Viðtal við Hjalta Gestsson, fyrrv. ráðunaut, á Selfossi.

Hver voru fyrstu kynni þín af Páli Sveinssyni í Gunnarsholti?

          Ég vil þá fyrst geta þess að kynni mín af Páli Sveinssyni voru ekki ítarleg. Þannig kynntumst við ekki í skóla, en ýmsum mönnum, sem seinna urðu starfsmenn landbúnaðarins, kynntist ég þannig.

          Páll var fæddur í Ásum í Skaftártungu að ég best veit í stórum systkinahópi og á þeim slóðum áttu menn yfirleitt erfiðara með að komast til náms en víða annars staðar.

          Fyrstu kynni mín af Páli voru þegar ég kom í Gunnarsholt á nautgripasýningu árið 1951, en þar var þá rekið kúabú og kýr komu þangað á sýningu af bæjunum þar í kring.

          Í Gunnarsholti var þá  naut, sem var erfitt í meðförum, og Runólfur bað Pál bróður sinn að sækja það inn í fjós og leiða það fram. Páll gerði það og nautið dansaði í kringum hann þangað til Páll grípur í miðnesið á því og einn, tveir, þrír, nautið lá á hryggnum. Páll herti að með hringnum í miðnesinu þannig að það hreyfði sig ekki meðan ég skoðaði júgurstæðið á því.

          Þetta var það fyrsta sem ég sá til hans. Það fylgdi honum alla tíð að tvínóna ekki við hlutina og hann gat það sem hann ætlaði sér.

          Áðurnefndar nautgripasýningar voru mjög eftirminnilegar og þetta var í fyrsta skipti sem bændum þarna var leiðbeint um að rækta byggingarlag gripanna m.t.t. sláturgildis þeirra.

          Ég fann að þarna var ég í mjög sterku bændasamfélagi og mikið af eftirminnilegum mönnum og Páll var einn af þeim.

Næst bar fundum okkar saman þegar Runólfur Sveinsson dó af slysförum. Það var mikið áfall fyrir Pál og hann sagði mér að hann hefði aldrei komist yfir það og kannski varð það áfall til þess að hann varð alls ekki fær um að bjarga sér undan vínásókn. Hins vegar verður á engan hátt sagt að sú ásókn  hafi mótað störf  hans, en hann hefði orðið langlífari ef hann hefði haft betri stjórn á henni.

          Páll tók við starfi Runólfs sem sandgræðslustjóri og ég held að öllum hafi þótt það sjálfsagt. Hann hafði mikla menntun á þessu sviði og dugnaðurinn alveg óumdeilanlegur. Menn áttu von á því að með honum kæmu nýir straumar í starfinu sem einnig varð.

          Hann var þegar byrjaður að móta starf Sandgræðslunnar fyrir fráfall Runólfs. Ég veit þó ekki alveg hvernig verkaskiptingu þeirra var þá háttað.

          Ég er þó viss um að það var snemma verk Páls að taka uppgræðslusvæðin í stærri slumpum. Páll efaðist mjög um að verja ætti land fyrir beitarpeningi. Hann lagði til að í stað þess að friða landið ofan við Gunnarsholt að hafa fé frá búinu á því. Það væri gott að fá traðkið og teðsluna til að fá líf  í lausasandinn sem mikið var af þarna. Í framhaldi af því var það tekið upp um allt land að auka mjög áburðargjöf við uppgræðslu lands. Það var stóra breytingin, held ég, sem þá var gerð. Áður var landið fyrst og fremst friðað.

          Fyrir ofan Gunnarsholt var örfoka svæði, kannski þúsund hektarar, sem sáð var í og borinn á áburður og svo sleppt á það nokkur hundruð lambám og fjölda nautgripa. Menn voru tortryggnir á þetta og töldu að sandur, fræ og áburður fyki út í veður og vind en það gerðist ekki. Landið breyttist á undraverðan hátt með þessu og greri upp þó að enn séu þar gróðurlausar skellur, ég sá það síðast í fyrra.

          Páll lærði þessa aðferð þegar hann var við nám og störf í Ameríku. Árið 1958 eða 59 fór ég til St. Paul í Minnesóta í Bandaríkjunum og þá kynntist ég kennara Páls, Matthíasi Þorfinnssyni, Vestur-Íslendingi, miklum merkismanni. Hann var sandgræðslustjóri í Minnesóta en því starfi fylgdi kennsluskylda við St. Paul háskólann. Þarna var líka Skúli Hrútfjörð, einnig Vestur-Íslendingur, hann var búnaðarmálastjóri þarna.

          Uppblástur var þá mjög mikill í ríkinu, ég man eftir að ég fór eina helgi til Minneappolis, þar sem ég hélt þá til, og ég tók þá ekki eftir neinu óeðlilegu en þegar við fórum til baka á mánudegi þá voru komnir sandskaflar yfir veginn hreint um allt og við áttum í erfiðleikum með að komast leiðar okkar, en skaflarnir voru allt upp í hálfan metra á hæð.

          Það var þetta sem þeir voru að reyna að stoppa með skyndiuppgræðslu og náttúrlega að auka beitilandið sem aldrei er of mikið.

          Ég fór að tala við Matthías Þorfinnsson  um þetta og hann útskýrði fyrir mér að þetta væri gert á hans ábyrgð. Hann sagðist reka búgarð þarna í nágrenninu og hann hafði samið við yfirstjórn háskólans um að hann fengi leigðan með góðum kjörum vinnukraft frá skólanum til að vinna á búinu hjá sér, svona 10-20 unga menn yfir sumarið.

          Nú væri hann búinn að hafa Pál Sveinsson og hann hafði aldrei haft annan eins mann, og hann gat stórfækkað þeim mannskap sem hann þurfti á að halda þegar hann fékk Pál, hann er beinn afkomandi Gunnars á Hlíðarenda, sagði hann.

          Mig langar að skjóta því hér inn í að ég hef ekki hitt mann sem hefur komið mér meira á óvart en Matthías Þorfinnsson, gagnmenntaður, og mjög vel að sér í íslenskri þjóðarsögu þó að hann væri fæddur fyrir vestan. Matthías var aðalkennari Páls við háskólann.

          Þetta lof, sem Páll fékk þarna fyrir dugnað og þor, var einkenni hans alla tíð. Honum datt aldrei í hug að gefast upp við nokkurt verk.

          Páll kom svo heim að námi loknu og við sátum saman nokkra fundi. Þar gagnrýndu grasafræðingar og fleiri hann og spurðu hvaða grastegundir hann hefði keypt til uppgræðslu. Við höfum heyrt að þú hafir keypt alls konar afganga af fræi.

          Það er alveg rétt, sagði Páll.

          Og hvernig dettur þér í hug vanda ekki betur valið á fræinu?

          Það skiptir ekki máli, svaraði Páll. Það fer sem á ekki erindi, hitt lifir. Síðan berst að fræ eins og fuglinn fljúgandi og áður en þú veist af er komið gróðurteppi. Aðalatriðið er að byrja á því að loka sárinu.

          Ég geri þó ráð fyrir að þetta hafi verið hvað veikast í hans fullyrðingum, að fræið skipti engu máli, en það skipti kannski ekki öllu máli.

          Svo kom að því að við áttum þó nokkurt samstarf. Ég hafði áhuga á því að bændur gætu fengið holdablendinga eftir að sæðingastöðin var komin hjá okkur í Laugardælum. Stjórn Búnaðarsambandsins samþykkti það og við þurftum að fá holdanaut hjá Páli þannig að við fórum annað hvert ár austur í Gunnarsholt að sækja naut en þar voru þá yfir 200 gripir.

Ég fór þá með forstöðumanni Sæðingastöðvarinnar, Sigurmundi Guðbjörnssyni, að velja gripina og Páll var alltaf með okkur í þessum. Við tókum alltaf einn eða tvo og það var ekki auðvelt að handsama þá.

          Boðorð okkar var að fara rólega að nautunum en það var ekki auðvelt að halda það boðorð þegar Páll var með. Þarna voru líka menn með honum og það var eins og þeir færðust í ham þegar Páll var með. Þeir voru alltaf á hestum.

          Ég tók t.d. eftir einum, Jóni Jónssyni frá Lækjarbotnum í Landsveit, Nonna, eins og hann var kallaður. Hann var afskaplega rólegur maður og yfirvegaður. Ég tók eftir því hvað allir vinnumennirnir í Gunnarsholti höfðu stutt í ístöðunum, það var ólíkt því sem tíðkaðist hér á landi. Svo þegar þeir fóru á bak þá lyftu þeir sér allir upp og þá var eins og skotið væri af byssu.  Við Sigurmundur biðum við nautahúsin til að standa fyrir en ég tók þá eftir því að það er allt komið á fluga fart, Páll var þá kominn líka þarna og puðraði á nautin og þau tóku heldur betur sprettinn.

          Ég sagði við Sigurmund. Við skulum færa okkur í burtu, við erum í lífshættu hérna. Hann var nú ekkert hræddur og hlýddi mér ekki. Ég var kominn hér um bil að húsunum þegar hann stendur kyrr og allt stefnir beint á hann. Það er eins og Danir kalla að nautin “bissi”, þau hendast stjórnlaust áfram beint strik, þau trompast og fara á hvað sem er. Ég sé það að þau stefna beint á okkur. Það var girðing, nokkuð vönduð, ofan af haglendinu og beint í gripahúsin og ég segi við Sigurmund að við verðum að komast burt úr króknum svo að við hlupum upp með girðingunni. Það var rétt svo við sluppum. Það voru svo a.m.k. 50 bolar sem lentu á girðingunni, skullu um koll og stóðu svo upp aftur og ruddust áfram og það var ekkert eftir af girðingunni, allir staurar brotnir og gaddavírinn tættur og nautin horfin, suður úr og komin suður fyrir þjóðveg, það voru 15 km.

          Þá fékk Páll nóg.

Svo var það seinna að ákveðið var að senda nokkur holdanaut úr Gunnarsholti að Bessastöðum. Ólafi E. Stefánssyni var falið verkið. Hann vissi að ég hafði oft farið í Gunnarsholt að sækja naut svo að hann bað mig um að koma með, ég held að Sigurmundur hafi verið með líka.

          Svo var farið að handsama nautin og það var notað annað hús til þess, heima við bæ. Þegar ég leit þar inn sá ég að það var búið að brjóta þar allar milligerðir og þarna voru bara stoðir frá gólfi upp í þak.

          Það héngu kaðlar um allt húsið en einkum við stoðirnar og ég spurði Pál hvað væri gert við þessa kaðla? Það er eina vörnin, sagði hann, ef nautin ráðast á mann, að hífa sig upp. Ég hef aldrei séð annað eins. Hvað eftir annað þá brustu allar varnir og þá var bara að grípa tafarlaust í kaðal og hífa sig upp eins langt og maður komst.

          Þetta var alveg ótrúlegt og það voru allir meira og minna hræddir þegar stóru bolarnir komu og æddu á mann, nema Páll. Hann bara öskraði á þá.

          Hann sagði að Ameríkanar væru ekki með neinar gælur við holdanautin og það þýðir ekki heldur hér.

          Ég tel að Páll hafi unnið feikilegt afrek í ræktun þessara gripa. Það var erfitt að eiga við þetta og fóðrunin var dýr ef það átti að gera vel við þá. Hann var óþreytandi sjálfur að drífa í þessu og telja kjark í sína menn.

          Hann var líka alltaf fús til samstarfs um að nota gripina til kynblöndunar. Þeir voru þá fluttir út í Laugardæli til að taka sæði úr þeim  og á þeim tíma var um fjórða hver sæðing með holdanautasæði. Þannig tókst að stórbæta framboð á nautakjöti á markaðnum. Bæði var það að það fékkst um 20% meira kjöt af blendingunum en íslenskum gripum, fyrir utan meiri  kjötgæði. Ég tel að þetta verk, sem við unnum þarna, hafi verið undirstaðan að því að farið var að flytja inn sæði af hreinræktuðum Galloway gripum.

Fjárbúið í Gunnarsholti

Sauðfjárbúið í Gunnarsholti var einnig mjög merkilegt og Páll var þar líka drifkrafturinn. Hann  sýndi þar fram á að unnt var að komast af með miklu minni vinnu við féð en þá tíðkaðist.

          Hann réð yngsta soninn frá Norðurhjáleigu í Álftaveri, Jónas Jónsson, síðar bóndi í Kálfholti, sem fjármann. Jónas hirti þarna þúsund fjár og vann að tamningum í hjáverkum, vigtaði allt og færði í ærbækur af mesta myndarskap. Hann var öskuduglegur og kappsfullur og þetta gekk vel hjá honum. Ég veit þó ekki hvort hann hefði haldið út með þetta í mörg ár og efa það reyndar.

          En það höfðum við vanrækt, að krefjast vinnubragða sem sköpuðu afkomu. Þetta er þó að koma núna og ég held að þarna hafi verið stigin fyrstu skrefin að því.

          Hvar sem Páll bar niður þá var eitthvað eftirbreytnivert við hans vinnubrögð og menn litu á hann sem endurborna hetju fornaldarinnar. Gunnarsholtsbúið varð stórbýli í hans tíð en það var ákaflega sárt að það skyldi þurfa að leggja þarna niður búrekstur þegar kom að framleiðslutakmörkunum, því að það mátti svo margt af honum læra.  Menn komu  kannski ekki beint í skoðunarferðir en það flaug fiskisagan. Og það voru haldnar þarna bæði kúasýningar og sauðfjársýningar, bæði í tíð Páls og síðan í tíð Sveins Runólfssonar, mjög myndarlegar sýningar og myndarskapur í móttöku gesta.

 Matthías Eggertsson, fyrrverandi ritstjóri Freys