Jóhanna Margrét fæddist að Breiðabólsstað á Síðu 21. október 1879 og ólst þar upp. Foreldrar hennar voru Sigurður Sigurðsson, snikkari og Gyðríður Ólafsdóttir, ljósmóðir, mikils metin hjón, komin af hraustum skaftfellskum bændaættum, bæði háöldruð er þau létust. Þau eignuðust 14 börn og komust 10 þeirra upp, allt dugnaðar og myndarfólk (nánar um börnin á Breiðabólsstað hér).

Jóhanna giftist Sveini Sveinssyni í Ásum í Skaftártungu 1903, 24 ára gömul. Sveinn lézt í Reykjavik 14. janúar 1965, 89 ára. Hann var sonur séra Sveins Eiríkssonar og Guðríðar Pálsdóttur, prófasts í Hörgsdal.

Sveinn og Jóhanna hófu búskap 1903 að Leiðvelli í Meðallandi, en fluttu að ári liðnu að Eyvindarhólum undir AusturEyjafjöllum og bjuggu þar í fjögur ár. — Þegar faðir Sveins lézt árið 1907 fluttu þau að Ásum, en draumur þeirra var að búa þar. — Þau bjuggu á prests jörðinni Ásum til 1923, en víkja þá fyrir presti og fluttu að Fossi í Mýrdal með flest börnin í ómegð. Tveimur árum síðar tóku þau við Ásum aftur og nýttu jafnhliða Foss næstu 20 árin.

Bú þeirra stækkaði og blómgaðist ört á þeim tíma með aðstoð dugmikilla barna sinna. Foss var rýr jörð en með aukinni ræktun varð jörðin ein sú bezta í sýslunni.

Sveinn og Jóhanna hættu búskap að fullu og flutti 1949, og fluttust þá til Reykjavíkur.

Jóhanna eignaðist 15 börn, 3 dóu í bernsku, 12 komust til fullorðinsára, öll mannvænleg og mikils virt. Synirnir 7 voru: Sigursveinn, óðalsbóndi að Fossi, Runólfur, skólastjóri að Hvanneyri, síðar sandgræðslustjóri, lézt af slysförum 1954, Kjartan iðnfræðingur, Sveinn, skrifstofumaður, Guðmundur vélfræðingur, Páll landgræðslustjóri og Gísli, framkvæmdastjóri. — Dæturnar 5 eru: Gyðríður, ljósmóðir, Guðríður, forstöðukona, Róshildur frú, Ingunn frú, Sigríður frú, allar í Reykjavík. Auk eigin barna dvöldu langdvölum nokkrir unglingar á heimili Sveins og Jóhönnu.

Jóhanna frá Fossi er þeim, sem kynntust henni minnistæður persónuleiki fyrir styrk og góða gerð. Hún var síung í anda, óvenju starfsöm alla tíð og afkastamikil, en hlédræg. Myndarskapur og kunnátta Jóhönnu til verka var viðbrugðið og handbragðið á handavinnu hennar frábært að smekkvísi. Hún saumaði lengi vel fötin á bónda sinn og barnahópinn og annaðist skógerðina úr skinni, á fjölskylduna alla, að hætti þeirrar tíðar.

Auk umfangsmikillar hússtjórnar mæddi á Jóhönnu mikil gestakoma, einkum í Ásum, sem voru í þjóðbraut. Gestrisnin var rómuð, þeim sem leið áttu hjá Ásum var jafnan boðinn beini, endurgjaldslaust, að hefðbundnum, fornum íslenzkum sið, og var ég einn þeirra, fyrst 12 ára, og oft síðar.

Fólki, sem býr við nútíma þægindi er ekki auðvelt að sjá hvernig húsfreyjur, eins og Jóhanna gátu áður fyrr, afrekað svo miklu við þægindaskort, hlóðir til eldamennsku, vatnsburð í hús fyrir tíma vatnsleiðslanna — og annað eftir því. Enda fannst Jóhönnu heimilisstörfin leikur þegar rafmagn kom að Fossi, vatnsleiðslur og önnur nútíma tæki.

Jóhanna var oft ein með barnahópinn því Sveinn var ósjaldan á ferðalögum, lengri eða skemmri tíma. Hún gekk ekki ávallt heil til skógar, en var jafnan æðrulaus. Móðurannirnar kröfðust lengri starfsdaga og leyfðu, einkum framan af, aðeins stuttar hvíldarnætur. Þá reyndi á og brást ekki vegarnestið í upplagi og gerð Jóhanna átti innri fjársjóð, sem reyndist þörfum barnanna dýrmætur. Þau náðu snemma að þroskast og samstarf þeirra efldist um bústörfin jafnóðum og þau uxu úr grasi, og fyrr en varði urðu þau foreldrunum meiri styrkur en aldurinn benti til. Hafa þau búið að þeim móðuráhrifum við störf síðar á ýmsum sviðum þjóðlífsins.

Lífsstarf Jóhönnu kann að geyma afrek, sem er ekki auðvelt að meta til hlítar. En móður önn felur launin í verkum, því kemur síður að sök þó eigi sé ávallt mest getið um þau störfin sem dýrmætust eru.

Sveinn mat Jóhönnu mikils og leit á sig sem gæfumann að eiga hana að ástvin og lífsförunaut. Sú tilfinning mun hafa verið gagnkvæm. Sveinn var óvenju vel gerður, víðsýnn og hollráður, réttsýnn og glaðlyndur og til æfiloka andlega iðandi af lífsfjöri. Sameiginlega áttu þau Sveinn og Jóhanna mikla lífasigra. Á síðari árum æfinnar uppskar Jóhanna, sem hún sáði til. Hún naut i ríkum mæli ástríkis og umhyggju barna sinna, tengdabarna og barnabarna.

Mörg árin fyrstu eftir að Jóhanna fluttist til Reykjavíkur, bjó hún og Sveinn hjá dóttur sinni Ingunni og tengdasyni Ara Eyjólfssyni, framkvæmdarstjóra. Um skeið dvaldist hún til skiptis hjá Sigríði og Gyðríði dætrum sínum. Síðustu tvö árin dvaldi Jóhanna hjá tengdadóttur sinni Valgerði Halldórsdóttur, ekkju Runólfs Sveinssonar sandgræðslustjóra og sonum þeirra. Þar, eins og hjá börnum sínum, var hún umvafin hjartahlýju, sem hún gat notið til hins síðasta. Þar var fagurt ævikvöld, sem hæfði svo mætri konu og er þess minnst með þakklæti og aðdáun. Áratuga vin átta hefir verið milli fjölskyldna okkar. Um leið og fjölskyldu hennar er hér vottuð samúð er Jóhönnu færðar hjartfólgnar þakkir minnar fjölskyldu fyrir langa vináttu og tryggð.

Jóhanna frá Fossi er í dag lögð til hinstu hvíldar í Fossvogskirkjugarði. I kistu hennar er einnig aska jarðneskra leyfa Sveins, sem hún giftist fyrir 65 árum.

Ljúfar endurminningar varpa birtu yfir kveðjustundina. Ástvinir, ættmenni og vinir, nær og fjær votta merkri ágætiskonu hjartfólgið þakklæti og virðingu.

Útför Jóhönnu Sigurðardóttur frá Fossi fer fram frá Fossvogskirkju í dag. Hún lézt á hvítasunnudag 2. júní í Borgarspítalanum, eftir stutta legu 88 ára.

Minningargrein Jóhannes G. Helgason Morgunblaðið 8. júní, 1968 (leiðrétt)