Þegar Jóhanna Margrét er 24 ára giftist hún Sveini Sveinssyni 28 ára bónda og hófu búskap árið 1903 að Leiðvelli í Meðallandi, en fluttu að ári liðnu að Eyvindarhólum undir Austur Eyjafjöllum og bjuggu þar í fjögur ár. Þegar faðir Sveins lézt árið 1908 fluttu þau að Ásum, en draumur þeirra var að búa þar. — Þau bjuggu á prests jörðinni Ásum til 1923, en víkja þá fyrir presti og fluttu að Fossi í Mýrdal með flest börnin í ómegð. Tveimur árum síðar tóku þau við Ásum aftur og nýttu jafnhliða Foss næstu 20 árin.

Uppruni Sveins.

Sveinn er fæddur árið 1875 í Hörgsdal á Síðu, sonur séra Sveins Eiríkssonar og konu hans Guðríðar Pálsdóttur prófasts í Hörgsdal. Á fyrsta ári fluttist hann með foreldrum sínum að Kálfafelli í Fljótshverfi og þaðan að Sandfelli í Öræfum, þaðan aftur að Kálfafellsstað í Suðursveit og loks að Ásum í Skaftártungu. Þar bjuggu þau lengst. Hjá foreldrum sínum var Sveinn síðan allt til 28 ára aldurs, og var þeirra aðalstoð við búskapinn eftir að hann komst upp, því að bræður hans tveir, er á lífi voru, gengu menntaveginn. En það eru þeir Páll, sem lengi var yfirkennari við menntaskólann í Reykjavík, og Gísli sýslumaður og alþingismaður í Vík. Er Sveinn var kominn á þennan aldur, orðinn 28 ára, kvæntist hann Jóhönnu, þá 24 ára, dóttur Sigurðar snikkara og Gyðríðar ljósmóður, er lengst bjuggu að Breiðabólsstað á Síðu og áttu 14 börn.

Ungu hjónin setja saman bú.

En nú vantaði ungu hjónin jarðnæði, en hvergi í Skaftafellssýslu var þá laus jörð, er þeim hentaði, en ekki var um annað að tala hjá Sveini en að reisa bú. Dvöldu þau þá í húsmennsku í eitt ár á Leiðvelli í Meðallandi, en urðu þó að heyja mest á annarri jörð þar í hreppnum við erfið skilyrði. Eigi byrjuðu þau með mikil efni, áttu vel 20 ær, 1 hest og 1 kvígu, enga peninga og engin búsáhöld, en á þessu tókst þeim að ráða nokkra bót, með því að Sveinn fékk tvo hesta leigða, er hann keypti síðar, og áhöld, svo sem reiðinga, reipi og fleira fékk hann, er selt var bú þar eystra um þessar mundir. Þeim varð nú ljóst á fyrsta búskaparárinu, að ekki myndi það verða mikill framtíðarvegur að búa á flæðiskeri húsmennskunnar. Tók Sveinn sé því ferð á hendur næsta vor vestur á bóginn að leita sér jarðnæðis og allt út undir Eyjafjöll. Þar frétti hann, að Eyvindarhólar, sem var kirkjujörð, þá lögð undir Holtsprestakall, væri laus til ábúðar. Sveinn fékk þessa jörð til ábúðar, sneri við það aftur austur, sótti konu sína með ungabarn þeirra og eina vinnukonu, svo og þá litlu búslóð, sem þau áttu. Tóku Eyfellingar þeim einkar hlýlega. Í Eyvindarhólum var íbúðarhús þolanlegt og kúgildi voru þar 2 kýr og 12 ær, og þó að þessu yrði að skila aftur, hjálpaði það frumbýlingunum eigi lítið. Afgjald af þessu öllu var mjög viðunanlegt, eftir því sem þá gerðist. Bjuggu þau síðan í Hólum í 4 ár og farnaðist vel. Fjölguðu þau kúm og öðrum nautkindum, svo og hrossum, en eigi gátu þar þrifizt þessar fáu ær þeirra austan úr Skaftártungu.

Flutt um set.
Eftir 4 ár eða 1907-08 losnaði jörðin Ásar í Skaftártungu, er séra Sveinn Eiríksson andaðist, en sóknin lagðist undir Þykkvabæjarklaustursprestakall og hafði þáverandi prestur þar, séra Bjarni Einarsson á Mýrum í Álftaveri, ráð á Ásum. Leitaði Sveinn nú eftir þessari jörð, sem var auðfengin, því að séra Bjarni áleit hana vera að nokkru leyti ættaróðal Sveins. – Fluttu þau hjónin svo vorið 1908 að Ásum með búslóð sína, 2 börn og 1 dreng, sem þau ólu að nokkru upp.

Við Hólana og Eyfellinga skildu þau í bezta vinfengi, en á Ásum vildi Sveinn helzt búa. Þegar nú Sveinn og Jóhanna voru komin að Ásum í hið fyrirheitna land sitt, sem þau kölluðu, öðluðust þau nýtt fjör og nýjan áhuga, en Sveinn vissi vel, að ekki dygði að búa á Ásum sauðfjárlaus. Brá hann sér þá enn undir Eyjafjöll og fékk peningalán hjá góðvini sínum þar, og keypti fyrir það ær, færði síðan frá þegar fyrsta sumarið allt að 100 ám, enda varð brátt áberandi, hvað búskapurinn þarna blómgaðist vel hjá þeim, svo að segja mátti að tvö höfuð yxu á hverri kind. Var og mjög rómað, hvað mikilli vinnu þau hjónin afköstuðu með allri þeirri gestnauð, sem þá var í Ásum, því að þá voru þeir í þjóðbraut. Mátti og taka með í reikninginn, að barn áttu þau svo að segja á hverju ári. En það var vissulega eins og á þeim rættist málshátturinn, að blessun fylgir barni hverju. Þegar á fyrstu árum þurfti Sveinn að byggja upp í
Ásum öll fénaðarhús og hlöður, auk þess sem hann girti þá allt túnið fjárheldri gaddavírsgirðingu, sem ekki þekktist þá þar eystra. En þar eð sjálfur bærinn stóð á sjálfum Eldvatnsbakkanum og vatnið var að brjóta upp að honum, var og óumflýjanlegt að flytja hann frá hættunni. Sótti Sveinn þá um styrk til þess hjá kirkjustjórninni, því að jörðin var áfram prestsetur, en ekki fékk það áheyrn. Varð hann því að flytja og byggja upp íbúðarhús á eigin spýtur. Varð hann að flytja allt byggingarefni á klökkum yfir eyður og óbrúuð vötn, en þá voru vagnar ekki komnir í notkun að heitið gæti, hvað þá bílar. Þá var ekki heldur komin sú tíð, að styrkja frumbýlinga og bændur með byggingar- og nýbýlastyrkjum og nýjum jarðyrkjuvélum.

Búferli enn.
Þegar þau hjónin, Sveinn og Jóhanna, voru búin að búa í Ásum í 15 ár við mikla rausn og góðan orðstír, er kominn nýr og ungur prestur í prestakallið. Langaði hann til að fá jörðina og reisa þar bú, enda átti hann rétt til þess. En þá fannst ekki laus jörð í sýslunni, nema Norður-Foss í Mýrdal. Fékk Sveinn hana keypta og flutti nú enn á ný búferlum vestur yfir Mýrdalssand. Allir, sem til þekktu, hörmuðu þetta – vissu að báðir myndu tapa, prestur á búskapnum og Sveinn á jarðaskiptunum. Enginn vildi missa þau hjónin frá Ásum, barnahópurinn meira og minna í ómegð og Fossinn rýr jörð. Áður en þau Sveinn og Jóhanna fluttu frá Ásum héldu Skaftártungumenn þeim veglegt samsæti og heiðruðu þau á ýmsan hátt. Hafði Sveinn og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum, átti sæti í hreppsnefnd og sýslunefndarmaður var hann fyrir hreppinn og deildarstjóri kaupfélagsins. En í stjórn kaupfélagsins hefir Sveinn verið nær frá byrjun og er enn, og svo ullarmatsmaður frá því fyrst, að ull var tekin við Skaftárós. En atvikin réðu nú því, að Sveinn var ekki alveg skilinn við Skaftártunguna, þó að hann flytti þaðan búferlum. Óteljandi ferðir átti hann eftir ófarnar yfir Mýrdalssand, þegar hér var komið sögu.

Bú beggja megin Mýrdalssands.

Þegar Sveinn flutti frá Ásum, rak hann ekki sauðfé sitt, því að hús og heyfyrningar átti hann í Ásum, sem dugði í tvo vetur, og eftir þau 2 ár hætti presturinn búskap í Ásum og fékk Sveinn þá aftur Ásana leigða hjá presti og hefir því alltaf haft þar sauðfé sitt og hross, því að Ásar eru fjárjörð mikil, en ekki Fossinn. Á milli Foss og Ása eru nær 60 kílómetrar og er eitt mesta snjóþyngslaplássið á Suðurlandi. Hefir því oft verið strangt og harðsótt yfir að fara, enda ekki alltaf sofið fram á hádegið, því að Sveini hefir nægt, þegar því hefir verið að skipta, 3 – 4 klukkustunda svefn á sólarhring og aldrei brugðizt að vakna. Oft kom það fyrir, að Sveinn færi seinni hluta nætur frá Fossi og var kominn að morgni til smalamennsku að Ásum og var svo allan daginn við fénað fram á næstu nótt, og fann hvorki til svefns né þreytu. Eru ferðalög Sveins óteljandi og vart mun síðan land byggðist nokkur maður hafa farið til líka eins oft yfir Mýrdalssand á öllum tímum árs. Hafa fæstir menn farið eins fljótt yfir með hesta sína óskemmda. Sveinn er allra manna léttastur og hefir það komið sér vel á hans tíðu ferðalögum. Þá hesta sína, sem Sveinn brúkaði á vetrum, tók hann á gjöf um veturnætur, gaf þeim aldrei fóðurbæti, en snemmslegið, ljúffengt hey. Það lentu líka á Sveini fleiri ferðalög en að fara yfir Mýrdalssand. Hann átti margar ferðir út að Garðsauka og Fljótshlíð. Var hann þá í póstferðum, að flytja sjómenn, reiða alls konar ferðafólk og flytja strandmenn.

Jarðabætur og húsabætur.
Þegar Sveinn kom að Fossi var mikið af túninu kargaþýft, illa þurrkað og gaf af sér innan 100 hesta af töðu eða þrjú kýrfóður. Nú er túnið allt sléttað, vandlega þurrkað, girt og stækkað, svo nú má hafa þar 10 kýr í staðinn fyrir 3 og til viðbótar er búið að að girða marga hektara lands til framræslu og ræktunar. Í stað 3 kúa fjóss, er þar var, er nú komið 10 kúa fjós með tilheyrandi for, haughúsi o.s.frv. Ennfremur fjárhús, hesthús og hlöður fyrir allt hey, og allar eru byggingar þessar vandaðar. Íbúðarhúsið þurfti Sveinn strax á fyrsta ári að gera við og stækka um helming. Reist hefir hann líka rafstöð fyrir heimilið til eldunar, ljósa og hita. Hafa þeir synir Sveins unnið með honum að öllu þessu með miklum dugnaði.


Börnin.
Meðan synir Sveins voru allir heima, hafði hann mikinn áhuga fyrir því að vinna sem mest að jarðabótum, því að hann bjóst við því, að sá sona sinna, sem tæki við jörðinni, gæti orðið einyrki til að byrja með. En til þess að geta unnið allt með vélum, þarf landið að vera ræktað og slétt, eins og allir vita.
Nú eru þau hjónin Sveinn og Jóhanna að hætta búskap, og hefir nú Sveinn selt sauðfjárbú sitt í Ásum eftir rúm 20 ár, sem hann hefur haft Ásana undir. En búið á Fossi hefir hann fengið elzta syni sínum í hendur, með þeim kjörum, að hann getur byrjað búskapinn sem einn gildasti bóndi hreppsins, og hefir Sveinn sýnt það, við son sinn, að hann hefir munað sína fyrri daga. Segist Sveinn ekki hafa viljað vinna það fyrir búskapinn lengur, að halda sonum sínum heima frá atvinnu og menntun.

15 börn hafa þau hjónin eignazt, misst 3 ung, en 12 eru á lífi öll uppkomin og öll uppalin heima. Þau eru sem nú skal greina:
7 synir taldir eftir aldri: – Sigursveinn, sem tekur við búi föður síns, að mestu leyti sjálfmenntaður, kvæntur Solveigu Ólafsdóttur frá Fagradal. Runólfur skólastjóri á Hvanneyri, kvæntur Valgerði Halldórsdóttur frá Hvanneyri. Kjartan rafmagnsfræðingur á förum til Svíþjóðar í framhaldsnám í rafmagnsfræði, kvæntur Bergþóru Gunnarsdóttur í Reykjavík. Sveinn er lokið hefir Samvinnuskólaprófi. Guðmundur nú í landbúnaðarvélaverksmiðju í Ameríku. Páll, búfræðingur frá Hólum, er nú í Ameríku í landbúnaðarháskóla, við sandgræðslunám, og Gísli, yngstur, stundar nám við Samvinnuskólann.
Dæturnar eru fimm: Gyðríður, yfirsetukona, og hefir verið ráðskona hjá bróður sínum á Hvanneyri, en ætlar nú til Svíþjóðar í vefnaðarskóla. Guðríður, gift Lofti Guðmundssyni í Reykjavík. Róshildur, gift Benedikt Guðjónssyni kennara við Laugarnesskólann. Ingunn, gift Ara Eyjólfssyni verkstjóra hjá S. Í. S. Sigríður, gift Guðmundi Hjaltasyni í Reykjavík.

Trúin á lífið.
Innan þessarar stóru fjölskyldu hefir ríkt mikil lífsgleði og gott samkomulag, og öll heimilisstörf verið unnin með forsjá og miklum áhuga.
Sveinn Sveinsson hefir alltaf verið mikill samvinnumaður, og einn af þeim mönnum, sem bezt vann að samvinnumálum bænda í Vestur-Skaftafellssýlu á sínum tíma, bæði að sláturfélags- og kaupfélagsmálum, var einn aðalhvatamaður að kaupfélagsútibúi við Skaftárós og síðar að Kirkjubæjarklaustri. Hann hefir mjög skýrar skoðanir á samvinnumálum, telur hann það mikið metnaðarmál bænda að vera kaupfélagsmenn. Álítur hann það þroska bændur að ráða sínum hagsmuna- og verzlunarmálum sjálfir, og geta ráðið sjálfir sína beztu og færustu menn til forustu í sínum verzlunarmálum, enda er Sveinn einn af þeim mönnum, sem þekkir bezt mismuninn á því, sem áður var, og nú er, að fá vörur sínar heim í hlað.
Við þessi tímamót í ævi Sveins þótti mér hlíða að skrifa þessar framanritaðar línur, því að búskaparferill Sveins er að mörgu leyti óvanalegur og mjög merkilegur, því að hann sýnir svo vel, hverju dugnaður og trú á lífið getur áorkað. Og alls staðar þar sem Sveinn hefir farið, komið og verið, hvort sem það hefir verið í sorg eða gleði, þá hefir nærvera hans haft góð áhrif á menn.
Það er haft fyrir satt, að aldrei hafi Sveinn blakað hendi við barni, hvorki sínum né annarra, enda hefir hann ekki trú á því að það sé betra að laða fram það góða í barninu með barsmíð og hörku en lipurð og nærgætni.
Jóhs. H.

Tíminn, þriðjudaginn 5. febrúar 1946
Búskaparsaga sjötugs bónda

Jóhannes G. Helgason

Sveinn Sveinsson bóndi frá Ásum í Skaftártungu og Fossi í Mýrdal, varð sjötugur 5. desember síðastliðinn. Ég ætla að leyfa mér að rekja hér búskaparsögu þessa merka bónda.