Ingunn Ósk Benediktsdóttir

Amma situr á rúmstokknum á Fjólugötu 19 b, í herbergi þeirra afa á efri hæðinni. Prjónandi eins og alltaf, fagnar mér þegar ég birtist, níu ára, dökk á brún og brá, talar um hvað það sé alltaf  bjart yfir mér. Ekki slæmar móttökur frekar en fyrri daginn. Afi situr andspænis ömmu og rær í gráðið, spyr frétta, ræskir sig svo og spáir í veðrið. Alltaf ró og spekt kringum þau í ellinni.

Ég segi fréttir af Hofteignum, þau hlæja sínum dillandi hlátri. Í gegnum hláturinn berst tifið í prjónum ömmu. Eitt ógleymanlegt augnablik í eilífðinni. Inga frænka birtist svo, knúsar mig um leið og hún biður mig að skottast út í bakarí og kaupa bakkelsi með kaffinu. Afi brosir og segir „Hún er svo sporlétt, Óskin mín“. Höfðingskapur Ingunnar brást aldrei, hafði alltaf opið hús fyrir gesti og gangandi, að gömlum, íslenskum sveitasið. Ég kem svo til baka með uppáhalds sætabrauðið, kringlóttu sandkökuna með bleika glassúrinu. Afi og amma fá fært kaffið upp og ég með ískalda mjólk í glasi. Afi les Tímann, við röbbum saman. Kveðjumst með faðmlögum og kossum áður en ég helt heim í strætó.

Amma í brúðkaupi okkar Högna 27. ágúst 1966. Uppábúin í peysufötum, hlý og brosmild, við hlið Róshildar, mömmu minnar. Seinna í heimsókn hjá okkur á Aragötunni. Skildi ekkert í hvers vegna ég væri að stilla þessu gamla drasli upp í stofunni, gamall rokkur og koparketill. Þá væri nú betra að eiga hraðsuðuketil. Ég ók henni svo heim til Gýgju á Austurbrún. Þegar við ókum framhjá nýju kjörbúðinni á horninu lætur hún mig vita að sig hafi alltaf langað til að fara inn í eina af þessum nýmóðins búðum. Ég naga mig enn í handarbökin fyrir að hafa ekki stoppað og snarað ömmu með mér inn í búðina. Amma á Selvogsgrunni, umvafin umhyggju og hlýju Valgerðar, tengdadóttur sinnar. Þar var boðið upp á Bessastaðakökur.

Ég var svo heppin að fá að kynnast systkinum ömmu, börnum Sigurðar snikkara og kirkjusmiðs og Gyðríðar. Það voru Margrét eldri og Margrét yngri, og svo Jón, sem settist að í Bandaríkjunum, líklega Los Angeles, starfaði sem smiður, giftur Peggy. Þau efnuðust töluvert, en áttu ekki afkomendur. Við hittumst öll, þau Jón og Margrétarnar þrjár í boði hjá Rögnu Gísladóttur silfursmiðs, dóttir Margrétar yngri sem bjó í Austurhlíð við Reykjaveg (nú bílastæði við Laugardalsvöll). Miklir innileikar, mikið hlegið og slegið sér á lær.

Þessi stemning minnir á samkomur systkinanna, barna Jóhönnu og Sveins, á fullorðinsárunum. Þá var talað hátt og af ákafa, deilt um pólitík, sandgræðslu og skógrækt, og hlegið dátt.

En líf ömmu og afa var ekki bara gleði og dans á rósum.

Amma er rúmlega tvítug við giftingu og árið 1908 eru þau komin til Eystri Ása í Skaftártungu. Ásar voru kirkjujörð, þar sem afi ólst upp hjá föður sínum, séra Sveini. Hann var þá nýlátinn. Á innan við 20 árum hafa þau eignast 15 börn, þrjú létust í bernsku. Það var ekki alltaf tilhlökkunarefni að eignast börn á þessum tímum, fleiri munnar að metta. Eitthvert barnanna hefur rifjað það upp að þegar amma grét, þá gat það verið merki um að nýtt barn væri á leiðinni. Amma stýrði búi og búrekstri og kom börnunum á legg, með aðstoð svokallaðra kvígilda, sem var fátækt og eignalaust fólk, komið fyrir í vinnumennsku. Heimilið var barnmargt, afi oft að heiman við að leiðsegja fólki yfir Mýrdalssand. Gestkvæmt var í Ásum, þurftu börn oft að ganga úr rúmi, og jafnvel að sjá eftir matnum ofan í svanga ferðalanga. Hin rómaða gestrisni gat þannig verið ansi grimm heimafólki. Þetta hélt amma utan um af reisn, tryggði börnum sínum gott atlæti, bein í baki fram í andlát. Það voru þung spor þegar fjölskyldan varð að flytja búferlum 1923, að Norður-Fossi í Mýrdal. Margir grétu, en sagt er að Róshildur og Runólfur hafi öskrað af sorg. Sigursveinn tók við búinu á Norður-Fossi 1942. 1949 flytjast afi og amma til Ingunnar og Ara í Reykjavík.

Lífið í sveitunum einkenndist af harðri baráttu við duttlunga náttúrunnar. Það verður ekki fram hjá því litið að staða kvenna í samfélaginu á þessum tímum var gjörólík því sem nú er. Feðraveldið ríkti í fjölskyldum, stjórnkerfi lands og sveita var algjörlega í höndum karla, svo ekki sé minnst á kirkjuna, sem réði miklu um andlegt líf fólks.

Það er því sérstök ástæða til að minnast ömmu Jóhönnu nú sem hetju í sínu hversdagslífi. Börnunum sem lifðu kom hún ásamt Sveini afa til manns. Án þess að gera lítið úr körlum ættarinnar, þá er það mjög svo ánægjulegt að skoða feril dætranna. Duglegar og drífandi, hver á sínu sviði, óragar við að koma á nýjungum. Enda áttu þær í móður sinni, ömmu okkar og langömmu, fyrirmynd, sem dætur þeirra hafa  tekið í arf og flytja til næstu kynslóða.

Myndarlegur er skerfur hennar til frelsisbaráttu kvenna.