Látin er hér í borg uppeldissystir okkar og vinkona, Þorgerður Þorgilsdóttir, á 95. aldursári. Við okkar sem elstar erum litum hana fyrst augum á vordögum árið 1911, þegar hún reið í hlað að Ásum þá 11 ára gömul. Faðir okkar, Sveinn Sveinsson í Ásum í Skaftártungu, hafði brugðið sér að heiman austur yfir vötn með marga til reiðar nokkrum dögum áður og var nú kominn aftur ásamt fríðu föruneyti. Hann hafði sótt frá Svínafelli í Öræfum Guðrúnu ekkju Þorgils frænda síns og fjögur börn hennar.

Þorgerður var yngst barnanna og varð okkur systrunum fimm elsta systir og besta fóstra frá þeim degi. Hún dvaldist í Ásum til átján ára aldurs. Þorgerður leit alla tíð á föður okkar sem sinn föður en hún var skírð nýfædd við kistulagningu eigin föður á Svínafelli. Feður okkar voru systrasynir frá Hörgsdal á Síðu.

Heima í Ásum var mannmargt og mjög gestkvæmt. Var tví- og þrísett í rúmum og var okkur systrum ætlaður svefnstaður til fóta Þorgerði og Guðrúnu móður hennar sem sváfu saman í rúmi þegar við bjuggum í gamla bænum. Þorgerður varð því fóstra okkar þegar við vorum lagðar í rúm hennar hver af annarri þegar Jóhanna móðir okkar þurfti að sinna nýju og yngra barni. Þorgerður sleppti ekki af okkur hendinni þegar hún stofnaði eigið heimili í Vík með manni sínum Jóni Jónssyni silfursmið, þá rúmlega tvítug. Hún var áfram vinkona okkar og systir þegar við fluttum úr sveitinni suður til Reykjavíkur.

Þorgerður minntist oft á æskuheimili sitt í Ásum og gestrisni og höfðingshátt fóstra síns. Hann mátti ekki jóreyk sjá í fjarska, þá reið hann á móti fólkinu, tók það heim að Ásum og veitti því beina og gistingu. Hún minntist sjaldnar á það að hún og við rekkjunautar hennar ásamt öðrum systkinum urðum flestar sumarnætur að víkja úr rúmi fyrir gestum og liggja á loftinu. Ef við kvörtuðum yfir gleypugangi gesta, sussaði hún á okkur og bað okkur tyggja eigin mat betur. Þorgerður átti sjálf til að bera ómælda gestrisni og höfðingslund ekki síður en frændi hennar og fóstri. Þegar hún fluttist til Víkur var gott að eiga að gæsku hennar og gistivináttu í erfiðum ferðum okkar yfir Mýrdalssandinn, en faðir okkar hafði búskap á jörðum beggja megin þessarar eyðimerkur í ein tuttugu ár, í Ásum og á Fossi í Mýrdal sem hann kenndi sig seinna við. Þorgerður naut stuttrar skólagöngu í sveitaskólanum að Flögu, en hún þótti afbragðs nemandi og sér í lagi var henni reikningur auðveldur. Á 95. aldursári rifjaði hún upp fyrir okkur kveðskap Símonar Dalaskálds, en hann hafði ort vísur fyrir hvert okkar barnanna í Ásum þegar hann var eitt sinn sem oftar gestkomandi þar. Þetta voru tólf vísur sem Þorgerður hafði geymt í minni sínu í tæp 80 ár, en flestar okkar vorum búnar að gleyma. 13. vísuna vildi hún ekki muna. Það var vísan sem ort var fyrir þann elsta, en strákurinn hafði strítt gamla manninum lítils háttar og skáldið svarað fyrir sig með vísu sem Þorgerði féll ekki í geð. Hún vildi ekkert ljótt muna.

Þorgerður vann á seinni árum sínum og fram á níræðisaldur í fatageymslu og anddyri Alþingishússins. Venja var að skrá skilaboð, svo sem símanúmer og fleira sem flytja þyrfti þingmönnum í þar til ætlaða bók. Þorgerður lagði öll skilaboð á minnið sem aldrei brást henni. Þótt hún nyti ekki langskólanáms frekar en aðrar konur og menn sem fædd voru á þessum tímum og við svipaðar aðstæður og hún, hefur hún orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fylgjast með þroska afkomenda sinna sem hún hefur skilað þjóðfélaginu en öll eru þau þekkt fyrir listfengi og lærdóm. Hún eignaðist góð börn sem hún bar gæfu til að koma til manns.

Við kveðjum samferðakonu okkar og frænku og þökkum henni fyrir að hafa verið góð og lífsglöð fyrirmynd okkur systrum.

Systurnar frá Ásum, Gyðríður, Guðríður, Róshildur, Ingunn og Sigríður Sveinsdætur.