Sveinbjörg Sveinsdóttir var fædd 1. júlí 1907 í Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum, Rang. Hún var fjórða barn Jóhönnu og Sveins. Sveinbjörg lést tveggja vikna 15. júlí 1907.

Sigurður Sigursveinsson skrifar á FB síðu “Ættarmót í Sveinsættini ” 2021:

Nú er spurningin þessi, af hverju fékk stúlkan nafnið Sveinbjörg?

Skv. Hermanni Pálssyni (Íslensk mannanöfn 1981) kom forliðurinn Svein- aldrei fyirr í kvennöfnum að fornu og telur vafasamt hvort slík nöfn hafi tíðkast fyrr en á 19. öld. Í fjögurra binda ritverkinu Vestur-Skaftfellingar 1703-1966 er aðeins að finna ellefu Sveinbjargir, en það er athyglisvert að margar þeirra virðast tengjast samtíð Sveins langafa. Þrjú barna hans skírðu dætur sínar þessu nafni; Sigríður á Flögu átti Sveinbjörgu Pálínu f. 1904, Sveinn afi átti fyrrnefnda Sveinbjörgu sem fæddist tæpum tveimur vikum eftir að Sveinn langafi drukknaði, og Ragnhildur átti Sveinbjörgu Erasmusdóttur á Leiðvelli 1909. Þá fæddist Sveinbjörg Jónsdóttir á Eintúnahálsi 22. maí 1907. Katrín amma hennar og Guðríður kona Sveins langafa voru systradætur, og Sveinbjörg er skírð 28. júní, rúmri viku eftir að Sveinn langafi drukknar í Kúðafljóti.

Í bók sinni, Hvað á barnið að heita? (1984), skrifar sr. Karl Sigurbjörnsson, síðar biskup, um nafnið Sveinbjörg: samsett af Sveini og – björg, hjálp sveinsins.Tilgáta mín er því sú að afi og amma hafi skírt Sveinbjörgu í höfuðið á afa hennar, sem var þá nýdáinn.Skv. niðjatali afa og ömmu frá því sl. haust hafa níu piltar fengið nafnið Sveinn, sá yngsti Pétur Sveinn, sonur Sólveigar dóttur Sveins bróður, en enga Sveinbjörgu er þar að finna nema dóttur afa og ömmu sem lést tveggja vikna gömul 15. júlí 1907.

Halldór Runólfsson skrifar í jólakveðju til fjölskyldunnar í desember 2020:

Þetta varðar þessa konu sem hér er nefnd:  Þá fæddist Sveinbjörg Jónsdóttir á Eintúnahálsi 22. maí 1907. Katrín amma hennar og Guðríður kona Sveins langafa voru systradætur, og Sveinbjörg er skírð 28. júní, rúmri viku eftir að Sveinn langafi drukknar í Kúðafljóti. Sveinbjörg þessi bjó síðast í Ytri Dalbæ á þeim árum sem ég var dýralæknir á Kirkjubæjarklaustri ( 1974 – 1983 ).  Hún var alltaf ógift og barnlaus – en bjó þarna með kalli sem Magnús hét. Hún hélt alltaf mikið upp á mig – frændsemi vegna að ég taldi – en kom þó þar endrum og eins í dýralæknis erindum og alltaf vildi hún gauka að mér einhverjum hlutum þó aðallega ákaflega fallegu prjónlesi sem hún hafði litað og prjónað  sjálf með jurtalitum er hún tíndi sjálf –  og við eigum  enn. Meðal annars prjónaði hún sérstaka vettlinga handa mér úr fíngerðu þeli – en hún sagðist alltaf hafa  prjónað  svona vettlinga handa læknum.

En hún sagði okkur Steinunni  söguna  af því,  af hverju hún var skírð Sveinbjörg:

Það var vegna þess  að séra Sveinn hafði  bjargað henni í heiminn – þegar hann var kallaður til móður  hennar, sem var  í barnsnauð í Eintúnahálsi – það er  bær nú í eyði og er langt inni á heiðinni á veginum inn að Lakagígum.

Þannig bætist þessi saga við sögur af langafa Sveini – sem  hafði oft verið sóttur til bæði kvenna og dýra sem gátu ekki fætt afkvæmi sín.  En þekkstust er sagan af honum þegar hann var prestur á Sandfelli í Öræfum og gat ekki hjálpað konu þar í sveitinni og reið þá aftur heim – fór út í smiðju og smíðaði fæðingartöng – sem hann fór svo aftur með til konunnar og bjargaði konu og barni – án þess að á þeim sæist.