Sigurdur Sigursveinsson

Ágæta frændfólk

Í dag eru 100 ár frá því að langamma okkar, Guðríður Pálsdóttir lést, og jafnframt eru 145 ár liðin frá fæðingu Sveins afa. Lífið hjá Guðríði hefur ekki verið dans á rósum, þau Sveinn Eiríksson giftu sig 1870, hún 25 ára og hann 26 ára. Fyrstu árin voru þau í húsmennsku, fyrst í Hörgsdal hjá föður hennar, síðan á Rauðabergi og í Ásum, en síðan aftur í Hörgsdal 1875 og þar fæðist Sveinn afi en sama ár hafði Sveinn langafi lokið prestaskólanámi og var vígður prestur og veitt Kálfafell í Fljótshverfi sama ár.Fyrsta barn þeirra var Páll, fæddur 10. desember 1870, hann dó rúmlega ársgamall. Næsta barnið var Eiríkur f. 1872 sem dó á þriðjaári. Þriðja barnið var Jón, f. 1873 og dó tæplega ársgamall, fjórða barnið Páll f. 1874 og dó rúmlega þriggja ári. En síðan kom Sveinn afi í heiminn 1875, og í kjölfarið Guðríður, Páll, Sigríður, Gísli og Ragnhildur, sem öll komust á fullorðinsár, síðasta barn Guðríðar svar svo Jón f. 1887 sem dó ársgamall. Sveinn langafi drukknaði í Kúðafljóti 19. júní 1907, líklega góðglaður. Guðríður fluttu síðan árið eftir til Sigríðar dóttur sinnar á Flögu þar sem hún átti heimili til dánardægurs, en Sveinn afi og Jóhanna amma tóku við Ásunum 1908.En aðeins af öðru í tilefni afmælisdags Sveins afa. Jóhanna systir sýndi mér bók sem afi hefur fengið í afmælisgjöf þegar hann varð sextugur, 1935. Bókin var Rauðir pennar, „Safn af sögum, ljóðum og ritgerðum eftir nýjustu innlenda og erlenda höfunda“. Bókin var gefin út af Heimskringlu sama ár, en hún var gefin út „að tilhlutan Félags byltingarsinnaðra rithöfunda“. Ritstjórn annaðist Kristinn E. Andrésson. Skyldi Sveinn afi hafa verið róttækur?

Sigurður Sigursveinsson skrifar á FB 2020