Kjartan Sveinsson var fæddur á Ásum í Skaftártungu 30. janúar 1913. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu í Reykjavík 21. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Sveinn Sveinsson bóndi, f. 5. desember 1875 á Hörgsdal á Síðu, d. 14. janúar 1965, og Jóhanna Sigurðardóttir, f. 21. október 1879 á Breiðabólsstað á Síðu, d. 2. júní 1968. Kjartan átti ellefu systkini sem náðu fullorðins aldri, fimm þeirra eru nú látin. Þau voru Sigursveinn, Gyðríður, Runólfur, Sveinn og Páll. Eftirlifandi eru Guðríður, Róshildur, Ingunn, Guðmundur, Sigríður og Gísli.

Kjartan kvæntist hinn 8. mars 1941 eftirlifandi eiginkonu sinni Bergþóru Gunnarsdóttur, f. 27. ágúst 1912, dóttur Gunnars Jónssonar bónda og Ragnheiðar Stefánsdóttur á Fossvöllum í Jökulsárhlíð. Þau hafa búið lengst af í Heiðargerði 3 í Reykjavík. Kjartan og Bergþóra ólu upp frá tveggja ára aldri bróðurdóttur Bergþóru Ragnheiði Hermannsdóttur, f. 15. maí 1949, kennara í Reykjavík, sem gift er Magnúsi Jóhannessyni ráðuneytisstjóra. Börn þeirra eru Bergþóra Svava, f. 31 maí 1977, og Jóhannes Páll, f. 30 september 1978. Kjartan lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1943 og prófi í rafmagnstæknifræði við tækniskólann í Katrineholm í Svíþjóð sumarið 1949. Kjartan hóf störf sem deildartæknifræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1949 og starfaði þar æ síðan þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Kjartan var áhugamaður um skógrækt og var um árabil í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur. Útför Kjartans fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Í dag er kvaddur hinstu kveðju tengdafaðir minn og kær vinur, Kjartan Sveinsson raftæknifræðingur.

Mér er það enn í fersku minni þegar fundum okkar bar saman fyrsta sinni sumarið 1972. Ég hafði þá nýlega kynnst einkadóttur þeirra hjóna og bar nokkurn kvíða í brjósti þegar ég kom í fyrsta skipti á heimili þeirra í Heiðargerði 3. En sá kvíði var ástæðulaus því fyrr en varði var Kjartan farinn að ræða við mig eins og við hefðum þekkst alla tíð. Það vakti athygli mína hversu auðvelt það var honum þrátt fyrir nokkurn aldursmun að setja sig inn í hugarheim minn nánast samstundis. Þarna kynntist ég strax einum af mörgum góðum eiginleikum Kjartans. Hann var afar félagslyndur og átti einkar auðvelt með að laða fram hið jákvæða í fari fólks. Honum fylgdi ævinlega gleði og hressileiki á mannamótum og engan mann hef ég fyrir hitt sem taldi sig ekki betri af kynnum sínum við hann. Frá honum stafaði einhver ólýsanleg hlýja sem laðaði að sér fólk á öllum aldri. Börn voru honum sérstaklega handgengin og urðu miklir vinir hans, skipti þar engu hvort um væri að ræða frændsemi eður ei. Kjartan sagði mér einhverju sinni að faðir sinn, Sveinn Sveinsson frá Ásum, hefði verið svo barngóður að hann hefði getað verið afi allra barna á Íslandi. Mér finnst þessi lýsing eiga vel við hann sjálfan. Kjartan tók út bernskuþroska á landsvæði þar sem náttúruöflin leika hvað lausustum hala á Íslandi en þar hefur saga eldgosa og jökulhlaupa átt stóran þátt í að móta landið. Fimm ára gamall varð hann vitni að Kötlugosi og leið það honum aldrei úr minni. An nokkurs vafa hafa bernskuár hans að Ásum í Skaftárungu mótað lífssýn hans og skoðanir verulega. Hann var í raun mikill náttúrusinni, bar mikla virðingu fyrir náttúrunni og lagði sig fram um að kynnast sögu hennar og þróun. Hann minntist oft ferðarinnar með , Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi út í Surtsey til að skoða eyna á fyrstu árum hennar. En þrátt fyrir að hann bæri mikla virðingu fyrir náttúrunni taldi hann að hana bæri að nýta á skynsamlegan hátt í þágu mannsandans. Beislun fallvatna og rafvæðing til að létta mönnum erfið störf taldi hann eðlilegt inngrip í náttúruna. Uppgræðsla landsins, einkum skógrækt, varð honum snemma hugleikin, og er nærtækt að rekja þann áhuga til æskuheimilisins að Ásum þegar litið er til þess að tveir bræður Kjartans, þeir Runólfur og Páll, gerðu landgræðslumál að sínum aðalstörfum, þótt þeirra nyti því miður við í allt of skamman tíma.

Kjartan taldi uppgræðslu landsins vera skuld okkar við það vegna búsetunnar í landinu sem okkur bæri að greiða um leið og við kæmumst í þær álnir að geta það. Þó vó ekki síður þungt sú skoðun hans að í skógrækt fælust jákvæð uppeldisáhrif, umhyggja sem hefði góð áhrif á samfélagið og síðast en ekki síst að gróið land, einkum skógi vaxið, laðaði fram jákvæð viðhorf fólks til lífsins.

Þrátt fyrir að tengdafaðir minn léti sér fátt mannlegt óviðkomandi voru það þó einkum tveir þættir sem öðrum fremur áttu hug hans allan. Annar var rafvæðing íslensks samfélags um og eftir miðja þessa öld en hinn var einstakur áhugi hans á að bæta gróðurfar landsins og klæða landið skógi. Reyndar held ég að tilviljun ein hafi ráðið því að rafvæðingin varð ævistarfið en skógræktin varð stærsta áhugamálið en ekki öfugt. Hann kynntist snemma frumherjum í vatnsaflsvirkjunum og rafvæðingu sveitanna, þeim Bjarna í Hólmi og Eiríki í Svínadal. Minntist hann þeirra oft með aðdáun, þó hann leyfði sér að gagnrýna síðar einstaka verk sem hann hafði tekið þátt í að vinna undir þeirra stjórn. Síðar meir setti hann sjálfur upp rafstöðvar í nokkrum ám eða lækjum við sveitabæi. Þessi kynni leiddu Kjartan fyrst út í rafvirkjanám í Reykjavík og síðan til Svíþjóðar þar sem hann lauk tæknifræðinámi. Mér fannst alltaf eins og hann hefði talið það mikið lán að fá starf hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur þegar hann kom heim frá námi í Svíþjóð, en hjá Rafmagnsveitunni starfaði hann í þrjátíu og tvö ár sem deildartæknifræðingur. Honum féll einkar vel við stjórnendur fyrirtækisins og samstarfsmenn sína og gladdist yfir þeim mikla skógræktaráhuga sem rafmagnsveitustjórarnir á þessu tímabili, þeir Steingrímur Jónsson, Jakob Guðjohnsen og Aðalsteinn Guðjohnsen, sýndu og komið hefur fram m.a. á hinu stórkostlega útivistarsvæði borgarinnar í Elliðaárhólmanum. Með starfinu hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur tókst Kjartani að sameina þessi tvö helstu áhugamál sín, rafvæðinguna og skógræktina. í tæpa hálfa öld átti skógrækt Rafmagnsveitunnar í Elliðaárhólmanum stóran þátt í lífi hans. Rafmagnsveitustjórarnir fólu Kjartani yfirumsjón með plöntun framan af og eftirlit með hólmanum eftir að hann lét af stórfum.

Á 74 ára afmæli Rafmagnsveitunnar var afhjúpaður minnisvarði í Kjartanslundi við félagsheimili Rafmagnsveitunnar í Elliðaárdal um það óeigingjarna starf sem hann vann á löngum tíma við uppgræðslu hólmans. Auk þessa starfs að skógrækt í Elliðaárhólmanum, sem hann sinnti fyrst og fremst í frítíma sínum, var Kjartan virkur félagi í Skógræktarfélagi Reykjavíkur og sat í stjórn félagsins um árabil.

Kjartan var afar vinnusamur og á meðan heilsan leyfði féll honum aldrei verk úr hendi. Að afloknum vinnudegi fór hann ýmist að dytta að húsinu, laga til í garðinum eða þá að hann brá sér í Elliðaárhólmann til að huga að plöntuuppeldinu sem hann annaðist þar um áratugaskeið. Ef ekki lágu fyrir einhver handverk sem vinna þurfti eða aðstæður voru ekki til slíkrar vinnu greip hann gjarnan í bók. Hann var víðlesinn og vel að sér um flesta þá hluti sem máli skipta. Kjartan var mikill aðdáandi sígildrar tónlistar og naut þess að hlýða á verk gömlu meistaranna hvort sem var á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar eða í ríkisútvarpinu, sem hann unni mjög og sagði jafnan að hann teldi sig vera einn þakklátasta hlustanda þess. Kjartan fylgdist jafnan afar vel með þjóðmálaumræðu og hafði ævinlega hressilegar skoðanir á hinum stærri viðfangsefnum stjórnmálanna. Hann skipaði sér í sveit Framsóknarflokksins og hlaut viðurkenningu fyrir störf sín á þeim vettvangi.

Það var margt í fari Kjartans sem er óvenjulegt að finna í fari samtímamanna. Hann hafði ríka réttlætiskennd og sagði skoðanir sínar umbúðalaust einkum ef honum fannst að málefnin vörðuðu almannahag. Hins vegar hugsaði hann ávallt lítið um eiginhagsmuni, það eitt að eiga til hnífs og skeiðar fyrir sig og sína nægði honum. Hann var í raun hugsjónamaður sem hugsaði hlutina út frá hagsmunum samfélagsins eins og þeir komu honum fyrir sjónir. Mér fannst oft eins og hann væri gæddur hugarþeli þeirra Fjölnismanna sem á síðustu öld vildu „íslandi allt”.

Ég átti þess kost að ferðast oft með Kjartani tengdaföður mínum bæði innan lands og utan. Þá kom vel í ljós hversu vel hann þekkti sögu landsins og var vel að sér um flesta þætti í náttúrunni. f huga hans voru þó tveir staðir sem höfðu mikla sérstöðu, annars vegar Þingvellir, þar sem hann hafði tekið þátt í öllum stórhátíðum á þessari öld, en hinn var V-Skaftafellssýsla. Að ferðast með honum um bernskuslóðirnar var ógleymanlegt. Á ferðum erlendis þyrsti hann að kynnast lífi og sögu hvers staðar sem heimsóttur var.

Það reyndist Kjartani mikið gæfuspor þegar hann kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Bergþóru Gunnarsdóttur, sem studdi hann með ráðum og dáð, fyrst í að afla sér menntunar erlendis en síðan í starfi hér heima og í þeim fjölmörgu áhugamálum sem hugur Kjartans stóð til. Heimili þeirra hjóna var einstaklega hlýlegt og hefur ávallt verið einn af eftirlætis viðkomustöðum flestra ættingja þeirra. Þar var gestrisni og hlýja aðalsmerki auk andlegrar upplyftingar sem allir nutu góðs af. Ef eitthvað bjátaði á í fjölskyldunni þá voru þau jafnan boðin og búin að rétta fram hjálparhönd og létta undir með þeim sem áttu um sárt að binda. Síðustu misserin hafði líkamlegri heilsu Kjartans hrakað nokkuð, sérstaklega var honum orðið erfitt um hreyfingar en andinn var óbilandi sem áður. Á þessu tímabili annaðist Bergþóra eiginmann sinn á aðdáunarverðan hátt allt þar til yfir lauk.

Miklir kærleikar voru alla tíð með þeim Kjartani og Ragnheiði dóttur hans og einkenndist samband þeirra af gagnkvæmu trausti og virðingu. I uppvexti hennar studdi hann hana í hvívetna, miðlaði henni af reynslu sinni og þekkingu og innrætti virðingu gagnvart öllu því sem lífsanda dregur. Svo langt gekk aðdáun dótturinnar að hún mun hafa tekið upp á því á unga aldri að nota frekar vinstri höndina eins og hann sem var örvhentur þó hún væri rétthent. Svipuð tengsl mynduðust strax milli Kjartans og barnabarnanna sem dáðu afa sinn og létu einskis ófreistað að njóta sem mestra samskipta við hann og ömmu í Heiðargerði. Ástúð þeirra og umhyggja gagnvart börnunum var einstök.

Við andlát Kjartans Sveinssonar er margt sem leitar á hugann eftir löng og náin kynni. Hans mun verða saknað af okkur öllum sem þekktum hann, en þyngstur er söknuður eiginkonu hans, dóttur og barnabarna. Ég bið Guð að styrkja tengdamóður mína og blessa minningu Kjartans Sveinssonar. Minningin um einstakan gæðadreng, sem vildi öllum gott gera, mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Magnús Jóhannesson.

Gróður jarðar sefur vært undir ábreiðu veturkonungs. Brátt mun sólarsprotinn með hlæjandi geislum sínum snerta frostrósir vetrarins og blóm sjálfstæðisins teygja anga sína á móti birtunni.

Sólarsprotinn með sínum glitrandi geislum sem glæðir allt líf á þessari jörðu hefur misst mátt sinn, því sá geisli sem skein skærar en allar heimsins stjörnur hefur kvatt þetta jarðlíf. Bjarmi hans og ylur mun verma hjörtu okkar um ókomna tíð og lýsa hinn ófarna veg. Guð blessi minningu þína, elsku afi.

Bergþóra Magnúsdóttir.

Með nokkrum línum langar mig að minnast góðs vinar og frænda, Kjartans Sveinssonar, sem er látinn.

Kjartan hefi ég þekkt nánast síðan ég man eftir mér en sameiginleg áhugamál hafa dregið okkur nær hvor öðrum á síðustu árum. Segja má að við höfum erft vináttuna frá feðrum okkar en milli þeirra var órjúfanlegt samband. Strax í bernsku heyrði ég fóður minn tala um Svein á Fossi sem mætasta dugnaðarbónda, sem hann þekkti. Hans stóri barnahópur átti því ekki langt að sækja mannkostina.

Kjartan var fríður og karlmannlegur athafnamaður og reisti hann sér óbrotgjarnan minnisvarða með ræktunarstörfum sínum. Á hann mestan þátt í þeirri miklu gróðursetningu í Elliðaárdalnum, sem nú er orðinn mikill útivistarskógur, sem mun veita ókomnum kynslóðum skjól og gleði og hvetja menn til dáða við ræktun lands og lýðs. Það hefði ekki þurft marga jafninga Kjartans til að landnám Ingólfs skæri sig ekki úr sem eitt verst farna svæði landsins hvað gróður áhrærir. Gaman var að ganga með Kjartani um þennan unaðsreit þar sem hann áreiðanlega hafði eytt nánast öllum frístundum sínum um árabil. Þess ber að geta að yfirmenn Rafmagnsveitu Reykjavíkur sýndu mikinn skilning á þessu mikla verki og studdu þeir Kjartan með ráðum og dáð. Síðan sýndu þeir honum þá virðingu að setja upp styttu af Kjartani í fallegu rjóðri í skóginum. Ég bið Guð að blessa minningu Kjartans Sveinssonar. Um leið og ég þakka honum áralanga vináttu, sendi ég Bergþóru og fjölskyldu Kjartans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Karl Eiríksson.

Ástkær frændi okkar er látinn. Að leiðarlokum viljum við í Gunnarsholti þakka Kjartani fyrir einstaka tryggð og frændrækni allt frá fyrstu kynnum.

Margs er að minnast þegar litið er yfir farinn veg liðinna ára. Margt ber að þakka en þó fremur öðru einstaklega ánægjuleg samskipti og samverustundir sem aldrei bar skugga á. Efst í huga okkar er þakklæti og söknuður er við minnumst hjartfólgins frænda og ræktunarmanns.

Frá því við munum eftir okkur var Kjartan þrunginn lífsorku, gleði og óbilandi áhuga á skógrækt og ræktun landsins okkar. Þessi mynd af Kjartani breyttist aldrei. í síðustu heimsókn hans til okkar í Gunnarsholt sl. haust var eldmóðurinn og hjartahlýjan enn söm og áður. Hann var afar einlægur maður, opinskár og frá honum geislaði lífsgleði og kraftur og einstakur innileiki gagnvart frændfóM og vinum.

Við synir Runólfs bróður þíns minnumst og þökkum tryggð þína við móður okkar við sviplegt fráfall föður okkar er við vorum barnungir, og æ síðan. Hvernig þú hvattir okkur til náms og til að. yrkja landið. Halldór minnist með þakklæti aðstoðar þinnar við vinnu og skógrækt.

Það hefur löngum verið gæfa skógræktarstarfsins að hafa á að skipa ósérplægnum eldhugum í fjölmennum hópi áhugafólks. Þar hefur verið að verki sú framvarðarsveit sem ótrauð axlaði erfiði og lagði grundvöll að fegurra landi í skjóli nýrra skóga. í þessum hópi var Kjartan meðal hinna fremstu. Það skógræktarundur sem nú prýðir Elliðaárdalinn ber Kjartani afar fagran vitnisburð. Þar átt þú allan heiður og óteljandi vinnustundir. Vinnudagarnir þínir við skógræktina urðu oft langir en gleðin yfir áorkuðu dagsverki og grænum lundum voru launin þín. Það var sérstök unun að ræða við þig um ræktunarmál. Hispurslaus viðhorf þín, hreinskilni og óbilandi trú á mátt skógarins er okkur öllum ógleymanleg en jafnframt fordæmi og hvatning um að betur má ef duga skal.

Fjölskylda Kjartans, ættingjar og vinir kveðja hann nú með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta samvistanna svo lengi. Minningin um þennan góða dreng fyrnist ekki.

Elsku Bergþóra, Ragnheiður, Magnús og barnabörn, við sendum ykkur hugheilar samúðarkveðjur er við yljum okkur við minninguna um góðan dreng og faðmlögin hans Kjartans.

Oddný, Sveinn og synir, Gunnarsholti.

Fyrstu sólargeislar á síðasta degi þorra árið 1998 léku um Kjartanslund og Elliðaárhólma. Logn, fegurð og friður. Greinar grenitrjánna svignuðu undan þunga hvítrar mjallar. Það var sem þessi grænu fósturbörn Kjartans Sveinssonar væru að sýna vini sínum virðingu á andlátsstund hans. Kjartan var einn af forkólfum skógræktar í Reykjavík og var það hans brennandi áhugamál til hinstu stundar. Mun göngufólk í Reykjavík njóta verka hans um ókomin ár.

Ekki langt frá Kjartanslundi sat ég og horfði á trén í garðinum mínum þennan dapra laugardag.

í huganum endurlifði ég fagran sólarhring á Þingvöllum vorið 1953. Við Kjartan vorum þar tveir við gróðursetningu. Þá varð mér ljóst að hann var maður sem ekki eingöngu talaði um hugsjónir sínar, hann framkvæmdi þær líka. Hann hafði áhuga á öllu milli himins og jarðar og hafði mjög ákveðnar skoðanir, sem urðu okkur að óþrjótandi umræðuefni.

Kjartan kunni líka að hlusta og virða skoðanir annarra. Ég minnist þess að þennan vormorgun, er við skriðum í svefnpoka okkar, þreyttir en sælir eftir fróðlega og skemmtilega nótt, að mér fannst ég þekkja Kjartan betur en áður.

Nokkrum mánuðum áður kom ég í fyrsta sinn til Reykjavíkur og baðst gistingar hjá Kjartani og Bergþóru frænku minni. Má segja að þá þegar hafi myndast órofa vináttu sem hefur verið mér og fjölskyldu minni ómetanleg.

Samverustundir í gleði og sorg leita á hugann að leiðarlokum. I heimsóknum í Heiðargerði 3 lærði maður að líta lífið og tilveruna björtum augum, þar sem glaðværð og lífsgleði hjónanna réðu ríkjum, og húsbóndinn geislaði af orku og krafti.

Kjartans er sárt saknað af öllum hans fjölmörgu vinum, en það er huggun harmi gegn, að hann fór með fullri reisn og hélt sínum eldmóði til hinstu stundar. Elsku Begga, Ragnheiður, Magnús, Bergþóra og Jóhannes. Við hjónin, börn okkar og þeirra fjölskyldur sendum ykkur innilegustu samúðarkveðjur og biðjum guð að styrkja ykkur í sorginni.

Hreinn Kristinsson.

Ég þekkti ömmubróður minn, hann Kjartan, ekki nógu vel. Mig langaði alltaf til að kynnast honum betur. Alveg frá því ég var lítill var ég heillaður af þessum karli sem annað slagið hoppaði af kæti og allt að því hófst á loft og sveif um í dálitla stund. Hann hafði rafmagnaða nærveru og hugtakið glaðværð fékk skýrari merkingu ef maður hugsaði til hans. Eða svo fannst mér.

Og það er fleira sem fær ljósari merkingu þegar ég minnist þessa frænda míns. Bjartsýni og kraftur, sem kenndur hefur verið við aldamótakynslóðina, bjó í honum og hann hafði með sér einhvern heiðríkan og drenglundaðan anda frá annarri öld. Hann var af kynslóð sem fædd var í moldarkofum, kynslóð sem sá bjarmann af nýrri gullöld og trúði á mátt sinn og megin. Kynslóð með óbilandi dug og óbilandi trú á eitthvað betra, betra Ísland, skógi vaxið.

Já, skógi vaxið Ísland milli fjalls og fjöru. Það eru stórhuga menn sem láta sig dreyma um slíkt. íslenskir skógræktarmenn eins og Kjartan sem vildu sjá landið með augum landnámsmannsins. íslenskir endurreisnarmenn. Eins og nafni sinn Ólafsson var Kjartan Sveinsson mikill sundmaður á sínum yngri árum.

Einu sinni sagði hann mér frá því að þegar hann var á Lýðskólanum á Laugarvatni, hefði komið upp metingur milli skólafélaganna um sundkunnáttu og Kjartan skoraði á mótstöðumann sinn, Reykvíking að mig minnir, og spurði hvort hann gæti synt yfir Ölfusá fyrir neðan brú. Á tilsettum tíma var Kjartan ásamt félögum kominn á oddann fyrir neðan kirkjuna á Selfossi, en Reykvíkingurinn sást hvergi, tilkynnti veikindi. Engu að síður synti Kjartan yfir „skáhallt undan straumi, þá fleytir hann manni áfram.”

Svo sem ekkert mál. Kjartan hafði reynslu af því að synda jökulvötn. Heima á Ásum höfðu þeir Sigursveinn bróðir hans synt yfir Eldvatnið á sumrin, stytt sér leið á engjar. Og nú er Kjartan kominn yfir um, tók siðasta stökkið og sveif yfír á hinn bakkann. Þar er sjálfsagt allt skógi vaxið milli fjalls og fjöru.

Ég vil votta eftirlifandi eiginkonu hans, Bergþóru Gunnarsdóttur, og fósturdóttur, Ragnheiði Hermannsdóttur, innilegustu samúð mína.

Benedikt Erlingsson Ieikari, Kaupmannahöfn

Þótt árin hafi verið orðin áttatíu og fimm og líkaminn borið þess ákveðin merki, kom það mér samt á óvart að Kjartan Sveinsson skyldi kveðja okkur svo snögglega. En hann kvaddi með reisn að morgni laugardagsins 21. þ.m. þá albúinn þess að fagna nýjum degi með konu sinni, Bergþóru, á heimili þeirra.

Það gustaði svo sannarlega af þessum athafna- og hugsjónamanni alla tíð, hvort heldur var í einkalífi eða starfi. Áhugasviðin voru mörg, en auk þjóðfélagsmála átti rafmagnið og skógræktin hug hans allan. Við það bættist umhyggja og kærleikur heimilisföðurins og eiginmannsins. En þar var Bergþóra stoð hans og stytta, svo sem hún hafði einnig verið honum bæði í námi og starfi.

Það var Rafmagnsveitu Reykjavíkur mikil gæfa að fá Kjartan til starfa sem nýútskrifaðan rafmagnstæknifræðing frá Katrineholm-skólanum í Svíþjóð 1949. Gæfa Rafmagnsveitunnar fólst ekki síst í því að áhugasviðin skyldu bæði vera rafmagn og skógrækt, svo sem fljótlega kom í ljós.

Áður en Kjartan hélt til náms í Svíþjóð hafði hann dvalist að Laugarvatni og Hvanneyri. Það er sammerkt þessum stöðum báðum að þar var snemma lögð rækt við rafmagnsmál og ræktunarstörf.

Námsár Kjartans í Svíþjóð voru honum lærdómsrík og þar eignaðist hann marga góða félaga. En það sem honum var efst í huga við námsdvölina í Svíþjóð var styrkurinn sem Bergþóra gaf honum. Hann þreyttist aldrei á að segja frá því hvernig hún studdi hann í náminu ekki síst vegna takmarkaðrar málakunnáttu hans sjálfs. Hann fullyrti oft við mig að hann hefði aldrei komist í gegnum námið án stuðnings og aðstoðar Bergþóru. Reyndar orðaði hann það svo að líklega hefði hún átt léttara með að taka prófið en hann sjálfur og væri því betur að skírteininu komin. Sterka hlið hans var auðvitað tækniþekkingin og svo ágætis stærðfræðikunnátta.

Fljótlega eftir að Kjartan kom til Rafmagnsveitunnar varð hann verkstjóri götuljósa og sinnti því af þeim krafti og eldmóði sem einkenndi hann alla tíð. Verst þótti honum ef sendingar af ljósaperum frá útlöndum brugðust. Þá fengu ýmsir orð í eyra, innkaupamenn Rafmagnsveitunnar og aðrir „blýantsnagarar” á skrifstofu fyrirtækisins, en einnig innflytjendur og umboðsmenn úti í bæ.

Síðar á starfsævi sinni hjá Rafmagnsveitunni tók Kjartan við nýju starfi sem fólst í því að hafa umsjón með tæknilegri bilanaleit. Þetta var og er vandasamt ábyrgðarstarf en því sinnti Kjartan af sömu kostgæfninni og hinu fyrra með hina ágætustu aðstoðarmenn sér við hlið. Þarna kom tækniþekking hans ekki síður að notum en við umsjón með götuljósakerfinu.

En þrátt fyrir vel unnin störf á rafmagnssviðinu, verður það líklega alúð hans og áhugi á skógræktarstörfum sem halda mun nafni hans hæst á loft þegar stundir líða. Víða hefur hann þar lagt hönd á plóginn, en ég læt nægja að geta starfa hans í Elliðaárhólma og annars staðar í nágrenni Elliðaánna. Kjartan hóf þegar afskipti af skógræktarmálum þegar hann kom til Rafmagnsveitunnar. Ræktunarstarfið í sjálfum hólmanum hófst á 30 ára afmæli Rafmagnsveitunnar 27. júní 1951 en þá beitti Steingrímur Jónsson, þáverandi rafmagnsstjóri, sér fyrir fyrsta skógræktardegi starfsmanna. Hann gróðursetti sjálfur fyrstu plöntuna en starfsmenn fengu þá frí frá störfum hálfan dag á ári til gróðursetningar í hólmanum. Svo sem von var reyndust vinnubrögðin ekki eins fagmannleg og vera þurfti, og kom það í hlut Kjartans ásamt aðstoðarmönnum hans að fylgja í kjölfarið og sjá til þess að frágangur allur væri samkvæmt ströngustu kröfum. Á þessum fyrstu árum var formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur Guðmundur Marteinsson rafmagnseftirlitsstjóri og unnu þeir Kjartan vel saman að skógræktarmálum í hólmanum, og reyndar einnig í Heiðmörk. Samstarf við Skógræktarfélagið hefur alla tíð síðan verið náið á þessu sviði.

Útsjónarsemi Kjartans kom m.a. fram, þegar hann fann einn af skjólbestu reitum í Elliðaárdalnum rétt vestan við núverandi Félagsheimili Rafmagnsveitunnar. Þar hóf hann að gróðursetja trjáplöntur til uppeldis og flutti síðan til annarra staða m.a. út í hólmann. Gróðursældin var svo mikil á þessum stað og umhyggja Kjartans slík, að þarna reis fljótlega kraftmikill og þéttur lundur ýmissa trjátegunda.

Rafmagnsveitunni þótti því við hæfi að heiðra Kjartan á afmælisdegi Rafmagnsveitunnar fyrir nokkrum árum með því að koma fyrir áletruðum steini á þessum stað og gefa honum heitið Kjartanslundur. Bergþóra kona hans afhjúpaði steininn að viðstöddum mörgum eldri og yngri starfsmönnum Rafmagnsveitunnar.

Eftir aðeins örfá ár verða 50 ár liðin frá því að skógræktin hófst, en allan tímann hefur Kjartan gengið um hólmann, og bæði haft þar eftirlit og hin síðari ár gengið sér til hressingar eftir því sem heilsan hefur leyft. Á seinni árum hefur mikill fjöldi Reykvíkinga gengið um Elliðaárhólmann og notið útivistar í þeirri paradís sem borgarbúar eiga á þessum stað. Og fram á síðasta ár hefur margt þessa göngufólks mætt öldnum manni á göngu sinni um hólmann en til þess þurfti hann tvo stafi sér til trausts og halds.

Á síðastliðnum tveim áratugum áttum við Ragna margar ánægjustundir með Kjartani á gönguferð um hólmann eða á bökkum Elliðaánna. Úr svip hans skein ávallt sama frásagnargleðin, ánægjan og þakklætið. Þakklætið fyrir að hafa fengið að eiga svo ríkulegan þátt í að gera Elliðaárdalinn að því sem hann er í dag.

Við Ragna sendum Bergþóru innilegar kveðjur okkar og biðjum henni og fjölskyldunni allri blessunar um ókomin ár.

Aðalsteinn Guðjohnsen.

Við fráfall Kjartans Sveinssonar raftæknifræðings sjá skógræktarmenn á bak ötulum liðsmanni. Hann má telja einn af frumkvöðlum skógræktar og trjáræktar í höfuðborginni. Meðal annars lagði hann grundvöll að skógrækt í Elliðaárdal þótt fleiri kæmu þar að síðar. Skógræktin þar er margra ára eljuverk hans og alla tíð hjartans mál. Það var því eðlilegt að Kjartan gengi til liðs við félagshreyfingu skógræktarmanna. Þar var hann traustur og einlægur vormaður og fylgdi hverju því er hann sinnti heils hugar. Hann var meðal stofnfélaga i Skógræktarfélagi Reykjavíkur og sat í stjórn þess frá 1969 til 1990. Var honum mjög umhugað um velferð þess félags og voru stefnumið þess brennandi áhugamál hans til dauðadags. Tryggð hans við málstað ræktunar var óbilandi. Fylking okkar er h’tið eitt þynnri og ekM söm og fyrr þegar návist hans og glaðværð er fjarri. Þótt sporin máist munu verk hans lengi sýniieg, trén sem hann kom á legg halda minningunni vakandi. Fyrir hönd Skógræktarfélags Reykjavíkur flyt ég honum þakkir fyrir allt það er hann vann félaginu og sendi fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

 F.h. Skógræktarfélags Reykjavíkur, Ásgeir Svanbergsson.

Kveðja frá Skógræktarfélagi Íslands

Kjartan Sveinsson hafði skógræktarhugsjónina að leiðarljósi og lét til sín taka á þeim vettvangi af heilum hug, líka eftir að hinni hefðbundnu starfsævi lauk. Hann var í hópi brautryðjenda, sem völdu sér á fyrri hluta aldarinnar að ganga í lið með hinum jákvæðu náttúruöflum og var alla tíð ákafur málsvari skógræktar á Íslandi, bæði í huglægum skilningi og í verkum sínum. Með góðu fordæmi og af eldlegum áhuga hafði hann áhrif á afstöðu almennings til uppgræðslu og trjá- og skógræktar á gernýttu, ógrónu landi og sér þess ekki hvað síst merki hér á höfuðborgarsvæðinu.

Hann var í hópi þeirra forgöngumanna um endurheimt skóga, sem vöktu athygli forráðamanna Reykjavíkurborgar um miðja öldina á þeirri staðreynd að lítið mundi okkur verða ágengt í baráttunni við gróður- og jarðvegseyðingu ef ekki kæmi til áhugi og samstaða almennings við málstaðinn.

Kjartan starfaði á vegum Rafmagnsveitu Reykjavíkur um áratuga skeið og naut þess að vinnuveitendur á þeim bæ skildu mikilvægi skógræktar og lögðu henni lið á margan hátt. Kjartan var liðsmaður Skógræktarfélags Reykjavíkur og ásamt félögum sínum þar beitti hann sér fyrir skóg- og trjárækt víða í höfuðborgarlandinu. Nærtækasta dæmið er Elliðaárdalurinn þar sem honum var falin umsjón jafnframt daglegum störfum hjá Rafveitunni. Dalurinn er nú orðinn fögur gróðurvin og eftirsóttur útivistarstaður Reykvíkinga, sem fæstir vilja án vera.

Við ævilok þessa hugumprúða félaga og baráttumanns viljum við þakka góð kynni. Hans verður lengi minnst í röðum skógræktarmanna.

Fjölskyldu Kjartans Sveinssonar sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Hulda Valtýsdóttir, formaður Skógræktarfélags Íslands.

Dánarfregnir minna alltaf á hverfulleika og vinaskilnað. Ef sá sem látinn er átti samleið með okkur langan veg eða skamman þá staðnæmast menn við andartak í önn dagsins og leyfa huganum að hverfa til liðinna daga. Þannig fór okkur gömlum vinnufélögum Kjartans Sveinssonar deildartæknifræðings þegar við heyrðum að hann væri látinn. Kjartan kom til starfa hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur í ágúst 1949 og starfaði samfellt til áramóta 1980-1981, en þá hafði hann lokið starfstíma sínum hjá fyrirtækinu. Kjartan vann um tíma í spennistöðvardeild en var um árabil yfirmaður götulýsingar en lengst af starfaði hann við bílamælingar. Við þetta starf naut þekking Kjartans sín vel því starfið krafðist nákvæmni í útreikningum og samviskusemi. Á þessum fyrstu árum voru bilanaleitartækin ófullkomin í samanburði við þau tæki sem mæladeildin hefur yfir að ráða í dag. Samt var það með ólíkindum hve mælingar Kjartans og starfsmanna hans skiluðu réttum mælingum með þessum ófullkomnu tækjum. Þegar bilun verður í jarðstreng er ekkert hægt að gera fyrr en mælingar liggja fyrir um staðsetningu bilunar. Það veltur því á miklu að mælingar séu réttar því það er seinlegt verk að berja upp harðar götur á vetrum í leit að bilun.

Eitt stærsta áhugamál Kjartans alla ævi var skógrækt en þar naut Rafmagnsveitan góðs af þekkingu hans og eldmóði sem áttu sér engin takmörk. Kjartan sýndi mikla eljusemi í skógrækt Elliðaárdalsins og árum saman var hann í forystusveit starfsmanna sem leiddu gróðursetningarstarfið í Elliðaárhólmum er ræktunarstarf hófst þar fyrir fjörutíu og sex árum fyrir atbeina Steingríms Jónssonar fyrrum rafmagnsstjóra. Á hverju sumri þegar jörð klæddist sumarskrúða fjölmenntu starfsmenn einn dag til gróðursetningar í hólmunum. Þarna urðu oft fyrstu kynni ungra manna af trjárækt og sumir fengu bakteríuna sem hefur enst þeim fram á þennan dag. Kjartan deildi út áburði og trjáplöntum til gróðursetningar og lét nokkur kröftug heilræði fylgja til okkar viðvaninganna. Nú er kominn góður trjágróður þar sem áður var berangur að stærstum hluta. Elliðaárdalurinn er nú eitt vinsælasta útivistarsvæði í miðju borgarlandinu allan ársins hring. Sérstakur lundur var gerður Kjartani til heiðurs í nágrenni við félagsheimili starfsmanna; Kjartanslundur, og var áletraður steinn afhjúpaður þar á sjötíu og fjögurra ára afmæli Rafmagnsveitunnar.

Kjartan hafði eftirlit með hólmanum eftir að hann lauk starfi sínu hjá fyrirtækinu, grisjaði skóginn og sá um áburðardreifingu fyrstu árin. Ég veit að hann kunni vel að meta þær óskir yfirmanna sinna að hann hefði þetta starf með höndum á meðan að heilsan leyfði. Kjartan var einn af frumbyggjum í Smáíbúðahverfinu sem áttu það sameiginlegt að koma sér upp húsnæði með eigin vinnu. Þetta var nokkuð sérstakt hverfi, stærð húsanna var miðuð við þarfir og efnahag byggjenda og má fullvíst telja að þetta framtak borgarinnar hafi gert mörgum kleift að koma þaki yfir sig og að verða efnahagslega sjálfstæðir. Atvikin höguðu því svo að nokkrir starfsmenn RR fengu úthlutað lóðum í hverfinu sem lágu saman. Þetta styrkti samhjálp meðal vinnufélaga og vinnuskipti komu alltaf í staðinn fyrir peninga sem voru af skornum skammti á þessum tíma. Ég byggði þarna ásamt fóður mínum og bjuggum við og fjölskylda mín í nábýli við Kjartan og Arna Magnússon fyrrum verkstjóra hjá RR. Fleiri starfsmenn bjuggu neðar í götunni. Það var afskaplega gott að vera nágranni Kjartans og Bergþóru konu hans. A þessum tíma unnu menn öll kvöld í Smáíbúðahverfinu langt fram á nótt og þóttu helgarnar bestar því þá náðist samfelldur vinnutími. Hamarshöggin heyrðust dag eftir dag langt fram eftir nóttu. Aldrei var kvartað þó eitthvað heyrðist í smíðatólum að næturlagi. Þessi tími í byggingarsögu borgarinnar er þess verður að vera varðveittur því hann markaði tímamót í lífi margra. Aratuga kynni okkar Kjartans geyma margar góðar minningar enda var hann traustur vinur, skemmtilegur og spaugsamur. Ég og fjölskylda mín þökkum samfylgdina og sendum Bergþóru, Ragnheiði og öðrum ættingum samúðarkveðjur.

Guðmundur Egilsson.

„Mikið væri nú tilveran hér í Heiðargerðinu litlausari án Kjartans og Bergþóru,” hefur oft verið sagt hér á bæ, ekki síst eftir að nágrannar hafa komið saman kvöldstund og þrjár kynslóðir gert sér glaðan dag. Þar hafa Kjartan og Bergþóra verið hrókar alls fagnaðar með glaðlyndi sínu og nýjum og gömlum sögum. Við höfum stundum hlegið í marga daga á eftir og unga fólkið haft á orði að það væri ekki mikið að því að eldast ef maður yrði eins og þau.

En nú er Kjartan Sveinsson vinur okkar allur, hálfníræður. Eftir að hann hætti að hugsa um að selja húsið sitt og flytja í hólf í elliblokk hafði hann oft á orði að úr Heiðargerðinu myndum við ekki losna við hann lifandi. Og hann stóð við orð sín og gerði það með stæl. Hann var kominn á fætur og ætlaði að fara að . hnýta á sig hálsbindið á undurfögrum laugardagsmorgni þegar kallið kom. Landið skartaði sínum fegurstu vetrarklæðum af virðingu við þetta náttúrubarn sem unni landinu sínu og helgaði líf sitt að verulegu leyti skógrækt. Kjartan og Bergþóra voru í hópi frumbyggja í Heiðargerðinu á árunum upp úr 1950. Frumbyggjasamfélög eru alltaf merkileg. Menn standa saman, þótt oft reyni á, og böndin verða ótrúlega sterk.

Kjartan og Bergþóra hafa þurft að kveðja marga góða granna, hús hafa skipt um eigendur og skipt um lit. En Heiðargerði 3 hefur ekki breyst, það hefur lýst sínum ljósa lit, bjart og reisulegt eins og hugur íbúanna. Og hvílík forréttindi það hafa verið fyrir tvær kynslóðir á grannbæjunum að fá að alast upp í skininu frá Heiðargerði 3, hitta Bergþóru og Kjartan úti fyrir, finna áhuga þeirra á velferð og viðfangsefnum æskunnar og heyra sögur Kjartans frá árunum á Laugarvatni og í Svíþjóð, skógræktinni, Elliðaárhólmanum, af Jónasi frá Hriflu og mikilvægi góðrar stærðfræðikunnáttu. Þar hefur ekki verið neitt kynslóðabil. Oft hefur þá hvarflað að manni að mörgum unglingnum – og mörgum öldungnum – myndi vegna betur hér í borg ef fólki væri ekki raðað eins mikið í blokkir og hverfi eftir aldri og nú er gert.

Þegar heimasæta hér á bæ átti að skrifa örstutta persónulýsingu í íslenskutíma fyrir nokkrum árum var valið ekki erfitt. Hver annar en hann Kjartan? – og hún skrifaði: „Hann er orðinn áttræður, hann vinur minn og frændi. Á sínum yngri árum var hann áhugasamur íþróttamaður, gekk m.a. á höndum og eitt sinn synti hann yfir Ölfusá. Hann er lágvaxinn en sterklega byggður og hefur grátt hár og ljósblá augu. Hann er rómsterkur og talar hátt, sérstaklega um áhugamál sín sem eru skógrækt og pólitík, og þar til nýlega lagði hann gjarnan áherslu á orð sín með því að kreppa hnefana og hoppa jafnfætis upp. Hann er þó ekki mjög fótviss lengur og því tekur hann afar lítil skref, smáhleypur. Hann eyðir flestum stundum sínum í að lagfæra húsið sitt og garðinn. Hann er mjög elskulegur og barngóður maður og gerir lífið í kringum sig litríkt og skemmtilegt.”

Þótt Kjartan sé nú allur og kvaddur í dag þá vonum við að minningin um hann og vináttan við Bergþóru muni áfram gera lífið litríkt og skemmtilegt.

Þórdís Árnadóttir og fjölskylda, Heiðargerði 1.

Afkomendur Kjartans

ha        Ragnheiður Hermannsdóttir f. 15.5. 1949

haa      Bergþóra Svava Magnúsdóttir f. 31.5. 1977

haaa     Ragnheiður Björt Þórarinsdóttir f. 14.12. 2008

haab    Þórey Ágústa Ágústsdóttir f. 1.6.2015

haac    Auður Magnea Ágústsdóttir f. 5.2.2019

hab      Jóhannes Páll Magnússon f. 30.9. 1978

haba    Harpa Dís Jóhannesdóttir f. 28.1. 2014