Ingunn Sveinsdóttir fæddist á Ásum í Skaftártungu 12. september 1915. Hún lést á hjúkrunarheimilinu í Víðinesi 26. ágúst síðastliðinn og var minningarstund um hana haldin í Fossvogskirkju 7. september.Nafna mín og móðursystir, Ingunn Sveinsdóttir, var einstök kona. Það er óhætt að segja að heimili hennar á Fjólugötu í Reykjavík hafi verið miðpunktur stórfjölskyldunnar um langa hríð. Þar bjuggu amma og afi, Jóhanna Margrét og Sveinn, eftir að þau brugðu búi á Fossi í Mýrdal. Heimilinu stýrði nafna mín af miklum höfðingsskap, gestrisni og snyrtimennsku. Gestum og gangandi tók hún fagnandi, sama hvernig á stóð. Er mér í barnsminni krafturinn, hressileikinn og kátínan þegar móðurfjölskylda mín hittist. Þar var talað hátt og tæpitungulaust, mikið hlegið og slegið sér á lær, og voru afi og amma þar í miðpunkti. Af þessum fundum fóru allir ríkari af gleði og fróðleik.

Greiðvikni og gjafmildi var ómæld hjá Ingunni, lítið dæmi er þegar hún og Ari þálifandi maður hennar, fóru í siglingu eins og það hét á þeim tímum og var harla fátítt. Hún kom til baka með efni í jólakjóla handa okkur stelpunum í stórfjölskyldunni, og vorum við ekki færri en tíu. Alls kyns vanda þeirra fullorðnu reyndi hún að leysa af fremsta megni.

Gæfa mannanna felst ekki í endalausri velgengni, heldur í því hvernig þeir takast á við og leysa áföll í lífinu. Þetta kom best í ljós þegar Ari, eiginmaður hennar, lést á besta aldri, og Ingunn stóð eftir sem ung ekkja með einkason sinn Guðmund. Ingunn einfaldlega bretti upp ermarnar, stofnaði fyrst vefstofu með Gyðríði systur sinni og seinna þvottahús með systkinum sínum, sem var undanfari þvottahússins Fönn. Hún vílaði ekki fyrir sér að stýra hópi unglingsstúlkna við að þrífa hótel á Ítalíu á vegum Ingólfs í Útsýn, án þess að tala orð í ítölsku. Skemmtileg er sagan af því þegar hótelstjórinn ítalski kom til hennar eitt sinn, felmtri sleginn. Stór hópur ferðamanna var að koma, hótelgestir rétt við það að fara úr herbergjunum og allt óþrifið. Með verksviti sínu og stjórnsemi, blönduðu eðlislægum sjarma, kom hún hinni ítölsku karlrembu á fulla ferð við að þrífa herbergin með henni og stelpunum hennar!

Fyrir okkur sem á eftir komum í næstu kynslóð var hún ómetanleg fyrirmynd. Skaftfellsk kona eins og þær gerast bestar, kraftmikil, skemmtileg og náttúrugreind. Flott kona.

Ingunn mín. Það var mikið lán að eiga þig að. Þakka þér samfylgdina.

Ingunn Ósk Benediktsdóttir

Afkomendur Ingunnar

ja         Guðmundur Arason f. 25.6. 1938

jaa       Elíza Guðmundsdóttir f. 14.11. 1962

jab       Ari Guðmundsson f. 7.12. 1963

jaba     Eyjólfur Andri Arason f. 23.4. 2001

jac       Gestur Ben Guðmundsson f. 1.9. 1966

jaca     Viktor Ben Gestsson f. 16.9. 1996

jacb     Einar Ben Gestsson f. 19.3. 2001

jad       Ingi Þór Guðmundsson f. 1.3. 1971

jada     Þórunn Hekla Ingadóttir f. 2.6. 1996

jadb     Aron Snær Ingason f. 26.10. 2001

jadc     Ísak Nói Ingason f. 13.4. 2006

jae       Hjördís Guðmundsdóttir f. 17.10. 1972

jaea     Elísa Gígja Ómarsdóttir f. 11.3. 2003

jaeb     Inga Lilja Ómarsdóttir f. 14.8. 2007