Sigríður Sveinsdóttir fæddist í Ásum í Skaftártungu, Vestur-Skaftafellssýslu, 26. júní 1921. Hún lést á líknardeild Landsspítalans þriðjudaginn 25.janúar síðastliðinn. Heimili hennar síðustu ár var á Njálsgötu 82 í Reykjavík. Sigríður var næstyngst 15 barna hjónanna Sveins Sveinssonar í Ásum, sem seinna kenndi sig við Norður Foss í Mýrdal, og Jóhönnu Margrétar Sigurðardóttur. Eftirlifandi systkini Sigríðar eru Guðríður, f. 22.11. 1908; Róshildur, f. 21.2. 1911; Ingunn, f. 12.9. 1915 og Gísli, f. 16.5. 1925. Látin eru þau Sigursveinn, Gyðríður, Runólfur, Sveinn, Páll, Kjartan og Guðmundur. Þrjú létust í frumbernsku.

Sigríður giftist Guðmundi Hjaltasyni skipstjóra 6. maí 1945. Foreldrar hans voru Sigríður Guðmundsdóttir og Hjalti Jónsson (Eldeyjar Hjalti). Sigríður og Guðmundur eignuðust tvö börn, Jóhönnu Margréti, f. 6.6 1946 og Hjalta Jónsson, f. 29.2 1948. Jóhanna Margrét er búsett í Frankfurt í Þýskalandi og Hjalti býr ásamt eiginkonu sinni Paulu Gudmundsson í Missisippi í Bandaríkjunum. Sigríður og Guðmundur slitu samvistir. Sigríður giftist Gísla Jónssyni verkstjóra 23. febrúar árið 1973. Hann lést 3. janúar 1995. Dóttir Gísla er Gudrún, gift Gunnari Guðjónsson og eiga þau fjögur börn.

Útför Sigríðar fór fram í Fossvogskirkju mánudaginn 31. janúar.Við fráfall frænku minnar Sigríðar Sveinsdóttur koma upp í hugann ótal ljúfar minningar. Ég var u.þ.b. tveggja ára þegar faðir minn dó af slysförum. Við mæðgurnar stóðum ekki lengi óstuddar því fljótlega tóku Bergþóra föðursystir mín og Kjartan eiginmaður hennar okkur að sér og gengu mér í foreldra stað. Kjartan var bróðir Sigríðar og voru miklir kærleikar á milli þeirra systkinanna. Með Kjartani föður mínum eignaðist ég fjölmenna og alveg einstaka fjölskyldu. Þessi fjölskylda var engri annarri fjölskyldu lík, hún hafði bókstaflega áhuga á öllu því sem lífsanda dró. Þjóðlíf, náttúrufar og náungakærleikur, ekkert var henni óviðkomandi. Umhyggja fjölskyldunnar í garð barna var einstök. Fjölskyldan kom fram við börn af nærgætni og hlýju og umfram allt af virðingu. Kynni mín af Sigríði Sveinsdóttur frænku minni verða mér ógleymanleg. Alla tíð ávarpaði hún mig á sinn sérstæða hátt eins og t.d.: “Falleg mín, hjartað mitt, gullið mitt eða engillinn minn” og auðvitað var ég best allra. Þannig talaði hún við öll börn. Allt þetta varð örugglega til þess að viðkomandi barni, eins og mér, fannst að það hlyti að vera alveg sérstakt, í það minnsta lagði ég mig alla fram um að standa undir nafni. Þetta viðmót Sigríðar og fjölskyldunnar allrar gagnvart börnum var eitthvað sem þótti sjálfsagður hlutur. Þetta lífsviðhorf sem ég kynntist sem barn, hefur ætíð síðan reynst mér gott veganesti á lífsleiðinni.

Sem barn sat ég oft á rigningardögum heima í Heiðargerði og naut þess í ríkum mæli að skoða ljósmyndir af fjölskyldunni sem Loftur Guðmundsson eiginmaður Guðríðar frænku hafði tekið. Athygli mín beindist oftast að ljósmyndunum af Sigríði sem voru teknar við hin ýmsu tækifæri. Á öllum myndunum var hún jafn glæsileg, fegurðin og lífsgleðin skein úr augum hennar. Í mínum huga var hún fegurst allra. Ljósmyndirnar af henni með börnunum sínum tveimur, þeim Jóhönnu og Hjalta, vöktu ekki síður áhuga minn. Þar gat að líta hamingjusama móður og prúðbúin, mannvænleg börn. Ég var stolt af því að eiga hana fyrir frænku. Hún var falleg yst sem innst. Hún gladdi mig oft með gjöfum og stundum fylgdu í kjölfarið andvökunætur þar sem ég sat hugfangin og handlék þær eða horfði bara á þær á náttborðinu mínu.

Það var alltaf jafn ánægjulegt að hitta Sigríði hvort sem það var á heimili hennar, í sundi eða annars staðar. Útbreiddur faðmur og hjartahlýja beið mín hvenær sem við hittumst. Það var alltaf sérstaklega gaman að ræða við Sigríði, hún komst skemmtilega að orði og látbragð hennar og blikið í augunum verður alla tíð ógleymanlegt.

Sigríður frænka mín var dugleg að heimsækja Bergþóru móður mína eftir að faðir minn dó, fyrir tveimur árum. Sigríður hafði stundum orð á því að það væri nú ekki mikið mál fyrir sig því að bíllinn hennar rataði sjálfur upp í Heiðargerði. Styrkur frænku minnar og stuðningur á þessum erfiðu tímum reyndist okkur í fjölskyldunni ómetanlegur.

Við sem þekktum Sigríði eigum eftir að sakna hennar sáran, en minningin um einstaka konu, dýrmæta perlu sem var gull af manni mun lifa áfram í huga okkar.

Frændsystkinum mínum þeim Jóhönnu, Hjalta og fjölskyldu sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Sigríðar Sveinsdóttur.

Ragnheiður Hermannsdóttir.

Ég kynntist Sigríði gegnum vöðvabólguna mína og er það sennilega það eina góða sem bakverkir mínir hafa nokkurn tímann haft í för með sér. Hún ávarpaði mig um leið og ég steig inn úr dyrum með “engillinn minn” og ég man að mér þótti þetta dálítið furðulegt sökum stuttra kynna okkar, en ég vandist fljótlega þeirri ótrúlegu umhyggju og hlýju sem hún sýndi mér. Það var í eðli hennar að láta öðrum líða vel og hún virtist geta gefið af sjálfri sér endalaust. Það var alltaf stutt í húmorinn hjá Sigríði, hún talaði t.d. alltaf um “tölvuskömmina” og hló svo að eigin sérvisku. Ég man líka eftir því þegar ég aflitaði einu sinni á mér hárið hvað henni þótti fyndið að nú værum við báðar eins, alveg hvíthærðar! Svo gat hún hlegið endalaust að því þegar ég reyndi að sleppa við kínverska hausanuddið hennar.

Sigríður bjó yfir miklum fróðleik á sviði náttúrulækninga, sem hún miðlaði til annarra af einskærri umhyggju. Hún kenndi mér t.d. að best væri að vera í grænu fyrir framan “tölvuskömmina” en alls ekki hvítu. Hún vissi allt um alls kyns olíur og smyrsli og er mér mjög minnisstætt þegar áragamalt hælsæri hvarf yfir nótt eftir meðferð hjá Sigríði. Ég held að mér hafi samt aldrei tekist að finna mér skó sem voru henni að skapi, en það var dæmigert fyrir hana að láta sig varða skóbúnað annarra, hún vildi öllum svo vel. Þegar ég hitti hana síðast var hún mikið veik en var samt að hafa áhyggjur af því að ég borðaði ekki nógu mikið.

Ég held að engin orð fái nokkurn tíma lýst þeirri einstöku manneskju sem Sigríður hafði að geyma. Ég nem því staðar hér og minnist Sigríðar vinkonu minnar, fallegustu konu sem ég hef kynnst, með söknuð í hjarta.

Valgerður Rós Sigurðardóttir.

Móðursystir mín, Sigríður Sveinsdóttir, lést á líknardeild Landspítalans eftir tiltölulega stutta sjúkdómslegu.

Þegar læknir hennar, Sigurður Árnason, var með hana til meðferðar eftir að krabbamein hafði greinst í henni, spurði hann hana oft á tíðum um líðan hennar og hún svaraði ætíð: “Mér líður vel, bara alveg ágætlega.” Þá varð lækninum að orði: “Ég þekki ykkur þessa Skaftfellinga, ykkur líður best þegar þið þjáist mest.” Já, hún frænka mín var af sterku bergi brotin, hún kvartaði ekki en hlustaði því betur á sorgir og þjáningar annarra og líknaði fólki. Hún fæddist að Ásum í Skaftártungu, tveggja ára gömul var hún reidd yfir Mýrdalssandinn að Norður-Fossi í Mýrdal í þá tíu systkina hópi. Fjölskyldan þurfti að yfirgefa smjörsveitina sína, Tunguna, þar sem Ásar voru prestsjörð og faðir hennar prestssonurinn varð að finna sér aðra jörð til ábúðar. Ung stúlka fór hún til Reykjavíkur og hitti þar mannsefnið sitt, Guðmund Hjaltason skipstjóra, Skaftfelling líka; faðir hans, Eldeyjar-Hjalti, var einmitt fæddur á Norður-Fossi, þar sem Sigríður seinna sleit barnsskónum. Heimili hennar og Guðmundar var annálað fyrir gestrisni og höfðingsskap, þar átti stórfjölskyldan athvarf. Þau hjónin eignuðust tvö börn, óskabörnin Jóhönnu Margréti og Hjalta Jónsson, en á heimilinu dvöldust langdvölum systkinabörnin við nám eða sumarstörf. Á sumrin fluttist sjómannskonan upp í sveit, í sumarbústað þeirra hjóna að Hjaltastöðum í Mosfellssveit. Eiginmaðurinn var oft langdvölum að heiman, oft mánuðum saman í siglingum en hann var skipstjóri á Foldinni og Hvassafellinu og sigldi um öll heimsins höf. Sigríður stýrði börnum og búi af myndarskap og gjafmildi á efni sín og þegar húsbóndinn kom heim, oft eftir langar fjarverur, var tekið á móti honum af ást og mikilli umönnun. En veður skipast í lofti. Guðmundur og Sigríður slitu samvistum eftir ástríkt hjónaband, börnin flugu úr hreiðrinu og Sigríður fór að vinna utan heimilis. Á þessum árum fór hún undir leiðsögn systur sinnar, Róshildar, að stunda líkamsrækt og kynna sér gamlan vísdóm um lækningar og líknun og áður en þær vissu af var fólk farið að leita til þeirra hópum saman til að fá bót meina sinna. Sigríður hafði læknandi hendur en óumræðileg hlýja hennar og ástúð átti ekki lítinn þátt í að fólki leið betur og fannst það hafa fengið bót meina sinna eftir leiðsögn hennar og nudd.

Árið 1973 giftist Sigríður seinni manni sínum, Gísla Jónssyni verkstjóra, miklum sómamanni og reyndist hún honum og dóttur hans, Guðrúnu, þá á unglingsaldri, mikil stoð og stytta. Gísli andaðist árið 1995 og naut hann einstakrar umönnunar konu sinnar í erfiðum veikindum allt til dauðadags.

Alla tíð jók Sigríður við þekkingu sína í alþýðulækningum. Í móðurætt hennar var margt góðra ljósmæðra og grasalækna, föðurafi hennar, Sveinn Eiríksson, þótti meiri læknir en prestur og afi hans, Sveinn Pálsson landlæknir, var tengdasonur fyrsta landlæknis Íslands, Bjarna Pálssonar.

Sigríði var eðlislægt að hjúkra og líkna og áhugi hennar og elja var óbilandi að bæta við þekkingu sína. Hún kynnti sér gamlar læknisaðferðir og húsráð í Þýskalandsferðum þegar hún dvaldist hjá Jóhönnu Margréti dóttur sinni, sem búsett er í Frankfurt. Einnig aflaði hún sér fanga hjá syninum og tengdadótturinni Paulu í fjölmörgum heimsóknum sínum til þeirra í Missisippi í Bandaríkjunum. Hún forvitnaðist einnig um alþýðulækningar í Nígeríu en þar við ströndina er Hjalti sonur hennar yfirmaður á stórum olíuborpalli þótt heimili hans sé vestanhafs. En Sigríður frænka uppskar einnig sín laun fyrir það sem hún veitti öðrum. Ófáir úr heilbrigðisstéttunum, bæði læknar og hjúkrunarfræðingar, leituðu til hennar um hjálp á óhefðbundinn hátt og þegar hún svo sjálf veiktist naut hún umönnunar þessara faglærðu skjólstæðinga sinna sem voru henni vinir í raun.

Sýndu mér vini þína, þá veit ég hver þú ert. Sigríður andaðist sátt, þakklát fjölskyldu sinni og öllum vinunum sem létu hana finna þessa síðustu mánuði hve mikils virði hún hafði verið þeim. En gleði hennar lýsti sér best á dauðastund, vitandi að við banabeð hennar sátu börnin hennar tvö sem bæði höfðu snúið heim frá útlöndum til að sinna móður sinni síðustu mánuðina.

Hún dó með bros á vör, hún Sigga frænka mín. Blessuð sé minning hennar.

Brynja Benediktsdóttir.

Afkomendur Sigríðar

na        Jóhanna Margrét Guðmundsdóttir f. 6.6. 1946

nb        Hjalti Guðmundsson f. 29.2. 1948