ekki heldur ástæða til að hann geti nytjað þá
    miklu möguleika, sem sú glæsilega jörð bíður fram.
    Ég hygg að þessi prestssetur litu nú öðruvísi út ef bændur, eins og Jón Gíslason alþingismaður með
    sína dugmiklu syni og Brynjólfur Oddsson nábúi hans með sinn mikla dugnað hefðu setið á þessum
    jörðum undanfarin ár, og svo mætti fleiri fjölskyldur nefna í Álftaveri.
    Þegar Katla gaus 1918, þá bjó ég á Ásum í Skaftártungu. Ég ætla ekki hér að lýsa þeim ósköpum, sem
    á gengu, það eru svo margir sem muna það. Þá kom svo mikið öskufall yfir Tunguna að menn töldu
    hana fara í eyði. Var það biksvartur sandur og meir en haglaust til vors. Þegar hvessti sást ekki útúr
    augunum. Sandurinn fauk í skafla og smám saman burtu. Um vorið, sem var gott, spratt grasið ört, og
    ær, sem voru lélegar, réttu svo fljótt við eins og þær lifðu á rúgmjöli. Í tvö ár eftir gosið, þar sem
    askan var mest eins og í Skaftártungu, voru ærnar svo feitar eins og sauðir geta bezt verið. Það mátti
    segja að smjör drypi af hverju strái. En sumarið eftir gosið voru slægjur hálf ónýtar í Tungunni út af
    sandi. Ég heyjaði þá algjört suður í Meðallandi. Þá þurfti að flytja á klökkum yfir vötn og vegleysur. Nú
    væri þetta leikur á móti því er þá var. Nú er hver spræna brúuð og vegir lagðir, og allt flutt á bílum
    milli hreppanna. Eins og margir vita fylgja ekki Kötlugosum eitrað loft og svo mun vera með gos úr
    jöklum. Það er því aðaatriðið í þeim gosum að hafa nægar fóðurbyrgðir handa öllum skepnum meðan
    öskusandurinn hylur jörðina.
    Ég skrifa þessar línur til að láta í ljósi mína skoðun á þessu máli og nú á tímum finnst mér þetta vera
    vel vinnandi verk, ef samtök og vilji er fyrir hendi hjá fólkinu sjálfu, sem hlut á að máli.
    55
    1953
    Þetta ár birtust 14 pistlar eftir hann í dagblöðum landsins, 13 í Tímanum og einn í
    Morgunblaðinu. Í Morgunblaðinu var um að ræða grein sem hann nefndi Eftir 50 ára
    hjúskap. Pistlarnir í Tímanum voru áfram í greinaflokknum Baðstofuhjal auk minningarorða
    um tengdason sinn, Ara K. Eyjólfsson.
    Meðal umfjöllunarefna má nefna Kötlugos og Meðallandið, kirkjubyggingar og félagsheimili
    og skólar, moldarrof, uppeldi, reiðhestar og drossíur, búskapur presta, prestvígslur,
    útvarpsmessur, vetrarklæðnaður, ályktanir prestastefnu, málefni Grænlands, frumbýlingar
    og konuefni, vélvæðing í sveitum og sölumál rófnabænda.
    5
    Tíminn, fimmtudaginn 15. janúar 1953
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir sent mér nokkur orð um Kötlugos:
    „Síðan ég skrifaði greinina í Tímann um Kötlugosin hefir greindargóður maður og þekktur þar eystra
    og enda um allt land talað við mig um það, að hann teldi Út-Meðallandið í eins mikilli hættu og
    Álftaverið fyrir Kötluhlaupum. Í minni grein taldi ég, að vestustu bæir í Meðallandi gætu verið í hættu
    fyrir Kötluhlaupi eins og sýndi sig í síðasta Kötlugosi 1918. Okkur ber því saman um þetta atriði, nema
    hvað ég tel Álftaverið hafa verið oftar í meiri hættu en Meðallandið.
    Ég hygg ásamt fleiri mönnum kunnugum þar eystra, að það hafi bjargað Álftaverinu í síðasta
    Kötlugosi, að eystra aðal hlaupið braut sig fram úr jöklinum það austarlega, að það fór í Hólmsá
    norðan við svokallað Rjúpnafell. En hefði það farið allt fram vestan við það, þá er hætt við að
    Álftaverið hefði farið illa, því að samt fyrir það, sem áður greinir, fór hlaupið á milli flestra bæja í
    Álftaverinu. Á vatnamótum, þar sem Hólmsá fer í Eldvatnið og síðan heitir það Kúðafljót, stoppaði
    jakahrönn svo rækilega vötnin á þessum vatnamótum, að Eldvatnið og Tungufljót lónuðu uppi í
    marga daga eða vikur, svo að vatnselgurinn fygldi Hraunbrúninni eða vel það alla leið á móts við
    Eystri-Ása, og nær því heim að Flögu, og tók þar af mest allar útslægjur jarðanna Hrífuness og
    Hamrafit. Tungufljót lónaði uppi alla leið inn að Bjarnafossi, og hefði brúin þá verið komin á fljótið,
    hefði hún líkast til farið af. Loksins þegar vötnin náðu sér áfram og fjöruðu, voru fremri vöðin á
    Tungufljóti með öllu ófær af sandbleytum og kafhlaupum, en eftir nokkur ár fór það að smálagast
    aftur.
    Menn hafa talað við mig síðan ég skrifaði greinina um Kötlu, að Víkur kauptúni væri nú ekki eins hætt
    og áður, þótt Katla gysi, vegna þess að sandurinn væri nú sunnan við þorpið bæði hærri og breiðari,
    og er ekki nema gott um það að segja. En eftir síðasta Kötlugos 1918 sögðu sumir Víkurbúar, að það
    hefði þá bjargað Víkur-þorpi að sjór var dauður og þó skall aldan hátt upp í Reynisfjall, og af því má
    reikna út, að ef þá hefði verið stórbrim af útsuðri, þá hefði aldan eða sjórinn skollið yfir allt þorpið
    eða kauptúnið neðan við bakkana. Ég geri nú ráð fyrir, að ég hætti nú að skrifa um þetta mál, og bið
    ég hlutaðeigandi menn að forláta og vel að virða. En allt gæti þetta samt orðið til athugunar fyrir
    fólkið, sem hlut á að máli“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Tíminn, laugardaginn 24. janúar 1953
    Baðstofuhjal
    … svo er hér bréf frá Sveini frá Fossi um kirkjubyggingar:
    „Það getur verið gott og uppbyggilegt fyrir þjóðfélagið, þegar áhugasamir og greindir menn
    þjóðarinnar ferðast um heiminn og koma svo heim aftur með ýmsan fróðleik, sem gæti verið okkar
    þjóð til gagns og hagsbótar.
    Mér datt þetta í hug, þegar ég las í Tímanum 15. þ.m. greinarstúf eftir V.G. um kirkjubyggingar. Eins
    og hagar til víða í sveitum landsins og í Reykjavík með kirkjubyggingar, þá finnst mér þessi greinargerð
    og frásögn V.G. vera mjög athyglisverð fyrir þá sem ráða kirkjubyggingum og fjármálum landsins.
    57
    Eins og kunnugt er, þá er víða í sveitum landsins mjög sjaldan messað, og þá stundum yfir fáum
    sálum, nema við fermingu barna, en þá kemur fyrir að sumar kirkjur verða of litlar. En með því að
    hafa sama hús fyrir kirkju, félagsheimili og skóla, með þeim útbúnaði sem V.G. talar um, þá væru
    húsin nægilega stór, og það gæti komið sér vel, t.d. við afmælishátíðir, sem hefjast með
    guðsþjónustu.
    Ég hygg að þetta fyrirkomulag myndi hafa góð áhrif á ungdóminn í landinu og auka aðsókn að
    kirkjum. Þar sem unga fólkið væri vant að sækja sína félagsfundi og skemmtanir og börnin skóla. Ég
    hygg líka að flest af eldra fólki mundi venjast þessu og læra að meta hagnaðinn, sem af þessari
    breytingu mundi leiða.
    Þessi nýtízku félagsheimili og skólahús eru líka miklu voldugri og skemmtilegri en smákirkjur, sem
    verða óvistlegri fyrir það, hvað þær eru sjaldan og lítið notaðar. Þær verða eins og íbúðarhús, sem
    standa eftir á eyðijörðum, mannlaus og yfirgefin, spreka og kólna upp af sagga og eyðileggjast. Annað
    mál er það með voldugar og nýbyggðar kirkjur, á þeim verður ekki breyting, meðan þær þurfa ekki
    endurbyggingar við. En þar sem þarf að byggja nýjar kirkjur eða endurbyggja kirkjur, þá er þetta mál
    þess vert, að það sé mjög vel athugað frá öllum hliðum, bæði fjárhagslegum og trúarlegum, eins og
    að framan getur, af þeim mönnum, sem þessum byggingamálum ráða.
    Það kann að vera að sumir kirkjunnar menn, svo sem prestar og guðfræðikennarar felli sig ekki við
    svona lagaðar breytingar á kirkjunum, en margir af þeim menntamönnum eru frjálslyndir og hagsýnir,
    og þekkja vel í hvaða hættu kirkjulífið er og kristindómurinn í landinu, og margir þeirra hafa mikinn
    áhuga fyrir þessum málum. Enda er það líka svo að kirkjurnar eru ekki lagðar niður með þessu
    fyrirkomulagi, heldur þvert á móti byggðar með nýju sniði og fyrirkomulagi, sem mér virðist vera
    ákaflega haganlegt eftir því sem V.G. lýsir í grein sinni.“
    Lýkur svo baðstofuhjalinu í dag.
    Starkaður.
    Tíminn, laugardaginn 31. janúar 1953
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og kemur víða við eins og venja hans er:
    „Í Tímanum 18. janúar s.l. er grein eftir Jón Í. Bjarnason um málefni, sem ég man ekki til að ég hafi
    fyrr séð skrifað um, en sem mér þykir vera mjög merkilegt. Það er að græða upp moldarrofin með því
    að sá í þau þyrnum og öðrum þeim jurtum, sem búfé forðast og bítur ekki. Í skjóli þeirra geta svo
    vaxið aðrar tegundir m.a. belgjurtir o.s.frv.
    Í mörgum heiðalöndum, þar sem aðallega er valllendi og gott beitiland fyrir sauðfé, er víða mikið um
    moldarrrof, sem helzt er ekki hægt að girða af nema girða þá allt beitilandið líka, en það getur ekki
    gengið eins og gefur að skilja. T.d. í Skaftártungu, sem er gæða sauðfjárland, er mikið af
    moldarrofum, sem sífellt eru að blása upp, þótt hægt fari, og líka rennur moldin burt á klaka, þegar
    svo viðrar. Þessi moldarrof eru svo á víð og dreif, að þau verða ekki girt eins og áður segir. Ef þessi
    tilraun, sem Jón Bjarnason leggur til að reynd verði, gæti heppnast, þá gengur það næst sandgræðslu
    og mela í tún og skógrækt. Má þá með sanni segja, að fátt sé látið ógert til þess að græða upp
    eyðingarsár landsins.
    58
    Svo ætla ég líka að tala hér um annað málefni, sem má segja, að sé skylt því fyrra. En það er
    uppeldisgróður á sjálfu mannfólkinu – barnauppeldið. Eins og kunnugt er, flutti frú Valborg
    Sigurðardóttir útvarpserindi 19. janúar s.l. í dagskrárlið Kvenfélagasambands Íslands – Ungbarnið og
    móðurhyggjan. – Það voru orð í tíma töluð og mega ekki niður falla í gleymskunnar skaut. Það mun
    vera margt af fólki, sérstaklega ungu fólki, bæði í Reykjavík og annarsstaðar á landinu, sem ekki
    hlustar á útvarpserindi, af áhugaleysi og ýmsum öðrum ástæðum.
    Það er því mín skoðun og tillaga, að Kvenfélagasamband Íslands gefi þetta útvarpserindi út í litlu
    bókarformi og nefni það Vasabók mæðra – í svo stóru upplagi eða útgáfu, að hægt verði að senda
    það á hvert einasta heimili á landinu. Rikið, sem styrkir svo margt nú á tímum, ætti að sjálfsögðu að
    styrkja þessa útgáfu, því að hvað er meiri þjóðarnauðsyn en að ungar mæður læri rétta meðferð á
    barni sínu strax frá fæðingu þess. En á því er mikill misbrestur sumra mæðra, eins og kunnugt er.
    Ef höfundurinn óskar eftir að breyta einhverju til í erindinu án þess að skerða nokkkuð það bezta í því
    eða lengja það nokkuð að ráði, þá finnst mér ekkert athugavert við það, ef það væri kannske
    eitthvað, sem betur má fara. Ég get ekki látið mér detta annað í hug en að stúlkur og ungar konur
    lesi, læri og muni svona litla fræðibók, sem þessi vasabók myndi verða. En þó er það vonlaust
    almennt nema eins og áður er sagt, að bókin verði send inn á hvert heimili.
    Ég hef áður nokkrum sinnum skrifað í Tímann um barnauppeldi og lagt á það aðal áherzlu að
    framkalla það góða, sem í barninu býr, strax í vöggu eða frá fæðingu þess, með hlýju viðmóti. Þegar
    barnið grætur vegna þess, að það þarfnast einhverrar hjálpar við, þá á að athuga það strax, hvað að
    er og hjálpa því og hugga það. Að láta barnið gráta svo og svo lengi áður en það er huggað og gert til
    góða, það er óhuggulegt og gerir barnið geðvont og veiklað. Það er mjög áríðandi að gera það strax
    fyrir börnin, sem vitanlegt er að verður að gerast, þó að seinna sé, og þá oft að óþörfu of seint. Fyrst
    er það móðirin og faðirinn og svo allir þeir, sem umgangast börn og yfir þeim ráða, sem ber heilög
    skylda til að sýna þeim hlýtt viðmót“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Tíminn, sunnudaginn 8. febrúar 1953
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs:
    „Í sveitunum var það venja að fara gangandi til beitarhúsa, og yfirleitt til gegninga, hovrt sem það var
    langt eða skammt, svo framarlega, að menn væru frískir. Þessi siður mun víðast haldast enn. Þetta
    getur auðvitað ekki talizt nein tíðindi, svo er það sjálfsagt, þó sérstaklega í snjó og ófærð, því þá er
    það hvort tveggja að menn eru frjálsastir að vera gangandi við fénað sinn, þegar snjór er á jörð, og er
    ekki nema til trafala að vera með hest, svo sem það er dýrmætt að vera á hesti við smalamennsku á
    auðri jörð.
    Enn er það allt annað að taka reiðhest sinn á hverjum degi, þegar snjór er og ófærð, og hvað vel sem
    hann væri alinn og þó hann væri bráðviljugur, þá mundi fljótt fara af honum mesti broddurinn og
    alveg tapa vilja, ef hann væri tekinn í notkun á hverjum degi, þótt það væri ekki nema stuttt
    bæjarleið, eða til beitarhúsa. Þetta þekkja flestir hestamenn, sem eiga góða og viljuga reiðhesta, enda
    59
    eru þessir reiðhestar ekki snjóhestar, þeir hafa þann gang, að þeir geta ekki enzt vel í ófærð og letjast
    því fljótt, það eru einungis viljugir skokkhestar, sem endast vel í snjó eða ófærð.
    Síðan ég fór að vera hér í Reykjavík og kynnast umferðinni hér á götunum, þá finnst mér að það ætti
    að vera líkt með fínar drossíur og fína reiðhesta, að þeir menn, sem eiga fínar drossíur, þeim ætti að
    vera eins annt um að skemma þær ekki, eins og hestamönnum að skemma ekki sína fínu reiðhesta.
    Þegar snjór nokkur að ráði er kominn hér á göturnar, þá hlýtur það að vera meiri skemmd á fínum
    drossíum, en stórum og duglegum flutningabílum, alveg eins og með hestana, eins og áður er lýst.
    Ég hygg, að það væri mikil hagsýni fyrir ungt fólk, bæði gift og ógift, sem á sínar einkadrossíur, að slá
    tvær flugur í einu höggi, eins og það er kallað, með því að spara sína fínu bíla sem mest, þegar snjór
    er á götunum og færðin er vond, og því mest hættan á skemmdum á þeim. En þess í stað að fá sér
    göngutúra til og frá vinnu. Ég held að það hlyti að vera hollt fyrir fólk, sem vinnur innivið svo sem
    verzlunarfólk, skrifstofufólk, skólafólk og fleiri, að ganga þar sem það á ekki mjög langt að sækja,
    þegar veður er stillt, svo sem í sólskini og hægum snjógangi.
    Það mundi stæla líkamann og lungun með útiloftinu, skapið verða betra og léttara, og líðanin yfirleitt
    betri á líkama og sál. Með þessu er auðvitað ekki átt við það fólk, sem stundar útiæfingar og íþróttir.
    En þeir, sem gera það ekki eða væru hættir því, en þó á góðum aldri til að ganga dálítið, mega vara sig
    á því að hreyfa sig ekki útfyrir dyr, nema í bíl, þótt þeir eigi hann sjálfir. Því með því geta þeir elzt of
    fljótt, fyrir tímann.
    Síðan að útvarpið kom til sögunnar og þó sérstaklega eftir að það kom inn á hvert heimili í landinu,
    en það má víst fullyrða að svo sé, þá breyttist ýmisleg venja og siðir heimilanna, svo sem að lesa
    sögur upphátt á kvöldin, og húslestur þar á eftir. Þessi breyting er eðlileg, því eins og kunnugt er,
    flytur útvarpið öll kvöld fréttir, erindi, upplestra, sögur, söng og hljóðfæraslátt og allt mögulegt,
    passíusálma um föstuna, og um það vildi ég mega tala aðeins nánar. Ég þykist vita, að þeir, sem ráða
    dagskrá útvarpsins, viti vel, að það var siður að lesa húslesturinn á kvöldin, eftir sögulesturinn, svo
    engin truflun skyldi verða þar á eftir, áður en menn gengu til náða. Mér finnst það muni vera
    bagalaust við dagskrá útvarpsins að lesa passíusálmana á eftir sögunni, sem lesin er á eftir fréttum í
    vökulokin. Mér finnst því, að þessum sið megi halda til minningar þess, að mest var við haft með
    guðsorð af öllu því, sem lesið var upphátt að kvöldi dags hér í fyrri daga.
    Annars finnst mér að þessu dýrmæta menningartæki, sem útvarpið er, vera stjórnað á sem
    fjölbreyttastan hátt fyrir hlustendur, og þeir, sem oftast koma fram í útvarpinu, eru okkur kærkomnir
    gestir, sem mest hlustum á útvarpið. En hvað er það, sem ekkert er hægt að finna að?, ég held að það
    sé fátt, hvað vel sem menn vilja gera fyrir fólkið, sem hlut á að máli. Útvarpið, síminn og ég tala nú
    ekki um rafmagnið, sem er undirstaðan með öll lífsþægindi, já – menn ættu að geta verið ánægðir
    með allt þetta o.fl.“
    Sveinn hefir lokið málin sínu.
    Starkaður.
    60
    Tíminn, þriðjudaginn 17. febrúar 1953
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og ræðir um prestsetursjarðir:
    „Í Kirkjublaðið 9. febr. 1953 skrifar S.V. grein með fyrirsögninni: „Á að taka prestssetrin af prestunum
    með valdi.“ Ég skil lögin hins vegar svo, að það eigi ekki að taka prestssetrin af prestum, sem sitja þar,
    heldur eigi að taka það af prestssetrunum, sem prestar sitja ekki á þann hátt, sem talizt getur full
    nýting á gæðum jarðarinnar, bæði með ræktun og beitiland.
    Skal ég nú til skýringar á minni skoðun, um þessi nýju lög, taka sem dæmi Ásana í Skaftártungu, því
    þar er ég allra manna kunnugastur. Ytri-Ásar, sem áður voru byggðir, fóru í eyði 1907 og voru þá
    lagðir undir Eystri-Ása, þar til fyrir nokkrum árum, að þeir voru teknir í nýbýli, og er það rúmlega einn
    þriðji af Ásunum. Prestssetrið Eystri-Ásar eru því tæplega tveir þriðju að jarðarmagni Ásanna.
    Sama ár, sem núverandi prestur tók Eystri-Ásana alveg í sínar hendur, byrjaði bóndinn, sem fékk YtriÁsana
    í nýbýli, að byggja upp bæinn sinn. Nú er presturinn líka búinn að byggja upp sinn bæ. Þeir eru
    báðir einyrkjar, og á líkum aldri, bóndinn þó aðeins eldri. Jarðirnar liggja saman og að öllu leyti líkar
    að gæðum, bæði með hagbeit og ræktunarskilyrði, hvergi þarf skurð að grafa, nóg til af sléttu
    vallendi, beitilandið með því bezta, sem til er á landi hér.
    Nú kem ég að aðalatriðinu í þessu dæmi með skoðun mína á lögunum, sem S. V. skrifar um, eins og
    fyrr segir. Mín skoðun er á þessa lund: Ef presturinn á Eystri-Ásum býr eins stóru og góðu búi í
    hlutfalli við jarðarmagn, eins og bóndinn í Ytri-Ásum, þá á presturinn að hafa alla jörðina Eystri-Ása til
    ábúðar, ef hann vill svo. En ef hann nytjar ekki sína jörð eins vel og nábúi hans á Ytri-Ásum, þá á að
    taka af honum hálfa jörðina og byggja hana með erfðaleiguábúð sem nýbýli.
    Að mínu áliti eru þessi umtöluðu lög bæði sanngjörn og sjálfsögð, eins og nú hagar til með
    ræktunarskilyrði og áhuga fyrir þeim málum. Það á því ekki að koma til mála að láta jarðir, sem ríkið
    hefir til umráða á góðum stöðum, vera ónotaðar eða hálfnotaðar í sambanburði við bændabýli þar í
    nágrenni á hverjum stað, hvar sem er á landinu.
    Þeim, sem koma til með að ráða þessum málum, ber skylda til að fylgja þessum lögum vel eftir, það
    er þjóðarnauðsyn. Það er ekki nema sjálfsögð krafa, að þeir embættismenn ríkisins, sem vilja búa á
    jörðum, nytji þær að öllu leyti eins vel og beztu bændur, sem nálægt þeim búa.
    Þótt ég hafi ekki trú á því, að það borgi sig fyrir presta eða aðra embættismenn að búa á jörðum, þá
    er sízt að lasta það, ef þeir sem vilja það og geta sýnt það í verkinu, að þeir geti búið og nytjað eins vel
    og góðir bændur sínar jarðir. Enda hafa alltaf verið til prestar og aðrir embættismenn, sem hafa búið
    stórum fyrirmyndarbúum, og eru til enn í dag, svo sem af þeim, sem ég þekki, séra Sveinbjörn
    Högnason á Breiðabólstað í Fljótshlíð, sem hefir búið þar stóru búi, svo sem fyrirrennari hans þar,
    séra Eggert, gjörði. Séra Gísli Brynjólfsson á Kirkjubæjarklaustri er nettur búmaður og nytjar þann
    part, sem hann hefir af jörðinni, út í yztu æsar. Fyrst að séra Gísli Brynjólfsson ílentist þarna á Síðunni,
    þá er ég viss um, að það væri mikill skaði fyrir Hörgslandshrepp, að hann tók ekki Prestbakkann. Hefði
    hann tekið þá jörð strax, þá væri komið þar vandað íbúðarhús úr steini, mikil ræktun á því gósenlandi,
    og stórbú. Það hefði líka verið gaman fyrir séra Gísla, svo góður búmaður sem hann er.
    Nú er mikill áhugi með ræktun og landbúskap meðal ráðandi manna þjóðarinnar. Hví skyldi þá eiga
    að skilja eftir beztu jarðirnar hálfsetnar eða ósetnar?“
    Sveinn hefir lokið máli sínu. Starkaður.
    61
    Tíminn, laugardaginn 14. mars 1953
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og ræðir um prestvígslu, sem nýlega fór fram:
    „Sunnudaginn 15. febrúar vígði biskup landsins þrjá guðfræðinga prestvígslu og langar mig til að
    minnast nokkuð á það. Alltaf eru það hátíðlegar guðsþjónustur, þegar guðfræðingar eru vígðir til
    prests. Oftast eru það myndarlegir og efnilegir menn eins og það var í þetta skipti.
    En tvennt er það við þessa athöfn, sem mér finnst að mætti breyta svo að til nokkurra bóta gæti
    orðið. Fyrst það, að mér finnst það gæti verið í verkahring biskupsins að lýsa vígslu. Þá er annað, sem
    ég legg meira upp úr, en það er að þegar fleiri en einn guðfræðingur er vígður, þá haldi hver og einn
    þeirra stutt ávörp, en enginn beina stólræðu.
    Auðvitað eiga þeir samt að stíga í stólinn og flytja þar sín ávörp, en þegar því er lokið, ætti einhver af
    vígsluvottunum, þó helzt biskupinn sjálfur að stíga í prédikunarstólinn og lesa blessunarorðin o.s.frv.
    til fólksins. Ég álít, að fólk mundi kunna þeirri breytingu vel, sérstaklega þó að heyra í öllum þeim,
    sem vígðir eru. Með því er guðfræðingunum einnig gert jafn hátt undir höfði, en slíkt á auðvitað mun
    betur við og enginn misskilningur gæti komizt inn hjá almenningi um aðstöðumun hjá þessum
    nývígðu mönnum. Einnig mætti komast hjá metnaðarríg í sóknum þeirra.
    Þá eru hér að lokum nokkur orð um útvarpsmessur. Til þeirra þarf vel að vanda, því að margir eru
    þeir, sem á þær hlusta. Söngurinn er yfirleitt prýðilegur – enda munu vera æfðir söngflokkar við
    hverja kirkju hér í Reykjavík. Það er aftur á móti verra með suma prestana, sem messa í útvarpið.
    Sumir af þeim geta alls ekki tónað og aðrir eiga erfitt með það. Mér finnst að þeir prestar, sem slíkt er
    ástatt með, ættu að hafa félag við þá presta, sem tóna vel, með því að láta þá þjóna fyrir altari. Þá
    myndu útvarpsmessurnar verða enn hátíðlegri, því að þótt prestur tóni ekki vel, getur hann verið
    frábær ræðumaður, en blærinn yfir messunni getur ekki verið eins hátíðlegur, nema vel sé tónað“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    … Lýkur svo baðstofuhjalinu í dag.
    Starkaður.
    Tíminn, þriðjudaginn 19. maí 1963
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir óskað eftir að segja nokkur orð:
    „Fimmtudaginn 26. marz s.l. talaði frú Guðrún Guðjónsdóttir í útvarpið í þættinum „Vettvangur
    kvenna“ um vetrarklæðnað kvenfólksins og ráðleggingar um, hvernig kvenfólkið ætti að klæða sig,
    þegar kalt er í veðri og hvaða fatnaður það er, sem er hlýjastur og sómasamlegastur fyrir íslenzkt
    kvenfólk, þegar svo viðrar, að því ber að klæðast í betri skjólföt en þegar hitar eru og góð tíð.
    Erindi frúarinnar var vel flutt og málefnið mjög nauðsynlegt, en við það ætla ég að bæta örfáum
    orðum um vetrarklæðnað karlmannanna, því að hann er sízt betri en kvenfólksins. Þó að þeir margir
    hverjir klæðist eins og sumt kvenfólk líka gerir í þessa hlýju, ágætu ullarskinnsjakka, þrátt fyrir það
    þola þeir ekki að skreppa út í nokkrar mínútur, ef hvasst er og 5 – 6 gráðu frost, án þess að verða bláir
    af kulda vegna þess, að þeir eru hálfberir að neðan, eru bara í einum buxum og mittisskýlu og lágum,
    62
    þunnum leistum í staðinn fyrir að vera í hærri sokkum og í nærbuxum, sem ná niður í sokkana, eins
    og þarf að vera í kulda. Það nægir ekki, þótt fólk sé vel klætt að ofan, ef kuldann leggur upp eftir
    lærunum berum. Ungu fólki og öllu fólki er óhætt að trúa því, að það er ekki fallegt að vera blár í
    kulda og eiga á hættu að tapa heilsunni af þeim sökum“.
    … Baðstofuhjalinu er lokið í dag.
    Starkaður.
    Tíminn, laugardaginn 8. ágúst 1953
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og ræðir um ályktanir prestastefnunnar í júní 1953:
    „Synodus, sem haldin er á hverju sumri af biskupi og prestastétt, eru með meiri háttar
    stéttarsamkomum þessa lands. Á þessari prestastefnu var fyrst tekið fyrir endurreisn Skálholts, og á
    það vel við að einmitt prestastéttin vinni að viðreisn Skálholtsstaðar, með ráðum og dáð, því til þess
    að það verk verði þjóðinni til sæmdar, duga engin vetlingatök. Þar þurfa að koma vandaðar
    húsabyggingar, svo sem: Kirkja, biskupssetur og fleiri heimabyggingar; menntaskólasetur, því að
    Laugarvatnsmenntaskóladeildin ætti að flytjast að Skálholti, því að nóg er af skólafólki á Laugarvatni,
    en vantar einmitt að Skálholti. Og auðvitað ætti búnaðarskóli Suðurlands að standa þar, og hafa með
    höndum aðaljarðræktarstarf Skálholtsjarðar, fénaðar og gripaframleiðslu, svipað því, sem er á
    Hvanneyri og Hólum í Hjaltadal, eftir því sem bezt þykir henta við staðhætti þar, með afurðasölu og
    gæði jarðarinnar.
    Skálholt getur aldrei orðið staðarlegt, nema að þar séu miklar byggingar og margt fólk, eins og fylgir
    meiri háttar skólalífi.
    Eins og sjálfsagt var, tók prestastefnan kirkjubyggingar og viðreisn kirkna til meðferðar, og þakkar
    stuðning Alþingis, og skorar á það að leggja meira fé fram í því skyni. Víst er það eðlileg krafa til
    Alþingis, að ríkið styrki kirkjubyggingar í landinu, hverjir sem að þeim standa, hvort heldur það eru
    þjóðkirkjusöfnuðir eða fríkirkjusöfnuðir, o.s.frv. Enda styrkir ríkið nú orðið flestar byggingar í landinu
    með hagkvæmum lánum eða styrkjum og öðrum fyrirgreiðslum.
    Eins og vera ber með menntamenn, vill prestastéttin standa vörð um tunguna og skólamálin – eins
    og hið ágæta erindi séra Árelíusar Níelssonar bar með sér, er hann flutti á þessari prestastefnu, enda
    ættu uppeldismálin að vera eittt höfuðmál prestanna. Margir prestar hafa frá fyrstu tíð stutt það mál
    af alúð og verið ágætis kennarar. Hins vegar hafa sumir prestar ekki verið upplagðir fyrir þann starfa,
    eins og gerist og gengur með suma menn, sem hafa tekið að sér stöður, sem þeir hafa ekki haft
    hæfileika til að gegna eins og æskilegt væri og vera ber.
    Svo ætla ég aðeins að koma inn á mál málanna, sem virðist vera hjá forustu prestastéttarinnar,
    nefnilega jarðabraskið með prestssetrin. Það er undarlegt með þessar kröfur hvað eftir annað til
    Alþingis um lög og lagabreytingar í því máli. Það eru byggð eftir því, sem ástæður leyfa, vönduð
    íbúðarhús yfir prestana, og það lasta ég ekki, því það er nauðsynlegt. En að hálaunaðir menn eins og
    prestarnir eru nú, skuli í tilbót krefjast þess, að ríkið geri eiginlega allt á prestssetrunum, fyrir ekki
    neitt, svo sem með gripahús og jarðrækt, en ber þó engin skylda til að nota húsin eða jörðina, ef þá
    vantar manndóm til þess, eða sjá sér ekki hag í því. Enda hafa þeir sín laun til að lifa af með sínar
    fjölskyldur.
    63
    Þeir prestar, sem eru góðir búmenn, sjá sjálfir um gripahúsabyggingar og jarðrækt á jörðum sínum,
    eins og þeim sjálfum bezt hentar og borgar sig, eins og góðir bændur gera, og fá svo sinn byggingarog
    jarðræktarstyrk, eins og lög mæla fyrir, og svo á það að vera. En þeir prestar, sem ekkert vilja
    sjálfir af mörkum leggja jörðum sínum til bóta, eiga ekki að hafa jarðir undir höndum eða til umráða,
    eins og allir ættu að geta séð.
    Ef þessum kröfum verður haldið áfram, mætti segja manni, að það gæti endað með því, að Alþing
    samþykkti skilnað ríkis og kirkju með lögum, og léti fólkið í landinu sjálft ráða þvi, hvað það vill gera
    og gefa mikið fyrir presta sína, líkt og fríkirkjusöfnuðir gjöra. Maður hefir ekki heyrt annað en að það
    fólk fari vel með presta sína, og geti valið úr prestum. Þá yrði þetta allt frjálst, fólkið réði sjálft, hvað
    marga presta það hefði, og hvað háar kröfur það gerði til þeirra, með gæði og hæfileika.
    Ég var áður búinn að skrifa í Tímann um álit mitt um lagaheimild, sem síðasta Alþing samþykkti um
    prestssetursjarðir, og fer ég ekki að endurtaka það hér, nema aðeins þetta atriði: Að mínu áliti eru
    þessi umtöluðu lög bæði sanngjörn og sjálfsögð, eins og nú hagar til með ræktunarskilyrði og áhuga
    fyrir þeim málum. Það á því ekki að koma til mála að láta jarðir, sem ríkið hefir til umráða á góðum
    stöðum, vera ónotaðar eða hálfnotaðar í samanburði við bændabýli þar í nágrenni á hverjum stað,
    hvar sem er á landinu.“
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Tíminn, föstudaginn 14. ágúst 1953
    Baðstofuhjal
    … Svo er hér kominn Sveinn frá Fossi og ræðir um Grænlandsmálið:
    Þegar ég sá og las í blöðunum álit Grænlandsnefndarinnar, að Dönum bæri drottinvald yfir öllu
    Grænlandi, þá brá mér og fleirum í brún, ekki af því, þótt þetta væri álit nefndarinnar, þeir hafa
    auðvitað sínar skoðanir á þessu máli og við því er ekkert að segja, en það sem maður kunni ekki við,
    var það, að ríkisstjórnin skyldi ákveða það, að birta opinberlega þetta álit Grænlandsnefndarinnar.
    Manni finnst það koma úr hörðustu átt að Íslendingar sjálfir dæmi af sér réttinn til Grænlands, alveg
    að óþörfu, þótt þessir nefndarmenn og fræðimenn, kæmust að þessari niðurstöðu í málinu, þá átti
    bezt við, að manni finnst, að láta þetta nefndarálit liggja á milli hluta, en halda málinu vakandi eftir
    sem áður, um kröfu okkar og rétt til Grænlands. Auðvitað verður Dönum þetta álit íslenzkra
    fræðimanna meiri styrkur en flest annað til þess að halda rétti sínum á Grænlandi í framtíðinni fyrir
    Íslendingum.
    Enginn veit í dag hvað framtíðin ber í skauti sínu þjóða á milli með landaskipun og skipti, en það er
    víst, að þetta nefndarálit getur aldrei orðið nema til óliðs fyrir Íslendinga í framtíðinni um kröfu þeirra
    til Grænlands, og í það verður vitnað, þótt aldir líði þar til Íslendingar gera kröfu í alvöru um rétt sinn
    til Grænlands, og í sögu okkar nútímamanna verður þetta nefndarálit neikvætt á virðingu okkar og
    manndómi, jafnt fyrir það, hvað sem þessum Grænlandsmálum líður milli Dana og Norðmanna. Eða
    hvað myndu þeir segja ef þeir væru risnir upp úr gröfum sínum Einar Þveræingur og Jón biskup
    Arason? Ætli þeim þætti ekki nútímaráðamenn Íslendinga vera nokkuð lingerðir í sókninni um rétt
    sinn og fara óhyggilega að ráðum sínum í þessum málum?
    64
    Þótt málið væri rannsakað af þessari nefnd, þá var það allt í lagi, og kannske hárrétt, eins og sakir
    stóðu, en þar sem útkoman við þessa rannsókn reyndist neikvæð fyrir okkur Íslendinga, þá hefði átt
    að taka málið út af dagskrá, unz fullkomin athugun hefði átt sér stað – og taka fyrir næsta mál, eins
    og þar stendur.“
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Tíminn, miðvikudaginn 26. ágúst 1953
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs:
    „Sjötta júlí s.l. áttum við hjónin 50 ára hjúskaparafmæli, Jóhanna M. Sigurðardóttir og Sveinn
    Sveinsson. Þessu héldum við leyndu þá, bæði af því að ég var lasinn, og svo er nú orðið svo mikið um
    afmælisminningar, um menn og málefni, að það fer að verða svo vanalegt, – þó lasta ég það ekki, – og
    hefi gaman af og gagn að lesa greinar um mæta menn, en lágmarkið finnst mér vera 50 ára aldur.
    Nú get ég þessa svona til gamans fyrir þá mörgu vini okkar og kunningja í Reykjavík og víðsvegar út
    um landið. En til fróðleiks fyrir nútíma frumbýlinga vildi ég segja þetta: Þegar við hjónin byrjuðum
    búskapinn áttum við litlar eignir og um peninga var ekki að tala, enda unnum við fram að því hjá
    fátækum foreldrum okkar. Fyrsta búskaparárið voru við í húsmennsku, sem alltaf hefir þótt
    neyðarkjör, en þá var ekki jörð í boði, nema að flytja hrepp úr hrepp og það gerðum við til að byrja
    með en því fylgdu erfiðleikar – og seint grær um oft hreyfðan stein. En úr þessu raknaði og seinni
    helming búskaparins höfðu við tvær jarðir til umráða. Samt var það með nokkrum erfiðleikum, því að
    nær sextíu kílómetar voru á milli búanna.
    Lengst af búskapnum vorum við í gestsgötu – eða við þjóðveg, þá var nú ekki venja að taka borgun
    fyrir hvern sopa og bita, og engum var úthýst vegna rúmleysis, því að væru öll rúm skipuð gestum, þá
    mátti liggja á stofugólfum með einhverjum aðbúnaði. Það kom mjög oft fyrir á okkar heimili, því allt
    er betra fyrir aðkomumenn og gesti en að hrekjast aftur út í myrkur og kulda, og ætti aldrei að eiga
    sér stað hja hvítum mönnum. Svo fóru allir glaðir og ánægðir úr hlaði, með góðar bænir okkur til
    handa. Það voru guðdómlegar og skemmtilegar stundir.
    Mikill er nú munurinn á móti því, sem þá var, þegar fátækar fjölskyldur þurftu að basla og berjast
    hjálparlaust með sína sjúklinga í sinni fátækt og vonleysi. Þeir mætu menn, sem mest og bezt hafa
    unnið að sjúkrasamlögum, örorku- og ellistyrkjum (sem ég kalla eftirlaun),
    barnaverndarhjálparstarfsemi alla vega, svo að það helzta sé nefnt, þeir eiga ómetanlegar þakkir
    skilið hjá þjóðfélaginu fyrir þau mannúðarstörf í þágu líilmagnans.
    Hins vegar finnst mér það ganga of langt að treysta ekki hraustum og efnuðum foreldrum að ala upp
    nema eitt barn án styrktar. Því það fyrirkomulag getur beinlínis dregið úr sjálfsbjargaráhuga fólksins,
    og metnaði þess að bjarga sér sjálft. En úr því, sem komið er, verður þetta viðkvæmt mál, og verður
    það því að reyna sig. Gefist það vel, þá helzt það, en reynist það óheppileg ráðstöfun, þá verður að
    breyta því síðar.
    Nú er mikið talað og skrifað um að frumbýlingar eða ungt hjónafólk, flytji í sveitirnar til að stofna þar
    nýbýlabúskap, og það fólk, sem enga áhöfn á, fénað eða gripi til að búa við, verði að styrkja með
    stórum lánum. Allt er þetta gott og blessað, svo langt sem það nær, og ekki ætti ég að verða til þess
    65
    að skrifa á móti þeirri góðu hugmynd, því svo mikið leið ég af peningaleysi í byrjun búskaparins. Mín
    skoðun er samt sú, að það megi ofkaupa eignalaust fólk til þess að reisa búskap í sveit. Það liggur í
    augum uppi, að lítið bú eða einyrkjabúskapur, getur ekki staðið undir 100 – 200 þúsunda króna láni,
    fyrir utan allar heimilisþarfir og skatta og skyldur.
    Það er mjög varasamt fyrir ung hjón eða hjónaefni, sem ekkert eiga til af fénaði eða gripum, að fara
    frá góðri atvinnu út í það ævintýri að reisa nýbýlabúskap í sveit, með stórar skuldir á bakinu, og
    einyrki getur ekki farið frá búi sínu í aðra atvinnu, nema að hætta þá við búskapinn, og þá er seinni
    villan verri en sú fyrri.
    Það getur líka verið varasamt fyrir ríkið eða bankana að stuðla að því með of stórum lánum að svona
    geti farið, og ekki þarf að búast við því, að þau kot eða nýbýli, sem svona fara, byggist aftur undir
    sömu kringumstæðum, heldur hljóta þau að fara í eyði, og þá verður það stærsta villan.
    En það er allt annað að styrkja með lánum frumbýlinga, sem eru í sveitinni og eiga eitthvað til af
    fénaði og gripum, en vantar jarðnæði, enda er það gert með nýbýla- og byggingalánum. Og það ætti
    að geta hjálpað til þess að unga fólkið – minnsta kosti karlmenn, – flytjist ekki úr sveitunum, og þá er
    mikið fengið í þessu vandamáli. Því hægara ætti þá að vera að leysa hinn vandann, sem mjög mikið
    ber á í sumum sveitum landsins, að karlmenn búi þar konulausir.
    Ég hefi áður skrifað um það mál í Tímanum, en vona að það sé ekki svo viðkvæmt, að mér leyfist enn
    að segja um það nokkur orð. Ungir menn og miðaldra, sem vilja stofna búskap, eiga að byrja á því að
    fá sér konuefnið, því að þá verður þeim allt hægara og ánægjulegra í samráði við maka sinn, og með
    því verða kraftarnir tvöfaldir. Séu stúlkur ekki til í sveiitnni, þá er að fá þær frá Reykjavík eða öðrum
    bæjum á landinu. Ég hygg, að flest kvenfólk sé þannig skapi farið, að þær vilji stofna bú með
    myndarlegum manni, þótt þær að öðrum kosti vilji ekki vera í sveit. Þetta er eðli mannsins og á að
    vera það. Ég enda svo þessar línur með þeirri ósk, að frumbýlingum þessa lands í bæ og sveit, megi
    blessast búskapurinn og barnauppeldið, í nútíð og framtíð.“
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Tíminn, þriðjudaginn 1. september 1953
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og ræðir um heyskap og fleira:
    „Í þann tíð, þegar slegið var með orfum og rakað með hrífum, var það víða mikið metnaðarmál meðal
    manna og kvenna, að vera góður sláttumaður og góð ljárakstrarkona, og yfirleitt að raka saman hey,
    duglegur sætingarmaður og fljótur bindingarmaður. Allt þetta rak hvað á eftir öðru, þó sérstaklega
    bindingarmaðurinn, því að væri hann fljótur að binda, þá var eins og allir, sem á undan honum unnu,
    þyrftu að flýta sér, en væri hann lengi að binda, þá var eins og engum gengi neitt. Það var líka mikið
    meiri vandi að binda, meðan flutt var á klökkum, svo að vel færi, þótt það kæmist í vana.
    Um og eftir síðustu aldamót fór margt að breytast til batnaðar. Þá komu vagnarnir til sögunnar. Var
    þá fljótt farið að smíða á þá heygrindur og flytja heyið á vögnum, og hver lærði það af öðrum. Eins og
    gefur að skilja, var það ólíkt minni vandi að binda hey, sem flutt var á vögnum en klökkum, því að þá
    gerir baggamunurinn ekkert til eða önnur mistök við bindinguna. Þá fór líka einn og einn bóndi að fá
    sér sláttuvél og slá með hestum, og lærði það hver af öðrum, með tíð og tíma. Svo fóru hyggnir menn
    66
    að finna upp og smíða rakstrartæki við vélarnar og var það mikill munur á snöggum mýrum að sleppa
    við ljáraksturinn, sem munaði alveg einni til tveimur kaupakonum.
    Þótt það munaði miklu að slá með hestum á góðri jörð eða með orfum, þá var það tiltölulega ekki
    eins mikill munur á þungum og blautum mýrum. Hestar urðu fljótt latir á vondri jörð, ég tala nú ekki
    um hjá þeim mönnum, sem ekki gátu skipt á hestum yfir daginn. Það var oft leiðinlegt að heyra
    „hottið“ langar leiðir í mönnum, sem slógu með lötum og þreyttum hestum á ógreiðfærum og
    þungum mýrum.
    Á seinni árum höfðum við feðgarnir fjóra hesta, tvo og tvo á dag, og var það mikill munur, bæði með
    meðferð á hestunum og flýtir. Svo þegar búið var að yrkja nóg og ekki þurfti að slá þessar vondu
    mýrar, þá var eins og þetta væru aðrir hestar, sérstaklega áttum við tvo hesta, sem sköruðu fram úr
    öðrum hestum með vilja og dugnað að slá með. En þó var svo mikill munur á þessum góðu hestum og
    Farmall-sláttuvél, að það er ekki samanberandi. Og ég kalla það mikla afturför, ef menn færu nú að
    taka upp á því að slá meira með hestum og slaka til með Farmall-sláttuvélar. Svo er mikill munurinn á
    því á allan hátt, enda mundi það stórlega draga úr ræktunaráhuga bænda. Það kostar að vísu benzín
    og olíu, en það marg borgar sig, og ég get ekki skilið það, að sjálfstæði þjóðarinnar sé stefnt í neina
    hættu, þótt sú vara sé keypt frá Ameríku eða öðrum löndum – þvert á móti tryggir það afkomu okkar
    til hagsældar fyrir landbúnaðinn og sjálfstæðis.
    Eða munurinn við jarðyrkjuna að hafa vélarnar á móti því að vera að þvælast með hestana í þeirri
    erfiðu vinnu. En það er allt annað að halda við og ala upp reiðhestakyn til gagns og gamans, og
    útflutnings, ef það yrði arðberandi. Svo þurfa líka að vera til hestar á hverju heimili í sveit til
    smalamennsku, og að vetrarlagi í snjógangi, ef eitthvað þarf að skreppa að heiman.
    Ég ræði hér um þetta mál vegna þess, að mér hefir heyrzt að það liggi í loftinu frá ýmsum
    áhugamönnum, straumhvörf með vélanotkun og hesta, í þá átt, sem ég kalla afturför, og það væri illa
    farið, einmitt þegar framsóknaráhuginn er sem mestur um ræktun og landbúnað. Og margt er það,
    sem bendir til aukinna framfara í landbúnaði Íslendinga með allri þeirri vélatækni, sem nú er þegar
    risin upp við landbúnaðarstörfin, og svo ræktunarskilyrðin, þegar Áburðarverksmiðjan er komin í
    fullan gang, þá er fengin trygging með áburðarmagn fyrir alla þá, sem landbúskap stunda og
    garðrækt, og þar næst þegar sementsverksmiðjan er reist, þá koma betri skilyrði fyrir traustum
    bæjar- og húsabyggingum alls staðar á landinu. Svo er það nú blessað rafmagnið, sem er undirstaðan
    fyrir öllum lífsþægindum og stóriðju. Það á því að tryggja velmegun og sjálfstæði þjóðarinnar að geta
    beizlað vatnsaflið, hvar sem það er bezt á landinu, þótt það sé með erlendu fjármagni.“
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Morgunblaðið, föstudaginn 4. september 1953
    Eftir 50 ára hjúskap
    Sjötta júlí s.l., áttum við hjónin Jóhanna M. Sigurðardóttir og Sveinn Sveinsson , 50 ára
    hjúskaparafmæli. Þessu héldum við leyndu þá, bæði af því að ég var lasinn, og svo nú orðið svo mikið
    um afmælisminningar um menn og málefni, að það fer að verða svo vanalegt. – Þó lasta ég það ekki –
    og hefi gaman af og gagn að lesa greinar um mæta menn, en lágmarkið finnst mér vera 50 ára aldur.
    67
    Nú get ég þess hér, svona til gamans, fyrir þá mörgu vini okkar og kunningja í Reykjavík og víðsvegar
    út um landið. En til fróðleiks fyrir nútíma frumbýlinga vildi ég segja eftirfarandi: Þegar við hjónin
    byrjuðum búskap áttum við litlar eignir og um peninga var ekki að tala, enda unnum við fram að því
    hjá fátækum foreldrum okkar.
    Fyrsta búskaparárið vorum við í húsmennsku, sem alltaf hefir þótt neyðarkjör, en þá var ekki jörð í
    boði, nema að flytja hrepp úr hrepp og það gerðum við til að byrja með en því fylgdu erfiðleikar, og
    seint grær um oft hreyfðan stein. En úr þessu raknaði og seinni helming búskaparins höfðum við tvær
    jarðir til umráða, samt var það með nokkrum erfiðleikum, því að nær sextíu kílómetrar voru á milli
    búanna.
    Lengst af búskapnum vorum við í gestsgötu – eða við þjóðveg. Þá var nú ekki venja að taka borgun
    fyrir hvern sopa og bita, og engum var úthýst vegna rúmleysis, því að væru öll rúm skipuð gestum, þá
    mátti liggja á stofugólfum með einhverjum aðbúnaði. Það kom mjög oft fyrir á okkar heimili, því allt
    er betra fyrir aðkomumenn og gesti en að hrekjast aftur út í myrkur og kulda og ætti aldrei að eiga
    sér stað hjá hvítum mönnum. Svo fóru allir glaðir og ánægðir úr hlaði með góðar bænir okkur til
    handa. Það voru guðdómlegar og skemmtilegar stundir.
    15 börn eignuðumst við hjónin – 3 misstum við ung, en 12 eru á lífi. Synir 7 taldir eftir aldri:
    Sigursveinn, bóndi á Fossi í Mýrdal, Runólfur, sandgræðslustjóri, Gunnarsholti, Kjartan, iðnfræðingur
    Reykjavík, Sveinn, verkstjóri hjá SÍS, Reykjavík, Guðmundur, vélfræðingur, Keflavíkurflugvelli, Páll,
    sandgræðslufagmaður, Gunnarsholti, Gísli, hluthafi Landleiðum, Reykjavík. Dætur 5 taldar eftir aldri:
    Gyðríður, Guðríður, Róshildur, Ingunn og Sigríður, húsfreyjur og forstöðukonur, allar í Reykjavík.
    Öll eru systkinin meir og minna menntuð, myndarleg og dugleg.
    Ekki fóru veikindi eða sjúkdómar að öllu leyti framhjá okkar heimili, en þá sögu hafa víst mörg heimili
    að segja. En mikill er nú munurinn á móti því sem þá var, þegar fátækar fjölskyldur þurftu að bazla og
    berjast hjálparlaust með sína sjúklinga í sinni fátækt og vonleysi. Þeir mætu menn, sem mest og bezt
    hafa unnið að sjúkrasamlögum, örorku- og ellistyrkjum (sem ég kalla eftirlaun),
    barnaverndarhjálparstarfsemi alla vega, svo það helzta sé nefnt, þeir eiga ómetanlegar þakkir skilið
    hjá þjóðfélaginu fyrir þau mannúðarstörf í þágu lítilmagnans.
    Hins vegar finnst mér það ganga of langt að treysta ekki hraustum og efnuðum foreldrum að ala upp
    nema eitt barn án styrktar, því það fyrirkomulag getur beinlínis dregið úr sjálfsbjargaráhuga fólksins
    og metnaði þess að bjarga sér sjálft. En úr því sem komið er verður þetta viðkvæmt mál og verður
    það því að reyna sig. Gefist það vel, þá helst það, en reynist það óheppileg ráðstöfun þá verður að
    breyta því síðar.
    Nú er mikið talað og skrifað um að frumbýlingar eða ungt hjónafólk flytji í sveitirnar til að stofna þar
    nýbýlabúskap, og það fólk sem enga áhöfn á, fénað eða gripi til að búa við, verði að styrkja með
    stórum lánum. Allt er þetta gott og blessað svo langt sem það nær, og ekki ætti ég að verða til þess
    að skrifa á móti þeirri góðu hugmynd, því svo mikið leið ég af peningaleysi í byrjun búskaparins.
    Mín skoðun er samt sú, að það megi ofkaupa eignarlaust fólk til þess að reisa búskap í sveit. Það
    liggur í augum uppi að lítið bú, eða einyrkjabúskapur, getur ekki staðið undir 100 – 200 þús. króna
    láni, fyrir utan allar heimilisþarfir og skyldur. Það er mjög varasamt fyrir ung hjón eða hjónaefni, sem
    ekkert eiga til af fénaði eða gripum, að fara frá góðri atvinnu út í það ævintýri að reisa nýbýlabúskap í
    sveit með stórar skuldir á bakinu, og einyrki getur ekki farið frá búi sínu í aðra atvinnu, nema að
    hætta þá við búskapinn og þá er seinni villan verri en sú fyrri.
    68
    Það getur líka verið varasamt fyrir ríkið eða bankana að stuðla að því með of stórum lánum að svona
    geti farið, og ekki þarf að búast við því að þau kot eða nýbýli, sem svona fara, byggist aftur undir
    sömu kringumstæðum, heldur hljóta þau að fara í eyði og þá verður það stærsta villan.
    En það er allt annað að styrkja með lánum frumbýlinga, sem eru í sveitinni og eiga eitthvað til af
    fénaði og gripum, en vantar jarðnæði, enda er það gert með nýbýla- og byggingalánum. Og það ætti
    að geta hjálpað til þess að unga fólkið – minnsta kosti karlmenn flytjist ekki úr sveitunum, og þá er
    mikið fengið í þessu vandamáli, því hægara ætti þá að vera að leysa hinn vandann, sem mjög mikið
    ber á í sumum sveitum landsins, að karlmenn búi þar konulausir.
    Mín skoðun er í þessu máli: að ungir menn og miðaldra, sem vilja stofna búskap, eiga að byrja á því
    að fá sér konuefnið, því að þá verður þeim allt hægara og ánægjulegra í samráði við maka sinn, og
    með því tvöfaldast kraftarnir. Séu stúlkur ekki til í sveitinni, þá er að fá þær frá Reykjavík eða öðrum
    bæjum í landinu. Líka hafa þær sumar gefist vel frá Þýzkalandi og nóg kvað vera af myndarlegum
    stúlkum í Berlín. Jæja, en hvað sem því líður þá hygg ég að flest kvenfólk sé þannig skapi farið að þær
    vilji stofna bú með myndarlegum manni, þótt þær að ððrum kosti vilji ekki vera í sveit. Þetta er eðli
    mannsins, og á að vera það.
    Það er líka mín skoðun að sú venja ætti að skapast með þjóðinni, að stúlkur nefndu sambúð við
    karlmenn, með hjónaband fyrir augum alveg eins og karlmenn tala um það við stúlkur.
    Ég enda svo þessar línur með þeirri ósk, að frumbýlingum þessa lands í bæ og sveit, megi blessast
    búskapurinn og barnauppeldið, í nútíð og framtíð.
    Sveinn Sveinsson, frá Fossi.
    Tíminn, 7. október 1953
    Íslendingaþættir – Dánarminning: Ari K. Eyjólfsson
    Kveðja frá tengdaforeldrum
    Við tengdaforeldrar Ara K. Eyjólfssonar erum búin að vera hjá þeim hjónum síðan við hættum búskap.
    En eins og nú er komið, að samveran getur ekki orðið lengri með Ara, þá er okkur ánægja í að geta
    sagt þann sannleika, að aldrei höfum við þekkt elskulegri mann sem húsbónda að lipurð og
    höfðingsskap. Hann var einn af þessum ágætismönnum, sem vilja hvers manns vanda leysa. Hann var
    snyrtimenni mikið, innan húss sem utan, fínn með sig svo af bar. Mikilvirkur og svo vandvirkur í
    verkum sínum, að það var öllum til fyrirmyndar, sem með honum voru. Það er því eðlilegt, að hans
    samferðamenn og þeir, sem þekktu hann bezt, sakni hans, svo mætur maður, sem hann var. Síðan Ari
    K. Eyjólfsson kom í okkar fjölskyldu, hefir hann verið henni til sóma og ánægju. Það er því mikill
    söknuður að þessum ágætismanni frá sínu fagra og yndislega heimili. Við, fjölskyldan – hvað þá
    eiginkonan, ásamt syni þeirra og dætrum hans, þökkum honum hjartanlega fyrir samveruna og allt
    hans ástríki okkur til handa og biðjum góðan Guð að blessa minningu hans.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    69
    Timinn, laugardaginn 14. nóvember 1953
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson hefir kvatt sér hljóðs og ræðir um rófur:
    „Mikið hefir áunnizt fyrir samtök bænda, með vöruverð og vöruvöndun á landbúnaðarframleiðslu,
    vegna skipulagningar með verð og gæði vörunnar. Og á þeim framleiðsluvörum, sem skipulag nær
    yfir, svo sem kjöt- og mjólkurafurðum, kartöflum o.fl. – hefir horfið úr sögunni sá gamli ósiður, að
    framleiðendur sjálfir bjóði vörurnar niður, hver fyrir öðrum, og enginn á því grætt nema milliliðurinn,
    en framleiðendur og neytendur báðir á því tapað, og skal nú dregið fram dæmi því til sönnunar: Eins
    og kunnugt er, þá eru rófur ekki með skipulagsverði, enda eru þær líka af sjálfum eigendunum boðnar
    niður á kostnað hvers annars bæði í gegnum útvarp og alla vega.
    Kaupmenn eru kaupmenn – það er því ekkert óeðlilegt, þótt þeir noti sér samtakaleysi annarra
    manna og sæti lægsta boði. Þó er þetta misjafnt eftir sanngirni kaupmanna, því sumir kaupmenn hér í
    Reykjavík kaupa rófur af framleiðendum á 2 krónur kg., en aðrir kaupmenn á 1 krónu og 50 aura kg.
    og enn aðrir neðar.
    Hverjir græða svo á þessum verðmun? Ekki græða neytendur, því að maður verður ekki var við annað
    en að rófur sé jafn dýrar í búðum hjá kaupmönnum, sem kaupa þær af framleiðendum með lága
    verðinu eins og hjá þeim kaupmönnum, sem kaupa þær af framleiðendum með hærra verðinu. Það
    liggur því í augum uppi að kaupmenn sem kaupa rófurnar með lága verðinu hafa sjálfir gróðann, en
    framleiðendur hafa gróðann á verðmismuninum sem selja rófurnar á hærra verðinu. Þetta dæmi er
    glöggt og einfalt.
    Nú er mikill hugur í mönnum á mörgum sviðum í ræktunarmálum. Svo er líka með rófur, enda eru
    þær sælgæti með kjötmat og slátri og viðurkenndar fyrir bætiefni, menn gera því langt of lítið að því
    að nota þessa hollu og dýrmætu fæðu.
    Húsfreyjur í Reykjavík, bæ og sveit!, notið þessa ljúffengu fæðu meira og meira, á matborðið, búið
    líka til stöppu úr rófunum með dálitlu af smjöri og örlitlu af sykri. Það er sælgæti handa börnunum
    ykkar og öllu fólki.
    Framleiðendur! látið ekkert af rófum á sölumarkaðinn nema þær, sem eru ógallaðar. Gefið kúnum
    allar þær rófur, sem ekki eru söluhæfar, þá fáið þið meiri mjólk og betri. Hættið að bjóða niður hver
    fyrir öðrum góða vöru, niður fyrir sanngjarnt verð, og seljið ekkert af rófum fyrir neðan 2 kr. kg. því
    það er mjög sanngjarnt verð á báðar hliðar og má ekki fara neðar fyrir framleiðendur, sem bera allan
    kostnaðinn af framleiðslunni og flutningi. Svo leggja kaupmenn á vöruna fyrir dreifingu til neytenda,
    eins og gefur að skilja.“
    Sveinn hefir lokið máli sínu og lýkur baðstofuhjalinu í dag.
    Starkaður.
    70
    1954
    Þetta ár birtust sjö pistlar í Tímanum, og einn í Morgunblaðinu, þetta ár lést Runólfur sonur
    Sveins af slysförum og birti Sveinn þakkarorð í báðum dagblöðunum. Að öðru leyti ritaði
    Sveinn áfram í greinaflokknum Baðstofuhjal.
    Þetta árið fjallaði Sveinn m.a. um útvarpsefni; morgunbænir, passíusálma og Njálssögulestur,
    kjötinnflutning, holdanaut í Gunnarsholti og ristaflóra. Langferðabíla. vorkomuna, bæjarbörn
    í sveit, málefni ekkna, búnaðarþing, uppgræðslu, afurðasölu bænda, kálmatarframleiðslu,
    staðsetningu Kötlu, skólahald í Skálholti, reykhús og hangikjöt.
    71
    Morgunblaðið, 20. febrúar 1954
    Sérstök kveðja og þakklæti frá foreldrum
    ÉG UNDIRRITAÐUR vil sérstaklega taka fram þakklæti okkar fyrir þá miklu samúð og huggun í sorgum
    okkar, við fráfall Runólfs sonar okkar sandgræðslustjóra, sem fólk mjög almennt sýndi: Með
    símskeytum, minningargjöfum, blaðaskrifum og öllu því óvenjulega fjölmenni, sem heiðruðu útför
    hans með nærveru sinni. Allt verður þetta – ásamt verkum og mannkostum Runólfs, – til þess að gera
    hann frægan son þjóðarinnar, svo ungur, sem hann var að árum.
    Og nú – þegar allt kemur til alls, þá er það skylda okkar að reyna að bera harminn vel, þótt
    slysfarirnar séu ekki sársaukalausar.
    Guð blessi þjóðina og landið okkar.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    Timinn, miðvikudaginn 24. febrúar 1954
    Sérstök kveðja og þakklæti frá foreldrum
    Ég undirritaður vil sérstaklega taka fram þakklæti okkar fyrir þá miklu samúð og huggun í sorgum
    okkar, við fráfall Runólfs sonar okkar sandgræðslustjóra, sem fólk mjög almennt sýndi: Með
    símskeytum, minningargjöfum, blaðaskrifum og öllu því óvenjulega fjölmenni, sem heiðruðu útför
    hans með nærveru sinni. Allt verður þetta – ásamt verkum og mannkostum Runólfs, – til þess að gera
    hann svo frægan son þjóðarinnar, svo ungur, sem hann var að árum.
    Og nú – þegar allt kemur til alls, þá er það skylda okkar að reyna að bera harminn vel, þótt
    slysfarirnar séu ekki sársaukalausar.
    Guð blessi þjóðina og landið okkar.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    Tíminn, miðvikudaginn 17. mars 1954
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og kemur víða við í ræðu sinni:
    „Ég hef nú í langan tíma haldið mig heima í eigin baðstofu, og er varla ferðafær, nema af því, að ég
    þarf að skreppa og tala við menn um ýmisleg málefni. En þótt ég hafi oft ferðazt mikið, fyrir mig og
    aðra, þá hef ég ekki lagt það fyrir mig í erindisleysu.
    Nýlega skrifar Jónas Jónsson, Brekknakoti í baðstofu Tímans um Útvarpið; morgunbænir,
    passíusálma, sögulestur o.s.frv. Ég hygg, að bænalestur útvarpsins að morgni dags fari fyrir ofan garð
    og neðan vegna þess, að hlustendur í bæ og sveit eru, um það leyti dags, komnir til verka sinna, og
    skólanáms, og aðrir sofa. Um passíusálma og sögulesturinn skrifaði ég í fyrravetur, og var því enginn
    gaumur gefinn og svo mun enn fara. Ég læt því útrætt um það mál að sinni.
    72
    Nýlega var skrifað í Morgunblaðið um Njálssögulestur Einars Ólafs prófessors í útvarpinu, og er þar
    farið miklum viðurkenningarorðum um lesarann. Og víst er hann myndarlegur fornsögulesari, því
    neitar víst enginn. En því þá ekki að láta þennan ágæta lesara, lesa meistaraverkið Njálu tvisvar í viku,
    þriðjudaga og föstudaga. Þá ætti ekki að þurfa að sleppa úr sögunni sumum beztu köflum hennar. Ef
    sögulesarinn hefir ekki tíma til að lesa, nema einu sinni í viku, þá væri nú ekki skömm að því, að fá
    sjálfan meistarann, Helga Hjörvar, eða annan góðan lesara, til að lesa söguna hinn daginn.
    Í haust skrifaði ég grein um rófur og sölu þeirra í baðstofu Tímans, og Morgunblaðið. Tíminn tók
    greinina, að sjálfsögðu, því hún hljóðaði um landbúnaðarmál. En þegar ég skrifa ópólitískar
    áróðursgreinar, sem ég vil, að flestir lesi, þá skrifa ég í bæði þessi aðalblöð landsins. Sama máli gegnir
    um fleira, sem ég vil koma á framfæri, og hefir það gengið, að þessu undanskildu, prýðilega, sem ég
    þakka hér með fyrir.
    Eins og kunnugt er, þá er nú búið að skipuleggja rófuverð og sölu, til öryggis fyrir framleiðendur og
    neytendur. Sumir framleiðendur, sem ekki hafa geymslur heima, hafa komið rófum sínum í geymslu
    til S.Í.S. hér í Reykjavík, en á því eru þeir gallar, að geymslan verður að láta allt saman hjá
    einstaklingum, sumum vel valið en öðrum óvalið. Það fyrirkomulag er ófært. Kaupfélögin og verzlanir
    verða að kaupa rófurnar af framleiðendum eftir mati, og ekki nema góðar rófur, svo markaðurinn
    offyllist ekki. Bændur eiga að gefa kúnum allar rófur, sem ekki eru söluhæfar. Það er fráleitt að vera
    að kaupa flutning á rófum til Reykjavíkur, sem ekki eru söluhæfar og verður að fleygja. Rófur ganga
    næst kartöflum að gæðum til manneldis, eins og kunnugt er. Húsmæður í bæ og sveit ættu að hafa á
    matborði sínu þessa hollu vöru, sem oftast – líkt og kartöflur.
    Nú er verið að ráðgera að flytja inn kjöt, því í þetta sinn verður hér kjötleysi. Þeir sem þeim málum
    ráða, ættu að reyna að fá innflutt nautakjöt af ræktuðu holdakyni til þess að kenna þjóðinni að meta
    þá ágætu vöru fyrir framtíðina. Þegar sá tími kemur, að hægt verður að flytja út dilkakjöt, þá verður
    það mjög dýrmætt að hafa hér, fyrir sumarmarkað, ræktað holdanautakjöt, og láta þau ganga á
    ræktuðu landi, eða að ala þau á annan hátt. Allt verður þetta auðvelt, þegar áburðarverksmiðjan er
    komin í gang.
    Í Gunnarsholti á Rangárvöllum er byrjað að ala upp nautahjörð af ræktuðu holdakyni. En til þess, að
    góð hirðing gæti verið möguleg á fjölda nauta, þá fundu þeir bræður í Gunnarsholti, Páll og Runólfur,
    upp á því að gera prufu með rimlagólf. Þeir brutu upp flór og bása í fjósinu, sem allt var úr steini, og
    keyptu planka eða battinga, og settu eða smíðuðu allt gólfið úr plönkum, með mátulegum millibilum,
    þannig, að öll mykja færi niður í haughúsið, en ekki á klaufir eða fætur nautgripanna. Þetta hefir
    lánazt svo vel, að undrum sætir: Gripirnir óbundnir og frjálsir, táhreinir og eins og silki á skrokkinn.
    Aldrei þarf að moka flór, og allir gripirnir þrífast miklu betur og geta verið miklu fleiri í sama húsi en
    annars. En til að byrja með, var þetta erfitt verk og dýrt, eins og á stóð. En nú er reynslan fengin, og
    með þessum ágæta árangri, eins og fyrr segir.
    Þeir, sem kynnu að vilja fá nánari upplýsingar af þessu verki og reynslu, geta leitað til Páls
    Sveinssonar í Gunnarsholti. Hér um árið skrifaði Árni G. Eylands í Morgunblaðið um þessar
    framkvæmdir þeirra bræðra í Gunnarsholti. Þó virðist, sem búnaðarþing, sem nú situr í Reykjavík, viti
    ekki um þetta og fleira því viðvíkjandi!!
    Nú eru þeir að fara á stað í Eyjafjarðarsýslu með að koma upp nautahjörð af holdakyni – og hafi þeir
    heiður fyrir, en þeir ættu jafnframt að athuga þann byggingarstíl, sem talað er um hér að framan.
    Ríkið ætti að styrkja meira svona byggingar en vanaleg fjós. Þótt þeir bræður í Gunnarsholti gerðu
    þetta verk, án sérstaks styrks. En það verða bændur og aðrir að láta sér skiljast, að þeim verður ekki
    hjálpað, sem ekki hjálpa sér sjálfir – það er gömul og ný staðreynd.“
    73
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Tíminn, laugardaginn 10. apríl 1954
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og kemur víða við.
    Lesendur Tímans vilja áfram fá létt spjall í Baðstofuna – svona sitthvað um daginn og veginn. Önnur
    blöð hafa svipaða pósta í blöðum sínum, þó ekki eins greinilega og glögga sem Tíminn. Alþýðublaðið,
    með Hannes á Horninu, þótti lengi skemmtilegur gestur. Morgunblaðið hefir „Velvakanda“ og það
    lika góður gestur. Á sömu síðu blaðsins er líka „Úr daglega lífinu“, sem hljóðar líkt og baðstofuspjall,
    sá sem það skrifar hlýtur að vera góður maður, því hann talar svo vel um náungann, s.s. þá sem halda
    erindi í Ríkisútvarpið. En samt virðist hann vera óvenjulega gleyminn á menn og málefni.
    Það eru víst fáir menn, stofnanir eða félög, sem græða á ótíð veðurfarsins, þó mun það til vera, svo
    sem bílastöðvarnar hér í Reykjavík. Af skiljanlegum ástæðum notar fólk meira bílana í vondu veðri en
    góðu, því bæði er dýrt að kaupa bíla að óþörfu, og heilbrigt fólk hefir gott af því að labba í góðu veðri.
    Langferðabílar, eða rútur, sem ganga út um landið þykja dýrar, en verða að vera það, því oft eru vegir
    vondir og mikið slit á þeim bílum, en öryggið er tryggast að komast leiðar sinnar með rútunum, því ef
    þær bila, þá senda stöðvarnar aðrar rútur svo fljótt sem verða má, og getur það allt gengið í gegnum
    símann, sem önnur nútímaþægindi. Öll eru þessi farartæki nauðsynleg svo sem hestar voru í fyrri
    daga. Svo mætti segja manni að ekki yrði langt þangað til að flugvellir taki við öllum langferðum.
    Jæja: Þá er nú blessað vorið gengið í garð að venju og lengi verður það fagnaðarefni þjóðarinnar, þótt
    nú sé orðið, öðru vísi með birtu og yl en áður var. Svo fer nú líka skólatíminn að styttast hjá
    ungdómnum og verður því líka fagnað af öllum hlutaðeigendum. Verst er hvað allt of fá
    kaupstaðabörn komast í sveitirnar að sumarlagi. En það er margt sem veldur því að svo geti orðið.
    Húsmæður víða í sveitum einar um þjónustuna, og þau heimili þar sem börn eru fyrir á 10 – 14 ára
    aldri þurfa ekki fleiri snúninga. En börn á þessum aldri, þar sem önnur eru ekki fyrir á sama aldri, geta
    með lagi góðra húsbænda orðið að miklu liði innanhúss og utan, án þess að þeim sé ofboðið með
    vinnu. En það kemur fljótt í ljós með börnin, að sum eru löt og vilja aldrei fara í sveit, en önnur eru
    viljug og hafa gaman af skepnum og getur endað með því að þau ílendist í sveitinni og er þá vel farið.
    Þeir foreldrar, sem vilja koma börnum sínum á aldrinum 12 -14 ára á góð sveitaheimili ættu ekki að
    hugsa um kaup, minnsta kosti til að byrja með, bara að börnunum líði vel, með fæði og atlæti. Börn
    fyrir innan 10 ára aldur þarf að gefa með eftir aldri og samkomulagi. Foreldrar, sem koma börnum
    sínum í sveit að sumarlagi ættu helzt ekki að lofa þeim fyrirfram að heimsækja þau. Það vill oft koma
    losi og leiðindum á börnin við heimsókn foreldranna, enda þarflaust yfir sumartímann, ef börnunum
    líður vel.
    Það er talin góð verzlun þegar báðir eða allir aðilar græða, en svo er með þennan kafla
    uppeldismálanna, að hvort tveggja heimilanna ættu að geta grætt, en börnin þó mest og þeirra
    framtíð. Að þessu þarf að vinna af ráðamönnum þjóðarinnar.
    Nú var verið að segja í fréttum útvarpsins að til stæði að senda Hákon Bjarnason skógræktarstjóra út
    til Rómar á alþjóðafund S.Þ. eða á fund FAO, og þar yrði talað um skógrækt og beit. Það er gott og
    74
    rétt að senda fagmann á svona fundi, en af skiljanlegum ástæðum, þá hefði átt að senda Benedikt frá
    Hofteigi, líka, til þess að gera rétt upp á milli þeirra, um þetta málefni – Skógrækt og beit.
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Tíminn, miðvikudaginn 26. maí 1954
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og ræðir um uppeldismál og fleira:
    „Lífið er stundum sem falinn eldur á hvaða aldri, sem maðurinn er, stundum er það sem reiðarslag,
    þegar slysfarir bera að eða hjartabilun og annað þvílíkt. Þegar ungar fjölskyldur eiga í hlut, kemur það
    oft hart niður, sérstaklega ef húsbóndinn fellur frá ungum börnum og þó enn sérstaklega ef
    efnahagurinn er ekki góður og léleg húsakynni. Er þá oft erfitt um vik fyrir ekkjurnar að halda saman
    fjölskyldunni, sem undir flestum kringumstæðum er þó mjög nauðsynlegt. Það er hörmulegt, þegar
    ekkjur þurfa að tvístra ungum og efnilegum börnum sínum í allar áttir, jafnvel þótt þau komist á góð
    heimili, því að gott fjölskylduuppeldi er ómetanlegt og öllum foreldrum ber skylda til þess fyrir guði
    og mönnum að vinna að því, ef heilsan leyfir.
    Þær ekkjur fyrr og síðar, sem hafa haft kjark, dugnað og vit til þess að halda fjöskyldunni saman þar
    til börnin eru komin til manns, eiga mikinn heiður skilinn hjá þjóðfélaginu. Sem betur fer mun víða
    vera svo, að nábúunum er ljúft að hjálpa á ýmsan hátt þeim ekkjum, sem vilja hjálpa sér sjálfar. Nú er
    líka öldin önnur en áður var með alla þá styrki, sem ríkið og bæir leggja til uppeldismálanna á þessum
    tímum. Það er því bágt, þegar foreldrar, ekkjur eða ekklar, gefast upp, oft að óþörfu, við uppeldi
    barna sinna.
    Einn mesti styrkur fyrir eftirlifandi ekkjur er það, ef bónda hennar hefir lánazt að prýða heimili þeirra
    með vönduðum og traustum byggingum. Það ætti að vera fyrsta skilyrði að því að ekkjan geti haldið
    fjöskyldunni saman meðan börnin eru að alast upp. Ef börnin eru heilbrigð, þá koma þau fljótt til
    snúninga og vinnu bæði heima og heiman. Þau börn, sem komin eru á þann aldur, að þau eru 5-10
    ára, eru þegar farin að vinna dálítið fyrir sér, ef þau eru efnileg. Það er því svo, að það er oft ekki
    nema herzlumunurinn, að ekkjan gefist ekki upp við eðlilegt barnauppeldi.
    Það fólk, sem verður fyrir þeirri sorg að missa maka sinn of fljótt, verður að reyna að bera sorgina
    með stillingu og festu og snúa sér að hugðarmálum þessa lífs, svo sem fyrst og fremst
    barnauppeldinu, ef börn eru, og þá sérstaklega að því, að sjá ráð við því að tvístra ekki börnunum í
    allar áttir. Þótt barnauppeldið geti misheppnazt á þennan hátt, þá hefir foreldrið gert skyldu sína að
    þessu leyti, og ef það heppnast, þá býr fjölskyldan að því alla sína lífstíð, að hafa alizt upp saman.
    Ekki er nú samt svo að skilja, að systkinum, sem alast upp saman, beri ekki oft á milli, en það er ekki
    nema venjulegt barnabrek, sem lagast með aldrinum, ef foreldrar hafa lipurð og lag til að ala upp
    börn. En eins og ég hef oft áður sagt, þá lánast barnauppeldið bezt með lipurð og hlýju. Börnin læra
    betur að hlýða með þeirri aðferð en hörku og sífelldu nuddi, því að það stælir upp í þeim þrjózku og
    geðvonzku. Að ala upp börn með barsmíð ætti undir flestum kringumstæðum ekki að koma til mála,
    því að bæði er það mjög ómannúðlegt og hefnir sín á einn eða annan hátt“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu. Starkaður.
    75
    Tíminn, miðvikudaginn 23. júní 1954
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og ræðir um byggingu eyðijarða o.fl.:
    „Á Búnaðarþingi, sem haldið var s.l. vetur í Reykjavík, var eitt af aðalmálum þess að ræða það
    vandamál þjóðarinnar, að heilir hreppar sums staðar á landinu væru að fara í eyði, sökum þess, að
    bændur yfirgæfu jarðir sínar, og færu að stunda aðra atvinnu, sérstaklega í Reykjavík. Í því sambandi
    var rætt um þá möguleika, að fá fólk til þess að flytja í þessa hreppa og hefja þar búskap. Fóru þá
    ýmsir líka að skrifa í blöðin um þetta mál. Veigamesta tillagan, sem kom fram í þessum skrifum, var
    sú, að ríkið keypti eyðijarðirnar og gæfi þær svo nýjum ábúendum til þess að búa þar.
    Þetta hefðu nú einhvern tíma þótt góð kjör. En nú á tímum horfir þetta allt öðru vísi við, þegar
    peninga-atvinnan býðst svo að segja alls staðar. Það er líka mjög hæpið, að nýir ábúendur tolli þar.
    Ókunnir öllum staðháttum, til sjós og lands, og veðurfari, þegar búendur, sem þar eru uppaldir,
    yfirgefa þar eignir sínar og flýja til annarrar atvinnu.
    Ef ríkið fer að leggja milljónir fjár til aukins landbúskapar, þá er mjög athugavert, hvar bera skal niður,
    í því efni. Hvort ætti að græða upp Skógasand, Sólheimasand, eða aðra slíka staði á landinu, eða þá
    eyðihreppana? Líka eru til í sumum hreppum landsins góð skilyrði til ræktunar, góð heiðarlönd, og
    stórir afréttir, fáir ábúendur, og mætti fjölga þeim allt til helminga með nógum peningum.
    En það er um að gera að leggja peningana þar í ræktun í þeim plássum, sem maður héldi að fólkið
    tylldi bezt í við búskapinn. Aðalvandinn mun þó vera sá, í þessu stóra máli, að geta fyrirfram vitað,
    hvort nógu margt fólk fengizt í þennan búskap, því annars væri allt unnið fyrir gýg, ef fólkið fengizt
    ekki, þegar til kæmi.
    Svo er það annað vandamál við landbúskapinn, sem ég vildi líka minnast á, það er verðlagsskipulagið
    innan lands á afurðasölu bænda. Það væri mjög nauðsynlegt, ef hægt væri, að skipuleggja það
    þannig, eftir staðháttum, að þar sem er gott sauðland, væri aðallega kjötframleiðsla til sölu, en ekki
    mjólkurframleiðsla, nema til heimilisnota. Og þar, sem bezt er með kúabú, væri aðallega
    mjólkurafurðasala, en kjötsala í minni stíl, og til heimilisneyzlu, og þar sem vel hagar til með
    holdanautakjötsframleiðslu til sölu.
    Kálmatarframleiðsla er mjög nauðsynleg hverju heimili á landinu, en að reka garðrækt í stórum stíl til
    sölu, fyrir bændur, er hið mesta lotterí, eins og oft hefir sýnt sig, og átakanlega að þessu sinni eins og
    kunnugt er. Bændur munu læra af reynslunni, og sjá það í hendi sér, að það er allt annað að rækta
    dálítið til sölu til styrktar öðrum afurðum, en að eiga á hættu markaðsleysi, frosthættu, og
    sýkishættu, sem kartöflur eru svo veikar fyrir. Það er þó minni hætta með rófur, þær þola gadd, eru
    mikið ódýrari í ræktun, má gefa kúnum það lakasta af þeim, en selja svo það bezta, og með því fyllist
    markaðurinn síður um of, og þá ætti verðið á þeim að geta orðið hærra en skipulagt var í vetur.
    Allt, sem hér hefir verið sagt að framan í þessari grein, er til rækilegrar athugunar fyrir ráðamenn
    þjóðarinnar í þessum málum. Líka vildi ég segja hér: Ef smjörið væri ekki greitt niður, þá gengi það
    ekki út sem skyldi, vegna þess, að verðið væri of hátt.“
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    76
    Tíminn, laugardaginn 31. júlí 1954
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og mun ræða um Kötlu og fleira:
    „Kjartan Jóhannesson frá Herjólfsstöðum skrifar um Kötlu. Kjartan er mjög vel greindur maður, eins
    og hann á kyn til í báðar ættir. Ég hafði gaman af að lesa þessi skrif Kjartans og hans hugmyndarflug
    og stórhug. Það er skiljanlegt, ef það væri hægt að ná farvegi frá Kötlu í gegnum jökulinn eða undir
    hann, að þá myndu hlaupin minnka eða hætta, og nú á tímum er margt gert með vísindum og tækni,
    sem ótrúlegt þykir, hvað þá í framtíðinni. En hætt er við, að það verk eigi langt í land vegna gífurlegs
    kostnaðar o.fl. o.fl. því viðvíkjandi. Og hvað væri það á móti þeim kostnaði að hjálpa Álftveringum og
    nokkrum Meðallendingum að flytja sig til á öruggari staði. En hvað þýðir að vera að skrifa um þetta
    mál, þar sem fólkið sjálft, sem hlut á að máli, vill ekki flytja sig til og aðrir, sem um þetta skrifa á
    skáldlegan hátt, telja það sem hetjudáð að fólkið sitji kyrrt, hvað sem á gangi.
    Svipað má segja með Víkina, þótt henni sé kannske ekki eins hætt eins og Álftaverinu og nokkrum
    bæjum í Meðallandi. Þá er það samt svo, ef sjór og hlaupið væri í miklum ham, þá gæti það hjálpazt
    að að taka byggðina af neðan undir bökkunum. Það er víðar á landinu, sem fólk býr á hættustöðum,
    svo sem í bröttum fjallshlíðum, þar sem mikil hætta getur verið af snjóflóðum, skriðuhlaupum og
    grjóthruni. Mikill munur væri nú að hjálpa þessu fólki til að flytja sig til á öruggari staði og betri en að
    þurfa að hjálpa því, þegar slysin eru afstaðin. Í fyrri daga gat það verið eðlilegt, að fólk byggði á
    þessum stöðum út af vallendi í túnstæði, en nú er það orðinn ókostur að byggja í bratta, með þeirri
    vinnutækni, sem nú er notuð.
    Svo ég snúi mér nú aftur að Kötlu, þá finnst mér, að ekki þurfi að vera ágreiningur um það, hvar Katla
    sé í Mýrdalsjökli, af þeim mönnum þar eystra, sem bezt voru settir að sjá gosið 1918, s.s. í Álftaveri,
    Meðallandi og Ásum í Skaftártungu. Þá bjó ég í Ásum. Þaðan sást ákaflega vel til gossins og
    sérstaklega þegar því fór að linna og undir það síðasta stóðu vatnsgufustrókar þar upp.
    Jökulhnúkarnir eða bungurnar eru tvær, eystri og vestri, dalurinn sunnan til á milli þeirra er Katla. Það
    er talið, þegar dalur þessi er orðinn allt að því eins hár og hnúkarnir, að þá sé hætt við Kötluhlaupi og
    eldgosi, og mun frekar vera miðað við lægri hnúkinn en þann hærri. En hvort að Kötludalurinn þessi
    hækkar mest eða örast seinasta árið fyrir gos munu ekki vera sagnir um. Það er því mjög nauðsynlegt
    að menn þar eystra veiti því nú eftirtekt fyrir næsta gos til fróðleiks fyrir framtíðina.
    Þeir menn, bæði lærðir og ólærðir, sem hafa áhuga fyrir því að endurreisa Skálholtsstað, og ræða og
    rita í blöðin og tala um það mál – um daginn og veginn – í ríkisútvarpinu, minnast ekki á menntaskóla
    í því sambandi, sem mér finnst þó vera eitt af aðalmálum við endurreisn Skálholtsstaðar. Ef tl vill var
    Skálholt frægast fyrir kennslu og lærdóm á sinni blómatíð. Hví þá ekki að taka einmitt þetta mál til
    umræðu við endurreisn Skálholtsstaðar?
    Ekki á ég þar með við það, að flytja menntaskólann í Reykjavík að Skálholti. En það virðst vera gott
    tækifæri að flytja menntaskólann, sem nú er á byrjunarstigi á Laugarvatni að Skálholti. Líka ætti
    búnaðarskóli Suðurlands að standa þar eins og í tal hefir komizt, því að honum fylgja jarðarbætur.
    Skálholt getur aldrei orðið staðarlegt, nema að tryggt sé, að þar verði stórar byggingar og margt
    heimafólk, en það getur ekki orðið, nema með meiriháttar skólalífi. En hvað liggur nær en að byggja
    þessa skóla þar, fyrst þeir eiga að koma þarna í héraðið hvort sem er. Kostnaðurinn yrði að líkindum
    nokkur sá sami.
    Ef alvara er í að endurreisa og prýða Skálholt, svo að eitthvert vit sé í því, að það verði þjóðinni til
    sæmdar en ekki til vansæmdar, þá ættu ráðamenn þessa verks að athuga þessi skólamál rækilega“.
    77
    Sveinn hefir lokið máli sínu. Ég held, að úr því sem komið er, sé sú hugmynd vafasöm, að flytja
    menntaskólann frá Laugarvatni að Skálholti. Hins vegar væri til athugunar að flytja guðfræðideildna
    við Háskólann þangað. Má í því sambandi vel minnast þess, að Skálholtsskóli var fyrst og fremst
    prestaskóli.
    Starkaður.
    Tíminn, miðvikudaginn 22. desember 1954
    Baðstofuhjal
    Sveinn frá Fossi sendir eftirfarandi:
    „6. desember þ.m. var útrunninn umsóknarfrestur sandgræðslustjóraembættis Íslands. Einn
    umsækjandi: Páll Sveinsson, settur sandgræðslustjóri í Gunnarsholti. Er því trúlegt, að hann verði
    skipaður í það embætti fyrr en síðar.
    Annað, sem ég vildi segja, er það, að mér finnst það eiga vel við að við þessir eldri menn, sem hættir
    erum að starfa áreynsluvinnu, skrifum dálítið um reynslu okkar af lífinu, ef það gæti orðið yngra
    fólkinu til leiðbeiningar. Ég hef áður um það skrifað, að ýmsu leyti, og verið vinsælt og lesið. Stundum
    hef ég dregið fram í dæmum, máli mínum til skýringar. En ég á ótalað um það, hvað sumt fólk er
    hirðulaust með að læsa íveruhúsum sínum og geymsluhúsum – um nætur. Og með því gefið tækifæri
    þeim mönnum, sem gefnir eru fyrir þann ósóma að stela, ef þeir komast í tækifæri með það. En færri
    munu þeir vera, sem brjóta upp húsin, ef þau eru læst.
    Um það eru víst mörg dæmi í Reykjavík, og þau eru líka til í sveitinni, sem nú skal greina. Dæmi:
    Bóndi nokkur sem raflýsti heimili sitt til allra hluta, fékk þá jafnframt betri aðstöðu með eldivið, til að
    reykja kjöt sitt í reykhúsi, en komst þá líka ekki hjá því að reykja kjöt fyrir aðra sem ekki höfðu
    aðstöðu til þess sjálfir. En eins og kunnugt er, þá er hangikjöt, vel reykt, þjóðarréttur, til hátíða og
    allra meiri háttar tyllidaga.
    Nú var það eitt haust sem oftar, að reykhúsið var fullt af kjöti. En þegar komið var fram á veturinn, sá
    bóndinn, að mjög mikið var horfið af kjötinu úr reykhúsinu. Þetta tjón var ekki hægt að bæta upp
    aftur á þeim tíma árs, og var því mjög bagalegt, og leiðinlegt, vegna þeirra, sem áttu þar kjöt í reyk.
    En fyrir tvö atvik þessu skyld, komst bóndinn að því dálítið síðar, hver hafði stolið kjötinu, en hann var
    samt í vanda staddur, hvað gera skyldi í þessu máli, því hann langaði ekki til að klekkja á þeim seka,
    og í því trausti að eigendur grunuðu ekki hann sjálfan, þá lét hann málið kyrrt liggja. En enn í dag veit
    hann ekki, hvort hann hefir gert rétt eða rangt með þessari aðferð. En eftir þetta var þess gætt að
    hafa reykhúsið rammlæst, enda dugði það til þess, að þetta kæmi ekki fyrir aftur. Þetta dæmi er
    dregið hér fram til þess að hvetja fólk að læsa húsum sínum, um nætur.
    Annað, sem ég vildi líka segja hér, er um drengskaparmál í viðskiptum manna á milli. Dæmi: Bóndi,
    sem hafði sameign við tvo menn, þó ekki sömu eignina, sem þurfti að skipta á ákveðnum tíma. En
    bóndinn hafði þá ekki ástæður til að mæta á þeim tíma, sem hinum hvorum um sig hentaði, enda
    nokkur vegur á milli. Bóndinn gaf þeim því sjálfdæmi við skiptin, svo þeir hefðu ekki baga af
    drættinum. En svo þegar til kom, reyndust skiptin mjög neikvæð í garð bóndans, sem sýndi það, að
    hvorugur þessara manna var þess verðugur, að trúa þeim fyrir sjálfdæmi.
    Þetta dæmi er líka dregið hér fram til þess að vara menn við að gefa öðrum sjálfdæmi, nema að
    nauðþekkja manninn að drengskap og heiðarleik. Og alla tíð hefir það þótt eitt af því lélegasta í fari
    78
    manna að bregðast því trausti. Í skólum landsins ættu kennarar að brýna þetta fyrir nemendum
    sínum. Þeir kannske gera það?“
    Hér lýkur hugvekju Sveins Sveinssonar frá Fossi.
    Starkaður.
    79
    1955
    Þetta ár ritaði Sveinn sex pistla í Tímann og einn í Morgunblaðið. Greinin í Morgunblaðinu
    fjallaði um Uppeldi barna.
    Meðal efnis í Tímapistlunum má nefna uppgræðsluna á Stjórnarsandi við
    Kirkjubæjarklaustur, einnig á Sólheimasandi og Skógasandi, sjóslys í Mýrdal, framfarir í
    samgöngum og farartækjum, bændavikuna í útvarpinu, útvarpssöguna, Guðmund á Stóra-
    Hofi, kaupfélögin, jarðræktarstyrk, tilhleypingar, skólahald, málefni ríkissjóðs og skemmtanir
    um sláttinn.
    80
    Tíminn, föstudaginn 14. janúar 1955
    Baðstofuhjal
    Hér kemur pistill eftir Svein Sveinsson frá Fossi:
    „Kirkjubæjarklaustur er merkilegur staður og oft hefir verið um það skrifað og þá menn, sem þar
    hafa búið fyrr og síðar. Síðast liðið sumar kom grein í Morgunblaðinu um Klaustur úr ferðapistli og nú
    er komin grein líka úr ferðapistlum í Tímanum. Báðir þessir greinarhöfundar tala auðvitað um
    Stjórnarsandsgræðsluna. Í Morgunblaðsgreininni segir: Að þar hafi verið slegið og hirt taða að mig
    minnir á nokkur hundruð hesta, án þess að nokkru fræi hafi verið sáð þar. Þennan misskilning þarf að
    leiðrétta, því að ef ekki hefði verið sáð í sandinn sandfaxi og borið á, þá hefði þar engin slægja verið,
    því þótt áveitan úr Skaftá og Stjórn hjálpi til með gróður að austan og sunnan til á sandinum og hefti
    þar sandfok, þá væri það gagnslítið til slægju, ef ekki væri sáð í sandinn.
    Í Tímagreininni segir, að sáð sé grasfræi í sandinn. En enn sem komið er, er þar einungis sáð sandfaxi.
    Siggeir bónda þar, líkar svo vel við sandfaxið, að hann hefir ekki enn viljað breyta til með fræ. Kúnum
    þýkir sú taða lystug, og þær þykja mjólka vel af henni, segir Siggeir.
    Úr því að ég er nú einu sinni enn kominn í baðstofuna, þá ætla ég að spjalla dálítið meira við fólkið.
    Ef einhvern tíma í framtíðinni yrði tekið fyrir að græða upp Skógasand og Sólheimasand, þá má gera
    ráð fyrir að allt of dýrt yrði að reyna að ná vatni upp á þá sanda og koma því um sandana. En það er
    ekkert ótrúlegt, ef það mundi þykja borga sig að græða þá sanda upp í gras, að það væri hægt með
    sáningu og nógum áburði. En það sýnist nú vera langt í land með það enn, þar sem jarðir fara nú víða
    í eyði og það í grösugum sveitum. Annað mál er það, þótt heiðarbýli fari í eyði eða þær jarðir, sem
    langt eru frá mannabýlum, þar sem sumarhagar eru fyrir sauðfé til upprekstrar, því að það
    margborgar sig fyrir hlutaðeigandi hreppa að þær jarðir séu í eyði, svo að fénaður hafi þar frið, og
    hann verði vænni en annars.
    Ég veit til dæmis í Skaftártungunni eftir að Svartinúpurinn og Búlandsselið fóru í eyði, sem voru
    heiðarbýli, hefir það margborgað sig fyrir hreppinn vegna hagbeitarinnar með frið og vænleika
    fénaðarins, eins og þeir vita búendur austan fljóts í Tungunni.
    En hvað segja nú Meðallendingar með Leiðvöllinn, þegar sú stóra sandgræðsla er gróin? Hvort
    mundu þeir kjósa að fá þangað ábúanda eða landið allt til upprekstrar? Ég mundi glaður kjósa síðari
    kostinn. Líka væri meiri hætta með skemmdir á landinu, ef þangað kæmi ábúandi, sem beitti landið
    að vetrar og vorlagi, þegar mest hætta er á, að fénaður græfi í sandjörðina eftir grænni nálinni,
    heldur en fátt fénaðar væri þar yfir hásumarið. Þetta þurfa Meðallendingar að gera upp við sig, þegar
    sá tími kemur, að nytja má Leiðvöllinn og auðvitað í samráði við sandgræðslustjóra, sem og aðrar
    stórar sandgræðslugirðingar hvar sem er á landinu. Þá hlýtur það að vera mjög áríðandi að nytja þær
    á réttan hátt, svo að gróðrinum verði ekki spillt og aðal ráðin og ábyrgð í þessum málum heyrir undir
    sandgræðslustjórann. Sama er að segja með skógræktina. Þann gróður þarf að varðveita undir stjórn
    skógræktarstjóra. Báðir eru þeir stjórarnir Hákon og Páll mjög vel menntaðir í sínu fagi, áhugasamir,
    og dugnað þeirra efast enginn um, sem til þekkir.
    Víða um landið hafa menn haft áhuga fyrir því, að Páll Sveinsson í Gunnarsholti yrði skipaður
    sandgræðslustjóri, og sum blöðin höfðu farið viðurkenningarorðum um hæfileika Páls í því starfi og
    ríkisbúrekstur hans í Gunnarsholti. En það er mikill styrkur og hvöt til dáða fyrir unga áhugamenn að
    fá hrós og viðurkenningu fyrir vel unnin störf hjá áhugasömum og vinveittum blöðum, enda er
    sandgræðslan og góður búrekstur ekkert hégómamál.
    81
    Nú hefir landbúnaðarráðherra Steingrímur Steinþórsson skipað Pál Sveinsson sandgræðslustjóra, og
    hafa þau blöð, sem áhuga hafa haft fyrir þessari veitingu, birt þær fréttir, svo að áhugamenn út um
    landið ættu að geta frétt það með tíð og tíma, þótt það hafi ekki komið í fréttum ríkisútvarpsins, sem
    venja er þó til með svona mál.
    Að endingu á þessu spjalli mínu óska ég og vona, að Páli mínum endist líf og heilsa til þess að vinna
    landinu og þjóðinni sem mest gagn í starfi sínu, svo mikilsvert sem það starf er fyrir fósturjörðina og
    þjóðfélagið í heild“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Tíminn, þriðjudaginn 29. mars 1955
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi kveður sér hljóðs og kemur víða við:
    Erindin, sem Magnús Finnbogason frá Reynisdal flutti í útvarpið um daginn, um sjóslysin í Mýrdal, og
    öll þau sjóslys frá þeim tíma, sem hann talaði ekki um, ættu að minna menn á að byrja ekki að nýju
    sjóróðra með söndunum, svo hættuleg sem sú atvinna hlýtur alltaf að vera. Því þótt tæknin sé orðin
    mikil til að bjarga strandmönnum úr sjávarháska, þegar skip stranda, þá er það allt annað en með
    opnu bátana við brimgarðinn, þegar þar vill til slys með því að skipin hvolfa á augnablikinu, og ef ekki
    er hægt að bjarga á næsta augnablikinu, þá er búið með það, eins og kunnugir vita.
    En nýja tæknin bjargar þessum plássum á annan hátt, svo sem með því, að nú eru allar vörur – að og
    frá verzlunum í þessum plássum – fluttar landleiðina með bílum, og jafnvel loftleiðina með flugvélum.
    Og öll heimili við þessa sjárvarsíðu geta fengið nýjan fisk, frystan eða ófrystan, með þessum
    farartækjum, og ég tala nú ekki um þar sem mjólkurbílar ganga heim í hlað. Menn hafa því nú seinni
    árin notað sér þessi þægindi og að mestu hætt sjóróðrum á þessum hafnlausu stöðum. En svo sem
    þessir sjóróðrar voru lífsnauðsynlegir í þá daga, þegar vegleysurnar, og hungrið þrengdi að fólkinu, þá
    er það nú jafn ónauðsynlegt að hætta lífi sínu, að þarflausu, á þennan hátt. Annars get ég vel sett mig
    inní það, að bændur, sem voru vanir að róa, langi að skreppa út á sjóinn, þegar hann er vatnsdauður,
    en ábyrgðin hvílir á þeim sjálfum fyrir þeirra heimili. Það sýnir sig svo oft, að það eru mennirnir sjálfir,
    sem ráða sínum verkum, til góðs eða tjóns, happa eða óhappa. Hvað sem trúarmálum líður að öðru
    leyti. Þá sýnist, að mönnum sé gefið allt þetta frjálsræði, til sinna verka. Það er því mjög óvarlegt að
    láta oftraust á forsjónina ráða verkum sínum.
    Þetta er mín skoðun á þessum málum og ég hygg, að svo sé með fleiri eldri menn. Það er svo margt
    skýrara fyrir manni, þegar maður er orðinn gamall en meðan maður var ungur, og reynslan með
    sínum höppum og óhöppum hefir kennt manni margt í lífinu, sem maður gæti verið ungdóminum til
    leiðbeiningar um að einhverju leyti eins og ég hef áður skrifað um.
    Nú stendur búnaðar- eða bændavikan yfir í Ríkisútvarpinu, og er þar að vonum margt sagt, bændum
    og fólkinu til leiðbeiningar. En verst er, ef fólkið sjálft vantar áhugann, en tíminn er vel valinn fyrir
    bændur og fólkið í sveitunum. Líka ferðast ráðunautar B.Í. um sveitirnar, bændum til leiðbeiningar.
    Það vantar ekki, að Búnaðarfélag Íslands reynir á flestan hátt að leiðbeina og hvetja bændur til dáða
    og fólkið í sveitunum, enda eru ræktunarmál sveitanna á hraðri framfarabraut, með vélatækni og
    áburðarmagni. Nýlega var lesin upp í útvarpið skýrsla um nýbýlin, sem er merkilegt átak
    82
    landbúnaðarins, en ég saknaði þess, að landnámsstjórinn, Pálmi Einarsson, las ekki upp sjálfur skýrslu
    sína, eins og hann er skemmtilega máli farinn. Ekki alls fyrir löngu sat hér í Rvík í margar vikur
    búnaðarþing. Eins og gefur að skilja sátu það margir gegnir menn. En annars finnst mér og fleirum, að
    sú stofnun vera óþörf vegna þess, að búnaðarþing getur ekkert gert, nema það sem Búnaðarfélag
    Íslands getur gert, og á að gera.
    Búnaðarþing Íslands er sá rétti framkvæmdarliður milli landbúnaðarins og Alþingis, með ályktanir og
    tillögur, viðvíkjandi landbúnaðinum, og það þótt búnaðarþing sitji í Reykjavík vikum saman. Þetta vita
    menn ósköp vel, þótt það sé látið kyrrt liggja, eins og sumt annað, sem mætti spara að skaðlausu.
    Ríkisútvarpinu vildi ég mega segja þetta: Útvarpssagan, sem nú er í lestri, er það svört lýsing af lífinu,
    að sjálfur lestrarmeistarinn, Helgi Hjörvar, getur ekki gert hana skemmtilega. Útvarpið hefir víst alltaf
    reynt að fá góða lesara til að lesa passíusálmana, og hefir það heppnazt furðu vel, eins og það er
    mikill vandi að lesa þá. En bezt hefir það nú tekizt með séra Jón Guðjónsson. Hann er öruggur í lestri,
    og málfarið prúðmannlegt til sálmalestrar. Ef hann les á þráð, er þá ekki hægt að nota það eftirleiðis?
    Föstumessa annan hvern miðvikudag finnst mér ekkert þýða, úr því það er þá ekki á hverjum
    miðvikudegi.
    Er ég var að enda við framanritaðar línur, kom í Morgunblaðinu fréttapistill frá Vík, þar sem sagt er
    frá aðalfundi slysavarnardeildarinnar „Vonin“. Var á þeim fundi samþykkt að skipa þriggja manna
    nefnd, er hafi til athugunar á hvern hátt mundi bezt ráðið fram úr því öryggisleysi, sem ríkir í sjósókn
    manna frá hinni hafnlausu suðurströnd. Þetta sýnir tvennt í senn: Að áhugi er vaknaður fyrir sjósókn í
    Mýrdal og að menn vilja jafnframt reyna að forða slysum. En öryggið verður bezt tryggt með því að
    nota sér nýtæknina, eins og fyrr segir í þessari grein, en stunda alls ekki sjósókn, allt frá Mýrum í ASkaftafellssýslu
    til Landeyja í Rangárvallasýslu.
    Við þökkum Sveini frá Fossi pistil hans og ljúkum svo baðstofuhjalinu í dag.
    Starkaður.
    Tíiminn, þriðjudaginn 19. apríl 1955
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson hefir sent mér eftirfarandi pistil og gefum við honum orðið:
    „Að gefnu tilefni fór ég að líta í endurminningar Guðmundar á Stóra-Hofi. Auðvitað hafði ég lesið þá
    bók áður, en ekki með eins mikilli athygli og nú, og þó hef ég alltaf vitað, hvað Guðmundur
    Þorbjarnarson var mikill maður á sviði félagsmála. Þegar Brydeverzlun var stofnsett í Vík í Mýrdal,
    laust fyrir aldamótin 1900, gerbreyttist líðan manna í Vestur-Skaftafellssýslu og austurhluta
    Rangárvallasýslu, til hins betra. En breytingin varð mest í Mýrdalnum, hvað snerti félagslíf og atvinnu.
    Enda voru starfsmenn verzlunarinnar, sem með henni komu til Víkur, áhugasamir um ýms félagsmál,
    sem áður voru þar lítið þekkt.
    En einn var sá meðal þessara manna, sem bar af öðrum, um hugsjónir og félagsmálaþroska. Þessi
    maður var Guðmundur Þorbjarnarson á Stóra-Hofi. Þá var hann á þeim aldri, þegar efnilegir menn
    fara að líta í kringum sig eftir konuefni, enda vel settur við verzlunina til þess að líta eftir
    heimasætunum, sem komu í kaupstaðinn. Og ein kom sú, sem bar af öðrum stúlkum, svo ekki þurfti
    um að villast. Hét hún Ragnhildur Jónsdóttir á Hvoli í Mýrdal, og ekki þarf að orðlengja það, að þau
    urðu hjón og tóku við búsforráðum og búi foreldra hennar á Hvoli. Þetta varð til þess, að Guðmundur
    83
    settist að í Mýrdal. Og varð það ekki einungis happ fyrir Mýrdalinn og Vestur-Skaftafellssýslu, heldur
    og yfirleitt Suðurlandsundirlendið.
    Mikill félagsþroski og kraftur fylgdi þessum manni. Þegar Guðmundur var nú setztur að í þetta góða
    bú, með sinni glæsilegu konu, og nógan vinnukraft, var margt á prjónunum, heimafyrir og út á við, hjá
    þessum mikla hugsjónamanni, sem mest gaf sig félagsmálum út á við, og þótt því fylgdi að Guðmunur
    þyrfti oft að vera að heiman, var öllu óhætt heima fyrir undir stjórn húsfreyjunnar. Er nú skemmst af
    að segja, að hver félagsskapurinnn, eða stofnunin, reis upp af öðrum innan hrepps og utan, undir
    forustu Guðmundar. Skal nú nefnt eitthvað af því helzta: Bindindisfélög, búnaðarfélög,
    Nautgriparæktarfélag Dyrhólahrepps, samtök um fjárkynbætur, hrossakynbótafélag. Rjómabúið við
    Deildará stofnaði hann og var formaður þess. Hann var einn aðalstofnandi Kaupféags Vestur-
    Skaftfellinga, og fyrsti formaður þess.
    Í málfundafélagi var hann meðstofnandi, samhliða innanhreppsembættisstörfum, sem á hann
    hlóðust. Það gekk kraftaverki næst að stofna þá kaupfélag og halda því lifandi fyrstu árin, við hliðina á
    þessum voldugu verzlunum í Vík: Brydesverzlun og Halldórsverzlun, o.fl. smáverzlunum. Þegar litið er
    á það, að verzlanirnar í Vík voru nýjar og í uppgangi, og menn þá yfirleitt ánægðir með að byrja með,
    þá held ég að mér sé óhætt að segja, að það hefði dregizt í mörg ár að stofnað yrði Kaupfélag í
    Vestur-Skaftafellssýslu, ef Guðmundar Þorbjarnarsonar hefði ekki notið við.
    Um 1910 fluttust þau hjónin Guðmundur og Ragnhildur frá Hvoli að Stóra-Hofi á Rangárvöllum.
    Keyptu þau Hof og bjuggu þar síðan, eins og kunnugt er. Svo stórhuga manni sem Guðmundur var,
    mun hafa þótt þröngt um sig á Hvoli, eins og víða er í Mýrdalnum. Enda ættaður úr Rangárvallasýslu,
    og biðu hans þar mörg mál til framfara. En mest áberandi var formennska hans fyrir
    Búnaðarsamband Suðurlands. Enda þótt Guðmundur yrði ekki lengur búandi í Mýrdalnum en tíu ár
    eða í kringum það, var hann búinn að koma sínum áhugafélagsmálum svo vel á stað í Vestur-
    Skaftafellssýslu og sjá út forustumenn til að taka við þeim, að þeim átti ekki að vera hætta búin. En í
    mestri hættu var þá hið unga Kaupfélag.
    En eins og máltækið segir, „að hálfnað verk þá hafið er“, svo reyndist það með Kaupfélagið. Því nú
    tók við formennsku þess sá bóndi í Vestur-Skaftafellssýslu, sem næstur gekk Guðmundi
    Þorbjarnarsyni að forustuhæfileikum, nefnilega Lárus Helgason á Kirkjubæjarklaustri, eing og löngu er
    kunnugt. En í sambandi við þetta mál og mannaskipti, ætla ég að segja það svona til gamans, að mér
    hefir oft dottið í hug með sjálfum mér, að ef Guðmundur Þorbjarnarson hefði verið kyrr í Vestur-
    Skaftafellssýslu, þá var hann þannig maður, að hann hefði alltaf verið sjálfkjörinn formaður
    kaupfélagsins. Og þar sem alþingiskosningar á þeim árum snerust um verzlunarmálin í Vestur-
    Skaftafellssýslu (og gera raunar enn) þá hefði Guðmundur, að ég hygg, orðið í kjöri eða framboði fyrir
    Framsóknarflokkinn þar í sýslu.
    Annars hygg ég, að bezt hafi farið eins og fór, til þess að báðir þessir forustumenn gætu notið sín sem
    bezt fyrir fólkið í sveitunum, sem hlut átti að máli, og ríki þeirra náði yfir. Að vísu voru þeir
    Guðmundur og Lárus um sumt, mjög ólíkir. En um margt líkir, svo sem óbilandi dugnað og kraft.
    Mannkostamenn og höfðingjar í lund. Smásálarskapur og vanþakklæti var eitur í þeirra beinum, eins
    og títt er um mikla menn og góða.“
    Sveinn hefir lokið máli sínu að sinni og ljúkum við þar með Baðstofuhjalinu í dag.
    Starkaður.
    84
    Tíminn, miðvikudaginn 15. júní 1955
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og tekur til máls:
    „Á öld framfara til lands og sjávar skeður það ótrúlega, að Alþingi Íslendinga samþykkir að lækka um
    einn fjórða hluta jarðræktarstyrkinn á sandgræðsluræktun, þótt aðrir styrkir á jarðrækt séu látnir
    halda sér. Og það allra ótrúlegasta er þó við þetta mál, ef það er rétt, að það sé runnið upp frá
    fulltrúum bændanna sjálfra. Þótt einhverjar ástæður sé hægt að færa fyrir þessu, þá er
    hugsunarhátturinn svo ólíkur því, sem er að gerast í jarðræktun landsins, svo sem skógrækt, þurrkun
    mýranna í tún og vallendi og græðsla sandanna í gras, tún og haga.
    Heyrzt hefir, að byrjunin á þessu undarlega máli hafi verið sú, að bændum sumum hafi þótt þeir
    „stóru“, sem klæða sandana grasi, fái of mikið af jarðræktarstyrknum. En ég hef aðra skoðun á þessu
    máli. Mín skoðun er sú, að það sé ágætt að stóru athafnamennirnir leggi eitthvað af
    afgangspeningum sínum í ræktun landsins, og er þá ekki nema sjálfsagt og sanngjart að þeir fái sinn
    lögboðna hluta af jarðræktarstyrknum, enda leggja stóru atorkumennirnir meira í ríkissjóðinn en þeir
    athafnaminni og fátækari. Það sýnist því vera gott að ekki séu allir jafn fátækir, því að ómögulegt er
    að gera alla jafn ríka. Mennirnir eru svo ólíkir að upplagi, framsýni og dugnaði.
    Þegar jarðræktarfrumvarpið var í deildum Alþingis, segir Morgunblaðið orðrétt m.fl.: „En framlag til
    ræktunar sandfokssvæða er lækkað um fjórðung. Frumvarp til laga um ýmsar breytingar á
    jarðræktarlögunum er nú komið til efri deildar. Á frumvarpinu voru gerðar nokkrar breytingar í neðri
    deild skv. tillögum landbúnaðarnefndar. – Ingólfur Jónsson lét þó í ljós nokkra undrun yfir einni
    breytingu, sem hann taldi ekki til bóta, en það var tillaga landbúnaðarnefndar nd. að framlag
    ríkissjóðs til ræktunar sands skyldi vera lægra en til ræktunar annars lands. Það væri þó
    sannleikurinn, að vegna mikillar áburðarþarfa væri ræktun sanda kostnaðarmeiri. Þar væri þess og að
    geta, að með ræktun sanda væri verið að vernda gróðurland fyrir uppblæstri“.
    Ég hef leyft mér að taka þessi framanrituðu orð Morgunblaðsins máli mínu til skýringar. Fyrir utan
    það, hvað þetta mál er leiðinlegt, þá er nokkur hætta á því að þeir einstaklingar, sem þurfa og hafa
    ætlað sér að rækta sanda í gras, þar sem svo hagar til á jörðum þeirra, missi áhugann og trúna á
    verkið, þegar löggjafarþingið sjálft bregst svona við í þessu þýðingarmikla máli. Annars trúi ég því, að
    næstkomandi Alþingi breyti þessu í sama horf og það var áður, og spari í staðinn annan óþarfa
    kostnað. – Svo eru hér nokkur orð um allt annað efni:
    Í mínu ungdæmi, er ég var í Sandfelli í Öræfum, var einn bóndinn, sem bjó þá á Hofi, er Jón hét
    Þorláksson. Það þótti gildur bóndi og búmaður góður. En hann fór sínar leiðir, svo sem eins og með
    það, að hann lét tvævetrar ær ekki hafa hrút. Þótti honum þær of ungar. Var talið, að hann ætti betra
    sauðfé en aðrir í Öræfum og þótt víðar væri leitað. Ekki veit ég til, að neinn bóndi hafi talið sig hafa
    efni á því að láta ekki ær sínar eiga lömb fyrr en þær væru þrívetra. Svo er líka með bændur, sem ekki
    telja sig hafa efni á því að eiga heyfyrningar, heldur fleira fé. En hvort tveggja hefir reynzt á aðra leið,
    því að þeir bændur, sem alltaf hafa verið í heyfyrningum hafa verið jafn stöndugastir bænda. Svo var
    líka með Jón Þorláksson á Hofi, að hann var jafn stöndugastur bænda í Öræfum, þótt aðrir bændur
    væru með fleira sauðfé. En hvað segja bændur nú, sem hleypa almennt til gimbranna vegna
    fjárskiptanna? Nú veit maður, að það hefir farið mjög vel á því að svínala gimbrarnar. En þegar fénu
    fer að fjölga verulega, þá fer að verða spurning með þetta mál, því þótt bændur geti nú á tímum
    vegna ræktunarinnar alið fénaðinn mörgum sinnum betur en áður var, þá er ekki víst, að sumarbeitin
    eða hagarnir leyfi það. En þegar sá tími er kominn, að sauðfé er orðið það margt, að ekki er hægt að
    fjölga því meira, þá kemur sú spurning, hvort þá eigi að deyða ær á bezta aldri eða að hætta að
    85
    hleypa til gimbranna. Ég mundi kjósa síðari kostinn, því að ekki er útilokað að rýrnun geti ekki komið í
    fénaðinn þegar lengra líður fram í ættirnar með því að halda því áfram að hleypa til gimbranna. Ég er
    þeirrar skoðunar, að bezt sé að láta þær skepnur, sem mennirnir ráða yfir, ekki eiga afkvæmi of
    ungar, svo sem ær, hryssur og kýr. Með því þroskast þær fyrr og betur. Líka er það eðlilegra,
    skemmtilegra og manndómslegra.
    Yfir þessu sem mörgu öðru þurfa búnaðarfélagsráðunautarnir að vaka í framtíðinni bændum til
    leiðbeiningar. Nú er Alþingi búið að samþykkja ný lög með stóraukið fé til vélakaupa handa bændum
    sveitanna. Því þarf að fylgja og má ekki bregðast, að hafa skýli fyrir þessar dýru og dýrmætu vélar.
    Það hlýtur að verða eitt af verkum ráðunautanna, sem ferðst um sveitirnar, að sjá um það. Og
    vélarnar mega alls ekki fara í þær sveitir, sem ekki er trygging fyrir því, að skýlin séu til. Hingað til hefir
    vélageymslu og hirðingu þeirra verið víða ábótavant, en er víða að lagast“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu.
    Starkaður.
    Tíminn, föstudaginn 22. júlí 1955
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir sent eftirfarandi pistil um menntun ungdómsins í baðstofuna:
    Eins og kunnugt er, hefir framförum til sjós og lands hér á Íslandi fleygt fram síðan um síðustu
    aldamót, og væri of langt mál að telja það allt upp. Enda óþarft, svo kunnugt sem það er. En þó vildi
    ég aðeins nefna það, sem fólk almennt hefir ekki athugað sem skyldi, og það er alþýðumenntun
    ungdósmisins. Ég álít þó, að hún sé undirstaðan að lífsbaráttunni, og bezti og tryggasti arfurinn, sem
    hægt er að veita æskunni. Fyrsta atriðið í því máli eru hinir almennu barnaskólar, og þótt manni
    finnist, að þeir mættu taka styttri tíma ár hvert, þá er það aukaatriði á móti því gagni, sem þeir skapa
    fyrir þjóðfélagið í heild. Þar næst koma gagnfræða- og alþýðuskólar, fyrir þá unglinga, sem hafa hug á
    því að leita sér meiri menntunar, hvort sem er fyrir alþýðlegt lífsstarf eða til framhalds sérnáms.
    Þótt ekki sé hægt að neita því, að einmitt þetta skólalíf hafi losað um æskuna í sveitum landsins, er
    heldur ekki hægt að neita því, að einmitt þessi menntun á þeim aldri er mjög nauðsynleg fyrir
    lífsstarfið. Enda hafa alþýðuskólarnir sjálfsagt verið stofnaðir með það fyrir augum að ungdómurinn í
    sveitunum ætti hægara með að leita sér menntunar þar en til Reykjavíkur, og þá síður losa um það úr
    sveitunum. Enda er það rétt stefna. Svo hefir líka verið með búnaðarskólana. Og síðan að
    framhaldsdeild búnaðarnáms var stofnuð hér á landi, hefir hún setið á Hvanneyri undir stjórn
    skólastjórans þar.
    Menntaskóladeild hefir verið stofnuð að Laugarvatni nemendum til hagræðis og með sama marki
    fyrir augum var menntaskólinn stofnsettur á Akureyri. Og síðast en ekki sízt stendur til að flytja
    Samvinnuskólann frá Reykjavík að Bifröst í Borgarfirði. Allt er þetta í sömu átt við stefnuna að dreifa
    skólalífinu út í sveitirnar til hægðarauka fyrir nemendur og glæða sveitalífið og létta á Reykjavík með
    fólksfjöldann.
    Nú nýverið hefir heyrzt talað um það, að Búnaðarfélagi Íslands eða ráðamönnum þeirra mála hafi
    dottið í hug að flytja framhaldsdeildina frá Hvanneyri til Reykjavíkur. Ef það er rétt, þá sýnist ekki vera
    samræmi í því við stefnuna, sem nefnd er hér að framan í skólamálum landsins í dag. En ef
    Búnaðarfélag Íslands sæti á sveitasetri ekki langt frá Reykjavík, þá gæti þetta verið nokkuð eðlilegt að
    86
    þeir vildu hafa kennsluna í þeim greinum búfræðinnar, sem hér um ræðir, og jafnvel, að nemendur
    sæktu háskólanámkeið í búfræði. Það gæti líka gengið, þótt þeir væru á Hvanneyri.
    Alltaf hefði það verið eðlilegast að Búnaðarfélag Íslands sæti á sveitasetri og undir stjórn þess væri
    ríkisbúskapur rekinn öðrum til fyrirmyndar. Bessastaðir hefðu verið tilvalin jörð til þess. Korpúlfsstaðir
    eða önnur stórbýli nálægt Reykjavík, sem gætu orðið stórbú.
    Nú er talað um það á stórfundum bænda, að hraða þurfi húsbyggingu Búnaðarfélgs Íslands og
    auðvitað þarf það að vera stórhýsi yfir virðulegustu stofnun landbúnaðarins, annað gæti ekki gengið.
    Þá þyrftu ráðamenn þjóðarinnar í þessum málum að athuga þetta allt rækilega.
    Sveinn frá Fossi hefir lokið máli sínu að sinni og látum við þar staðar numið í dag.
    Starkaður.
    Tíminn, 21. október 1955
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir sent eftirfarandi pistil í Baðstofuna:
    Þegar Stéttarfélagsfundur bænda var haldinn á Bifröst í sumar, var minnzt 10 ára afmælis félagsins.
    En ekki munu þeir menn hafa verið nefndir á nafn við það tækifæri, sem raunverulega áttu upptökin
    að því að stofnað var Stéttarfélag bænda. En hvað um það – þeir, sem stjórnað hafa
    stéttarfélagssamtökum bænda frá byrjun þess, hafa gert það með áhuga og dugnaði. Enda stofnað til
    þess að skapa jafnvægi við önnur stéttafélagssamtök í landinu, svo sem með kaupkröfur, verðlag og
    niðurgreiðslur með styrkjum frá ríkinu, fyrir utan það, sem krafizt er styrktar af ríkissjóði á flesta lund,
    að þörfu og óþörfu.
    En þótt manni finnist sumt af þessu gangi út í öfgar, þá er þessi stéttafélagskapur nauðsynlegur, til
    öryggis fyrir fólkið í landinu, og sem mest jafnrétti þegnanna í þjóðfélaginu. Mikið er nú búið að laga
    til, og gera lífbaráttuna betri, með félagssamtökum á einn og annan hátt, til sjós og lands. Á engan
    hátt er hægra að ná til allra landsmanna, þegar hjálpar er þörf, en í gegnum ríkissjóð, sem allir
    fullveðja landsmenn leggja í eftir efnum og ástæðum, bæði beint og óbeint. En samt þurfa einhver
    takmörk að vera þar, eins og með aðra hluti, því þeim mun meira sem eytt er úr ríkissjóði, þarf hann
    meiri tekjur, eins og gefur að skilja.
    Ríkissjóður er nú orðinn ekki einungis fyrir allar stórframkvæmdir, svo sem brúargerðir, þjóðvegi,
    launabákn alla vega o.s.frv., heldur einnig styrktarsjóður á fjölmargan hátt, og er það gott og blessað,
    svo langt sem það getur náð.
    Eins og ríkissjóður gerir, þarf að styrkja alla sjúka og sorgmædda, og alla þá sem hafa orðið fyrir
    slysum og ófyrirjsáanlegum óhöppum með heilsuna og efnahaginn o.fl., sem ekki þarf að telja hér
    upp. En því má þó bæta hér við, að svo nauðsynlegt sem allt þetta er, sem hér hefir verið tekið fram,
    með bættan efnahag og heilsufar fólksins, með styrkjum úr ríkssjóði, þá má vara sig á því að hafa
    þessa stefnu of víðtæka. Þannig, að rétt allir landsmenn komist á ríkissjóð, sem kallað er, með því að
    krefjast styrktar úr ríkissjóði við algengt tap og gróða, sem alltaf skiptist á í atvinnumálum
    þjóðarinnar, til sjós og lands, eftir tíðarfari. Enda er erfitt og leiðinlegt að hjálpa þeim, sem ekki hjálpa
    sér sjálfir, eins og vera ber og þeir gætu í samanburði við aðra menn með líkar ástæður. Sumir menn
    vilja oft vera kröfuharðir, þegar ríkið á í hlut, og engu síður þeir lélegri og harnðsnúnari.
    87
    Meðal þess, sem ég tel gengið of langt í þessum efnum, er ef útvegurinn eða útgerðin við sjóinn þykir
    ekki bera sig til gróða, þá er krafizt styrktar úr ríkissjóði. Ef rosi er um sláttinn einhvers staðar á
    landinu, þá er karfist styrktar úr ríkissjóði. Ef foreldrar, þótt þau séu hraust og vel efnum búin, eiga
    börn fleiri en eitt, þá er krafist styrktar úr ríkissjóði. Og svo mætti lengi telja.
    Þetta og þvíumlíkt dregur úr framkvæmdar- og sjálfsbjargarvilja fólksins, sem elst upp við þetta. Það
    er mín skoðun.
    Nú hefir ríkisstjórnin falið tveimur mönnum, þeim Páli Zóphóniassyni og Árna G. Eylands, að athuga
    um fóður og fénað á óþurrkasvæðinu, sérstaklega með tilliti til þess, að bændur panti sér nægan
    fóðurbæti í tæka tíð. En það er það eina, sem hægt er að gera í þessu máli og að gagni getur komið,
    því það er einmitt fóðurbætirinn, sem á vel við með hröktu heyjunum, og útbeit, eins og kunnugt er.
    Þessi ráðstöfun ríkisstjórnarinnar er mjög röggsamleg og nauðsynleg, og mennirnir Páll og Árni vel
    valdir til þessa starfa sakir áhuga þeirra og þekkingar.
    Í sambandi við það, sem hér að framan er skráð, á ekki illa við að ég láti skoðun mína í ljós, um
    heyskap yfirleitt: Undir flestum kringumstæðum ætti að fjarlægja í sveitunum allt, sem tefur sláttinn,
    á meðan hann stendur yfir, svo sem: Héraðsmót eða stórar samkomur, opinberar forsetayfirreiðir
    með veizlum. Til þessa alls er tíminn beztur vor og haust. Innanhrepps danssamkomur ættu undir
    flestum kringumstæðum ekki að eiga sér stað um sláttinn. Sjálfsagt ætti að vera, að bjarga heyi í þerri
    á sunnudögum, og sóknarprestar ættu að láta messur falla niður þegar svo ber undir. Svo kenndi líka
    Meistarinn með einni af sínum fögru dæmisögum.
    Bændur ættu yfirleitt að haga heimilisstörfum þannig, að slátturinn sitji fyrir öðrum störfum, meðan
    hann stendur yfir, því öll störf önnur, sem þola bið, eiga að sitja á hakanum um heyskapartímann.
    Eins og kunnugt er, getur slátturinn ekki staðið yfir nema tiltölulega stuttan tíma ársins, og eins og
    líka er kunnugt, þá er heyskapurinn undirstaðan að velferð og líðan sveitaheimilanna.
    Sveinn hefir lokið máli sínu og látum við staðar numið að sinni.
    Starkaður
    Morgunblaðið, fimmtudaginn 3. nóvember 1955
    Um uppeldi barna
    Að vera mannvinur: Með lipurð og hjálpsemi – Það er mín trú.
    ÞVÍ LÆRA börnin málið, að það er fyrir þeim haft. – Sannleiksgildi þessara orða, er svo tvímælalaust,
    lærdómsríkt og raunhæft, að enginn maður með fullu viti getur efast um það. Og ekkert sýnir eins
    vel, og þessi málsháttur, hvað barnauppeldið er háð foreldrum og því fólki, sem þau alast upp með.
    Ég hygg að það sé ótrúlega margir – foreldrar og fullorðið fólk yfirleitt, sem ekki athugar þessa hllið
    málsins eins og vera ber. Því ef börnin eru ekki andlega vangefin, þá gildir þessi sannleikur við uppeldi
    barna. Foreldrar og annað fólk, sem elur upp börn, geta því mikið ráðið því, hvaða skaplyndi börnin
    fá, þótt það verði að sjálfsögðu dálítið misjafnt eftir því hvað í barninu býr með gáfur og meðskapað
    eðli þess.
    Ég hef nokkrum sinnum áður skrifað í Tímann um uppeldi barna. En af þeim mörgu lesendum sem
    lesa Morgunblaðið og Ísafold, munu ekki allir þeir lesa Tímann. Og þótt það sé að bera í bakkafullan
    lækinn að skrifa um þessi mál, þar sem svo margir lærðir uppeldisfræðingar hafa um það skrifað og
    talað um þau mál í Ríkisútvarpið. En eins og þar stendur, að sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Og svo
    88
    líka það, að ekki hefur verið beinlínis komið inn á þá hlið málsins, sem ég tala hér um. Í aðalatriðum
    er mín skoðun og reynzla á þessa leið: Foreldrar sem eignast börn eða hafa þau undir hendi, þá er
    það fyrsta skilyrðið og það strax meðan þau eru í vöggu, að sýna þeim hlýtt og glatt viðmót, því með
    því framkallast það góða sem í þeim býr, og það áframhaldandi, því varla eru börnin í eðli sínu svo illa
    skapi farin, að þau venjist ekki á að verða hýr og glöð, ef þeim er einungis sýnt og kennt það viðmót
    frá upphafi, með framkomu foreldranna við þau, og annarra manna sem umgangast þau í
    uppvextinum.
    Bezt er að venja börnin á að hlýða, án þrælsótta. Ef þau hlýða einungis af ótta við foreldra sína, eða
    aðra yfirboðara, þá má búast við því að þau fari á bak við foreldra sína og aðra, sem yfir þeim eiga að
    ráða, ef þeim detur í hug að gera eitthvað, sem þau vita þó að þau mega ekki gera. Þetta er vandi, en
    tekst þó ef sú aðferð er nógu fljótt við höfð, að þau hlýði með góðu og skal nú nánar vikið að því: Í
    fyrsta lagi er að koma þannig fram við börnin að þau elski og virði foreldra sína, eða aðra þá, sem ala
    þau upp. Annað er, að það á ekki að fá börnunum það í hendur, sem fyrir fram er vitað að þau mega
    ekki hafa og rífa það svo strax af þeim aftur, því það kostar org og ergelsi barnsins algerlega að óþörfu
    og venur það á geðvonzku. En það sem barnið biður um, sem það má hafa, á að láta eftir því strax. Og
    yfirleitt er bezt að láta eftir börnunum strax sem þau biðja um, ef þau mega hafa það, því á því læra
    þau bezt að skilja það, að það sem þeim er neitað um í alvöru, að það er nei sem gildir. Og þá venjast
    þau á, að vera ekki með neinn þráa eða að orga af því sem ekki kemur til mála að sé látið eftir þeim.
    Bezt er eftir því sem mögulegt er, að forðast það, að vera sí og æ að ragast í börnunum fyrir hverja
    smá yfirjsón, sem þeim verður á að gera, með því munu þau bezt hlýða því, sem þau mega alls ekki
    gera. Að vera að rífast í og banna börnunum það, sem þeim í sömu andránni er leyft, er mikill
    misskilningur, sem venur þau á óhlýðni. Að venja börnin á barsmíð eða berja þau, er hin mesta
    heimska, sem foreldrar geta gert í uppeldi barna, hvort heldur það eru þeirra eigin börn eða annarra,
    því ekkert getur eins gerspillt kærleika og virðingu barnsins fyrir foreldrum sínum eða
    fósturforeldrum. Og ef börnin eru lítilsigld getur það gert þau að hálfgerðum aumingjum, en séu þau
    geðrík og tápmikil, getur það alið upp í þeim þrjózku og jafnvel hatur og er þá illa komið með
    uppeldið. Líka er það mjög ómannúðlegt fyrir fullorðið fólk að ráðast á börn kannski fyrir litlar sakir
    eða barnabrek og berja þau kannski á hættulega staði, sem þau geta búið að alla sína ævi, svo sem
    höfuðhögg. En sem betur fer mun nú vera orðin mikil breyting á þessu til batnaðar frá því sem áður
    var.
    Þegar börnin eru orðin það uppkomin, að þau eru farin að vinna alla algenga vinnu með foreldum
    sínum eða húsbændum, er það í eðli barnsins, ef það er heilbrigt, andlega og líkamlega, að vilja vera
    með í ráðum við vinnuna og er það einmitt ágætt, því þá vinna þau með meiri vinnugleði og áhuga,
    sem er svo nauðsynlegt og lífsskilyrði við alla vinnu. Enda líka fá þau þá fyrr andlegan þroska og kjark,
    ef þau bera einhverja ábyrgð á vinnunni. Með öðrum orðum: – Það er ekki hyggilegt að ráða að öllu
    leyti of lengi fyrir börnin og reynslan er sú, að einmitt þau börn, sem hafa alizt upp við frjálslyndi og
    gott atlæti, vilja hafa foreldra sína í ráðum með sér, þegar einhvern vanda ber að höndum. Það á
    sannarlega við barnauppeldið hin algildu orð „meistarans“: Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður,
    það skuluð þér og þeim gera. Því ef börnin alast upp við það, að foreldrar þeirra breyti við aðra menn
    sem næst þessari kenningu, þá munu börnin svona ósjálfrátt læra það líka – með því að vera eitt fyrir
    öll og öll fyrir eitt, og þar af leiðandi við aðra menn og þá er að vísu bezt að fjölskyldan sé sem stærst,
    bæði vegna hennar sjálfrar innbyrðis og fyrir þjóðfélagið í heild.
    Þegar börnin eru upp komin og búin að fá sína undirstöðumenntun, þá liggur það í hlutarins eðli að
    foreldrarnir geta ekki verið lengur neinir valdboðarar yfir börnum sínum, heldur sem elskulegir vinir
    þeirra og ráðunautar.
    89
    Þegar barnauppeldið hefir misheppnazt að einhverju leyti, þá mun oftast mega rekja það til
    foreldranna, af misheppnaðri aðferð við uppeldið, sérstaklega ef foreldrum og börnum þeirra kemur
    ekki vel saman, en þó fer það líka mikið eftir því hvernig börnin eru skapi farin, hvert fyrir sig. En þar
    sem barnauppeldið hefir heppnazt vel, þá er það mikil gæfa og lán, fyrir þær fjölskyldur, ef til vill í
    marga liði fram. Og þar sem einn og einn tapast úr góðri fjölskyldu, ungur eða á bezta aldri, þá er það
    eina varanlega huggunin í sorginni, að vita það, að hann eða hún, hafi lifað eftir kenningu
    „meistarans“, gagnvart öðrum mönnum, eftir því sem hægt er að krefjast af breyzkri manneskjunni.
    Að lokum vil ég taka það fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, að ekki meina ég það, að með
    þessari kenningu eða aðferð, skapist heilagt fólk, nei, því miður. Allir geta gert skyssur og orðið fyrir
    óhöppum og aðkasti misindismanna, já, svona er lífið, oftast.
    En ég fullyrði það að þessi aðferð við uppeldið, sem ég hef gert að umtalsefni hér að framan gerir
    fjölskyldulífið betra og skemmtilegra, en of mikil harðstjórn. Það hefur reynslan marg sýnt og sannað.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    90
    1956
    Þetta ár birtust sjö pistlar eftir Svein í Tímanum. Tveir þeirra voru í greinaflokknum
    Baðstofuhjal, en á árinu breyttist heiti greinaflokksins í Baðstofan og birtust þrír pistlar eftir
    Svein í honum, en auk þessa birtust tvær athugasemdir eftir Svein í Tímanum.
    Enn var uppeldi barna ofarlega í huga Sveins, einnig verðhækkun á happdrættismiðum, 50
    ára afmæli Kaupfélags Skaftfellinga, vafasamir messusiðir, myndir af sveitabæum í
    Öræfunum, ullarmat, kvæði kvöldsins í útvarpinu, víndrykkja og eitrun fyrir refi.
    91
    Tíminn, föstudaginn 13. janúar 1956
    Baðstofuspjall
    Sveinn Sveinsson frá Fossi kveður sér hljóðs og ræðir um barnauppeldi.
    „3. nóv. s.l. var grein eftir mig í Morgunblaðinu undir nafninu Um uppeldi barna. Enn mun hún ekki
    hafa komið í Ísafold, og þar sem hún átti ekki síður að komast á sveitaheimili en í Reykjavík, læt ég
    hana líka koma í Tímann um þessi mál, enda er þessi grein ýtarlegri.
    „Því læra börnin málið, að það er fyrir þeim haft“: – Sannleiksgildi þessara orða er svo tvímælalaust,
    lærdómsríkt og raunhæft, að engin maður með fullu viti getur efazt um það. Og ekkert sýnir eins vel
    og þessi málsháttur, hvað barnauppeldði er háð foreldrum og því fólki, sem þau alast upp með. Ég
    hygg að það séu ótrúlega margir foreldrar og fullorðið fólk yfirleitt, sem ekki athugar þessa hlið
    málsins eins og vera ber, því að ef börnin eru ekki andlega vangefin, þá gildir þessi sannleikur við
    uppeldi barna. Foreldrar og annað fólk, sem elur upp börn, geta þvi mikið ráðið því, hvaða skaplyndi
    börnin fá, þótt það verði að sjálfsögu dálítið misjafnt eftir gáfum og meðsköpuðu eðli barnsins.
    Þótt það sé að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um þessi mál, þar sem svo margir lærðir
    uppeldisfræðingar hafa um þau skrifað og talað í ríkisúrvarpinu, er eins og þar stendur, að sjaldan er
    góð vísa of oft kveðin. Svo líka það, að ekki hefir verið beinlínis komið inn á þá hlið málsins, sem ég
    tala hér um. Í aðalatriðum er mín skoðun og reynsla á þessa leið: Fyrir foreldra, sem eignast börn eða
    hafa þau undir hendi, er það fyrsta skilyrðið og það strax meðan börnin eru í vöggu, að sýna þeim
    hlýtt og glatt viðmót. Með því framkallast það góða, sem í barninu býr og það áframhaldandi, því að
    varla eru börnin í eðli sínu svo illa skapi farin, að þau venjist ekki á að verða hýr og glöð, ef þeim er
    einungis sýnt og kennt það viðmót frá upphafi með framkomu foreldranna við þau og annarra
    manna, sem umgangast þau í uppvextinum.
    Bezt er að venja börnin að hlýða án þrælsótta. Ef þau hlýða einungis af ótta við foreldra sína eða aðra
    yfirboðara, má búast við því, að þau fari á bak við foreldra sína og aðra, sem yfir þeim eiga að ráða, ef
    þeim dettur í hug að gera eitthvað, sem þau vita þó að þau mega ekki gera. Þetta er vandi, en tekst
    þó, ef sú aðferð er nógu fljótt viðhöfð, að þau hlýði með góðu, og skal nú nánar vikið að því: Í fyrsta
    lagi er að koma þannig fram við börnin, að þau elski og virði foreldra sína eða aðra þá, sem ala þau
    upp. Annað er, að það á ekki að fá börnunum það í hendur, sem fyrir fram er vitað, að þau mega ekki
    hafa og rífa það svo strax af þeim aftur, því að það kostar org og ergelsi barnsins algerlega að óþörfu
    og venur það á geðvonzku. En það, sem barnið biður um og það má hafa, á að láta eftir því strax. Og
    yfirleitt er bezt að láta eftir börnunum strax það, sem þau biðja um, ef þau mega hafa það, því að á
    því læra þau bezt að vera ekki með neinn þráa eða að orga af því, sem ekki kemur til mála að sé látið
    eftir þeim. Bezt er eftir því sem mögulegt er að forðast að vera sí og æ að ragast í börnunum fyrir
    hverja smáyfirjsón, sem þeim verður á að gera. Með því munu þau bezt hlýða þegar þeim er bannað.
    Að vera að rífast í og banna börnunum það, sem þeim í næstu andránni er leyft, er mikill
    misskilningur, sem venur þau á óhlýðni.
    Að venja börnin á barsmíð eða berja þau er hin mesta heimska, sem foreldrar geta gert í uppeldi
    barna, hvort heldur að eru þeirra eigin börn eða annarra, því að ekkert getur eins gerspillt kærleika
    og virðingu barnsins fyrir foreldrum sínum eða fósturforeldrum. Ef börnin eru lítilsigld, getur það gert
    þau að hálfgerðum aumingjum, en séu þau geðrík og tápmikil, getur það alið upp í þeim þrjósku og
    jafnvel hatur, og er þá illa komið með uppeldið. Líka er það mjög ómannúðlegt fyrir fullorðið fólk að
    ráðast á börn, kannske fyrir litlar sakir eða barnabrek, og berja þau kannske á hættulega staði, sem
    92
    þau geta búið að alla sína ævi, svo sem höfuðhögg. En sem betur fer mun nú vera orðin mikil breyting
    á þessu til batnaðar frá því, sem áður var.
    Þegar börnin eru orðin það uppkomin, að þau eru farin að vinna alla algenga vinnu með foreldrum
    sínum eða húsbændum, er það í eðli barnsins, ef það er heilbrigt andlega og líkamlega, að vilja vera
    með í ráðum við vinnuna og er það einmitt ágætt, því að þá vinna þau með meiri vinnugleði og
    áhuga, sem er svo nauðsynlegt og lífsskilyrði við alla vinnu. Enda fá þau þá fyrr andlegan þroska og
    kjark, ef þau bera einhverja ábyrgð á vinnunni. Með öðrum orðum: – Það er ekki hyggilegt að ráða að
    öllu leyti of lengi fyrir börnin og reynslan er sú, að einmitt þau börn, sem hafa alizt upp við frjálslyndi
    og gott atlæti, vilja hafa foreldra sína í ráðum með sér, þegar einhvern vanda ber að höndum. Það
    eiga sannarlega vel við barnauppeldið hin algildu orð meistarans: „Allt sem þér viljið að aðrir menn
    geri yður, það skuluð þér og þeim gera“. Því að ef börnin alast upp við það, að foreldrar þeirra breyti
    við aðra menn sem næst þessari kenningu, þá munu börnin ósjálfrátt læra það líka. Samheldni þeirra
    og samábyrgð þroskast. Þá er að vísu bezt, að fjölskyldan sé sem stærst, bæði vegna hennar sjálfrar
    innbyrðis og fyrir þjóðfélagið í heild.
    Þegar börnin eru uppkomin og búin að fá sína undirstöðumenntun, þá liggur það í hlutarins eðli, að
    foreldrarnir geta ekki verið lengur neinir valdboðarar yfir börnum sínum, heldur sem elskulegir vinir
    þeirra og ráðunautar. Þegar barnauppeldið hefir misheppnazt að einhverju leyti, þá mun oftast mega
    rekja það til foreldranna. Sérstaklega er þetta svo, ef foreldrum og börnum þeirra kemur ekki vel
    saman, en þó fer það líka mikið eftir því, hvernig börnin eru skapi farin hvert fyrir sig. En þar sem
    barnauppeldið hefir heppnazt vel, er það mikil gæfa og lán fyrir viðkomandi fjölskyldur, ef til vill í
    marga liði fram. Og þar sem einn og einn tapast úr góðri fjölskyldu, ungur eða á bezta aldri, er það
    eina varanlega huggunin í sorginni, að vita það, að hann eða hún hafi lifað eftir kenningu meistarans
    gagnvart öðrum mönnum, eftir því sem hægt er að krefjast af breyskri manneskjunni.
    Að lokum vil ég taka það fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, að ekki á ég við það, að með þessari
    kenningu eða aðferð skapist heilagt fólk, nei, því miður. Allir geta gert skyssur og orðið fyrir óhöppum
    og aðkasti misindismanna, já, þannig er lífið oftast.
    En ég fullyrði, að þessi aðferð við uppeldið, sem ég hefi gert hér að umtalsefni, gerir fjölskyldulífið
    betra og skemmtilegra en of mikil harðstjórn. Það hefir reynslan margsýnt og sannað“.
    Sveinn hefir lokið máli sínu að sinni.
    Starkaður.
    Tíminn, föstudaginn 27. janúar 1956
    Baðstofuhjal
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir sent mér pistil sinn um okur á happdrættismiðum og gefum við
    honum orðið:
    „Á Alþingi og utan þess, hefir verið talað um „okurstarfsemi“, og mun það ekki vera að ástæðulausu,
    enda hefir það víst alltaf verið svo með ýmsa menn og stofnanir. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt,
    því mennirnir eru misjafnir á margan hátt. Sumir menn gera skyssur, án þess að þeir ætli að gera
    öðrum mönnum rangt til, svo sem ef þeir lána mönnum peninga með okurvöxtum og segja, að þeir
    séu sjálfráðir, hvort þeir vilja fá lánið með þeim kjörum, sem um ræðir, eða ekki.
    93
    Menn vilja græða, og er það ekki lastvert, ef það er gert á heiðarlegan hátt. En sumir menn eru of
    ágjarnir, þótt þeir ætli sér ekki að fremja neinn þjófnað með því, en getur þó verið óleyfilegt eftir
    landslögum í það og það skiptið og venju á hverjum tíma. En það er leiðinlegt til þess að vita, að hin
    vinsæla stofnun S.Í.B.S. skuli hafa gerzt okurstofnun, með því að hækka í einu stökki til helminga
    happdrættismiðana. Og þótt stofnunin stórgræði á því, að byrja með, mun það hefna sín þegar fram í
    sækir, með því að allt fátækara fólkið verður að hætta að kaupa þessa happdrættismiða.
    Eg get heldur ekki skilið þá ráðstöfun, að hækka happdrættismiðana um helming, til þess, að mér
    skilst, að hafa hæsta vinninginn hálfa miljón króna, og það númer, sem hlýtur það happ, getur alveg
    eins átt óreiðumaður eins og reglumaður, miljóneri eins og fátæklingur o.s.frv. Mér finnst réttara að
    skipta þessari hálfu miljón í fleiri miða, því þá nytu þess fleiri. Þjóðin hefir virt og styrkt þessa stofnun
    frá upphafi með mikilli ánægju. Þessi nýja breyting er því ósanngjörn gagnvart fólkinu, sem styrkt
    hefir stofnunina. Sumir með stórgjöfum, og aðrir með happdrættismiðakaupum, og fjöldinn af fólkinu
    ekkert happ fengið, eins og gerist og gengur með svona lotterí.
    Þótt ég hafi ekki eins vel vit á þessum málum og þeir menn, sem við þau hafa fengizt, leyfi ég mér
    samt að ráðleggja þeim, sem við þessi mál fást, eða ráða þessum málum, að lækka verð miðanna
    aftur til helminga að minnsta kosti, ekki síðar en um næstu áramót. Þá ættu menn að fylkja sér enn
    almennar um þessa nauðsynlegu stofnun en nokkru sinni fyrr, með gjöfum og kaupum á
    happdrættismiðum.“
    Sveinn hefir lokið máli sínu í dag. Starkaður.
    Tíminn, þriðjudaginn 26. júní 1956
    Athugasemd
    Það má nú muna minna en þá: Lárus Helgason og Helga Jónsson, bónda að Seglbúðum. Kom mér til
    hugar, þegar ég heyrði flutta frásögn í Ríkisútvarpinu hér um daginn, af aðalfundi Kaupfélags
    Skaftfellinga, og 50 ára afmælis þess.
    Þar var réttilega frá sagt, að Guðmundur Þorbjarnarson, þá bóndi á Hvoli í Mýrdal, hefði verið fyrsti
    formaður félgsins, enda átti hann einn hugmyndina að stofnun þess, og þá aðalstofnandinn. Líka var
    það rétt frá skýrt, að Siggeir Lárusson er núverandi formaður félagsins. En láðst hefir að nefna það, að
    Lárus Helgason á Kirkjubæjarklaustri var langlengst formaður félagsins, eða frá því að Guðmundur
    Þorbjarnarson flutti úr Skaftafellssýslu 1910, þar til að hann (Lárus) féll frá. En þá tók við formennsku
    félagsins Helgi Jónsson, Seglbúðum, og þar til að hann féll líka frá, en síðan hefir Siggeir Lárusson
    verið formaður þess, eins og kunnugt er. Eins og sést á þessu framan rituðu, hafa stjórnarformenn
    kaupfélagsins verið fjórir til þessa. Það mátti því sannarlega ekki minna en að nefna þá alla. Og hefði
    verið skrifuð bók um kaupfélagið 50 ára, þá var það beinlínis skylda.
    Ég var sérstaklega samstarfsmaður þeirra Láruar og Helga, alla tíð eftir að verzlunin var flutt austur að
    Skaftárós og svo að Klaustri, út af ullarmati o.fl. Ég þekkti því vel á hug þeirra og dugnað, og vissi
    manna bezt hvað það var ómetanlegt fyrir Lárus að hafa Helga sér við hlið í öllum þeim átökum og
    fórnfýsi sem til þess þurfti fyrir báða. Allir þekktu dugnað Lárusar, en ég þori að fullyrða það, að
    enginn bóndi í Skaftafellssýslu hefir enn sem komið er, verið eins hreinræktaður samvinnumaður og
    Helgi í Seglbúðum.
    94
    Nú, þegar kaupfélagið er 50 ára, er það metnaðarmál sumra félagsmanna að telja sig hafa verið einn
    af stofnendum félagsins, við það er ekkert að athuga. Það sýnir bara að það er metnaðarmál að vera
    félagsmaður, og er því aukaatriði þótt það skakkaði eitthvað með stofnendur þess.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    Tíminn, laugardaginn 11. ágúst 1956
    Baðstofan
    Með guðsorð á vörum. – Sveinn Sveinsson frá Fossi sendir okkur svohljóðandi bréf:
    Í ungdæmi mínu var fátt eins stranglega bannað í uppeldi barna eins og það að leggja guðsnafn við
    hégóma. Þetta hefir líka festst svo í minni mér, að ég get helzt ekki heyrt það af eldra og yngra fólki.
    Enda ekki mikið um það nú á tímum og er það gott. Það verkar líka alltaf öfugt á mig og sjálfsagt fleiri
    menn, þegar pólitískir ævintýramenn eru i ræðum sínum í heyranda hljóði að vitna til guðs o.s.frv. Að
    sjálfsögðu til þess að hafa meir áhrif á fólkið og hrinfningu þess. Eða hvað gerði ekki Hitler í ræðum
    sínum, þegar hann talaði til fólksins með guðsorð á vörum!! Það er víst af vana að maður fellir sig við
    þetta hjá prestunum, enda er það í þeirra verkahring við flest tækifæri að tala opinberlega um guð og
    biðja hann fyrir fólkinu. Þó felli ég mig aldrei við það, þegar prestarnir eru af prédikunarstólnum
    sérstaklega að biðja fyrir forsetanum, ríkisstjórninni, löggjafarþinginu og biskupinum. Allir geta þessir
    menn (í bænum sínum) beðið fyrir sér sjálfir eins og aðrir menn. Ég veit vel, að þetta á að vera af
    viðhöfn við embættin. En það getur líka staðið svo á, að það sé meira móðgun en viðhöfn“.
    Vafasamir messusiðir. – Enn segir Sveinn: „Og fleira mætti niður falla í messusiðum kirkjunnar, án
    þess að það kæmi að sök, nema síður væri, svo sem: Fataskipting fyrir altari, tón, sem margir prestar
    eiga erfitt með, svo til skemmtunar getur verið, sem eðlilegt er, því að það fer eftir meðsköpuðum
    hæfileikum, þótt æfingin geti mikið hjálpað í því sem öðru. Færeyingar eru sagðir trúmenn miklir. Þó
    skilst manni að öllu þessu sé sleppt í þeirra messum“.
    Tíminn, miðvikudaginn 5. september 1956
    Baðstofan
    Frásögn og myndir úr sveit.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi ritar bréf um frásagnir blaðanna úr sveitum, og þykir það gott lesefni, og
    svo rifjar hann upp gömul og góð kynni sín og Örfæfinga. Sveinn segir: – „Það er enginn vafi á þvi að
    mörgum lesendum blaðanna þykir mikið með að sjá myndir af helztu sveitabýlum og búendum
    þeirra, og greinilegar frásagnir af því helzta, sem þar er að gerast. Hvort sem einn hreppur eða ein
    sýsla er tekið í einu. Þann 10. maí s.l. kom grein með myndum í Tímanum eftir Sv. S. blaðam. úr
    Öræfum, sem mér þótti reglulega gaman að. En tvennt var þó sem ég saknaði þar: Mynd af
    bæjarhúsunum í Sandfelli, þar ólst ég upp frá – 13 ára. Nú er það lengi búið að vera meira og minna í
    eyði, svo sem fleiri prestsetrum hefir þótt hæfa nú í seinni tíð á landi hér. Og mynd af Sigurði Arasyni
    á Fagurhólsmýri, því það hefði sómt sér vel að þeir hefðu báðir verið þar saman bræðurnir Helgi og
    Sigurður“.
    Gott að vinna mð Öræfingum.
    „ÞEGAR ULLARMAT byrjaði í Öræfum kom upp misklíð ullareigenda út af matinu. Voru þeir
    ullarmatsmenn Jón Pálsson, Svínafelli og Sigurður Arason, Fagurhólsmýri, báðir mætir menn. Næsta
    95
    vor þar á eftir fórst Jón Pálsson í Breiðamerkurjökli, svo sem kunnugt var. Þá um sumarið kvaddi Jón
    Þorbergsson, þáverandi yfirullarmatsmaður, mig til að fara í Öræfin og koma ullarmatinu þar í lag.
    Hann var þá að flytja búferlum norður í land og hafði því ekki tíma til þess sjálfur. En ég var þá
    ullarmatsmaður við Skaftárós. Mér var ljúft að fara þessa ferð, því bæði var það að ég var kunnugur
    Öræfingum að öllu góðu, og líka þótti mér þetta metnaðarmál og meðmæli við starfið. Ég varð heldur
    ekki fyrir vonbrigðum, því það var gaman að vinna með Öræfingum og mjög ánægjulegt að vinna að
    ullarmatinu með Sigurði Arasyni, svo trúverðugum manni. Enda síðan hefir yfirullarmatsmaður ekki
    þurft þar að vera vegna ullarmats. Yfirullarmatsmaður, sem hefir víðlent umdæmi, getur ekki komið á
    alla ullartökustaðina á sama tíma og ullin er tekin. Var því sums staðar sama og búið að meta ullina,
    þegar hann gat komið, eða svo var það við Skaftárós. En eftir að verzlunin var flutt frá Skaftárósi að
    Kirkjubæjarklaustri, fluttist ullartakan að sjálfsögðu þangað líka, og eftir það var ullartakan að
    haustinu bændum til þæginda og eftir það var yfirullarmatsmaðurinn á Klaustri yfir allan
    ullartökutímann. Að sjálfsögðu gerði það engan mun á ullarmatinu. En það var ekki nema gaman að
    hafa svo skemmtilegan dvalargest yfir þann tíma. Öllum þykir gott og skemmtilegt að sitja í yfirlæti á
    Kirkjubæjarklaustri og eyða þar sínum frídögum. – Þessi framanritaða ferð mín í Öræfin er mér á
    jákvæðan hátt ógleymanleg, og önnur ferð þangað á neikvæðan hátt. Fleiri ferðir hefi ég farið yfir
    Öræfin án þess að nokkuð gerðist sögulegt.“
    „Kvæði kvöldins“ er svo sem ekki neitt.
    LOKS VENDIR Sveinn sínu kvæði í kross og kemur að útvarpinu: „Það er alltaf hressandi og
    skemmtilegt þaegar Helgi Hjörvar les útvarpssöguna. Svo var líka með séra Svein Víking. Þeir ættu
    sem oftast að koma í útvarpið með spennandi ástarsögur og sinn glæsilega sögulestur. Kvæði
    kvöldsins er svo sem eins og ekki neitt, en hlýtur þó eitthvað að kosta, og er það sóun á peningum,
    sem útvarpið gæti eitthvað þarfara gert við, enda flutningurinn vægast sagt misjafn“.
    Tíminn, föstudaginn 28. september 1956
    Baðstofan
    Áhrifin innan frá.
    SVEINN SVEINSSON frá Fossi skrifar á þessa leið: „Í mínu ungdæmi og mikið lengur, var það venjan að
    flestir ungir menn drukku ekki vín, og í þeim sveitum, sem ég þekkti til sást ekki kvenfólk drekka vín,
    þó var til ein og ein fullorðin kona í einum og einum hreppi, sem drakk vín, og þá kannske helzt til
    mikið. – Ég man það að næstu árin áður en vínbannið kom til sögunnar, að vínið hækkaði í verði, og
    varð það til þess að menn keyptu það áberandi minna en áður. Það stefndi því í rétta átt, áður en
    vínbannið skall yfir.
    Það má segja, að mennirnir séu þráir eins og sauðkindin, vilja vera frjásir og í engri girðingu. Því að
    þegar vínbannið varð að lögum, fóru menn að sjóða, eins og þar stendur, með ýmsu móti, ótrúlega
    almennt eins og kunnugt var. Svo var líka hið svokallaða læknavín, og þegar Spánarvínið kom til
    sögunnar, þá enn frekar í skjóli þess. Allt varð þetta til þess, með fleiru, að unga fólkið, jafnt kvenfólk
    sem karlmenn, með undantekningum, lærðu að drekka. Svo þegar vínið var gefið aftur frjálst komst
    allt í algleyming, eins og kunnugt er, og kemur það líka til, að fólkið hefir nú á tímum mikil
    peningaráð, og sýnir það sig á mörgum sviðum, svo sem með skemmtanalífi o.fl. – En hvað er þá helzt
    til ráða, munu sumir spyrja sjálfa sig? Mín skoðun er sú, að herða beri áróðurinn innanfrá, þannig að
    unga fólkið sjálft, sem neytir of mikils víns, sjái að sér svona í kyrrþey og minnki það sem mest það
    96
    getur, bæði vegna heilsunnar og sómatilfinningar. – Reynsla er búin að sýna að að ekki dugar
    vínbannið, því að menn fara allavega í kringum það.“
    Mikið má gera.
    EN LEIÐANDI menn geta líka mikið gert fyrir ungdóminn með góðum eftirdæmum. Fyrst og fremst
    foreldrar, í hvaða stétt og stöðu, sem þau eru, með því að hafa sem minnst vín um hönd og aldrei
    nema í hófi. Banna ölvuðu fólki aðgang að skemmtunum, eða að hafa vín um hönd á þeim stöðum.
    Hætt að hafa vín í veizlum, og ef það væri almennt gert, þá kæmist það fljótt í vana, og mundi þykja
    ágætt. Svo er það nú orðið með fermingarveizlur, og því þá ekki með allar veizlur? Enda verða þá
    skemmtanirnar úthaldsbetri og eftirköstin heilbrigðari. Skólastjórar og kennarar hafa manna bezta
    aðstöðu til þess að hafa góð áhrif á ungdóminn. Með lagi og lipurð að brýna það fyrir nemendum
    sínum, og þá sérstaklega stúlkunum, að þær geti ekki haldið fríðleik sínum þegar þær eru orðnar
    ungar konur, ef þær venji sig á að vaka um nætur yfir víndrykkju og tóbaksreykingum, því þá verða
    þær áður en þær vita af tíu árum eldri að útliti en þær annars væru, ef þær lifðu reglusömu lífi.“
    Lipurð og gætni.
    „ÞÓTT ÉG NEFNI hér frekar stúlkur en pilta, þá er það líka hörmung ef ungir menn venja sig á að
    drekka of mikið vín. En það tekur þó út yfir, ef stúlkur gera það. Eins og menn vita þá er þetta mikið
    vandamál sem þarf að taka föstum tökum. En þó með lipurð og gætni, því að æskan er viðkvæm. Það
    verður að tala jafnt við þá sem drekka vín og þá sem ekki drekka vín, því að ef öllum nemendum er
    gert jafnt undir höfði þá þarf enginn að móðgast. Og með því er hægast að framkalla það góða, sem í
    hverri persónu býr, og þá er ekki vonlaust að áhrifin komi fram innan frá. Eins og bent er á með
    þessum línum.“
    Tíminn, miðvikudaginn 14. nóvember 1956
    Athugasemd
    Föstudaginn 9. nóvember síðastl. gerir stjórn Dýraverndunarfélags Íslands kröfu til þess, að ekki verði
    eitrað fyrir refi o.s.frv.
    Þessi krafa hlýtur að vera sett fram af vanþekkingu á þessu vandamáli. Sé það í mannúðarskyni, þá
    verkar það öfugt vegna þess, að þótt það sé leiðinlegt að þurfa að eitra fyrir refi, þá er það þó ekki
    samanberandi á móti því, sem sauðkindin er útleikin eftir dýrbít, hvort sem hún finnst dauð, eða
    hjarandi.
    Reynslan hefur sýnt, að refum verður aldrei að öllu leyti útrýmt úr landinu nema með eitrun, eða svo
    var það fyrir síðustu aldamót, og áður, þegar bitvargurinn var sem mestur og olli sem mestu tjóni, en
    um aldamótin eða upp úr þeim, var almennt gengið að því mjög rækilega, að eitra kjöt og rjúpur í
    afréttum, heiðum og hraunum, sem lánaðist svo vel, að ekki varð vart við refi í mörg ár, eða ekki fyrr
    en þeir fóru að sleppa úr refabúum. Enda hittist á nokkuð harða vetur og hlýtur það að vera betra til
    árangurs, en alltaf hlýtur það að taka nokkur ár, þótt eitrað sé. En með því mun það samt vinnast ef
    trúverðugir menn vinna að því í hverri sýslu eða hreppi, sem dýrs hefir orðið vart, hvar sem er á
    landinu.
    Þetta ættu ráðamenn þjóðarinnar, svo sem Alþingi og stjórnarráð, að athuga rækilega.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    97
    1957
    Nú brá svo við að einungis birtust tveir pistlar í Tímanum eftir Svein, í janúar, en fjórir síðar á
    árinu í Alþýðublaðinu. Pistlarnir í Tímanum birtust í greinaflokknum Baðstofan en í
    Alþýðublaðinu voru þrír pistlar í greinaflokknum Bréfakasssinn auk greinar um þjóðhátíðina.
    Að þessu sinni ritaði Sveinn m.a. um forsetaembættið, synjun á beiðni Hitlers um flugvöll á
    Íslandi, blótsyrði í útvarpinu, hreindýrin á Austurlandi, útigang holdanauta í Gunnarsholti,
    þjóðhátíðardaginn í Reykjavík, vínveitingar, og þurrkun og hirðingu.
    98
    Tíminn, 11. janúar 1957
    Baðstofan
    Æðstu trúnaðarstörf.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar baðstofunni:
    Að venju, síðastl. áramót, héldu þeir sínar áramótaræður, forseti Íslands, herra Ásgeir Ásgeirsson, og
    forsætisráðherra, Hermann Jónasson. Bæði munu þessi embætti vera talin virðingarmestu embætti
    þjóðarinnar. En eftir því skipulagi, sem hér á landi ríkir, og víðar í Evrópu, þá virðist
    forsætisráðherraembættið vera ábyrgðarmesta stjórnmálaembætti þjóðarinnar. Það þurfa því að
    vera mætir menn og duglegir, sem það sæti skipa. Nú á síðari árum hafa stjórnmálaflokkar okkar
    lands verið þannig skipaðir, að sjálfsagt hefir þótt að annar hvor þeirra Ólafur Thors eða Hermann
    Jónasson væru forsætisráðherra. Enda hafa báðir þá kosti, sem að framan getur.
    Sumir líta svo á, að forsætirsráðherra, ásamt ráðuneyti sínu, geti líka þjónað forsetaembættinu, og
    hafa þeir menn það aðallega til síns máls, að það sæmdi betur fátækri og fámennri þjóð, því
    forsetaembættið, með öllu sem því fylgir, sé of dýrt fyrir þjóðina. En svo eru aðrir, sem vilja hafa
    „forseta“ og þykir það sæma sjálfstæðri þjóð. Og hvorirtveggja hafa nokkuð til síns máls. Læt ég svo
    útrætt um það mál.“
    Það tilheyrir sögunni.
    ENN SEGIR Sveinn: „Þegar núverandi forsætisráðherra Hermann Jónasson var forsætisráðherra næstu
    árin fyrir síðari heimsstyrjöldina, þá framkvæmdi hann sem forsætisráðherra, ásamt ráðuneyti sínu,
    mikla gæfu fyrir íslenzku þjóðina þegar hann ásamt ráðuneyti sínu ákvað að neita Hitler að byggja hér
    flugvelli, því í þá tíð voru flestar þjóðir heims hræddar við herveldi Þjóðverja, og sumar þeirra vildu
    gjarnan semja við þá. Enda var þá „nazisminn“ ekki farinn að sýna sitt rétta innræti, eins og síðar
    varð, sem allir nú vita. Ef þáverandi ríkisstjórn Hermanns Jónassonar hefði ekki verið svo hyggin og
    heppin að svara þessu boði, eða ósk Hitlers neitandi, þá hefði Reykjavík og Ísland allt, litið öðru vísi út
    í dag en raun ber vitni. Samanber allar þær framfarir, sem orðnar eru á landi hér síðan um stríðslok.
    Eða alla þá eyðileggingu, manntjón og hörmungar, sem hér hefðu orðið ef Þjoðverjar hefðu fengið að
    búa um sig hér á landi fyrir styrjöldina. En nú hafa ráðamenn þjóðanna meiri reynslu að átta sig á en
    þá, þar sem verkin hafa nú talað frá austri og vestri – ekki leynt heldur ljóst, og það svo, að ekki
    verður um villst. Maður hefir því fulla ástæðu til þess að treysta því, að forráðamenn okkar hagi
    ráðum sínum með forsjá og skynsemi fyrir okkar þjóðfélag gagnvart öðrum þjóðum. Og þá mun þjóð
    vor blessun hljóta nú sem fyrr og velsæld ríkja hjá fólkinu til lands og sjós, ef það kann með að fara“,
    segir Sveinn að lokum.
    Tíminn, laugardaginn 26. janúar 1957
    Baðstofan
    Orð, sem hljóma illa í útvarpi.
    Sveinn Seinsson frá Fossi skrifar: „Laugardagskvöldið 12. þ.m. var flutt leikrit að venju í
    Ríkisútvarpinu, sem einkenndist mest fyrir sérstaklega ljótt orðbragð. Að vísu hefir stundum brugðið
    til þess fyrr, en þetta mest. Blótsyrði hljóma sérstaklega illa í útvarpi, þótt þau séu hvergi skemmtileg.
    Það á sér líka stað með sumar útvarpssögur, að þar koma fyirr of oft ljót orð, þótt það verði ekki hjá
    því komist við sum söguatriði. Um þetta tala ég sérstaklega út af því, að börn, sem hlusta eitthvað á
    99
    útvarp og þá helzt á kvöldin, eru ótrúlega næm á þessi ljótu orð, þótt ung séu. Því þegar maður
    bannar þeim að segja ljótt, kemur það hjá þeim sumum „að þetta segi maðurinn í útvarpinu“.
    Boð og bönn.
    ENN SEGIR Sveinn: „Það hefir verið rætt og ritað um glæparit eða sögur, sem gefin hafa verið út, og
    sumir lagt til að banna þau með öllu, en aðrir talið það skerðing á ritfrelsi þjóðarinnar, en hvað sem
    því líður, þá finnst manni að það þýði ekki mikið að banna þau rit, þótt ljót séu, eða að banna börnum
    aðgang að sumum leikritum og sumum kvikmyndum, þótt það væri nauðsynlegt, nema að banna allt
    slíkt, líka í útvarpi. Og það er nauðsynlegast af þessu öllu, því ekki er hægt að banna börnum að
    hlusta á útvarpið, það væri auma uppeldið, að fæla börn frá útvarpinu. Enda undir flestum
    kringumstæðum ekki hægt nema að loka þá fyrir tækið. En það er skylt og mjög ánægjulegt að geta
    sagt að síðan Ríkisútvarpið tók til starfa hefir það komið mikið við sögu um uppeldismálin, með
    barnatímunum, sem hafa flutt svo margar fallegar ævintýrasögur, barnasöng o.fl., sem allt miðar að
    því að framkalla það góða, sem í börnum býr, og þroska þau til manndóms og kærleika í breytni sinni
    við aðra menn, og allt sem lifandi er.“
    Hljómurinn með kvæði kvöldsins.
    AÐ LOKUM segir svo í bréfi Sveins: „Í þessu sambandi vil ég segja þetta: Sum útlend leikrit eru nokkuð
    torskilin og of mannmörg í útvarp, þótt þau séu auðskilin og skemmtileg á sjónarsviði. Það ætti ekki
    að leika þau leikrit í útvarpi, sem eru mjög orðljót, út af áðurgreindum ástæðum. Flest íslenzk leikrit
    eru betri til flutnings í útvarp en útlend, sum þeirra eru líka dásamlega leikin, svo sem Anna í Stóru-
    Borg o.fl. o.fl. svo unun var á að hlusta. – Svo er það eitt enn: Ég er einn af fleiri hlustendum, sem
    óska eftir að vera laus við hljóminn á undan og eftir kvæði kvöldsins. Og að síðustu: Ég þakka góða og
    skemmtilega þjónustu starfsfólki Ríkisútvarpsins við okkur hlustendur fyrr og síðar“.
    Alþýðublaðið, 3. apríl 1957
    Bréfakassinn: Hvað segja ritstjórarnir nú?
    HVAÐ segja þeir nú Dýraverndarinn og ritstjóri Árbókar landbúnaðarins, um hreindýrin á Austurlandi?
    Hér um árið gerðu þeir það að blaðamáli með miklum fyrirsögnum o.fl. svörtu, með nautgripina í
    Gunnarshoti, sem líka var að nokkru leyti tilraun með útigang, og átti að sýna misjafnt þol gripanna,
    sem það og gerði. Fulltrúar Búnaðarþings, sem þá sátu þingið, litu misjöfnum augum á þetta mál.
    Sumir með skilningi og velvild. En aðrir töldu það of langt gengið og lögðu það svo út á versta veg.
    Enda er það venjan, að mennirnir séu misjafnir að viti og gæðum. En mín skoðun er sú, að það sé
    mjög áríðandi að ritstjórar Dýraverndarans og Árbókar landbúnaðarins séu vandaðir menn. En nú vita
    menn það tvennt: Að íslenzkir nautgripir þola ekki að ganga úti og inni, á móti holda kyninu, þótt því
    sé gefið hey. Og líka það að hreindýr lifa ekki bjargarlaust í harðindum.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    100
    Alþýðublaðið, þriðjudaginn 25. júní 1957
    Rabb um þjóðhátíð
    ÞJÓÐHÁTÍÐARDAGURINN 17. júní var ekki settur hjá, með það góða veður, sem nú er á hverjum degi.
    Og var það auðvitað aðal undirstaðan fyrir hátíðahöldunum, sem fram fóru þennan dag í Reykjavík,
    og sjálfsagt víða um land.
    Það er mikil viðhöfn og virðing við þann prest, sem látinn er halda guðsþjónustuna í dómkirkjunni í
    gegnum ríkisútvarpið þann dag, enda mikið í það varið, að vel takist við svona tækifæri. Ég sat við
    útvarpið, og þótti mér guðsþjónustan takast prýðisvel af prestsins hendi, og sönginn þarf ekki að efa í
    kirkjum Reykjavíkur. En svo strax þegar kemur að næsta atriði, dofnar yfir hátíðarblænum, fyrir
    hlustendur, þar sem forseti Íslands er látinn leggja blómsveig að minnisvarða Jóns Sigurðssonar, án
    þess að segja eitt einasta orð við það tækifæri. Fyrir hlustendur er þessi athöfn dauf, hvað sem hún er
    fyrir áhorfendur. Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessi athöfn sé framkvæmd þannig: Að einn eða
    tveir – segjum stúdentar – leggi blómsveiginn eins og hann á að vera, og að forsetinn sé þar
    viðstaddur með stutt ávarp, sem hann sjálfur les upp í heyranda hljóði í tilefni dagsins.
    Svo hressist þetta aftur við strax þegar þriðja atriðið kemur: Að forsætisráðherrann, – hvort sem hann
    heitir Hermann eða Ólafur – Pétur eða Páll –, kemur út á svalir alþingishússins og heldur þar sína
    ræðu. Og að lokum á þessum stað, flytur Fjallkonan sitt ávarp, sem að þessu sinni var Helga
    Valtýsdóttir leikkona. Gerði hún það með prýði og uppgerðarlausum myndugleik, svo unun var á að
    hlusta.
    Að venju, í tilefni dagsins, hafði ríkisstjórnin tekið á móti gestum sínum (án þess að hafa þar
    vínveitingar, heldur aðeins veitt kaffi og með því). Þetta eru góð tíðindi og veit á betri tíma í þessu
    efni, því að þetta er einmitt sem koma þarf: Að opinberar veizlur séu vínlausar. Í þessu efni er bezt að
    byrja á toppnum, eins og nú hefur verið gert, því svo munu aðrir á eftir koma. Því þótt sumum kunni
    að þykja það óþægilegt að byrja með, þá mun það fljótt komast í vana – og það góðan vana – um að
    gera að halda nú áfram á þesari braut. – Skírnar- og fermingarveizlur eru nú haldnar vínlausar, og
    þykir það mikill munur: Með siðferði, kostnað og eftirköst. Allar samkomur og skemmtanir ættu að
    haldast vínlausar. Þá mun ungdómurinn í landinu alast upp við betra loftslag og í framtíðinni mun
    vínið þá þykja jafnfráleitt til notkunar og eitur væri. Eins og með hver önnur meðul, sem þó eru notuð
    til lækninga.
    Nú er nokkuð talað um ungdóminn, að hann, stúlkur jafnt sem piltar, neyti of mikils víns, og mun það
    satt vera að vissu leyti. Líka er mikið talað um að reisa þurfi sjúkraskýli fyrir drykkjusjúklinga. En þetta
    er engin lækning á sjálfum sjúkdóminum – heldur viðhald heilsunnar, og það er kannski betra en
    ekkert? Svo er líka með vínbann – það hefur reynslan sýnt. Að mínu viti er eina ráðið að byrja að ofan
    eins og vikið hefur verið að hér að framan. Og hafi ríkisstjórnin þökk og heiður fyrir sitt stóra
    byrjunarspor í þessu máli.
    Sveinn Sveinsson (frá Fossi).
    101
    Alþýðublaðið, fimmtudaginn 18. júlí 1957
    Bréfakassinn
    Áfengi í opinberum veizlum
    Það hafa víst margir fagnað því þegar ríkisstjórn Íslands hafði ekki vínveitingar við móttöku gesta
    sinna á þjóðhátíðardaginn 17. júní sl. Og maður taldi, að þetta væri fyrirboði ríkisstjórnarinnar með
    að veita ekki vín í opinberum veizlum sínum. En viti menn! Þegar þetta allt er kunnugt, þá kemur
    áskorun í blöðunum frá Stórstúkuþingi, sem hljóðar svo: Stórstúkuþingið telur sérstaka ástæðu til að
    skora á ríkisstjórn Íslands að hafa ekki áfengi um hönd í veizlum þeim, er hún mun halda til heiðurs
    hinum tigna Svíakonungi, er hann heimsækir Ísland nú næstu daga. Og enn segir: Stórstúkuþingið
    væntir þess og, að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að forseti Íslands hafi heldur ekki áfengisveitingar í
    veizlum þeim, sem hann heldur í þessu tilefni.
    Þegar ég las þessa áskorun í blöðunum, skildi ég ekki hvernig á þessu stæði, þar sem ríkisstjórnin var
    búin að taka forustu í þessu máli. Annaðhvort hlyti að vera: að það hefði farið framhjá Stórstúkunni,
    þó það væri ótrúlegt, eða að það hefði verið metnaðarmál.
    En hvernig sem þessu hefur verið varið, þá endaði þetta mál með því, að ríkisstjórnin veitti vín, bæði
    létt og sterk, alveg að þarflausu, þar sem heiðursgesturinn – konungurinn – er bindindismaður og
    neytir ekki áfengis, honum hefði því verið sýndur mikill heiður og virðing með því að hafa ekki áfengi
    um hönd í þeim veizlum, sem honum og hans föruneyti voru haldnar. Og með þessu var eins og haft
    meira við veizlugesti en sjálfan heiðursgestinn, konunginn, þótt ég viti vel, að konungurinn hafi ekki
    móðgazt við þetta, því hann er sjálfsagt slíku vanur í veizlum, jafnvel sem honum eru haldnar. En
    hvað um það, því meira metnaðarmál hefði það verið fyrir okkur Íslendinga að meta hans fyrirmynd í
    þessu efni það mikils, að hafa ekki áfengi um hönd, meðan hann var hér heiðursgestur okkar. Líka
    hefði maður nú einhvern tíma haldið að t.d. koníak ætti nú betur heima öðruvísi en ofan í lax og skyr!
    – En hvernig sem á þessu hefur staðið að svona fór, þá hefur þetta orðið vonbrigði hjá mörgum, sem
    styðja ríkisstjórnina, og hjá okkur öllum, sem styðjum málefnið.
    Sveinn Sveinsson (frá Fossi).
    Alþýðublaðið, föstudaginn 9. ágúst 1957
    Bréfakassinn:
    Þurrkun og hirðing
    Tvennt er það, sem maður hefur heyrt, og ekki ber saman. Í blöðum og útvarpi hafa komið smá
    fréttapistlar frá bændum eða fréttariturum, að búin væri hirðing á fyrra slætti á túnum víðast hvar í
    sveitum landsins, og er það ekki ótrúlegt, eins og tíðin hefur verið góð og þerririnn ágætur það, sem
    af er þessum slætti. En svo koma ferðalangar sem hafa ferðast víða um sveitir og sýslur landsins er
    hafa aðra sögu að segja. Því þá ber fyrir augu þeirra sú sýn að líkast er því að rosi og rigning hafi
    gengið yfir þessar sveitir með einn og einn þerridag, sem bændur hafi aðeins getað bjargað töðunni í
    sæti, og við það hefur setið, að örfáum heimilum undanskildum, sem hafa alhirt töðu sína í hlöður,
    eins og vera ber í góðri þerritíð. Ef að þessum fréttum væri snúið við þannig: Að taða af fyrri slætti
    túna væri almennt komin í hlöður inn, utan hjá einum og einum bónda, sem ætti töðuna enn á túnum
    úti í sátuklúkum, því gæti maður trúað, því alltaf hefur víst verið, og svo er enn, í öllum stéttum
    þjóðfélagsins, til einn og einn rólegir „silar“ sem máttarvöldin geta ekki hjálpað, hvað þá mennirnir!
    En að bændastéttin sé almennt svo illa komin að ráði sínu, því er bágt að trúa. Að telja heyið allt hirt
    102
    ef það kemst í sæti, það er fjarstæða, þótt það geti verið gott að grípa til þess í viðlögum svo sem í
    stuttum þurrkum. En að láta sætið standa úti, von úr viti, í þerritíð, það er beinn skaði á heyi og há,
    því taðan bliknar að utan og blotnar að neðan, og háin brennur í flag undan sátunum, svo að það
    verður hvorki slegið né hagi handa kúm það sumarið.
    V.V. á Kirkjubæjarklaustri segir miklar þurrkaleysur á Síðu í sumar, og mun því mest valda fjallaskúrir,
    eins og oft vill verða þar eystra í norðanþerrir. En í þessari átt sem nú er, þá er það vanalegt að
    úrkoman nær ekki austar, en yfir Mýrdalsfjöllin, þar fyrir austan dregur ekki fyrir sól, og í svona
    vestanátt og sudda rigningu er engin hætta á fjallaskúrum þar eystra. Það er því vonandi að úr þessu
    rakni þar eystra, ef vestanáttin héldist eitthvað áfram.
    Sveinn Sveinsson, frá Fossi
    103
    1958
    Þetta árið birtust fimm pistlar í Tímanum en tveir í Morgunblaðinu. Þrír voru í
    greinaflokknum Baðstofan, en auk þess athugasemd og Hugleiðingar um spönsku veikina.
    Greinarnar í Morgunblaðinu voru annars vegar Hugleiðingar og hins vegar athugasemd.
    En fleira ritaði Sveinn um þetta árið, t.d. um norðurljós, ríkisstyrki til bænda, skemmtanahald
    um hásláttinn, ásetningu, skiptingu Ásajarðarinnar, Sandgræðsluna, Kötlugosið 1918 og
    menn sem voru hætt komnir á Mýrdalssandi.
    104
    Tíminn, laugardaginn 15. febrúar 1958
    Gömul saga um björt norðurljós
    Aldraður maður, glöggur og minnugur, Sveinn Sveinsson frá Fossi, skrifar blaðinu eftirfarandi í tilefni
    af fregnum hér á dögunum um björt og óvenjuleg norðurljós:
    „Veturinn 1923-24 bar mikið á norðurljósum, enda var þá oft staðviðri og heiðríkja sunnanlands. Eitt
    sinn, sem oftar var ég á ferð um nótt yfir Mýrdalssand. Snjólaust var, frost og logn. Var þá óvenjulega
    mikið um norðurljós og svo mikið far á þeim, að undrum sætti. Þegar ég var kominn yfir miðjan sand,
    sló yfir mikilli birtu nokkrum sinnum sem um hádag væri, og sást allt smátt sem stórt umhverfis mann
    og langar leiðir frá. Ég leit ósjálfrátt til jökulsins, því að ég var á móts við Kötlu, en þar sást enginn
    eldur, sem betur fór. Ég minnist á þetta nú, af því rætt er um mikla norðurljósabirtu og óvenjuleg
    ljósfyrirbæri“.
    Morgunblaðið, laugardaginn 15. febrúar 1958
    Hugleiðingar
    Nú á tímum finnst okkur þessum gömlu, að gott muni vera að búa í sveitum landsins með allri tækni
    nútímans, vélum, áburðarskilyrðum og ríkisstyrkjum á hvaðeina, sem gert er fyrir sjálfan sig og
    framtíðina. Og þó tollir fólk ekki við þessi góðu kjör, sem því eru búin. Enda er líka mikið talað um
    jafnvægi milli sveita og bæja, með ýmsu móti, svo sem með skemmtanalífi, o.fl. Jafnvel er stungið
    upp á því að gera alla bændur jafna að eignum og atorku, með því að draga ríkisstyrkinn af
    atorkumönnum, sem mest eru búnir að gera bæði að jarðarbótum og byggingum yfir hey og skepnur,
    votheysgryfjum, turnum, súgþukrrkun, o..s.frv. og bæta honum við þá bændur, sem lítið eða ekkert
    hafa gert að þessu öllu saman enn í dag, þótt þeir hafi haft sömu aðstöðu og hinir, sem mikið eru
    búnir að gera fyrir sig og sína. En allt svona lagað er mjög hættuleg stefna fyrir landbúnaðinn, og enda
    hvaða stétt eða stöðu sem menn hafa fyrir lífsstarf, þá er svo fráleitt að ætla sér að gera alla jafna, og
    ég tala nú ekki um á kostnað þeirra betri. Menn eru fæddir með misjafna eiginleika. Og uppaldir við
    misjafna aðstöðu. Sumir við dugnað, atorku og ráðdeild, aðrir við gerðaleysi á þeim sviðum. Allt vill
    þetta koma fram að meira eða minna leyti á einstaklingunum, og að einhverju leyti getur það líka
    verið ættgengt.
    Fyrst þegar ríkið fór að styrkja bændur til jarðræktar og garðræktar, var allt erfiðara við að fást, vegna
    lélegra verkfæra og áburðarskorts, á mói því sem nú er orðið, eins og kunnugt er. Það var því
    eðlilegra þá en nú, þótt vinnubrögðin væru misjöfn. Enda þarf líka langan tíma til þess að sumir menn
    átti sig á því, sem er að gerast í kringum þá. Líka er þetta mjög misjafnt í stærri stíl, svo sem milli
    landsfjórðunga, og sveita. Til dæmis hefur það verið sagt bæði í blöðum og útvarpi að á síðastliðnu
    sumri hafi víða verið dag eftir dag skólskin og þerrir um sláttinn allt fram í miðjan ágúst. En þá fór að
    deyfa og rigna svo ekki náðist baggi inn í hlöður fyrr en undir haust eða um réttir. En á þeim stöðum
    þar sem bændur hafa orðið tök á að láta að minnsta kosti hálfan heyskapinn í vothey, hafa þeir ekki
    þurft að basla við þessa aðstöðu. Sem sagt: Að þeir bændur, sem hafa votheysgreyfjur, eða turna,
    fyrir hálfan heyskapinn eða allan seinni sláttinn, eins og var á síðastliðnu sumri. Svo talar maður nú
    ekki um þá bændur, sem hafa líka súgþurrkun, en það mun undir flestum kringumstæðum vera
    nokkuð dýrt, en dýrmætt. Líka var talað um það á síðastliðnu sumri, að víða á landinu hafa bændur
    látið skraufþurr sæti standa of lengi á túnum úti. En það er skaði mikill, bæði á há og töðu og var
    óþarft í svo góðri þerritíð eins og þá var. Það er allt annað hvað menn verða kannski að neyðast til í
    105
    rosatíð. Það sem sagt er hér að framan, ættu þeir bændur vel að athuga, sem enn hafa ekki notfært
    sér sem skyldi hina nýju tækni nútímans, og alla þá styrki, sem ríkið leggur til framkvæmdanna.
    Í útvarpserindinu um daginn og veginn, sem Guðmundur Jónsson, söngvari, flutti og var bæði
    skemmtilegt og vel flutt, kom hann víða við eins og vera ber í þeim erindaflokki. En aðaluppistaðan í
    því erindi var svokallað jafnvægi milli sveita og bæja. Taldi söngvarinn að einn aðalliðurinn í því máli
    væri sá, að æfðir söngflokkar úr Reykjavík færu í sveitirnar til að halda þar söngskemmtanir, og taldi
    hann að reynslan hefði sýnt, að þær samkomur væru sérstaklega vel sóttar. Sýndi það að fólkið hefði
    af því mikið yndi – og er það vel. Ég er á vissan hátt með þessu máli. Þannig: Að þessar samkomur séu
    haldnar að vorlagi fyrir sláttinn, og undir vissum kringumstæðum að haustinu eftir aðalréttir, og svo
    ætti að vera með allar meiri háttar samkomur í sveitum landsins að sumri til.
    Eins og menn vita getur slátturinn ekki staðið yfir nema vissan tíma ársins og allt sem tefur
    heyskapinn beint eða óbeint, verður ekki aftur tekið á öðrum tíma árs. Það er því óbætanlegt tjón
    fyrir bændur að tefja heyskapinn með skemmtisamkomum, sem vel geta gengið á öðrum tíma árs.
    Sama er að segja með allar opinberar yfirreiðir, þar sem fólkinu er safnað saman til fundar og
    skemmtunar. Það þarf líka að vera á öðrum tíma árs. En það er allt annað þótt fólk ferðist um sláttinn
    upp á sínar eigin spýtur sér til skemmtunar og heilsubótar. En því er ekki að neita að fólkið sjálft í
    sveitunum heldur dansskemmtanir um helgar þótt sláttur sé og í sumum sveitum allt of oft. Það
    hlýtur að tefja heyskapinn beint og óbeint, með þeim eftirköstum, sem því fylgir, og ég tala nú ekki
    um ef vín er brúkað. Og þótt fólk þykist kannske geta bætt það upp með meiri vinnu síðar. En allt slíkt
    er fjarstæða.
    Það er allt annað, þegar vel stendur á að fólkið geti skroppið að heiman og sitt hvað annað án þess að
    boða til samkomu eða því um líkt, því það þýðir að haga seglum eftir vindi, hjá hverju heimili fyrir sig.
    Þegar menn athuga nú þetta mál, kemur í ljós að slátturinn stendur ekki yfir á öllum normaltímum
    nema í mesta lagi þrjá mánuði. Það sýnist því vera mjög rýmilegt að allur annar tími ársins nægi fyrir
    fólkið sér til skemmtunar þegar það vill það viðhafa, og láti heyskapartímann vera friðhelgan fyrir
    öllum óþarfa töfum.
    Þetta er alvörumál fyrir landbúnaðinn. Og hvort bændur búa stórt eða smátt, þá verður það alltaf
    aðalundirstaðan, að vellíðan fólksins í sveitum landsins, að bændur bili aldrei með hey hverju sem
    viðrar. Það ætti að vera takmarkið og hefði alltaf þurft að vera. En svo sem heyleysið var hörmung,
    þegar lága verðið var, þá tæki það nú yfir með háa verðinu, sem er á öllum skepnum nú á tímum.
    Sem betur fer eru nú aðrir tímar og betri en áður var með heyöflun, þar sem nú og framvegis er unnið
    með vélafli á ræktuðu landi. Þá eru áburðarskilyrðin aðeins betri en áður var. Og
    heyverkunarmöguleikar hverju sem viðrar. Allt ætti þetta að geta stutt að því að heyleysi ætti ekki að
    eiga sér stað, í nútíð og framtíð.
    Tíminn, þriðjudaginn 1. júlí 1958
    Hugleiðingar um spönsku veikina
    Í erindum, sem Páll Kolka héraðslæknir flutti í Ríkisútvarpinu á síðast liðnum vetri, um spönsku
    veikina 1918, var að mörgu leyti fróðlegt og lærdómsríkt, sérstaklega fyrir embættismenn
    þjóðarinnar, því það sýndi svo glöggt, sem þó var áður vitað, svo ekki verður um villzt, hvaða ábyrgð
    embættismenn þjóðarinnar bera í sínu starfi gagnvart fólkinu og málefnum þess, sem þeir hafa verið
    kjörnir til að þjóna.
    106
    Nú ætla ég að nota mér þetta tækifæri, sem þessi dugnaðar og góði læknir, Páll Kolka gaf tilefni til í
    erindum sínum til þjóðarinnar, og skrifa nokkur orð (með fleira) um mína skoðun á þessum
    farsóttarmálum yfirleitt. Það er þá fyrst til að taka með spönsku veikina. Ég hygg, að aldrei síðan
    landið byggðist hafi verið betra tækifæri til að stöðva farsótt til landsins en þá, vegna þess, sem nú
    skal greina: Þá voru milliferðir til landsins lamaðar eftir fyrri heimssyrjöldina og yfirleitt allt atvinnulíf,
    svo reyrð var yfir öllu að byrja með. Þá var tæknin líka komin til sögunnar, svo það mátti hafa
    samband við útlönd, án þess að ferðast á milli landa, sem var aðalatriðið. Það var kominn vetur og því
    hentugur tími að stöðva milliferðir á meðan hættan stóð yfir, og hvað var það á móti því sem á eftir
    kom, nema hreint ekki neitt.
    Ég geri ráð fyrir, að þáverandi landsstjórn hafi farið eftir ráðum landlæknis, því hans embætti mun
    bera ábyrgð á því, hvað gera skuli í sóttvarnarmálum yfirleitt. Enda hafði þáverandi landlæknir orð á
    sér fyrir gáfur og röggsemi. En lengi skal manninn reyna. Því þegar mest reyndi á, þá kom í ljós, að
    hann var ekki vaxinn sínu starfi, eins og sýndi sig eftirminnilega hjá fólkinu í Reykjavík, sem mest varð
    fyrir hörmungum farsóttarinnar. Eftir því sem Páll Kolka sagði í erindi sínu, þá hefir staðið tæpt að
    landlækninum væri vært í Reykjavík, sem von var eftir þetta allt saman, sem á undan var gengið. Og
    þótt að öllum geti yfirsézt, þá er ég þeirrar skoðunar, að hver maður, hvað þá embættismaður, beri
    ábyrgð á sínu starfi gagnvart þjóðinni. Eftir því sem staðan er hærri, því meiri ábyrgð.
    Eins og að framan segir, var auðvelt að stöðva samgöngur hingað til lands eins og á stóð þá, og ef þeir
    ráðamenn hefðu athugað það – að það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í
    hann og líka það, að búast við því verra, því það góða skaðar ekki, og þá hefði betur farið.
    Þótt það sé áður kunnugt, hvernig tekið var á þessu sóttvarnarmáli í Skaftafellssýslu á þeim tíma, þá
    ætla ég samt að segja þá sögu dálítið nánar svona í sambandi við þetta sóttvarnarmál, sem að framan
    greinir.
    Þáverandi sýslumaður Skaftfellinga, Gísli Sveinsson í Vík, vildi byrgja brunninn í tíma, og búast við því
    verra, því það góða skaðar ekki. Hann ákvað og framkvæmdi algerlega á sitt eindæmi að banna
    samgöngur við Skaftafellssýslu með það fyrir augum að verjast spænsku sóttinni. En erfiðleikar voru
    þó á þessu innanhéraðs eða heima fyrir, vegna þess, að héraðslæknarnir höfðu enga trú á þessu, og
    fleiri forustumenn héraðsins töldu að þetta væri bara hræðsla, sem yrði til óþæginda og truflunar á
    samgöngum, o.s.frv.
    Það mátti því segja, að sýslumaðurinn stæði einn uppi með þetta vandamál, sem varð að gera út um
    annað hvort strax eða ekki. En reyndin varð sú, þótt tæpt stæði. Sýslumanni tókst fyrir mikinn dugnað
    og ráðdeild að koma vörnum á, bæði á sjó og landi. Og þeir menn, sem hann setti yfir að fylgja þeim
    reglum, sem hann fyrirskipaði, gerðu það með trúmennsku, svo allt tókst þetta prýðilega, eins og
    kunnugt er. Og gat það vissulega gefið öðrum hæfilegt fordæmi til athafna.
    Mér datt í hug, þegar Páll Kolka héraðslæknir var að enda útvarpserindin sín, að það hefði verið
    nokkuð líkt með þá Gísla Sveinsson sýslumann, þegar þeir byrjuðu sitt embættisstarf, mætti þeim
    strax alvara lífsins, sem varð þeim báðum dýrmætur skóli reynslunnar, og aflgjafi til þroska, um þeirra
    embættistíð. Báðum þeim mætti spænska sóttin í algleymingi á sinn hátt, hvorum fyrir sig, og báðir
    stóðust þeir raunina með óvenjulegum kjarki og dugnaði, enda síðan verið í sínum embættum til
    sóma og fyrirmyndar, svo sem kunnugt er.
    Páll Kolka sagði, að mig minnir, að næsta sumar þar á eftir hafi væg inflúenza gengið í Reykjavík og
    eitthvað úti um landið. Austur í Skaftártungu barst hún þannig: Tveir menn að austan
    (embættismenn) voru á ferð í Reykjavík og fengu þá veiki, en lögðust ekki, fóru svo austur og ætluðu
    sér að liggja hana úr sér heima, og enduðu svo þetta ferðalag sitt með því að fara um hánótt austur
    107
    yfir Mýrdalssand, með þeim afleiðingum, að þeir lögðust báðir í Tungunni og annar þeirra fékk
    lungnabólgu og dó. Með þeim barst veikin í Tunguna, með þeim afleiðingum, að einn bezti bóndinn
    þar andaðist og annar bóndi lá mikið af sumrinu, og stúlka sömuleiðis, á bezta aldri o.s.frv. Ef þessir
    feðamenn hefðu ekki farið úr Reykjavík fyrr en þeir voru hitalausir, þá hefði allt farið vel, og veikin
    ekki borizt austur í það sinn. Annars er það undarlegt, hvað sumir menn, þótt góðir séu að öðru leyti,
    geta verið kærulausir fyrir sig og aðra, að bera smitandi sóttir milli manna.
    Rétt fyrir síðustu aldamót, sem oftar, gekk yfir mögnuð inflúenza síðari hluta um hávetur, á þann hátt
    barst hún í Skaftártunguna þá, að haldin var skírnarveizla í Gröf, sem stendur miðvegis í hreppnum,
    og þótt snjór mikill væri á jörð, þá fóru einn og fleiri frá hverjum bæ í veizluna, nema einum, YtriÁsum,
    og þegar veizlan stóð sem hæst, kemur þar ferðalangur að austan, vestan frá Vík, og þar hafði
    þá veikin verið. Endaði þá þessi samkoma með því, að þessi maður smitaði alla þá sem voru þarna
    staddir, svo að allir lögðust á sama degi, og á sumum bæjum mátti segja á sama klukkutíma, og varð
    fólk þungt haldið, og einn miðaldra bóndi andaðist, Vigfús á Búlandi. Enda varð einn og einn maður
    að reyna að dragast út til að gegna skepnunum, og svo mun hafia verið með hann.
    Bóndinn frá Ytri-Ásum kom að Eystri-Ásum, um leið og allir voru að leggjast þar, og hitti mann úti,
    veikan þó, sem sagði honum hvernig komið væri, án þess að þeir kæmu saman. Dró Ytri-Ása bóndinn
    sig þá til baka og fór heim til sín, og hafði það heimilisfólk svo ekki samband við neinn úr því fyrr en
    veikin var um garð gengin, og slapp það heimili við veikina algjörlega.
    Það er óhætt að slá því föstu, að enginn er betri eftir að fá inflúenzu, þvert á móti, margur hefir orðið
    illa úti af hennar völdum, vegna ýmissa kvilla sem mönnum hafa fylgt úr því, eða leitt til bana, eins og
    Páll Kolka læknir hefir áður skrifað um. Mér hefir alltaf, eins og áður segir, þótt það mikið kæruleysi
    fólks, og þá sérstaklega ráðamanna þjóðarinnar, og ég tala ekki um læknana, hvað lítið hefir verið að
    því gert að stoppa farsóttir, hvert sinn sem þeirra hefir orðið vart, á hverjum tíma, sem þær hafa
    geisað, svo að ekki hefir verið hægt að varast það fyrr en í ótíma. Oftast hefði það þó verið auðvelt, ef
    að því hefði verið unnið í tæka tíð, því hvað er það þótt það valdi nokkrum óþægindum á móti því að
    láta sóttina geisa yfir og leggja flesta í rúmið og suma í gröfina. Fyrir nær 40 árum þegar Katla gaus
    1918 mátti segja að spænska veikin væri henni samferða, sem líka kom mjög við sögu í byrjun
    sýslumannsembættis Gísla Sveinssonar. En þar stóð hann ekki einn uppi, því að Lárus Helgason á
    Klaustri og fleiri framámenn sýslunnar fylgdu honum í því máli, héraðsbúendum til ráða og dáða á
    ýmsan hátt sem ekki verður orðlengt hér.
    Þá var alþingi og ríkisstjórn ekki eins gjöful á ríkisfé sem nú undanfarin ár. En þótt það sé mjög
    nauðsynlegt að ríkið hlaupi undir baggann og hjálpi mönnum og plássum sem verða fyrir tjóni af
    náttúruvöldum, svo sem eldgosum, jarðskjálftum, skriðuföllum o.fl. óviðráðanlegum
    náttúruhamförum. En það má ekki ala upp í mönnum sjálfsbjargarleysið með ríkisstyrkjum, svo sem
    ef sumir bændur í sama plássi geta náð öllum sínum heyjum prýðilega verkuðum í hlöður, en aðrir
    bændur við hliðina á þeim geta engan bagga hirt. Ef ekki er um að kenna heilsuleysi, þá er eitthvað að
    hjá þeim síðarnefndu sem ekki ber að styrkja beinlínis með ríkisfé, heldur ber að athuga hvað það sé
    helst, sem gerir mismuninn, því þar getur margt komið til greina, sem hægt væri að laga.
    Sama er að segja um harðindin. Ef sumir bændur komast vel af með hey, en aðrir bændur í sama
    plássi ekki. Þá þurfa þeir síðarnefndu að breyta til með heyásetningu. Til dæmis: Að betra er að eiga
    200 ær, vel hafðar og nóg hey, en 300 ær illa hafðar og lítil hey o.s.frv.
    Bændur eru hvattir til að fjölga fénaði, og að búin séu allt of lítil, og að kúm þurfi að fjölga með
    mjólkursölu fyrir augum, þótt það sé öfugt við allar aðstæður – svo sem sauðfjárpláss og vegakerfi,
    markaðsmöguleika o.s.frv. Alþingi og ríkisstjórn þurfa að taka þetta mál til framkvæmda áður en það
    eru um seinan, og láta skipuleggja það á sem hagkvæmastan hátt. Enda líka ekki nema eðliegt að svo
    108
    sé, þar sem ríkisstjórnin leggur til fé í afurðatöp til sjávar og sveita. En til landsins er aðeins einn
    grundvöllurinn undir þessu öllu saman, það er heyásetningarmálið. Næringarskortur er tap á öllum
    skepnum. Fóðurbirgðir án gífurlegra fóðurbætiskaupa er gróði. Það er lofsvert hve bændur í sumum
    plássum hafa nú dugað með hey. En það þarf að vera almennara, að bændur dugi með hey, hver fyrir
    sig. Því að fá heylán hjá öðrum getur riðið baggamuninn hjá báðum.
    Morgunblaðið, fimmtudaginn 17. júlí 1958
    Athugasemd og leiðrétting að gefnu tilefni með Ásana í Skaftártungu
    Í greinaflokkum Páls Zóphóníassonar í Tímanum, nú síðast um Vestur-Skaftafellssýslu, segir m.a. að
    prestsetrinu Ásum í Skaftártungu hafi verið skipt í tvennt og að nýbýlið hafi ekkert tún fengið, enda
    byggt nokkuð frá Ásum. En það rétta er að prestsetrinu Eystri-Ásum hefur raunverulega aldrei verið
    skipt til nýbýlis. Ytri-Ásar, sem teknir voru í nýbýli, hafa frá fornu fari verið sér jörð. En árið 1907 fóru
    þeir í eyði, og frá þeim tíma var jörðin nytjuð frá Eystri-Ásum, og túnið girt fjárheldri girðingu og látið
    fylgja túninu innan girðingar valllendisstykki slétt og girnilegt til ræktunar, frá Eystri-Ásum, sem lá að
    Ytri-Ása-túninu að austan, og auðvitað var Ytri-Ásatúnið með þessu valllendisstykki og girðingin látið
    fylgja nýbýlinu, þegar það var tekið til ræktunar.
    Sveinn Sveinsson, frá Ásum.
    Tíminn, föstudaginn 15. ágúst 1958
    Baðstofan
    Sveinn Sveinsson frá Fossi tekur til máls:
    „Hinn 13. júlí sl. skrifar hinn mikli fræðimaður, Árni Óla, ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins, um
    baráttuna við Stjórnarsand. Ég hafði mikið gaman af að lesa þá fróðlegu grein, þótt ég væri dálítið
    kunnugur því máli sem fleiri samtíðarmenn. Munurinn á áhugamönnum og áhugalausum skín í gegn
    um alla greinina, svo að lærdómsríkt er að lesa hana. Í henni segir frá fyrstu tilraun sandgræðslunnar,
    sem misheppnaðist algerlega. Var fyrst og fremst áburðarleysi um að kenna. Síðan hélt svo
    sandgræðslan áfram að styrkja þetta nauðsynlega verk þeirra Klaustursbræðra með ráði og dáð. Er
    mjög ánægjulegt til þess að vita. Árni Óla er eins og áður segir fróður og skemmtilegur rithöfundur og
    Lesbókin góð í höndum hans.
    Þá er annar fræðimaður, Páll Zóphaníasson sem nú undanfarið hefir skrifað greinaflokk í Tímann um
    búskapinn fyrr og nú. Og þó ég hafi ekki lesið greinaflokkinn um þær sýslur, sem ég er ekki kunnugur,
    þá fannst mér jafn sjálfsagt að lesa um þær sýslur, þar sem ég er kunnugur öllum staðháttum, s.s.
    Skaftafells- og Rangárvallasýslur, en þar get ég komið með mínar athugasemdir á aukaatriðum, sem
    mér finnst þó rétt að leiðrétta, og einnig að setja fram mína skoðun á spádómum Páls um Kötlu og
    svo framvegis.
    Í fyrsta lagi nefnir Páll ekki Stjórnarsand á nafn, sem er þó mjög merkilegt mál og tilheyrði
    greinaflokki hans, að mér finnst. Í öðru lagi nefnir hann ekki heldur Sólheimasand, sem líka er
    merkilegt mál, og sem einnig hefði átt að tala um í þessu sambandi. – Í þriðja lagi talar hann um
    Skógasand sem sjálfsagt var, en þar segir hann þó ekki nema hálfa söguna. Ef sandgræðslan hefði ekki
    komið þar við sögu, þá væri þar enn ekki komið stingandi strá, hvað þá slægja, sem eðlilegt væri. Þó
    109
    Eyfellingar séu ágætir framfaramenn, þá var alls ekki von til þess, að þeir hefðu komið sér saman um
    að ráðast í það nýmóðins stórfyrirtæki, enda ekki hyggilegt, án þess að hafa lærðan fagmann til
    forustu í byrjun á því vandasama verki.
    Sandgræðsla ríkisins var því sjálfkjörin til leiðbeininga í upphafi framkvæmda í þessu mikla og
    merkilega máli. Enda mun Austur-Eyfellingum, sem hlut eiga þarna að máli, aldrei hafa dottið annað í
    hug. Ríkið þyrfti að styrkja svona fyrirtæki áfram verulega í nokkur ár, enda munu þingmenn
    kjördæmisins hafa fullan hug á að koma því í kring. Þess skal líka getið, að fyrrverandi
    landbúnaðarráðherra, Steingrímur Steinþórsson og núverandi landbúnaðarráðherra, Hermann
    Jónasson, hafa verið þessu merka máli mjög hlynntir.“
    Hér gerum við hlé á máli Sveins til morguns.
    Tíminn, 16. ágúst 1958
    Baðstofan
    Sveinn Sveinsson frá Fossi heldur áfram máli sínu, þar sem frá var horfið í gær.
    „Í fjórða lagi, með Ásana í Skaftártungu. Það mál hefi ég áður leiðrétt, en endurtek það nú með þessu
    spjalli mínu, vegna þess, að það tilheyrir þessu málefni. Páll segir m.a.: prestsetrinu Ásum í
    Skaftártungu hafði verið skipt í tvennt og að nýbýlið hafi ekkert tún fengið, enda byggt nokkuð frá
    bænum. En það rétta er að prestssetrinu Eystri-Skógum (á að vera Eystri-Ásum) hefir raunverulega
    aldrei verið skipt til nýbýlis. Ytri-Ásar, sem teknir voru í nýbýli, hafa frá fornu fari verið jörð sér en árið
    1907 fóru þeir í eyði, og frá þeim tíma var jörðin nytjuð frá Eystri-Ásum. Túnið var nokkru síðar girt
    fjárheldri girðingu og látið fylgja túninu, innan girðingar, valllendisstykki, slétt og girnilegt til
    ræktunar, frá Eystri-Ásum, sem lá að Ytri-Ásum að austan. Og auðvitað var Ytri-Ásatúnið með þessu
    valllendisstykki og girðingin, látið fylgja nýbýlinu, þegar það var tekið til ræktunar.
    Í fimmta lagi er það svo Kallá: Páll telur að Meðallandi sé meiri hætta búin en Álftaveri. Hann telur að
    öll suðurbyggðin í Meðallandi geti innilokazt og sumir bæir sópazt burt og það getur rétt verið – en ef
    Kötluhlaup kæmi um dagtíma, þá ætti fólk þar að geta flúið austur á efstu bæi þar. En í Álftaveri er
    meiri hætta á að fólk lokist inni vegna þess, að hlaupið fer vanalega bæði fyrir austan það og vestan.
    En að tala um það að oftast mundi vera undanfæri fyrir fólk þar til að komast á Herjólfsstaðaholtið er
    fjarstæða, því þá yrði fólk að fara á móti hlaupinu af austurbyggðinni sem ekki næði nokkurri átt,
    jafnvel þó sjálfum Herjólfsstaðabæjunum væri óhætt. Enda mun fólk þar í sveitinni telja líklegra, að
    flýja suður á bóginn, þangað sem hæst er í suðurhögunum, eða á Mýrarhöfða.
    En allar þessar bollaleggingar okkar og kunnugra manna geta ekki komið til greina nema ef hlaupið
    kæmi um dagtíma. Komi það hins vegar að næturlagi þá eru allar bjargir bannaðar að þessu leyti. Það
    skal tekið fram að ég efa ekki að tölur Páls og kjarni málsins sé rétt með farið í greinaflokki hans, þó
    kunnugir menn hafi ýmislegt út á aukaatriðin að setja, eins og hér hefir verið gert. Og hann á þakklæti
    skilið fyrir þann dugnað að koma öllu þessu í verk á ekki lengri tíma, því síðar meir getur það þótt
    fróðlegt að eiga það á prenti. Og víst er það, að puntað hefir hann upp á blaðið Tímann með þessum
    skrifum sínum.
    Hinn 3. ágúst kom grein í Tímanum um samtal, sem blaðið átti við Árna Jónsson bústjóra að Skógum
    um ræktunina og heyskapinn á Skógasandi og kemur þar fram ágæt skýring á þessu ræktunarmáli,
    Árni er formaður í stjórn þessa félagsskapar um Skógasand, hinn ágætasti maður, og mun
    110
    framkvæmdum vera vel borgið í höndum hans, með þetta merka mál í félagi við Sandgræðslu ríkisins
    og Austur-Eyfellinga.“
    Tíminn, miðvikudaginn 19. nóvember 1958
    Baðstofan
    Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar hér um ferðaáætlun, sem tókst vel:
    Nú undanfarið hefir verið mikið talað og ritað um Kötlu og Kötlugosið og jökulhlaupið 1918, og flestir
    sem þá voru komnir til vits og ára, muna það vel. En fyrir það gos, var eins og engum dytti Katla í hug,
    enda voru þá liðin 50 -60 ár á milli þeirra gosa. – Það hefir líka að sjálfsögðu verið talað um það í
    sambandi við jökulhlaupið á Mýrdalssandi 1918, að það hefði munað litlu að þeir menn, sem voru
    staddir á sandinum þann dag, lentu ekki í hlaupinu, svo sem Jóhann Pálsson frá Hrífunesi, er hann var
    að fara í Álftaversrétt. Álftveringar, sem voru við smalamennsku á Sandinum og tveir piltar frá Ásum,
    sem voru að fara til Víkur með vagna. Þessir piltar voru þá unglingsvinnumenn hjá mér í Ásum. En
    vegna þess að þeir, þessir piltar, sluppu við hlaupið út af vissum atvikum, sem flestum eru ókunn, og
    því ekki verið rétt frá skýrt af sumum, sem um það hafa talað.
    Atvik þessa mál voru þau, sem nú skal greina: Daginn fyrir gosið var hægveður, en dáldið kuldalegur
    og gengu snjóél austrá jökulinn. En daginn eftir stóð til að senda piltana með vagna til Víkur, að sækja
    flutning, og af því að ég vildi flýta ferðinni, en aðrir ekki á ferð þá, lét ég þá báða fara og af því að ég
    var hálfhræddur við að hann snjóaði á sandinum, þó hann gerði það ekki annars staðar, sem oft var,
    þá lét ég piltana fara um kvöldið undir sandinn að Hrífunesi, sem munar alltaf tveimur tímum, og fá
    að hafa hestana um nóttina í girðingu þar í túninu, svo þeir þyrftu ekki að bíða eftir birtu að taka sig
    upp morguninn eftir til að leggja á sandinn, enda brást aldrei í mína tíð að geta farið snemma á stað á
    því fyrirmyndarheimili. Svo lagði ég þeim þær lífsreglur: 1. að fara snemma á stað, 2. þegar þeir væru
    komnir útyfir Þverkvíslar þá skyldi annar þeirra ríða á undan útí Hafursey með nestið og kaffið og vera
    búinn að hita og borða þegar hinn kæmi með vagnana og taka heypokana af vögnunum og geyma þá
    þar til í austurleið, því hestarnir þyrftu ekkert hey í útleið frá Hrífunesi, svo skyldi sá sem búin var að
    borða og drekka kaffið taka við lestinni og halda áfram en hinn fara með sinn reiðhest inn í húsið og
    borða og drekka kaffið. Og ef þeir brygðu ekki út af þessu þá gætu þeir búið upp á vagnana fyrir
    morgundaginn og farið þá líka snemma af stað. Svo lagði ég áherzlu á það sem mun hafa reynst bezt:
    Að þeimur fyrr sem þeir yrðu búnir að þessu, þeim mun lengri tíma hefðu þeir um kvöldið að
    skemmta sér hjá kunningjunum í Vík.
    Svo þegar þeir eru nýkomnir út yfir sandinn og dálítið út með hömrunum, mæta þeir Lofti bónda á
    Höfðabrekku, sem staddur var í Vík þegar hlaupið var komið fram á sjó, þá tók hann hest sinn og reið í
    kasti heim. Þegar hann mætir piltunum segir hann: Ja, þið hafið sloppið mátulega. Nú, hvað er það,
    segja þeir. Lítið þið í austrið og fram á sjóinn, segir Loftur. Þá sjá þeir hvað þetta hefir staðið tæpt. –
    Þótt ég gerði svona nákvæma áætlun, sem stóðst svona vel, þá gat það ekki gengið nema af því að ég
    lét piltana fara tvo, þótt það að öðru leyti væri ekki nauðsynlegt. En bæði var nú það að piltarnir voru
    ungir, til þess að gera, og skemmtilegri fyrir þá að vera tveir saman, þar sem aðrir voru ekki á ferð yfir
    sandinn þann dag, án þess að manni dytti Katla í hug.
    Annars býst ég við, ef piltarnir hefðu verið eldri og vanir ferðalögum að mér hefði fundist það vera
    móðgun við þá að segja þeim svona nákvæmlega til. Samt voru þeir komnir á þann aldur, sem gjarnt
    er að breyta til og þykja sín ráð bezt. Það getur verið gott á stundum, en oft bagalegt. En mér er annt
    um ungdóminn og geri mér því dælt við hann, og báðum orðið það að góðu eins og nú skeði. Svo hefi
    111
    ég alltaf viljað taka daginn snemma í ferðalögum og hökta ekki að óþörfu. Heldur búast við því verra
    því það góða skaðar ekki, bæði með veður og annað, sem fyrir getur komið. Ég trúi því og orðið það
    að góðu.
    112
    1959
    Þetta árið birtust fjórir pistlar í Tímanum og einn í Morgunblaðinu. Þrír voru í greinaflokknum
    Baðstofan en fjórði pistillinn var um vegagerð. Pistillinn í Morgunblaðinu var um
    Mýrdalssand og innanlandsflug.
    Sveinn ritaði þetta ár m.a. um ferðalög yfir óbrúaðar ár, erfiðleika við að ná tali af
    embættismönnum í Reykjavík, gestrisni, lestur Passíusálma í útvarpinu, vatnagang á
    Mýrdalssandi og Sandvatnið á Mýrdalssandi.
    113
    Tíminn, miðvikudaginn 4. febrúar 1959
    Baðstofan
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs og ræðir um mannamun:
    Eiginlega munu menn yfirleitt ekki athuga það að jafnaði fyrr en á reynir havð menn geta verið
    misjafnir að myndarskap og gæðum. Til sveitanna reyndi enn meira á þennan mannamun í gamla
    daga en nú orðið, þegar allir urðu að ferðast á hestum og gangandi og flestir í þá daga peningalausir,
    enda ekki venja þá að taka borgun fyrir næturgreiða eða annað sem látið var úti við ferðafólk s.s.
    áningar og fylgdir.
    Það voru auðvitað flestir af búendum, sem gátu í rauninni ekki hýst menn og hesta vegna fátæktar,
    hey- og húsaleysis. En þar sem viljinn og kærleikurinn var fyrir, þá var eins og allt væri hægt að gera
    fyrir náungann, sem dugði fyrir gest og gangandi, eins og þar stendur. Mest reyndi auðvitað á þá
    búendur, sem bjuggu við þjóðveg, og ég tala nú ekki um þá, sem áttu heima við stórvötnin.
    Skal ég nú segja eitt dæmi af ótal mörgum. Í bók eða endurminningum Ólafíu heitinnar
    Jóhannsdóttur hinnar góðu, er sagt frá því er hún var á ferð austan frá Kálfafellsstað í Suðursveit
    ásamt Kristínu, systur sinni, og landpóstinum, suður til Reykjavíkur. Að kvöldi fyrsta dags gistu þau í
    Svínafelli í Öræfum, hjá einum bóndanum af fimm, sem þá bjuggu á Svínafellinu, læt ég nú, Ólafíu
    hafa orðið:
    „Þegar við vorum ferðbúnir morguninn eftir, stóð reiðhestur bóndans söðlaður hjá hestunum okkar á
    hlaðinu. Ætlið þér að verða okkur samferða, spurði ég. Mér þótti réttara að fylgja ykkur út yfir ána,
    svaraði hann. Þið eruð tvær, og ekki nema pósturinn einn með ykkur. Húsfreyjan stóð líka úti á hlaði
    til þess að kveðja gestina og hjá henni lítil dóttir hennar. Ekki var nærri því komandi að þau þægju
    neitt fyrir næturgreiðann. Ég rétti litlu stúlkunni silfurpening. Hún hikaði við og leit á pabba sinn, en
    hann rétti fram hendina á milli okkar og sagði þunglega: Ég vil ekki láta kenna barninu mínu að þiggja
    peninga af þeim, sem gista hér. Ég stóð sneypt og orðlaus. Hann kvaddi konuna og barnið með kossi
    og hélt á hattinum í hendinni á meðan. Svo riðum við úr hlaðinu á Svínafelli og héldum á sandinn.
    Þegar komið var yfir Skeiðará, sneri bóndinn á Svínafelli heim aftur. Við þökkuðum honum fylgdina,
    en borgun nefndi enginn.
    Eins og áður segir voru ótal dæmi þessu lík, og ég hafi sjálfur kynnst þessari hjartanlegu gestrisni og
    velvild, bæði þar sem bar að borga, og líka þar sem ekki mátti borga án þess að eiga á hættu að
    móðga þá, sem mest höfðu yndi af að gefa og var það svo hjartanlega eiginlegt.
    Nú eru orðnir breyttir tímar og ferðalögum hagað á allt annan hátt en áður var. Búið að brúa öll vötn
    á þjóðvegum, og flugvélar mikið notaðar til ferðalaga. Gististaðir hafa risið upp þar sem sjálfsagt er að
    borga fyrir allt sem í té er látið, og allir hafa nú peninga. Nú þurfa ferðamenn ekki að gera átroðning á
    sveitaheimilum enda eru hestarnir úr sögunni til langferðalaga. Ferðafólk kemur því ekki, eða stoppar
    ekki nema á vissum stöðum, og nú þarf ekki að róta út heyjum í langferðahesta, sem oft var
    vandræðamál af litlum heyjum. Nú eru hestar orðnir mest til sports, smalamennsku og útflutnings
    o.s.frv.
    Hér gerum við hlé á máli Sveins til morguns.
    114
    Tíminn, fimmtudaginn 5. febrúar 1959
    Baðstofan
    Sveinn Sveinsson frá Fossi heldur nú áfram máli sínu, þar sem frá var horfið í gær:
    „En lengi mun sá andi svífa yfir sveitum landsins, að heimafólk hafi gaman af gestakomu, og þá ekki
    síður fyrir gestina sjálfa, að kynnast því áfram, hvað það er lærdómsríkt að koma á gestrisin heimili.
    En þó gengur það svo bezt fyrir báða aðila – heimilin og gestina – að stoppa ekki lengur í hvert skipti
    en þörf krefur, svo að tafir verði ekki of langar fyrir báða (heimilin og gestina). Og þá eru það heimilin,
    sem eiga að sjá um það, að draga ekki of lengi þær veitingar, sem gestirnir eiga að fá. En gestunum
    ber svo að fara strax og þeir eru tilbúnir. Því það er þeirra að hugsa um það.
    Maður hefur nokkuð oft heyrt talað um það, hvað erfitt sé að ná tali af sumum skrifstofumönnum,
    forstjórum og formönnum ýmissa nefnda hér í Reykjavík o.s.frv. Sjálfur hefi ég lítið þurft á þvi að
    halda að tala við menn í þeim stöðum. En þó stöku sinnum, og hefi ég orðið var við að þetta sé á
    rökum byggt, og líklega oftar þó en kvartað er. Sumir af þessum mönnum láta spyrja um nafnið þess
    er óskar eftir samtali. Og svo þegar það er fengið, láta þeir á stundum skila því að þeir séu ekki við,
    hafi gengið frá o.s.frv. Og þetta getur endurtekið sig oftar en einu sinni hjá sumum þessum mönnum.
    Þetta getur verið mjög bagalegt, hvort sem það eru bæjarmenn eða ferðamenn, snúningar og tafir á
    ýmsum framkvæmdum oftast alveg að óþörfu. Í flestum tilfellum geta þessi samtöl verið stutt og
    tekið fljótt af, hvort sem samtalið gæti orðið jákvætt eða neikvætt. Um það verður að fara eftir
    málavöxtum, bara að fá þá að vita það. Menn sitja í þessum stöðum á fullum launum, til þess að veita
    viðskiptamönnum samtöl, fyrirgreiðslu og leiðbeiningar. Ég hygg að það komi sér óvíða verr, en við
    svona störf, að hafa þannig skapi farna menn. Og víst er það að engin stofnun, hverju nafni, sem hún
    nefnist, getur grætt á því. Og mannamunurinn kemur óvíða betur í ljós en á svona stöðum, þar sem
    menn mæta lipurð og kurteisi.
    Það hefur líka verið mikill mannamunur á bóndanum í Svínafelli, sem nefndur er hér að framan, og
    þeim bændum í þá tíð, sem skelltu hurðum fastast aftur er þeir úthýstu mönnum, stundum í myrkri,
    hríð og kulda. Nú gerir maður ekki ráð fyrir að þetta eigi sér stað lengur í þeim sveitum, sem þetta
    hafði komið fyrir áður fyrr. En það eru ekki mörg ár síðan að talað var um í útvarpinu og skrifað í
    Reykjavíkurblöðunum að það var um kvöld eða nótt, að langferðamaður, eða fleiri, og útlendingur,
    þurfti að fá gistingu yfir nóttina, en öll gistihúsrúm þá orðin fullskipuð fólki, svo um það var ekki að
    tala. En það var annað, sem hægt var að tala um í þessu sambandi, hefði það verið athugað, og það
    var, að veita húsaskjól og stóla til að sitja í og blunda þar eða á gólfinu. Því allt er betra en að liggja úti
    um hánótt.
    Það hefir lengi verið svo, að mönnum gengur illa að fylgja þeirri kenningu Meistarans: Að það, sem
    þér viljið að aðrir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“
    Sveinn hefir lokið máli sínu og látum við þá staðar numið í dag.
    Tíminn, föstudaginn 13. mars 1959
    Baðstofan
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefir kvatt sér hljóðs:
    EINS OG GÖMLUM MÖNNUM mun títt sem setztir eru í svokallaðan helgan stein vegna aldurs síns,
    hlusta ég á útvarpið. Það kann að vera með af því að heyrnin nú orðið er ekki upp á það bezta, að
    115
    mikill finnst mér vera mannamunurinn þar ekki síður en á sumum öðrum sviðum, svo sem með þulina
    og fréttalesturinn. En út í það mál fer ég ekki frekar hér.
    NÚ UNDANFARIÐ HEFUR verið dálítið talað um lestur Passíusálmanna í útvarpinu, og er það vel. Um
    það mál skrifar Gísli, bróðir minn, mjög ýtarlega grein í Mbl. 5. þ. m. Ég vil leyfa mér að benda
    ráðamönnum útvarpsins á tvennt: Annaðhvort að fara að mestu leyti eftir tillögum Gísla í greininni,
    eða að hætta framvegis lestri sálmanna í útvarpinu, upp á þann máta, sem er, og hefur verið að
    undanförnu, því þar sem ég til veit, er lítið eða ekkert hlustað á lesturinn af miðaldra og yngra fólki,
    undir sömu kringumstæðum og hefur verið. Það væri því reynandi að breyta til í þessu efni.
    AF ÞVÍ AÐ ÉG VAR smávegis búinn að punkta niður um þetta efni, áður en ég las grein Gísla og ekki er
    talað um þar vegna þessa máls, svo sem það: Að mér finnst yfirleitt að lestur sálmanna hafi tekizt
    ótrúlega vel eins og það er þó mikill vandi að lesa þá. Og svo líka nú hjá þeim manni, sem les þá,
    núna, utan það að hann segir ekki amen. Því af vana finnst manni það dálítið snubbótt. En hvað er
    það, sem vaninn vill ekki hafa? Svo er það líka með lestur sálmanna sjálfra, að af gömlum vana er
    verið að lesa þá í útvarpinu, og þegar prestarnir messa aðeins annan hvorn miðvikudag á föstunni í
    útvarp, þá er það gert til málamyndar, af vana.
    OG ÞEGAR PRESTARNIR verða að messa yfir hálftómum kirkjum, þá er það af gömlum vana gert en
    ekki þörf fólksins. Svo er það líka með þá presta, sem ekki trúa sjálfir sumu því, sem þeir verða þó að
    prédika yfir fólkinu, því alltaf eru einhverjir, sem trúa því. Og af gömlum vana fylgir það
    prestaembættinu að segja svo, og svo framvegis. Fólkið, sem ekki trúir sumu því, sem prestunum er
    lagt á herðar að segja, getur verið jafnvel trúað fólk fyrir það.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    Tíminn, miðvikudaginn 5. ágúst 1959
    Myndi bjarga að setja sem flestar smábrýr á veginn?
    Vatnagangurinn á Mýrdalssandi, sem hefur valdið miklum spjöllum, getur leitt til mikilla erfiðleika
    fyrir bændur í þeim fimm hreppum, sem eru austan flóðsins. Hafa heyrzt raddir um það, að þeir sjái
    sér ekki annað fært, ef svo heldur áfram sem horfir, en að bregða búi. Búskapurinn þarna eystra
    hefur að sjálfsögðu aðallega verið fjárbúskapur, en í vor hófust mjólkurflutningar austan yfir sandinn,
    og myndu þeir hafa breytt og bætt alla lífsafkomu bænda í Álftaveri, Skaftártungu og á Síðu, hefði
    verið hægt að tryggja áframhaldandi mjólkurflutninga, enda er þegar orðið þröngt um fé í högum
    bænda þar eystra og litlir möguleikar á að fjölga sauðfé á þessu svæði.
    Eins gefur það auga leið, að vegurinn yfir sandinn er að öðru leyti lífsspursmál fyrir fólk þessara sveita
    vegna aðdrátta og flutninga allra, enda verða allar framkvæmdir og framfarir háðar þessum vegi.
    Vegna alls þessa hefur óhug slegið á bændur þarna, en víst er að barátta þeirra við hina kvikulu sanda
    mun enn sem áður verða háð af harðfylgi og enginn mun gefast upp fyrr en í fulla hnefana.
    Í gær barst blaðinu eftirfarandi hugleiðing Sveins Sveinssonar frá Fossi, þar sem hann hefur tillögur
    fram að færa um vegagerð yfir sandinn. Þykir rétt að birta hana hér í heild.
    „Nú er að vonum mikið talað um Mýrdalssand, og kemur það til af breyttum farartækjum. Annars
    hefðu það ekki þótt nein tíðindi, þótt jökulvatn færði sig til á Mýrdalssandi á meðan hestar voru
    einungis í brúkun. En tölum nú ekki meira um það, því tímarnir eru breyttir og farartækin líka. Nú
    kvað verið byrjað að brúa Blautukvísl á syðri leiðinni – sjálfagt sunnan við, þar sem Háöldukvísl kemur
    116
    í Blautukvísl. Það lízt mér vel á, því sú brú mun oft koma vel að notum, bæði sumar og vetur, eins og
    kunnugir vita. Svo liggur beint fyrir að gera upphleyptan veg (með ýtum) frá Múlakvíslarbrú að þessari
    nýju brú og frá henni beina línu austur að Skálmarbrú, með smáar brýr, svo margar sem þurfa þykir,
    vegna vatnsflaums af jökulvatni á sumrin og leysingarvatni á vetrum, sem oft er ótrúlega mkikð,
    þegar snjór og ísar eru komnir á sandinn. Þessar brýr, sem ekki ættu að þurfa að vera mjög
    kostnaðarsamar, þyrftu að koma jafnframt veginum, því það yrði tryggast fyrir veginn og því
    byrlegast, heldur en að bíða eftir því að vatnið bryti skörð í garðinn og verða þá að brúa þau.
    Þessi úrlausn með bílveg yfir Mýrdalssand mun reynast vel, þar til Kötlugos kemur aftur.
    Vegna þess, að í sambandi við sandvatnið nú, hefur verið talað um, hvernig það hafi hagað sér áður,
    og gæti þar dálítils misskilnings. Ætla ég því að gefa skýringu á því með nokkrum orðum, til gamans og
    fróðleiks, hvernig sandvatnið hefur yfirleitt hagað sér síðan laust fyrir síðustu aldamót, eða öllu
    heldur frá Kötlugosi 1860 (eða tæplega það) til 1918 að Katla gaus þá aftur. Rann sandvatnið alltaf
    vestan við Hafursey, til og frá þar um sandinn, stundum þó í Múlakvísl. Eftir gosið 1918 rann
    Sandvatnið í nokkur ár enn vestan við Hafursey, voru þá víða þar á sandinum stórar jökulhrannir eftir
    hlaupið, að mestu ófærar yfirferðar, sem sandvatnið jafnaði allt við jörðu. En svo hittist á það
    merkilega, að þegar vatnið var búið að hefla þessi ósköp eins og fjöl, þá fór það að grafa sig niður
    norðvestan við Hafursey, vestur að Höfðabrekkuafrétti í Múlakvísl, og það svo rækilega, að það
    rennur þar enn, og sandur síðan þurr og sléttur vestan við Eyna, með talsverðu kindakroppi.
    Þessi breyting á sandvatninu varð til þess að Múlakísl var brúuð, allri umferð til hagnaðar. En það skal
    tekið fram, að síðan ég man eftir, hefur flest árin, síðla sumars, komið jökulvatn undan jöklinum
    austan Hafurseyjar, stundum vestar og stundum austar, eins og áður segir í þessari grein.
    Nú þegar ég er að enda þessar línur, frétti ég að vatnið sé búið að ná sér fram nálægt Langaskeri, allt
    er það eðlilegt, að svo gæti farið, og styrkir þá tillögu mína, að nauðsynlegt sé að hafa sem flestar
    smábrýr á upphleypta veginum á austursandinum.
    Eins og vegakerfinu er háttað yfir Mýrdalssand, þá skil ég ekki þau búhyggindi bænda austan sands,
    að ætla sér að græða á mjóllkursölu, hvað sem öðru líður.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    Morgunblaðið, föstudaginn 28. ágúst 1959
    Mýrdalssandur og innanlandsflug
    Þegar ég hafði lesið í Morgunblaðinu 11. ágúst ferðasögu yfir Mýrdalssand, eftir séra Jónas Gíslason í
    Vík, sem mér þótti skemmtilega skrifuð, fór ég að athuga hvað breytingarnar á Mýrdalssandi mundu
    kosta ríkið í stað þess að nota innanlandsflug um hásumarið. Og hvað gera ekki Öræfingar og aðrir,
    sem ferðast þangað að sumarlagi, vegna vatnanna báðum megin við Öræfin. Það fljúga auðvitað allir,
    sem þangað og þaðan ferðast, því annað kemur ekki til mála, eins og nú hagar til um farartæki.
    Allt hefur þetta gengið prýðilega og svo ættil það líka að geta gengið vel á milli sanda í Vestur-
    Skaftafellssýslu. Mér fyndist það vera nær fyrir ríkið að styrkja þessar sveitir, sem hlut eiga að máli,
    með flugvallargerð, þar sem hentast þykir, heldur en að nota peningana í þetta vonlausa verk á
    Mýrdalssandi sumar eftir sumar. Enda kemur fleira til greina með þessar sveitir á milli sanda, t.d.
    Katla. Sjálfsagt er að stefna að því að nota flugsamgöngur í þessum sveitum, eins og Öræfingar hafa
    gert í mörg ár og gengið vel.
    117
    Ég skrifaði smágrein í Tímann 5. ágúst, þar sem ég talaði um Mýrdalssand og benti á að þegar lokið
    yrði við að brúa Blautukvísl á svokallaðri Syðri-leið, þá lægi beinast fyrir að gera upphleyptan veg með
    ýtum frá Múlakvíslarbrú að þessari nýju brú og frá henni beina línu austur að Skálmarbrú, með smáar
    brýr svo margar sem þurfa þykir vegna vatnsflaums af jökulvatni, á sumri og leysingarvatni á vetrum,
    sem oft er ótrúlega mikið í asa-hlákum, þegar snjóar og ísar eru komnir í sandinn. Þessar brýr þyrftu
    ekki að vera mjög kostnaðarsamar og kæmu jafnframt veginum til tryggingar því að vatn bryti síður
    skörð í veginn, og þá yrði viðhaldið ekkert á móti því, sem nú er. Að vetrarlagi mun svona vegur
    reynast vel í snjóum og vatnagangi og sandurinn styttast að mun. En eins og kunnugir vita er oft
    snjóþungt á Mýrdalssandi.
    Margir bændur þarna á milli sanda kváðu hafa verið byrjaðir að flytja og selja mjólk áður en vegir
    tepptust. Víst er að mjólkursala er góð, þar sem staðhættir eru til þess. En bændur sem reynsluna
    hafa og búnir eru að fjölga kúm, telja það ótrúlega mikinn hnekki, þegar vegir teppast svo að ekki er
    hægt að koma mjólkinni á markaðinn. Skaftártunga og Síða hafa víðlend og góð heiða- og
    afréttarlönd fyrir sauðfénað, og óvíða mundi haga betur til en þar, að dreifa áburði með flugvél. Ef
    menn selja mjólk og fjölga kúm, þá þykir nú orðið ekki annað hægt en beita kúnum á ræktað land,
    mundi þá ekki borga sig betur að rækta beitiland fyrir ærnar þar eystra eins og hagar þar til, með
    vegasambandi og víðlendum sauðfjár högum.
    Sveinn Sveinsson, frá Fossi.
    118
    1960
    Nú brá svo við að einungis einn pistill birtist í Tímanum, einn í Vísi en þrír í Morgunblaðinu.
    Pistillinn í Vísi var athugasemd við grein um Mýrdalssand, pistillinn í Tímanum var um trúmál,
    en pistlarnir í Morgunblaðinu um Mýrdalssand og tón prestanna.
    Að öðru leyti ritaði Sveinn m.a. um tón prestanna og útvarpshelgiathafnir.
    119
    Morgunblaðið, laugardaginn 2. júlí 1960
    Mýrdalssandur
    Það er ekki nema mannlegt af sýslunefnd Vestur-Skaftafellssýslu á fundi sínum sem nýverið var
    haldinn í Vík, að þakka viðkomandi ráðamönnum, mikil fjárframlög til samgöngubóta yfir
    Mýrdalssand á þessu og síðastliðnu ári. Þetta allt er ekki nema gott og blessað. En verst er í þessu
    marg umrædda máli, hvað ráðamönnum þessa máls hefur mistekizt með vega- og brúarstæði á
    Blautukvísl, sem alkunngut er. En enginn sem til þekkir efar vandvirkni Valmundar brúarsmiðs eða
    dugnað Brands Stefánssonar verkstjóra. En þegar verið er að tala um að nú sé verið að brúa
    Blautukvísl á nýjum stað er það rangnefni, því að þessi nýja, stóra brú, er ekki yfir Blautakvísl, heldur á
    þurrum sandi, að vísu í áttina að kvíslinni. En þó að heppnin sé með í þetta sinn nefnilega að
    sandvatnið komi undan jöklinum á þeim stað sem hægt er að halda því undir þessa nýju stóru brú, þá
    er aldrei hægt að segja um hvar sandvatnið kann að koma undan jöklinum í það og það sinnið, ef það
    fer ekki í Múlakvísl. Það getur því alveg eins farið svo að það fari aldrei meir undir þessa nýju stóru
    brú. Það getur því farið svo í framtíðinni að milljónirnar fari í sandinn eins og í fyrrasumar fyrir alls
    ekki neitt og komi að öngvu liði. En hvað þýðir að tala um það sagði karl nokkur, sem etið hafði
    einhvern óþverra, því það væri komið oní sig.
    Sveinn Sveinsson (frá Fossi)
    Vísir, fimmtudaginn 11. ágúst 1960
    Athugasemd við grein um Mýrdalssand.
    Í Vísi hefur þessa dagana komið löng grein, skipt í tvennt, um Mýrdalssand og gömul Kötlugos, fróðleg
    grein um gosin. En síðari hluti greinarinnar er nokkuð áróðurskenndur fyrir verkinu á brúargerð
    Blautukvíslar og vegagerð á sandinum. En næst því síðast í greininni segir orðrétt: „Þessar kenjar
    jökulvatnsins torvelda alla útreikninga og allar áætlanir, það munu vegamálastjóri og verkfræðingar
    gera sér fyllilega ljóst og miklu betur en þeir, sem sífellt eru að rífast og skammast út af hlutum, sem
    þeir hafa ekkert vit á.“
    Þessu síðasta vildi eg mega svara þannig: Þetta er gömul og ný saga hjá þessum faglærðu mönnum.
    Eg kannast vel við það fyrr og síðar, ef kunnugir menn ætla að leiðbeina þeim eða að finna eitthvað
    að skyssum þeirra, þá er þetta viðkvæðið: Að þeir hafi ekkert vit á þessum hlutum. En hvað hefur ekki
    skeð í þessum málum fyrr og síðar. Margar brýr hefur orðið að lengja fyrir skakkan útreikning með
    vatnsrúm, með miklum kostnaði og stundum á fyrsta ári eftir brúargerð. Þó tekur út yfir með
    brúarstæðin á Blautukvísl í hvorttveggja sinnið. Ef hún hefði verið brúuð á syðri leiðinni, eins og ég
    benti á, þá hefði sú brú staðið til næsta Kötlugoss. Svo hefði átt að brúa varnargarðinn vestan við
    Langasker, þar sem kunnugir menn töldu líkast að vatnið færi í Dýralækjarkvísl. Þá hefði vatnið alltaf
    farið vestan við alla Álftavershaga. Og með þessum tveimur brúm með Skálmarbrúnni, hefði viðhaldð
    orðið mjög auðvelt á móti því sem nú er og verður.
    Sveinn Sveinsson (frá Fossi).
    120
    Morgunblaðið, föstudaginn 30. september 1960
    Til hvers eru prestarnir að tóna?
    Er ekki eðlilegt að maður spyrji, til hvers prestar séu að tóna, fyrst sumir prestar messa meira að segja
    í útvarpið án þess að tóna. En það má segja þeim prestum til hróss, sem það gjöra, að það sýnir
    sómatilfinningu þeirra að vera ekki að tóna, ef þeir geta það ekki, heldur lesa upp, þótt þeim beri að
    tóna eftir þeim venjum, sem hér tíðkast. En þetta sýnir, að tónið er óþarft við messugjörðir. Og því er
    ekki að leyna að það er og hefur víst alltaf verið meira og minna af prestum, sem eiga mjög erfitt með
    tónið, en koma sér þó ekki að því að lesa bara upp. Því er ekki að neita að tónið er skemmtilegt hjá
    einstaka presti, en það virðist ekki vera neitt trúaratriði í framkvæmd og engin skylda fyrir presta.
    Ég er alltaf að sjá það betur og betur að hér þarf að breyta til, og það hefðu prestarnir sjálfir fyrir
    löngu átt að gjöra á sínum stærri fundum. En betra er seint en aldrei segir máltækið, og svo er með
    það eins og margt annað sem horfir til bóta með nýjum aðgerðum.
    Mín skoðun er sú, að venjulegar messur ættu að breytast þannig, að presturinn þurfi ekki að vera
    fyrir altari nema við hátíðleg tækifæri, en haldi ræðu sína í prédikunarstólnum, eins og venja er, og
    láti syngja sálma á undan og eftir ræðu sinni. Þessi breyting mundi stytta messutíma verulega, en það
    er einmitt það sem nútíðarandinn vill og hefði m.a. þá þýðingu: 1) að guðfræðingum fjölgaði svo, að
    öll prestaköll í landinu, sem búin eru að vera árum saman prestlaus, fengju presta, með góðri aðbúð
    frá ríkinu. Þeir gætu þá líka verið barnakennarar, ef þeir vildu, svo sem lög mæla fyrir, enda er líka
    mikil þörf á því í sveitum. 2) Að þær kirkjur, sem árum saman eru búnar að vera hálftómar við
    messur, eins og víða er talað um, myndu breytast þannig að þær yrðu þéttskipaðar við hverja messu,
    eftir fólksfjölda í hverri sókn, í bæjum og sveitum, og að lokum í sjálfri Reykjavík.
    Í þriðja lagi skal ég nú reyna að skýra þessar skoðanir mínar dálítið betur. Það þýðir ekki að bjóða fólki
    nú á tímum í trúmálum það, sem þótti gott og gilt á dögum Hallgríms Péturssonar og Brynjólfs
    biskups í Skálholti, eða meistara Jóns Vídalíns, svo að eitthvað sé nefnt. Það þýðir ekki að berja
    höfðinu við steininn, tímarnir breytast og mennirnir verða að haga sér eftir því. Annað er ekki hægt,
    ef vel á að fara. Hraðinn er mikill og fólkið gefur sér ekki tíma til að sitja undir guðsþjónustum, sem
    eru lengdar að óþörfu með ýmsu því, sem ekki kemur trúmálum við, eins og áður er tekið fram í
    þessari grein og fólkið trúir nú ekki á lengur. Þetta vita prestarnir sjálfir manna bezt og ef messunum
    yrði snúið upp í fyrirlestra, sem prestarnir héldu í kirkjum sínum, ekki of langa, en gagnorða og
    kröftuga um trúmál og góða hegðun fólksins, trúi ég því að þessi aðferð yrði miklu happasælli fyrir
    safnaðarlífið í landinu, því kirkjur og prestar þurfa að starfa að trúmálum á ýmsan veg, eins og
    kunnugt er, svo sem að skíra, ferma og jarða.
    Morgunblaðið – Velvakandi – þriðjudaginn 8. nóv. 1960
    Enn um tón prestanna
    Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar enn nokkur orð um tónið og fer bréf hans hér á eftir:
    Guðmundur Guðgeirsson hárskeri í Hafnarfirði, skrifar smágrein í Morgunblaðið vegna smágreinar,
    sem ég skrifaði í sama blað um tón prestanna. Það er í sjálfu sér ekkert út á það að setja þó við séum
    ekki sammála, en skoðanamunur okkar á þessu málefni er þó æði mikill. En þar sem greinarhöfundur
    kemur inn á trúmál mín fyrr og síðar, er hann með bollaleggingar og sleggjudóma út í hött, eins og við
    mátti búast, þar sem við höfum aldrei saman verið.
    121
    En hvað sem trúmálum okkar beggja líður, þá finnst mér ekkert á móti því að ræða um fyrirkomulag
    og framkvæmdir við hvaða stofnun sem er og allar breytingar, sem tíminn leiðir í ljós, að til bóta geti
    orðið. Kirkjusókn er í greinilegri afturför og virðist því ekki úr vegi að ræða það sem kann að standa til
    bóta hjá kirkjunni.
    Enda þótt ég þekki greinarhöfund ekkert, geri ég ráð fyrir, að hann myndi fljótt breyta til í sinni
    iðngrein, ef hann sæi, að þær breytingar væru til stórbóta miðað við nútíma tækni. Og hví þá ekki að
    láta það sama ganga yfir kirkjusiðina? Breytingar á þeim gætu fært nýtt fjör í safnaðarlífið og orðið til
    þess, að kirkjan fengi fleiri starfsmenn og fleiri áheyrendur, en á hvoru tveggja er mikil þörf.
    Blessunarorð biskups
    Svo kemur greinarhöfundur m.a. inn á blessunarorð biskups, sem hann telur andlegan kyndil, sem
    lýst hafi þjóðinni gegnum margar þrengingar. Þetta er mikið sagt, því sumir þeirra áttu líka bölbænir,
    svo sem sögur greina. Sjálfsagt hafa biskuparnir alltaf verið eins og aðrir menn, misgóðir og orðið á
    yfirsjónir eins og öðrum breyzkum mönnum. Og skal ég nú nefna eitt dæmi af mörgum, sem sagan
    greinir:
    Fékk ekki að lesa frá altari
    Fyrir nokkrum árum var ungur guðfræðingur, mikilsvirtur fyrir gáfur, hegðun og virðuleik í framkomu
    allri. Hann tók prestsskapinn af köllun, en honum var ekki gefin söngröddin, og þegar til kom, átti
    hann mjög erfitt með að tóna. En hann var svo mikill sómamaður, að hann vildi ekki standa fyrir altari
    kirkjunnar, söfnuði sínum ef til vill til angurs og leiðinda. Fór hann því til þáverandi biskups til þess að
    fá leyfi til að lesa orðin af munni fram, en þurfa ekki að tóna þau. En biskupinn lagði ekki blessun sína
    yfir þá bón, sem varð til þess, að þessi mæti maður hætti við prestsskapinn og fékk sér aðra stöðu,
    sem líka var mikilvæg fyrir mannlífið í þessu landi. Þeirri stofnun, sem fékk þennan mæta mann í sína
    þjónustu, varð það til svo mikils sóma, að frægt varð um allt land.
    Þetta dæmi sýnir, að æðstu menn þjóðanna eru ófullkomnir eins og aðrir menn. Það er því aum trú
    að trúa á þá eins og þeir væru guðir. Ég geri ekki ráð fyrir að skrifa meira um þatta tónmál. Hef sett
    fram mína skoðun á því og er orðinn of gamall til að gera það að kappsmáli. Prestastétt landsins með
    sinn ágæta biskup í fararbroddi ræður svo hvort málið verður tekið á dagskrá eða ekki á þeirra næstu
    fundum.
    Sveinn Sveinsson (frá Fossi)
    Tíminn, fimmtudaginn 22. desember 1960
    Drepið á trúmál
    Í Morgunblaðinu 24. nóv. er smágrein með fyrirsögninni: Kirkjuritið deilir hart á útvarpshelgiathafnir.
    – Þar segir: „Kirkjuritið barst blaðinu í gær. Meðal greina í því ritar Gunnar Árnason ritstj. pistla.
    Drepur séra Gunnar þar á ýmislegt er snertir kirkjur og kristni. Þar fjallar hann m.a. um „útvarp og
    kirkju“, – tekur þar fyrir í dálítilli grein útvarpsmessurnar. – Síðar í greininni segir ritstjórinn m.a. á
    þessa leið: „Eru ekki skírn og kvöldmáltíð helgar einkaathafnir, en hvorki sýningaratriði né
    auglýsingastarfsemi? Hverja varðar um það á bifreiðaverkstæðum, í strætisvögnum, í skipsmatsal eða
    á gosdrykkjaknæpum t.d. hvort einhver ber barn sitt til skírnar eða krýpur við kvöldmáltíð Drottins á
    tilteknum stað og stundu. Og hver hlustar eftir þvílíku almennt talað með því hugarfari, að hann taki
    lifandi þátt í athöfninni á andlegan hátt. Frekar kann að vera, að það sé haft að spotti. Kirkjustjórnin á
    122
    ekki að líða slíkt útvarp. Áhætta misskilningsins og blátt áfram skemmdarinnar, er svo miklu meiri en
    sú von, að það sé einhverjum til sálubótar ….“
    Það sem séra Gunnar Árnason segir í þessum pistli sínum er nákvæmlega það sama og segja má um
    lestur Passíusálmanna í útvarpinu. Ég og eldra fólk var uppalinn við húslestra og lengur. En síðan að
    passíusálmarnir hafa verið lesnir í útvarpið, hef ég alltaf fundið og vitað að það átti ekki við, vegna
    þess sama, sem sá vitri prestur, séra Gunnar Árnason, talar um.
    Sannleikurinn er, að nú á tímum er vandfarið með trúmálin, svo að það hneyksli ekki fólkið, og verki
    öfugt á það, þetta veit séra Gunnar Árnason og sjálfsagt fleiri prestar?
    En eins og ég sagði hér að framan (og eldra fólk veit og miðaldra), voru húslestrar og passíusálmar
    lesnir allt fram undir að útvarpið kom til sögunnar. En þótt útvarpið hefði ekki komið til þjóðarinnar,
    þá var þessi húslestrarsiður alveg að hverfa og víða horfinn, af þeim sökum að flest yngra fólk (utan
    börn) var komið á aðra skoðun í trúmálum, trúði ekki á þennan sífellda lestur, og var þar af leiðandi
    orðið leitt á því. Svona var og er þetta, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Og hvað þýddi þá að
    vera að lesa lengur yfir fólkinu, þar sem það hlustaði ekki lengur á, svo er með passíusálmana í
    útvarpinu. Það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn, því það gerir bara illt verra, eins og menn vita.
    Þeir menn, sem kjörnir eru til þess að kenna Guðsorð, verða að haga sínum kenningum nokkuð eftir
    breytingum tímans, svo fólkið hlusti á þá, því það er no. 1.
    Í þessu sambandi vil ég nota tækifærið og geta þess að þeir helgidagapistlar, sem prestarnir skrifa í
    dagblöðin, eru alveg prýðilegir, það er skemmtilegt og mjög lærdómsríkt að lesa það. Það gengur
    næst því sem sjálfur meistarinn kenndi í sínum dæmisögum. Og þó láta þessir mætu menn hafa sig til
    þess eins og aðra presta, að gera sér mannamun í bænum sínum af sjálfum prédikunarstólnum.
    Þetta er eitt af fleiru sem kirkjustjórnin þarf að breyta til í messusiðum kirkjunnar, og yfirleitt öllu því
    sem telst til hégómaskapar, sem þó er sett í samband við trúmálin.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi
    123
    1961
    Þetta ár birtust fimm pistlar eftir Svein í Tímanum. Þar fjallaði hann m.a. um áfengi og
    uppeldi, strand á Skeiðarársandi 1903 og aðstoð við skipbrotsmennina, og læknamál til
    sveita.
    124
    Tíminn, föstudaginn 17. mars 1961
    Áfengi og uppeldi
    Helgi Ingvarsson yfirlæknir skrifar ýtarlega og vel yfirvegaða grein í blöðin um bjórmálið. Ekki ætlaði
    ég mér að endurtaka hér neitt úr þeirri grein, því ég geri ráð fyrir að fólk, sem les blöðin að einhverju
    leyti, lesi heilbrigðisgreinar eftir svo merkan lækni sem Helgi yfirlæknir er. Samt ætla ég að leyfa mér
    að taka upp orðrétt það, sem læknirinn segir síðast í sinni grein. Þar segir svo: „Ég legg til að
    ölfrumvarpinu sé frestað, en í þess stað geri ríkisstjórn og alþingi gagngerðar ráðstafanir til að
    rannsökuð sé þegar í stað úrbreiðsla drykkjuskapar hér á landi og samband alkohóls við óknytti og
    glæpi, örbirgð og ýmsa sjúkdóma einkum geðveiki“. Almenningur á heimtingu á að fá að vita það
    sanna í öllu, sem lýtur að alkohólinu. Ég veit að það muni opna augu margra. Að lokinni slíkri
    rannsókn legg ég til, að ábyrgar tillögur milliþinganefndar eða annarra tilkvaddra aðila til úrbóta verði
    lagðar fram svo fljótt sem unnt er. Að endingu þakka ég ríkisstjórninni fyrir að fella niður
    „kokkteil“boð á nýársdag. Ég vona að það verði forboði giftusamlegrar lausnar þesss vandamáls, sem
    hér hefur verið gert að umtalsefni.
    Þótt ég skrifi ekki meira um bjórmálið en það, sem er bent á hér að framan, þá ætla ég að nota þetta
    tækifæri og segja mína skoðun og koma með mínar tillögur í áfengismálinu og þó sérstaklega
    viðkomandi uppeldismálunum og framtíðinni.
    Nú sem stundum fyrr, hefur verið mikið ritað og rætt um ofbrúkun vínsins hjá eldra og yngra fólki,
    jafnt hjá kvenþjóðinni sem karlmönnum, þó með undantekningum. Í mínu ungdæmi og lengur var
    það venjan, að ungir menn og unglingar drukku ekki vín, og kvenfólk alls ekki, svo var það í þeim
    sveitum, sem ég þekkti til. Ég man það, að næstu árin áður en vínbannið kom til sögunnar, að vínið
    hækkaði í verði, sem þá þótti æði mikið í öllu peningaleysinu, en það varð til þess, að menn keyptu
    það áberandi minna en áður. Það stefndi því í rétta átt, áður en vínbannið skall yfir. Reynslan sýndi
    það þá á sínum tíma, að vínbann þýðir ekki nema að síður sé, því það má segja, að fólkið sé þrálátt
    eins og sauðkindin. Það, vill vera frjálst og í engri girðingu, því þegar vínbannið varð að lögum, þá fóru
    menn að sjóða og brugga í stórum stíl, eins og kunnugt var, sem ekki þekktist áður í sveitum landsins
    þar sem ég þekki til. Svo þegar alþingi linaði á vínbanninu með innflutning á Spánarvíni, þá áttu þeir
    menn, sem suðu, enn hægra með landann sinn í skjóli þess. Svo var einnig með læknavínið
    svokallaða. Allur þessi austur af ódýrum vínum varð til þess, að unga fólkið jafnt stúlkur sem piltar
    lærðu að drekka, þó með undantekningum, sem betur fór. Svo þegar vínbannið var uppleyst og vínið
    aftur gefið frjálst, sem kallað var, en af því að ungdómurinn var nú farinn að venjast víninu meir en
    áður þekktist, og nú orðið frjálst að kaupa það, þá jókst vínnotkunin mjög eins og kunnugt er, og því
    samfara meira lauslæti og ýmislegur annar ósómi, sem nú er að verða böl, eins og ávallt fylgir of
    mikilli vínneyzlu. En það er segin saga, að ungt fólk og eldra, gift og ógift, kvenfólk sem karlmenn, sem
    ætla sér að njóta lífsins með víni og lauslæti, geta alls ekki fundið með því varanlega lífsgleði, öðru
    nær. Heldur þvert á móti: Leiðindi, lasleiki og heimilisböl. En hvað er þá hægt að gjöra raunhæft í
    þessu mikla vandamáli, mun margur spyrja. Sumir áhugamenn hafa nú þegar látið skoðanir sínar í ljós
    og er það vel farið.
    1) Það er mín skoðun: Að allir foreldrar í hvaða stétt eða stöðu sem þau tilheyra óski þess, að börnin
    þeirra drekki ekki vín og noti ekki tóbak. Þessu ætti maður að þora að slá föstu. En til þess, að svo geti
    orðið, fyrst og fremst með sínu fordæmi. Þannig: Að nota ekki vín í heimilisveizlum og vera ekki sjálf
    undir áhrifum víns heima fyrir, kenna börnunum nógu fljótt, að vínið geti verið húsmeðal rétt notað,
    en eitur að drekka það, eins og flest meðul eru, og bezt væri líka að kenna þeim nógu fljótt viðbjóð á
    tóbaki. Líka þurfa foreldrar ríkir sem fátækir að vera yfirleitt samtaka um það, að venja börnin sín á að
    125
    vera ekki með of mikla vasapeninga, því það getur haft ýmislegt ógagn í för með sér, sem ekki verður
    talið upp hér.
    Svo þegar barnaskólarnir taka við börnunum, þá má segja, að aðalvandinn sé kominn á þeirra hendur
    með uppeldið samhliða heimilunum og alltaf eykst vandinn eftir því sem börnin þroskast andlega og
    líkamlega, það er því mjög nauðsynlegt að góð samvinna sé milli kennara og foreldra um
    áframhaldandi uppeldi barnanna. Enda eru það skólastjórar og kennarar, hvort sem það eru konur
    eða karlar, sem mest og bezt geta haft áhrif á ungdóminn á skólaaldrinum. En vandinn er mikill, því
    æskan er ör og viðkvæm og stórbrotin. Það þarf því mikla lipurð, lag og festu til þess að vel fari eins
    og allir góðir kennarar vita og þekkja.
    2) Allur félagsskapur ungmenna ætti að hafa á sinni stefnuskrá að banna ölvuðu fólki aðgang að
    skemmtisamkomum sínum og fundum, og það ætti allur félagsskapur í landinu að gjöra, hverju nafni,
    sem hann nefnist. Ef því væri fylgt fast eftir, myndi það hafa stór áhrif til bóta, og þá komast fljótt í
    vana og þykja svo í framtíðinni meira en sjálfsagt. Menn og félög, sem vinna að bindindisstarfsemi í
    ræðu og riti og í veruleika, sem kallað er, getur greint á um aðferðir, þótt stefnt sé að sama marki
    með útrýmingu drykkjuskapar. En eins og nú horfir með ungdóminn í þessum málum, þá finnst mér,
    að áróðurinn muni orka meiru fyrir framtíðina en nútímann vegna þess, að langan tíma þarf til þess,
    að verulegur árangur náist. En þeim mun fleira af nútímaæsku, sem tekur í alvöru bindindismálið á
    sína stefnuskrá, þeim mun meiri líkur eru fyrir því, að næsta kynslóð verði bindindissöm, og þá fari
    bindindismálið meir og meir að verka innanfrá, sem verði þjóðarmetnaður í því að vera bindindissöm
    þjóð á vín og tóbak. Mér finnst nú margt benda til þess, að bjartari tímar séu framundan í þessu máli
    en áður hefur verið. Áróðurinn er mikill, en þó með meiri gætni en áður, og ég hygg miklu almennari
    en áður hefur þekkzt og á eftir að koma betur og betur í ljós með almenningsálitið og þá er komið á
    heilbrigðan grundvöll. Þeir menn, sem mesta ábyrgð bera á uppfræðslu ungdómsins, utan
    heimilanna, svo sem prestar og kennarar, munu flestir vera bindindissinnaðir og áhugasamir
    reglumenn, og sumir þeirra beinlínis uppeldisfræðingar. Þetta hefur mikið að segja og er eitt af því,
    sem styrkir hvað mest mína framanritaða bjartsýni og skoðun í þessu bindindismáli. Það er því mín
    skoðun að enn ætti að hækka verulega verðið á áfenginu, því það myndi segja sína sögu, og hafa
    strangt eftirlit: Með bruggi, smygli og allri leynisölu, þátt það sé erfiðasta verkið í þessu vínsölumáli.
    Því það er eins og áfengið komi úr öllum áttum – lofti, legi og láði.
    En þó þessir erfiðleikar séu fyrir hendi, þá er það sama að verðhækkun á áfenginu er réttmæt og til
    stórbóta, því vínsalan mundi minnka og leynisalan líka, og þótt ríkið tapaði tekjum við þessa
    breytingu, þá myndi það fljótt vinnast upp í öðru, svo sem: Betri vinnubrögðum við ýmisleg störf,
    peningasparnaði fyrir vínkaup, drykkjusjúklingum fækka og ekki sízt, að æskan ætti erfiðara með
    vínkaup og þá er mikið fengið í þessu máli. En þeir, sem vilja sóa peningum sínum í vínkaup, og þó
    það hækkaði mikið, þá þeir um það, því enginn mun reka þá til þess. Enda bezt, að fólkið sjálft ráði
    sem mest sínum fjárreiðum, og allar skyssur, sem menn gera, ættu að verða til þess að bæta ráð sitt.
    Ég endurtek það enn: Að allir foreldrar og allir þeir, sem ábyrgð bera á uppeldi æskunnar vilji allt til
    þess vinna, að það fari sem bezt úr hendi.
    Sveinn Sveinsson (frá Fossi).
    126
    Tíminn, laugardaginn 1. júlí 1961
    Leiðréttingar og stuttar endurminningar
    Eins og útvarpshlustendur muna, var erindi flutt í útvarpinu fyrir nokkru um þýzka strandið á
    Skeiðarársandi (Svínafellsfjöru 1903), og alla þá hrakninga og dauða, sem þessir strandmenn urðu að
    þola, sem ekki verður endurtekið hér í þessum línum. En svo undarlega vildi til í þessu erindi, sem var
    þó vel flutt, að það gleymdist að nefna Þorgrím lækni Þórðarson í Borgum í Nesjum, sem framkvæmdi
    aðalverkið við þessar óvenjulega miklu skurðaðgerðir á þýzku strandmönnunum, sem nú er búið að
    leiðrétta hjá Velvakanda Morgunblaðsins. Enn fleira í þessu erindi hefur gleymzt, að vísu ekki eins
    alvarlegt og með lækninn, sem ég ætla nú m.a. að leiðrétta:
    1) Að einn strandmannanna varð eftir á Breiðabólstað fram á sumar. 2) Þegar þetta gerðist, sat í
    Ásum í Skaftártungu presturinn, séra Sveinn Eiríksson. Fengu læknarnir hann sér til aðstoðar, því að
    hvor í sínu lagi höfðu þeir áður fengið hann sér til aðstoðar, og stundum fyrir sig, ef þeir urðu að
    yfirgefa sjúklinga sína of fljótt. Svo var að þessu sinni, þegar Þorgrímur læknir var búinn að taka þá
    limi, sem með þurfti af strandmönnunum o.s.frv., þá varð hann að fara aftur í sitt eigið hérað, en fékk
    séra Svein til að vera eftir á Breiðabólstað, Bjarna lækni til aðstoðar við sjúklingana og skipti það
    mánuðum. Séra Sveinn Eiríksson var mikið gefinn fyrir að hjálpa og stunda sjúkt fólk og var tíðast
    sóttur, þegar mikið lá við og eins til sængurkvenna, þegar seint gekk með fæðingu. Eitt sinn var hann
    sóttur til konu, sem vonlaust þótti að gæti fætt, og var líka vonlaust að ná í lækni. Það var í Öræfum.
    Fór hann þá í smiðju, smíðaði tangir, sótthreinsaði þær, og náði svo barninu, sem þá var dáið, en
    konan lifði. Annað skipti var Bjarni Jónsson, læknir, að skera upp bónda í Skaftárdal vegna sullaveiki,
    og lá hann heima hjá sér. Fékk læknir þá séra Svein sér til aðstoðar og gekk þetta allt ótrúlega vel í
    baðstofunni. Og þegar þetta var búið, þurfti læknirinn að fara heim til sín, því að Skaftárdalur er mjög
    afskekktur og erfitt um samgöngur. Séra Sveinn varð því þar eftir til að annast sjúklinginn. Ekki
    einungis fyrst, heldur allan tímann meðan útgangur var, fór hann lengst af á hverjum degi frá Ásum
    að Skaftárdal allt sumarið til þess að skipta um umbúðir. Vegalengdin milli þessara bæja er alltaf
    fjögurra tíma lestaferð, og þar með Skaftá eða Skaftárdalsvatn, sem yfir þurfti að fara. Og svo vel
    heppnaðist þessi lækning, að bóndinn komst til fullrar heilsu og lifði í mörg ár eftir þetta, og vann
    mikið. En fólkið á þeim bæjum, sem eru á þessari leið, sem sá á hverjum degi til ferða séra Sveins, var
    sammála um það, að aldrei myndi hann taka tveggja aura virði fyrir þetta allt saman af fátækum
    bónda. Og þegar þetta komst í tal meðal manna, sem þekktu hann bezt, sagði Þuríður í Gröf, systir
    séra Sveins,: „Guð launar fyrir hrafninn“. Það var trú hennar, enda sýndu þau hjónin í Gröf, Gísli og
    Þuríður, það oft í verki með greiðvikni og myndarskap við náungann. Séra Sveinn var í alla staði góður
    prestur, en meiri læknir hefði hann orðið, hygg ég.
    Báða læknana þekkti ég nokkuð, þó meira Bjarna Jónsson. Hann var að sumu leyti góður læknir, en
    meiri hefði hann líkast til orðið sem fræðimaður. Þorgrímur Þórðarson var einn af þeim fáu mönnum,
    sem fær hefði verið um að læra næstum hvaða námsgrein, sem var.
    Báðir voru þessir læknar hin mestu ljúfmenni og reglumenn á alla lund, og þá spilltu konur þeirra ekki
    mannkostum þeirra, því að báðar voru þær hinar ágætustu að mannkostum.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    127
    Tíminn, miðvikudaginn 16. ágúst 1961
    Á förnum vegi
    Sveinn Sveinsson frá Fossi ræðir hér m.a. um búskap, lækna og presta í sveitum landsins:
    Síðastliðnar vikur eða mánuði kom hver greinin af annarri í Morgunblaðinu eftir ýmsa merka lækna
    og þar á meðal dr. Sigurð Sigurðsson landlækni. Allar hljóðuðu þessar greinar um læknaskipun og
    læknaleysi í dreifbýli sveitanna. Enda er þetta ekkert hégómamál, heldur er það mjög aðkallandi mál,
    sem þarf að reyna að bæta úr sem allra fyrst. Mér skildist á þessum greinum læknanna, að það væri
    engu síður fólksfæðin í sumum læknishéruðum en launamálin, sem þeir settu fyrir sig að sækja um
    þau héruð, sem fámennust eru og aðstaðan verst með sjúkraskýli í dreifbýlinu, því að á þeim stöðum
    hefðu þeir alltof litla æfingu í sínu starfi. Enda er það eitt með öðru, sem rekur búendur úr dreifbýlinu
    í þéttbýlið eru erfiðleikar með læknishjálp. Ég þykist vita, að dr. Sigurður Sigurðsson landlæknir haldi
    þessu máli vakandi og geri í því við ríkisstjórn og Aþingi, að eitthvað raunhæft sé gert í þessu
    vandamáli. Mér finnst það tilheyra embætti hans að vera með í þeim úrræðum og þótt lakari maður
    væri en dr. Sigurður Sigurðsson, sem er þjóðkunnur maður fyrir læknisstörf sín, sem hann leysti svo
    vel af hendi, með viti og dugnaði, þjóðinni til heilla og blessunar.
    Ég hef áður skrifað í blöðin um embættismenn í sveitum landsins og bent á, að ekki borgaði sig fyrir
    unga embættismenn í sveit að búa við skepnur eða fénað og hirða um það, því að nú á tímum er ekki
    að tala um vinnufólk og útlit fyrir að svo verði í framtíðinni, enda alltof dýrt. Það er allt annað með
    gróna eldri embættismenn, þótt þeir geti búið sæmilega vel, eða bændaefni, sem eiga fénað og fá
    nýbýlastyrki og hagkvæm lán og geta unnið algerlega að þessu sjálfir við búskapinn. En það er önnur
    saga, að flestir embættismenn í sveitunum hafa alltof lítið að starfa við sitt eigið embætti og það þarf
    að bæta þeim það upp á annan hátt en við búskap. Það þarf að stækka umdæmi þeirra og hækka laun
    þeirra. Á þessum tímum mælir allt með því og það er skylda ráðamanna þjóðarinnar að fylgja
    tímanum. Annað er afturför, eins og flestir vita. Hvort sem það er ríkið, félagsskapur eða
    einstaklingar, sem ekki nota sér tæknina til framfara og þæginda, hljóta þeir að dragast aftur úr
    hinum, sem nota sér það. Svo ég víki nú máli mínu aftur beint til læknanna, ætla ég að koma með eitt
    dæmi. Fyrir nokkrum árum var ég samnátta ungum læknishjónum, sem voru að flytja í
    sveitalæknishérað. Gaf ég mig á tal við þau, svona til að stytta kvöldið. M.a. benti ég þessum ungu
    hjónum á af minni þekkingu og reynslu, að þau skyldu ekki búa við skepnur, heldur kaupa það, sem
    þau þyrftu af landbúnaðarvörum, mjólk og annað af nábúum sínum eða bændum, því að það mundi
    margborga sig. En læknirinn var nú ekki aldeilis á sama máli og ég og sagði sem svo: – Það má þó ekki
    minna en að maður hafi svona tvær kýr. En svo frétti ég síðar, að það voru einmitt þessar tvær kýr,
    sem gerðu þessum hjónum mestan baga og erfiðleika á ýmsan hátt, svo sem að geta farið bæði að
    heiman yfir heila nótt, og yfirleitt að hugsa um þær og annast, enda sízt ódýrar í rekstri en kaupa
    mjólkina – öðru nær. Læknarnir þurfa eiginlega alltaf að flýta sér. Þeir mega því ekki binda sig við
    annað starf en sitt eigið. Það þarf því að hlynna vel að þeim með góða aðbúð og peningaráð. Þó má
    ekki byggja of stórt fyrir embættismenn í sveitum landsins. Það getur verið of dýrt í rekstri með
    upphitun og hreingerningar o.s.frv.
    En það má segja með búskapinn, að það sé þó nokkuð annað með presta, sem þjóna í
    sveitaprestaköllum, að þeirra starf sé öðru vísi en lækna, því að þeir eru ekki eins bundnir við sitt
    starf. Og ef þeir vilja braska við búskap, þá geta þeir undir vissum kringumstæðum, ef þeir þurfa þess,
    haft prestverkin í hjáverkum við búskapinn. Og með messuföll gerir ekki svo mikið til, því að það fólk,
    sem vant er að sækja kirkjur, kann sem faðirvorið mest af því, sem prestarnir venjulega segja, kenna
    og biðja um í bænum sínum af prédikunarstólnum. Svo er enn annað, að allt fólk, sem vill, getur þá
    líka hlustað á útvarpsmessur. En fyrir það fólk, sem ekki sækir kirkjur á annað borð, þá vita prestarnir
    128
    manna bezt, að fyrir það fólk er ekkert hægt að gera í kirkjum sínum. Og ég segi fyrir mitt leyti, að ég
    er hrifnari af því, sem prestarnir skrifa um kristindóminn í sínum helgidagapistlum í dagblöðunum
    Tímanum og Morgunblaðinu en þegar þeir hinir sömu mætu menn og fleiri prestar eru komnir í
    prédikunarstólinn. Þá er eins og þeir trúi á fleiri guði en guð almáttugan. Í þessu sambandi er rétt að
    minnast á tón prestanna. Ég er bara farinn að kunna svo vel við, þegar séra Gunnar Árnason les, en
    tónar ekki blessunarorðin fyrir altari, og söngfólk hans er prýðilega æft í að svara honum, þótt hann
    lesi en tóni ekki „þau heilögu orð“. Þó þekkir maður presta, sem hafa betri málróm til að lesa en séra
    Gunnar, sem í raun geta ekki tónað, en tóna þó. Það er mín eindregna skoðun, að þeir prestar, sem
    erfitt eiga með tónið, ættu að lesa blessunarorðin eins og séra Gunnar Árnason gerir, hvort sem það
    eru eldri prestar eða nýbakaðir. En það er skylt að geta þess, að það er ánægjulegt og hressandi, að
    hlusta á þá presta fyrir altari, sem tóna reglulega vel. Svo eru aðrir, sem tóna sæmilega vel og enn
    aðrir, sem ættu að lesa orðin en ekki að tóna þau, þótt það væri ekki nema fyrir fólkið, sem hlustar á
    messur.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi.
    Tíminn, þriðjudaginn 7. nóvember 1961
    Athugasemd
    Laugardaginn 28. október fór fram að Prestbakka á Síðu, útför Jóns Jónssonar, bónda að Teygingalæk.
    Þann sama dag komu minningargreinar um hann í Tímanum og Morgunblaðinu, vel og virðulega
    skrifaðar sem vera bar um svo mætan mann. En láðst hefur að geta þess í þessum greinum, að eitt af
    áhugamálum Jóns á Læk voru menntunarmál ungdómsins í landinu, sem hann sýndi í verki með því
    að koma hinum eina syni sínum, Ólafi Jóni, tiil mennta á búnaðarskólann á Hvanneyri. Jón á Læk var
    svo greindur maður, að hann þekkti vel, hvað menntunarleysi bænda gerði þeim erfitt fyrir með
    margt, þótt brjóstvitið hefðu þeir margir gott. Fyrrverandi skólastjóri á Hvanneyri, Runólfur
    Sveinsson, taldi Ólaf á Læk einn af sínum beztu nemendum. Það má því vænta góðs af honum, þegar
    fram líða stundir sem föður hans. Enda hafa báðir þeir feðgar setzt að á sinni föðurleifð með góðum
    kjörum, og hefur það tíðast þótt gott veganesti í byrjun búskapar.
    Guð blessi minningu Jóns á Teygingalæk og fjölskyldu hans.
    Sveinn Sveinsson (frá Fossi)
    Tíminn, þriðjudaginn 21. nóvember 1961
    Veizlur, vín og fleira.
    Nú á tímum sem oft áður, er mikið talað um víndrykkju fólks hér í Reykjavík og víðar á landinu. En
    jafnframt því, sem menn tala um, hvað sé hægt að gera til úrbóta í þessu vandræðamáli, þá rísa upp –
    bisnissmenn – í viðbót við þá, sem fyrir voru, sem kosta miklu fé til þess að koma sér fyrir á hentugum
    stöðum til þess að græða á náunganum, og þá sérstaklega á vínsölu. Og þótt sú sala sé að nafninu til
    leyfileg lögum samkvæmt, þá finnst mér, að þeir menn, sem reka þá atvinnu að selja vín, gætu margt
    þarfara gert fyrir þjóðfélagið en það óhappaverk. En aftur á móti væri það mikið happaverk, ef þeir
    menn, sem ráða þessum vínsöluleyfum, á hótelum og matsölustöðum o.s.frv., aftækju þau með öllu,
    það væri bezt fyrir alla hlutaðeigendur.
    129
    Áður hef ég skrifað í dagblöðin, um veizlur, vín og fleira. Hefur það borið mikinn árangur, menn eru
    mjög almennt hættir að hafa vín i skírnar- og fermingarveizlum, og allir, sem í hlut eiga, kunna því
    mæta vel, og þykir nú orðið alveg sjálfsagt. Og þeir, sem eru nú farnir að halda heimilsveizlur sínar án
    víns, finna, hvað það er mikill munur, s.s. – með: betra veizluúthald, sparnað með vínkaup o.fl. Enda
    er vínið yfirleitt notað of mikið i veizlum, ef það er haft um hönd þar á annað borð, annað veldur
    óánægju boðsgesta. Það er því ekki eitt, heldur allt, sem mælir með því, að hafa ekki vínið í veizlum.
    Dæmi: Þegar ég bjó eystra, þá var í seinni tíð haldið þorrablót í sumum sveitum, með stórum veizlum.
    Nú var það einu sinni sem oftar, að Skaftártungnamenn héldu slíkt boð með stórri veizlu, komst þá í
    tal, hvort vín yrði haft eða ekki, en niðurstaðan varð sú, að hafa ekki vín, en þrátt fyrir það varð
    samkoman mjög ánægjuleg og meir en það, því að þar voru gerð samskot með nokkra upphæð til
    Slysavarnarfélagsins, talað mikið um barnauppeldi, o.fl. En dásamlegast af öllu þessu var þó það, í lok
    veizlunnar, hvað fólkið var ánægt yfir því, að hafa ekki vín í veizlunni, jafnt þeir, sem voru vínhneigðir
    og hinir, sem ekki smökkuðu vín. Þetta er sönn saga.
    Þeir miklu andans og hugsjónamenn, Tryggvi heitinn Þórhallsson forsætisráðherra og Jónas Jónsson
    dómsmálaráðherra, réðu því, að hafa stórhátíðina á Þingvöllum 1930 vínlausa, þótt þar væru í boði
    kóngar og önnur stórmenni utanlands frá. Eftir á þótti þessi ráðstöfun einstæð og merkileg, af öllum
    sanngjörnum mönnum og varð þjóðinni til sóma, og verður til lærdóms fyrir æðri og lægri, þegar
    fram líða stundir. Runólfur heitinn Sveinsson, skólastjóri á Hvanneyri, gerði þá kröfu, sem sumum
    þótti nokkuð hörð, af svo ungum skólastjóra, að ölvuðum mönnum yrði bannaður aðgangur að öllum
    skemmtisamkomum þar. Þetta reyndist þó ágætlega, og verður til lærdóms og eftirbreytni síðar meir.
    Allur félagsskapur ungmenna ætti nú þegar að hafa á sinni stefnuskrá að banna ölvuðu fólki aðgang
    að skemmtisamkomum sínum og fundum, og það ætti allur félagsskapur í landinu að gera, hverju
    nafni sem hann nefnist. Ef því væri fylgt fast eftir, myndi það hafa stór áhrif til bóta, og þá komast
    fljótt í vana og þykja svo í framtíðinni meir en sjálfsagt. Vínið ætti enn að hækka mikið í verði, það er
    krafa, sem ráðamenn þessa máls verða að taka til greina, því að það mundi stórflýta fyrir að vinna
    bug á ofnautn áfengis meðal unglinganna. Og þótt ríkið tapaði tekjum við þessa breytingu, þá myndi
    það fljótt vinnast upp í öðru, svo sem: meiri og betri vinnubrögðum við ýmisleg störf þjóðfélagsins,
    peningasparnaði við vínkaup þeirra efnaminni. Drykkjusjúklingum mundi fækka og þá ekki sízt, að
    æskan ætti þá erfiðara með vínkaup og þá er mikið fengið í þessu máli. En þeir, sem hafa fjárráð og
    vilja vinna til að sóa peningum sínum í vínkaup, jafnt fyrir það þótt það hækkaði mikið í verði, þeir um
    það. Og ef ráðamönnum þessara mála þykir ekki henta að hækka verðið á víninu, þá líka þeir um það,
    en ábyrgðarlaust er það ekki. Ég veit vel, að ýmsir erfiðleikar í þessu vínmáli ungdómsins, eru fyrir
    hendi, svo sem m.a. hersetan í landinu, skipakomur frá ýmsum löndum, samgöngur í lofti o.s.frv. En
    hvað um það? Því fremur nauðsynlegt að gera allt, sem í okkar valdi stendur fyrir ungdóminn. Fyrst
    og fremst – foreldar, kennarar, prestar, læknar, blaðamenn, ríkisútvarpið, og síðast, – en ekki sízt, –
    ríkisstjórn og Alþingi, og eins og áður er tekið fram í þessari grein – allur félagsskapur í landinu, hverju
    nafni sem hann nefnist. Ísland á mikinn hóp vökumanna, verum samtaka.
    130
    1962
    Nú birtust þrjár greinar eftir Svein í Tímanum en ein í Morgunblaðinu. Tveir pistlanna í
    Tímanum voru í greinaflokknum Á förnum vegi, en pistill í Morgunblaðinu var í Velvakanda.
    Meðal umfjöllunarefna Sveins þetta árið má nefna prédikanir í útvarpinu, umfjöllun um
    viðtal við Gissur í Selkoti, sæluhúsið í Hafursey og kvennaskort til sveita.
    131
    Tíminn, fimmtudaginn 11. janúar 1962
    Á förnum vegi
    Sveinn Sveinsson frá Fossi hefur sent okkur eftirfarandi smápistil um útvarpsmessur:
    „Það virðist vera góð tilbreyting í útvarpsmessum, þegar prestar utan af landi að stíga í stólinn! Þetta
    gerist einstaka sinnum. Enn betri væri þó þessi tilbreyting, ef þeir gerðu hvort tveggja að þjóna fyrir
    altari og prédika.
    Í dag, sunnudaginn 7. janúar, daginn eftir þrettándann, messaði séra Jón Hnefill Aðalsteinsson frá
    Eskifirði. Lagði hann út af guðspjalli um Jesús 12 ára. Mér líkaði prédikun hans mjög vel. Ræðan var
    stutt og laggóð, og kenning hans til ungdómsins og um upppeldi hans var með afbrigðum góð. Það
    hljómaði því ekki vel við þessa kenningu, hjá þessum ágæta presti, þegar hann var að kenna
    ungdóminum „persónudýrkun“ í blessunarorðunum. Hvenær ætlar kirkjan að breyta þessu“
    Hárbarður.
    Tíminn, laugardaginn 24. febrúar 1962
    Á förnum vegi
    Hér er bréf um Búnaðarþátt útvarpsins og sandgræðsluna.
    Í búnaðarþættinum fyrra mánudag ræddi Gísli Kristjánsson, ritstjóri, við Gissur Gissurarson, Selkoti
    undir Eyjafjöllum. Það var vel til fallið að ræða við Gissur. Hann er rúmlega á miðjum aldri og greindur
    vel, því stundum hafa verið tekin upp samtöl í útvarpið við of gamla menn, óvana því verki, sumir
    farnir að tapa minni, málfarið að bila og kannske kjarkurinn líka, og þeir sem tala við þessa menn,
    hafa stundum orðið að grípa fram í, svo vel færi. Samtal þeirra, Gísla og Gissurar, var skemmtilegt og
    fróðlegt um margt, en þegar þeir fóru að tala um Skógasand, þá slepptu þeir að tala um atriði, sem
    merkileg teljast, en um fjárbeitina, sem ekki heppnaðist til að byrja með, töldu þeir ef til vill að
    vatnsskortur hefði ráðið, en ég hygg að það geri ekki svo mikið til með sauðfé, sem gengur á nýrækt,
    safinn er það mikill í nýgræðingnum. Ég hygg, að aðalorsökin sé sú, að féð hafi legið og staðið við
    girðingarhliðið og vagað þar fram og aftur. Girðingar fyrir sauðfé hafa sína kosti, en líka sína stóru
    ókosti. Það er hörmung að sjá féð í þessu ástandi, vikum og mánuðum saman, við girðingarhliðin. Það
    hef ég víða séð á ferðum mínum og í smalamennsku. Sauðkindin er ótrúlega þrálát og leggur á sig
    hungur og erfiði til að komast þaðan, sem hún vill ekki vera. Margt hafa menn lært af
    sandgræðslunni, svo sem vinnubrögð við sáningu með vélanotkun, að gera allt í senn með fleiri
    vélum, svo sem ein væri. Það er mikið framtíðar- og framfaramál með Skógasand og Sólheimasand og
    fleiri slíka staði á landi hér, og til eru bændur, sem búa á mýrarjörðum, sem óska þess að þeir ættu
    sandblett á sínum jörðum til að rækta í tún, svo mikinn mun gera þeir á að rækta sand og mýri, þótt
    hvort tveggja sé nauðsynlegt. Eins og kunnugt er, er sandgræðslan byrjuð að rækta afrétti, heiðar og
    heimahaga, allt til beitar, eftir því sem hlutaðeigendur óska eftir.
    Ráðamenn þjóðarinnar, svo sem Alþingi og ríkisstjórn, sýna það í verki, að þeir kunna að meta þetta
    stóra hagsmunamál þjóðarinnar, með fjárveitingum og trausti á því, að unnið verði sem fyrr að þessu
    stóra máli, með hagsýni, trúmennsku og dugnaði.
    Sveinn Sveinsson (frá Fossi).
    132
    Morgunblaðið, þriðjudaginn 27. mars 1962
    Velvakandi – Sæluhús á Hafursey
    Sveinn Sveinsson frá Fossi skrifar:
    Í Mbl. 15. marz sl. segir frá vígsluathöfn sæluhússins við Hafursey á Mýrdalssandi. Þar segir m.a. að
    frá fornu fari hafi verið sæluhús þarna við eyna. En það er mikill misskilningur, því í manna minnum
    var ekki sæluhús í eynni fyrr en nokkrum árum eftir síðustu aldamót, og þar til urðu ferðamenn, sem
    leituðu skjóls í eynni vegna veður eða annars að leita upp skúta til að liggja í, þegar svo bar undir og
    binda hesta sína á streng, sem kallað var, yfir nóttina.
    Vestur-Skaftafellssýsla lét byggja húsið og hesthús og sáu þeir feðgar Einar heitinn Hjaltason og
    Haraldur í Vík um byggingarnar og umsjón með hirðingu húsanna meðan ferðazt var á hestum. En
    þegar bílarnir tóku við öllum ferðalöngum yfir sandinn og líka að aka lömbum til slátrunar að Vík, þá
    var með öllu hætt að fara á hestum fyrir sandinn. Kom þá enginn í sæluhúsið úr því og húsið þar alveg
    í hrirðuleysi, þar til allt fauk. En havð sem því líður, þá er gott að búið er að byggja þarna vandað
    sæluhús, sem að er bæði prýði og öryggi.
    Tíminn, fimmtudaginn 19. júlí 1962
    Mesta vandamál bændastéttar
    Á nýafstöðnu Búnaðarþingi tók ég ekki eftir því að þar væri komið inn á mesta framtíðarvandamál
    landbúnaðarins, sem þó var gert á síðasta búnaðarþingi þar áður, með erindi, sem lesið var upp í
    útvarpinu, eftir Steinþór Þórðarson í Hala í Suðursveit. Auðvitað er nú ekki hægt að skrifa það orðrétt
    eftir minni, en það gerir ekki svo til. Erindið hljóðaði um bændur, sem búa víða í sveitum landsins, án
    þess að fá sér eiginkonur og sumir aleinir. Og lagði hann til að ríkið borgaði kaupakonum að öllu eða
    einhverju leyti, ef þær fengjust til þessara manna. Auðvitað í þeirri von að þær ílentust þar, sem
    húsfreyjur. Þessi tillaga Steinþórs var tilraun og vel hugsuð. Ég hef oftar en einu sinni skrifað í blöðin
    um þetta mál og átalið þessa stefnu manna að láta sér detta í hug að byrja búskap án þess að fá sér
    maka. Í mínu ungdæmi og þar áður, var byrjað á því að festa sér konuefni, um annað var ekki að tala.
    Enda eðlilegast að hún væri frá byrjun með í ráðum, og kraftarnir þá tvöfaldaðir til framkvæmda í
    verki sem hugsun. Og tilhlökkunin þá meiri út í þetta heilaga ævintýri, sem alltaf getur misheppnazt.
    En vogun vinnur og vogun tapar. En ef mennirnir sjálfir gera ekkert, ja þá verður það ekkert. Það er
    lögmál Guðs. Og þó að þessir bændur geti búið vel með vélum sínum, þá rekur fljótt að því að það
    nær skammt til framtíðarinnar, ef ekki fylgir því hjónaband. En þar sem ég hef áður í skrifum mínum
    talið með réttu, að þetta væri karlmönnunum sjálfum mest að kenna, því þótt ekki væri nóg af
    stúlkum til í sveitunum út af ástæðum, sem allir þekkja, þá væri hægt að fá stúlkur í Reykjavík, bæjum
    eða frá útlöndum, með hjónaband fyrir augum, þótt þær vildu ekki fara í vinnukonustöðu, því það er
    eðli manns og konu að lifa saman í hjónabandi. Þótt þetta sé nú einmitt mikið að breytast sem nú skal
    greina.
    Síðan þetta var, hef ég kynnt mér málið betur t.d. hér í Reykjavík, og þótt ég hafi nú ekki í nokkur ár
    farið út fyrir húsdyr, þá er það nú samt svo, að anzi margt af ungu fólki hér í Reykjavík, piltar og
    stúlkur hafa gaman af að tala við mig stöku sinnum, og þá tala ég nú ekki um sjálfan mig. Því á betra
    verður ekki kosið fyrir gamlan mann, en að tala við og kynnast þessu unga, fallega fólki hér í
    Reykjavík. En út af málefni þessarar greinar, tala ég hér einungis um þroskaðar stúlkur, tvítugar og
    þar yfir, en eins og gefur að skilja er þetta ekki nema lítill hluti af fjöldanum yfir alla Reykjavík. En
    133
    þessi hluti kvenna, sem ég hef átt kost á að ræða við, bendir tvímælalaust á það, að meirihluti þeirra
    hefur ekki áhuga fyrir sveitarbúskap. Og skal ég nú skýra þessi samtöl betur.
    Eins og gengur, verður manni fyrst á að tala um veðrið, og svona um daginn og veginn. Þá um
    framtíðina, svona í gamni og alvöru, hvort þær hugsi sér ekki að ganga í hjónaband og hafa
    húsfreyjustörfin fyrir aðalatvinnu. – Við þeirri spurningu hafa þær verið nokkuð óákveðnar. En svo hef
    ég fært mig upp á skaftið og spurt þær hvort þær mundu ekki vilja verða húsfreyjur í sveit, því þar
    byggju sumir bændur kvenmanns- og konulausir og þyrftu nauðsynlega að fá sér konuefni. Þá hefur
    ekki staðið á svari, og því neikvæðu, svo sem að þær væru ráðnar eða gætu haft hér fasta atvinnu við
    hækkandi kaup og meira, meira jafnrétti við karlmenn, atvinnan að aukast meira og meira vegna
    vaxandi iðnaðarreksturs og getum því verið sjálfs okkar herrar, og dettur því ekki í hug að binda okkur
    við hjónaband og barneignir í sveit. En ef þið yrðuð nú ástfangnar af myndarlegum manni, sem býr
    konulaus í sveit, ja við látum okkur gleyma því, og svo er það búið, og þó að orðalagið væri ekki svona
    ákveðið hjá öllum, þá var meiningin sú sama, að örfáum undantekningum.
    En ef ykkur byðist húsfreyjustaða hér í Reykjavík, já það er nú á margan hátt öðru vísi, svo sem
    skemmtilegra og svo þessi ágætu barnaheimili víða hér í Reykjavík, sem létta svo vel undir með
    uppeldi barna, og er að sumu leyti betra en mæður geta í té látið við börn sín. Og ég tala nú ekki um,
    ef móðirin hefði með þvi að geta komið barni sínu á svona heimili, að öðru leyti ástæður til að vinna
    hálfan daginn, fyrir þetta ágæta kaup, sem nú er borgað, og báðir græða, vinnuveitandinn, sem
    vantar vinnuna og húsfreyjan, sem vantar peningana, fyrir utan tilbreytinguna, sem getur í vissum
    tilfellum haft góð áhrif á húsfreyjustörfin. Svo er enn, ef manni líkar ekki konustaðan eða
    eiginmaðurinn eða hvort tveggja. Þá er hægara að breyta til aftur hér í Reykjavík, en í sveitinni, sem
    oft vill nú koma fyrir meðal hjóna.
    Það kann nú að þykja skáldskapur sumt af því sem ég hef skrifað hér að framan, en svo er ekki. Utan
    það að orðalagið hjá hverri persónu fyrir sig, var ekki eins, enda yfirleitt ekki samferða eða saman. En
    það orðalag, sem mér þótti bera af, hef ég notað, því andinn var sá sami hjá þeim um þetta mál að
    örfáum undantekningum. Ég segi fyrir mitt leyti, að þennan hugsunarhátt kvenna ætti maður að geta
    skilið, því þetta er tímanna tákn. Jafnrétti við karlmenn færist í aukana á flestum sviðum svo sem:
    Sama kaup fyrir sömu vinnu, menntunin sú sama, eftir hæfileikum og vilja, atvinnu jafnt fyrir konur
    sem karlmenn og eftirspurn vinnuveitanda er yfirleitt meiri eftir kvenfólki en karlmönnum utan
    sjómennsku. Þessi þróun hlýtu að vaxa ár frá ári, nema eitthvað sérstakt óviðráanlegt komi fyrir, sem
    orsakar atvinnuleysi, sem enginn óskar eftir. Að vísu er þjóðinni að fjölga og gerir sjálfsagt enn um
    sinn. En ef fólk til sjávar og sveita fer að nota sér meir og meir þá tækni sem alltaf kvað vera að
    fullkomnast víða um lönd, til að ráða niðurlögum barneigna, þá getur þjóðinni fækkað fyrr en skyldi.
    Ekki meira um það.
    Á næstu öld fer að koma betur og betur í ljós, hvert stefnir með landbúnaðinn. Stefnir þá í sömu átt
    og nú eða hraðar? Þá má búast við, að um þau aldamót verði fjöldi jarða eða hreppa farið í eyði. Og
    þar af leiðandi verði í sumum sveitum landsins barnauppeldi horfið. Svona blasir þetta mál fyrir
    mínum augum í dag, þrátt fyrir allar hinar miklu framfarir í þessu ágæta landi Íslandi.
    Sveinn Sveinsson frá Fossi
    134
    1963
    Þetta er síðasta árið sem pistill eftir Svein birtist í dagblöðunum. Að þessu sinni var um að
    ræða grein í Sunnudagsblaði Tímans sem nefndist Reiðhesturinn Skjóni.
    (Í myndatextum við hinar tvær myndirnar hafa slæðst inn villur, mynd er af Hólmsárbrú (ekki
    Hólsárbrú) og Skiphellir er austan við Vík (en ekki undir Eyjafjöllum).
    135
    Tíminn – Sunnudagsblað, 18. ágúst 1963
    Reiðhesturinn Skjóni
    Það hefur lengi verið svo, að mönnum er tamt að tala um hestana sína og hrósa gæðingum sínum.
    Þetta er ósköp eðlilegt, því að svo mjög hafa menn og hestar verið háðir hver öðrum, sérstaklega
    meðan hesturinn var „þarfasti þjónninn“. En þegar vélarnar komu til sögunnar þá var munurinn svo
    mikill í vinnubrögðum og ferðalögum, að hesturinn var talinn verða að mestu úr sögunni eftir nokkur
    ár eða áratugi. – Þetta hefur nú líka reynzt svo að nokkru leyti, sérstaklega hvarð varðar vinnubrögð
    og langferðalög. En eins og sýndi sig á Landsmóti hestamanna nú síðast á Þingvöllum, eru hestarnir
    ekki aldeilis með öllu úr sögunni á landi hér, og er það vel.
    Þegar ég var ullarmatsmaður við Skaftárós, var það eitt sumar, þegar vélbáturinn „Skaftfellingur“ var
    að sækja ullina og flytja hana til Reykjavíkur, að ég var beðinn að fara með sjúkling suður með
    bátnum. Það var að vísu örðugt, því að þá var síminn ekki kominn austur, en mér var treyst og því
    mátti ég ekki bregðast, og sendi svo reiðhesta á skotspónum heim. Þegar til Reykjavíkur kom, kom ég
    þessum sjúkling til veru hjá Hjálpræðishernum og á framfæri til Halldórs Hansens. Hann var þá nýr af
    nálinni sem læknir og hinn elskulegasti maður. Var þá mínu verki lokið í það sinn varðandi þennan
    veika mann. En þá tók nú annað við litlu betra, því að nú var ég eiginlega orðinn strandaglópur í
    Reykjavík, vildi og þurfti að komast austur sem fyrst, en engar ferðir í bili. Þá var enn lítið um bílferðir
    og alls ekki lengra en að Ægissíðu. Þá vildi mér það til happs, að ég hitti bræður tvo, vini mína, sem
    fluttu að austan þá um vorið til Reykjavíkur. Ég hafði selt þeim sjö vetra fola um vorið, sem þá langaði
    að eiga, skjóttan að lit. Hann var lítill en knár og gæðingsefni. En þeir voru í vandræðum með hann því
    hann sóttist eftir að stjrúka og þá gat hann alveg tapazt. Talaðist nú svo til með okkur, að ég keypti
    hann nú aftur með hnakk og beizli. Urðu mér þetta hin mestu happakaup eins og hér verður rakið í
    þessari grein. Lagði ég svo af stað frá Reykjavík þennan sama dag, þegar áliðið var orðið, og áttum við
    Skjóni litli vel saman, báðir léttir og vildu austur. Tókst með okkur mikil vinátta, enda hafði ég oft
    gefið honum aukabita í uppvextinum, því að hann fæddist ekki fyrr en á höfuðdegi.
    Ferðin gekk vel, og komst ég um nóttina austur að Ægissíðu. Þar dvaldi ég í nokkra klukkutíma, og
    hafði ég góðan haga þennan tíma rétt við túngarðinn handa Skjóna litla, og það var fyrir mestu. Alltaf
    var gott og notalegt að koma að Ægissíðu og blundaði ég þessa stund og þurfti ekki að láta vekja mig,
    því að það brást mér aldrei að vakna. Að morgni hélt ég af stað og kom við á Stórólfshvoli hjá
    Guðmundi lækni, vini mínum. Hann spurði mig, hvort ég væri ekki þreyttur svona á einum hesti og á
    svo hraðri ferð. Ég sagði honum, að ég væri dálítið slæmur í náranum og ráðlagði hann mér að stytta
    enn betur í ístöðunum, og það gerði ég. Við það lagaðist þetta alveg, og þá reglu hafði ég síðan bæði
    við mig og aðra, þegar svipað stóð á í ferðalögum. Hélt ég svo áfram ferðinni og kom við í Holti hjá
    þeim séra Jakobi Lárussyni og Guðbrandi Magnússyni, er þá bjuggu félagsbúi í Holti. Þótti þeim Skjóni
    vera nokkuð móður, enda var mikill steikingshiti en eftir litla stund var hann afmæddur og mæddist
    svo ekki meir í þeirri ferð. Eftir kaffið fór ég þaðan.
    Þegar ég reið um hjá Hrútafelli, þá var Þorsteinn stórbóndi þar úti fyrir. Við vorum góðir kunningjar
    og töluðum saman góða stund, en þegar hann heyrði um ferðalag mitt, sagði hann, að ég ferðaðist
    eins og bíll og fór að athuga hestinn betur og dáðist mikið að vaxtarlagi hans og dugnaði, enda allra
    manna gleggstur á þá hluti. Næst kom ég að Skarðshlíð, sem er skammt austar, til þeirra systkina:
    Skærings, Sigurðar og Guðnýjar, því þar var ætlunin að stanza. Hestar voru samstundis sóttir til að
    létta mér og Skjóna litla upp. Reiddi Skæringur mig svo alla leið austur að Skammadal um kvöldið, en
    við rákum umframhesta, þar á meðal Skjóna, á undan okkur. Þegar við vorum komnir austur á
    Skógasandinn, var Skjóni litli orðinn langt á undan hestunum, sem við rákum, og sýndist Skæringi
    136
    hann þá ekki vera þreyttur lengur. Komum við svo að Skammadal um háttmálin, fór Skæringur þá
    aftur til baka með sína hesta, en ég gisti þar fram eftir nóttinni.
    Þar var mikið gras alveg heim undir hlað, en þó sama og haglaust heima við handa langferðahestum.
    Ég sá mér því ekki hag í því að dvelja þar lengi og fór af stað þaðan fyrir fótaferð. Skrapp ég þá fram
    að Norður-Fossi. Þar bjó þá Elías Einarsson. Fékk Skjóni litli þá að vera þar í túnvarpanum og rífa í sig
    töðugrasið á meðan ég stóð við. Reið svo Elías með mér austur á sand og fékk ég lánaðan hest til
    reiðar hjá Brandi, myndarbónda, í Presthúsum. Svo þegar við komum austur á Mýrdalssandinn sneri
    Elías aftur, og með lánshestinn að sjálfsögðu. Úr því fór ég á Skjóna litla einum yfir sandinn. En þegar
    ég kom að Hólmsá, þá rennur hún í einum streng og þar sem hún kastaðist fram að vantamótum, sé
    ég mann hinum megin við ána. Það var Jón bóndi í Hemru að koma úr Álftaveri. Hann var uppalinn í
    Hrífunesi og þekkti því manna bezt ána. Við töluðum saman yfir ána, og sagði hann mér, hvar hann
    hefði farið yfir hana, annars staðar væri ekki um að tala, en þar rétt við skall hún í Eldvatnið, svo þetta
    var hættulegt brot ef nokkuð út af bæri. Hann var á stórum hesti en ég á litlum, enda skall hún á
    herðatopp á Skjóna og þótti Jóni hann vera botnfastur sem kallað er, að hrekja ekki í iðukastið, þar
    sem áin skall í Eldvatnið. En hann sagðist hafa verið hræddur um mig, þegar hann sá hvað þetta var
    djúpt og strangt og fagnaði mér vel, þegar ég kom á þurrt land. Fórum við þá af baki og tók ég þá upp
    ferðapelann og hressti gamla manninn, vorum við svo samferða inn að Flögu og riðum þá vel léttan,
    og fannst Jóni Skjóni litli þá ekki þreytulegur. Þá var nú ekki orðið eftir nema hálftíma reið að Ásum og
    var það fagnaðarfundur að fá okkur Skjóna litla báða heim. Það mátti segja að það væri nákvæmlega
    tveir sólarhringar, sem ég var frá Reykjavík og heima á hlað í Ásum í Skaftártungum. Voru þá öll vötn
    óbrúuð frá Þjórsá, og ég held að mér sé óhætt að segja að við Skjóni litli vorum báðir alls óþreyttir,
    þegar heim kom, enda áttum við vel saman, eins og fyrr segir, og svo var það alltaf.
    Seinna þennan sama dag, sem ég kom heim þurfti ég að fylgja manni austur yfir Ásakvíslina, sem er
    svona hálftíma reið, en svo hittist á, að enginn hestur var heima við nema Skjóni litli, sem ég var
    137
    nýkominn á. Og varð ég að taka hann, þótt mér þætti það hálfgerð synd, en þegar við vorum komnir
    yfir kvíslarnar, þá kom þar ferðafólk að austan og varð ég því samferða til baka. Einn maðurin sem var
    í ferðinni var á bráðviljugum hesti, og án þess að ég vildi þá urðum við saman á undan. Kom æsingur í
    hestana okkar, svo að við urðum að lofa þeim að reyna sig. Skjóni litli var heldur á undan og þótti
    þessum manni það firn mikil, þegar hann vissi um ferð mína að sunnan þann sama dag. Var hann auk
    þess óvanur því, að hans hestur væri ekki fljótari öðrum hestum.
    Einu sinni sem oftar var ég á ferð á Skjóna litla austur yfir Mýrdalssand í byrjun vetrar með fleira fólki.
    Vorum við þá að fara í Tunguna til að vera við jarðarför Hildar í Hemru. Þau voru með í förinni Einar
    hreppstjóri í Vestri-Garðsauka og kona hans Þorgerður Jónsdóttir frá Hemru. Þegar komið var vel
    austur á sandinn var farið að ríða dálítið greiðar, en hestum þeirra varð fljótt erfitt, því að þeir voru
    teknir af jörð og komið haust, mæddust því og svitnuðu. Var ég þá oft langt á undan, því að Skjóna
    litla leiddist þetta rölt. Beið ég iðulega eftir samferðafólkinu. Spurði Þorgerður mig, hvernig á því
    stæði, að Skjóni gerði hvorki að mæðast eða svitna, en stirndi á hann sem gjafarhest. Ég sagði henni
    að ég tæki Skjóna á gjöf undir eins og kýrnar á haustin og það gerði muninn. Í Hemru, – áður en við
    héldum út yfir aftur, – sagði Einar í Garðsauka við mig: Blessaður Sveinn minn, láttu nú ekki Skjóna
    þinn vera að fara þessa spretti á undan. Ég lofaði því og efndi það, og var með þeim hjónum aftan til í
    hópnum.
    Með okkur var í förinni myndarkarl og mannlegur. Var hann á viljugum hesti og alltaf á undan yfir
    sandinn, og hafið Einar gaman af honum; en þegar við fórum út með hömrum nokkkuð fyrir austan
    Vík, var þar lón, eins og stundum er, sem við riðum yfir. Var það allt að því í kvið djúpt. Hann var enn
    á undan, þessi velríðandi maður. En þegar hann var kominn vel yfir mitt lónið, þá vitum við ekki fyrr
    til en hestur hans tekst á loft, og maðurinn aftur af honum upp í loft á kaf í lónið og buslar þar þangað
    til hann nær sér upp og veður til lands. Í hestinn náðum við með naumindum, en að þessu var brosað,
    því að veður var þurtt og gott og vatnalaust, en maðurinn kom sundblautur til bæjar.
    138
    Eitt sinn sem oftar var ég á ferð yfir sandinn, þá á vesturleið frá Ásum að Fossi í Mýrdal. Var þá á
    Skjóna litla einum, en þegar ég kem út að Hólmsá er þar fyrir stór floti af mönnum og hestum. Það
    voru þá Síðumenn að flytja strandmenn og vanalega er ekki farið hraðara með þá en töltreið. En á
    undan þeim voru farnir tveir menn á fjórum hestum að útvega gistingu í Vík; því að það var venja
    áður en síminn kom að senda einn eða tvo menn á undan til að útvega gistingu fyrir menn og hesta
    og voru þeir sendimenn látnir vera vel ríðandi. Nú varð ég samferða þessum flota yfir brúna, og þó
    nokkuð lengra. En svo fór ég að smálurka Skjóna til að fara á undan en hann var hálftregur að fara frá
    hestunum. Ekki eygði ég sendimennina og gerði mér engar vonir um að ná í þá. Fór ég nú heldur
    hægt til að byrja með, svona eftir því sem ég fann, að Skjóni vildi. En það fór fljótt að lagast
    samkomulagið hjá okkur að venju. Fór ég af baki á mínum vissu stöðum, ef Skjóni litli þyrfti að stanza.
    Það verður maður að passa, því að hestarnir eru vanafastir, en geri maður það ekki, þá letjast þeir í
    bili, en annars fá þeir meira fjör við hverja áningu og þeim mun meira sem maður þarf að flýta sér, er
    þetta áríðandi. Jæja, nú var ég farinn að ríða léttar, og þegar ég kem að húsinu í Hafursey, þá eru þeir
    sendimennirnir að fara á bak. Það kemur stanz á þá, þykir leitt að fara á undan en vilja auðvitað ekki
    stanza meira, bjóða mér að verða samferða, en ég sagði þeim að fara, því ég stanzi hér eins og ég sé
    vanur. Auðvitað verða þeir fegnir og settu á sprettinn. Ég stanza allt að því tíu mínútur eða vel það.
    Þegar ég fer á stað finnn ég fljótt, að Skjóni veit af hestunum á undan. Og þegar ég kem vestur fyrir
    eyjarhornið og sé út á sandinn kem ég auðvitað hvergi auga á þá. En nú er Skjóni litli reglulega í
    essinu sínu, og þegar ég er kominn út yfir sandinn og út í Skiphelli, sem er nokkuð lengra út með
    hömrunum, þá eru þar sendimennirnir. Þegar ég er kominn af baki, spyr annar maðurinn: Hvernig
    ferðu að því að ferðast svona á einum hesti? En áður en ég fær svarað, segir hinn maðurinn: Ekki
    þykir mér það svo mikið, en að hesturinn blæs ekki nös og ekki vott undir eyra, það þykir mér galdur í
    meira lagi. Úr því erum við samferða að Vík. En báðir þessir emnn voru þekktir að því að ríða greitt og
    áttu viljuga hesta. Sjálfum mér er það óskiljanlegt enn í dag, hvað Skjóna litla gat miðað vel áfram, en
    aldrei fékk ég eins glöggan mælikvarða á það sem í þessari ferð.
    Eftir að ég var með hvort tveggja, Fossinn og Ásana, var ég að mestu leyti sjálfur við gegningu og
    hirðingu í Ásum. Var ég þá alltaf með einn eða tvo hesta með mér, því að hestlaus gat ég aldrei verið,
    en meðan Skjóni litli var og hét dugði mér hann einn, ef þvi var að skipta.
    Eitt sinn, sem oftar er ég var í Ásum að vetrarlagi, og þá með Skjóna litla einan, þurfti ég að skreppa
    út fyrir sandinn og heim. Morguninn eftir fór ég aftur að Ásum og kom aðeins við í Kaupfélaginu og
    tyllti Skjóna í pakkhúsportinu á meðan. Þá spurði pakkhúsmaðurinn, Guðlaugur Jónsson, er hann leit
    á Skjóna: – Hvað gefurðu Skjona þínum til þess að hafa hann svona digran og fallegan með þessari
    brúkun? En mér varð orðfátt, því að galdurinn var ekki annar en sá að ég gaf honum yfirleitt ekki
    annað en gott og ljúffengt, snemma slegið hey og tók hann snemma á gjöf að haustinu. Hann var allra
    hesta fljótastur að taka við sér, sem kallað er, bæði á heyi á haustin og grænmeti á vorin. Aldrei leið
    Skjóna litla eins illa á ferðalagi eins og þegar ég teymndi lest á honum, t.d. yfir Mýrdalssand, þá varð
    hann mikið svangur og órór að vera svona lengi yfir sandinn, gekk ég þó annað veifið og teymdi hann
    þá líka við hlið mér til að stytta okkur tímann. En þegar Skjóni litli var úr sögunni þá ferðaðist ég
    eiginlega aldrei einhesta úr því. Nú er bezt, að ég segi ekki fleiri sögur af ferðum okkar Skjóna. Þetta
    sýnishorn á að duga. En þótt Skjóni litli hæfði mér bezt af öllum hestum, sem ég hef átt í mínum
    búskap, þá varð ég var við það ef einhver sat hann annar en ég, að hann var eins og annar hestur, ég
    tala nú ekki um, ef það var einhver þungur og fjörlaus maður. Annars átti ég manna duglegasta hesta
    og hryssur, vegna þess að ég þurfti manna mest að brúka þá.